Námshjálp
Þýðing Josephs Smith (ÞJS)


Þýðing Josephs Smith (ÞJS)

Endurskoðun eða þýðing á ensku Biblíuþýðingunni sem kennd er við Jakob konung, sem spámaðurinn Joseph Smith byrjaði á í júní 1830. Hann fékk boð frá Guði um að vinna verkið og leit á það sem hluta af spámannsköllun sinni.

Þótt Joseph lyki að mestu við þýðinguna í júlí 1833, hélt hann áfram að gera breytingar fram að dauða sínum 1844 jafnframt því að búa handritið til prentunar. Þótt hann birti suma hluta þýðingarinnar áður en hann féll frá, er mögulegt að hann hefði gjört fleiri breytingar hefði honum enst aldur til að gefa verkið út í heild. Hin endurskipulagða Kirkja Jesú Krists Síðari daga heilagra gaf út fyrstu útgáfu innblásinnar þýðingar Josephs Smith árið 1867. Hún hefur gefið út nokkrar útgáfur síðan.

Spámaðurinn varð margs áskynja þegar hann fékkst við þýðinguna. Nokkrir kaflar Kenningar og sáttmála voru meðteknir vegna þýðingarstarfsins (svo sem K&S 76; 77; 91; og 132). Einnig gaf Drottinn Joseph sérstök fyrirmæli varðandi þýðinguna, sem skráð eru í Kenningu og sáttmálum (K&S 37:1; 45:60–61; 76:15–18; 90:13; 91; 94:10; 104:58; 124:89). Bók Móse og Joseph Smith — Matteus, sem nú eru í Hinni dýrmætu perlu, voru tekin beint úr Þýðingu Josephs Smith.

Þýðing Josephs Smith hefur fært fram í ljósið sum hinna einföldu og dýrmætu atriða sem glatast hafa úr Biblíunni (1 Ne 13). Þótt hún sé ekki hin opinbera Biblía kirkjunnar, hefur þessi þýðing að geyma margs konar áhugaverða innsýn og er mjög dýrmæt til skilnings á Biblíunni. Hún er einnig til vitnis um guðlega köllun og andlega þjónustu spámannsins Josephs Smith.