Námshjálp
Mormónsbók


Mormónsbók

Eitt af fjórum bindum ritninga sem viðurkennd eru af Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hún er útdráttur fyrri tíma spámanns sem hét Mormón úr heimildaskrám íbúa meginlanda Ameríku til forna. Bókin var rituð til að vitna um að Jesús er Kristur. Varðandi þessa heimildaskrá sagði spámaðurinn Joseph Smith, sem þýddi bókina með gjöf og krafti Guðs: „Ég sagði bræðrunum, að Mormónsbók væri réttari en allar aðrar bækur á jörðinni og burðarsteinn trúar okkar og að maðurinn gæti komist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar“ (sjá Inngang fremst í Mormónsbók).

Mormónsbók er trúarleg frásögn af þremur hópum fólks sem fluttu búferlum frá gamla heiminum til meginlanda Ameríku. Hópana leiddu spámenn sem skráðu trúarlega og veraldlega sögu þeirra á málmtöflur. Mormónsbók greinir frá heimsókn Jesú Krists til þjóða Ameríku eftir upprisu hans. Tveggja alda tímabil friðar kom í kjölfar heimsóknarinnar.

Moróní, hinn síðasti spámaður og sagnaritari Nefíta, innsiglaði hinar styttu heimildir þessara þjóða og fól þær nálægt 421 e.Kr. Árið 1823 heimsótti Moróní, þá upprisin vera, Joseph Smith og afhenti honum síðar þessar fornu og helgu skrár til þýðingar og færði þannig heiminum annan vitnisburð um Jesús Krist.