Námshjálp
Opinberun Jóhannesar


Opinberun Jóhannesar

Síðasta bókin í Nýja testamentinu, geymir opinberun veitta postulanum Jóhannesi. Honum var leyft að sjá sögu heimsins, einkanlega hina síðustu daga (Op 1:1–2; 1 Ne 14:18–27; K&S 77). Opinberun Jóhannesar er í enskumælandi heimi einnig kunn undir nafninu Apocalypse.

Jóhannes meðtók þessa opinberun á degi Drottins á eyjunni Patmos (Op 1:9–10), undan Asíuströnd, ekki fjarri Efesus. Nákvæm dagsetning er ekki kunn.

Skilningur á bókinni er gefinn í 1 Nefí 14:18–27 og í Kenningu og sáttmálum 77 (Et 4:15–16).

Kapítular 1–3 eru inngangur að bókinni og bréf til sjö safnaða í Asíu. Jóhannes ritaði bréfin til þess að hjálpa hinum heilögu að leysa tiltekin vandamál. Kapítular 4–5 greina frá sýnum Jóhannesar sem sýna mikilleik og réttlátt vald Guðs og Krists. Í kapítulum 6–9, 11, segir Jóhannes frá er hann sá í sýn bók innsiglaða sjö innsiglum, og táknar hvert innsigli eitt þúsund ár veraldlegrar sögu jarðarinnar. Þessir kaflar fást fyrst og fremst við atburði innan sjöunda innsiglisins (sjá Op 8–9; 11:1–15). Kapítuli 10 lýsir bók sem Jóhannes át. Bókin táknar verk sem hann mun síðar leysa af hendi. Kapítuli 12 greinir frá sýn af því er hið illa hófst þegar Satan gjörði uppreisn og var út kastað. Stríðið sem þar upphófst heldur áfram á jörðu. Í kapítulum 13, 17–19, lýsir Jóhannes illum jarðneskum ríkjum sem Satan stjórnar og eru örlög þeirra rakin, þar með talinn endanlegur ósigur hins illa. Kapítular 14–16 lýsa réttlæti hinna heilögu innan um hið illa rétt fyrir síðari komu Krists. Kapítular 20–22 lýsa þúsundáraríkinu, hinni fögru borg Nýju Jerúsalem og lokaatburðunum í sögu jarðar.