Námshjálp
Bréf Páls postula


Bréf Páls postula

Fjórtán bækur Nýja testamentis sem upphaflega voru bréf Páls postula til meðlima kirkjunnar. Þeim má skipta í eftirtalda flokka:

1. og 2. Þessaloníkubréf (50–51 e.Kr.)

Páll ritaði Þessaloníkumönnum bréfin frá Korintu í annarri trúboðsferðinni. Starfi hans í Þessaloníku er lýst í 17. kapítula Postulasögunnar. Hann vildi snúa aftur til Þessaloníku en gat það ekki (1 Þess 2:18). Hann sendi því Tímóteus til að fregna af söfnuðinum og gleðja þá. Fyrra bréfið er þakkir hans þá er Tímóteus kom til baka. Síðara bréfið er ritað litlu síðar.

1. og 2. Korintubréf, Galatabréfið, Rómverjabréfið (55–57 e.Kr.)

Páll ritaði bréfin til Korintumanna í þriðju trúboðsferðinni til þess að svara og leiðrétta það sem miður fór meðal hinna heilögu í Korintu.

Bréfið til Galatamanna kann að hafa verið ritað mörgum söfnuðum í Galatíu. Sumir meðlima kirkjunnar voru að hverfa frá fagnaðarerindinu að lögmáli Gyðinga. Í þessu bréfi greinir Páll frá tilganginum með Móselögmálinu og gildi andlegrar trúar.

Páll ritaði bréfið til Rómverja frá Korintu, að nokkru leyti til að undirbúa hina rómversku heilögu áður en hann sækti þá heim. Þetta bréf staðfestir einnig kenningar sem um var deilt meðal Gyðinga sem snúist höfðu til kristinnar trúar.

Filippíbréfið, Kólossubréfið, Efesusbréfið, Fílemonsbréfið, Hebreabréfið (60–62 e.Kr.)

Páll ritaði þessi bréf er hann var í fyrra sinn í fangelsi í Róm.

Páll ritaði bréfið til Filippíumanna aðallega til að láta í ljós þakklæti og kærleik til hinna heilögu í Filippíu og styrkja þá þrátt fyrir vonbrigðin vegna langrar fangelsisvistar hans.

Páll ritaði bréfið til Kólossumanna vegna frétta af alvarlegum villukenningum meðal hinna heilögu í Kólossu. Þeir hugðu að fullkomnun fengist með nákvæmri framkvæmd ytri helgiathafna einni saman, fremur en þroska kristilegra eiginleika.

Bréfið til Efesusmanna er mjög mikilsvert, því þar er að finna kenningu Páls um kirkju Krists.

Fílemonsbréfið er einkabréf varðandi Onesímus, þræl sem hafði rænt frá eiganda sínum, Fílemon, og strokið til Rómar. Páll sendi Onesímus aftur til húsbónda hans og langt bréf með beiðni um að honum yrði fyrirgefið.

Páll ritaði Hebreabréfið til meðlima kirkjunnar af gyðinglegum ættum til að sýna þeim fram á að Móselögmálið hefði uppfyllst í Kristi og að lögmál fagnaðarerindis Krists kæmi í þess stað.

1. og 2. Tímóteusarbréf, Títusarbréf (64–65 e.Kr.)

Páll ritaði þessi bréf eftir að hann losnaði úr fangelsi í Róm í fyrsta sinn.

Páll ferðaðist til Efesus, þar sem hann skildi Tímóteus eftir til að sporna við útbreiðslu annarlegra kenninga meðal þeirra og hugðist koma þar síðar. Fyrra bréfið til Tímóteusar ritaði hann sennilega frá Makedóníu, til að veita honum ráð og stappa í hann stálinu við að leysa verk sitt af hendi.

Páll ritaði bréfið til Títusar þegar hann var ekki í fangelsi. Má vera að hann hafi komið til Krítar, þar sem Títus þjónaði. Bréfið fjallar mest um réttlátt líferni og reglu innan kirkjunnar.

Síðara bréfið er ritað til Tímóteusar þegar Páll var í annað sinn í fangelsi, stuttu fyrir píslarvætti sitt. Bréfið hefur að geyma hinstu orð Páls og sýnir dásamlegt hugrekki hans og trúnaðartraust andspænis dauðanum.