Námshjálp
Guð, guðdómur


Guð, guðdómur

Guðdómurinn er þrjár aðgreindar persónur: Guð, hinn eilífi faðir; sonur hans, Jesús Kristur; og heilagur andi. Við trúum á þær allar (TA 1:1). Með nútíma opinberun vitum við að faðirinn og sonurinn hafa áþreifanlega líkami af holdi og beinum og að heilagur andi er andavera, án holds og beina (K&S 130:22–23). Þessar þrjár persónur eru sem ein í fullkominni einingu og samræmdum tilgangi og kenningu (Jóh 17:21–23; 2 Ne 31:21; 3 Ne 11:27, 36).

Guð faðirinn

Yfirleitt er það faðirinn, eða Elóhim, sem átt er við með nafngiftinni Guð. Hann er kallaður faðir vegna þess að hann er faðir anda okkar (4 Mós 16:22; 27:16; Mal 2:10; Matt 6:9; Ef 4:6; Hebr 12:9). Guð faðirinn er æðsti stjórnandi alheimsins. Hann er alvaldur (1 Mós 18:14; Al 26:35; K&S 19:1–3), alvitur (Matt 6:8; 2 Ne 2:24) og alls staðar nálægur með anda sínum (Sálm 139:7–12; K&S 88:7–13, 41). Mannkyn er í sérstökum tengslum við Guð sem skapar mönnum sérstöðu miðað við alla sköpun aðra; menn og konur eru andabörn Guðs (Sálm 82:6; 1 Jóh 3:1–3; K&S 20:17–18).

Fáeinar skráðar heimildir eru um að Guð faðirinn hafi birst eða talað við menn. Ritningarnar greina frá að hann hafi talað við Adam og Evu (HDP Móse 4:14–31) og kynnt Jesú Krist við nokkur tækifæri (Matt 3:17; 17:5; Jóh 12:28–29; 3 Ne 11:3–7). Hann birtist Stefáni (Post 7:55–56) og Joseph Smith (JS — S 1:17). Síðar birtist hann bæði Joseph Smith og Sidney Rigdon (K&S 76:20, 23). Þeim sem elska Guð og hreinsa sig frammi fyrir honum, veitir Guð stundum þau forréttindi að sjá og reyna sjálfir að hann er Guð (Matt 5:8; 3 Ne 12:8; K&S 76:116–118; 93:1).

Guð sonurinn

Sá Guð sem nefnist Jehóva er sonurinn, Jesús Kristur (Jes 12:2; 43:11; 49:26; 1 Kor 10:1–4; 1 Tím 1:1; Op 1:8; 2 Ne 22:2). Jesús starfar undir leiðsögn föðurins og er í fullkomnum samhljómi við hann. Allt mannkyn er bræður hans og systur, því hann er elstur andabarna Elóhims. Sumsstaðar er í ritningunum talað um hann sem Guð. Til dæmis segja ritningarnar „Guð skapaði himin og jörð“ (1 Mós 1:1), en það var reyndar Jesús sem var skapari undir leiðsögn Guðs föðurins (Jóh 1:1–3, 10, 14; Hebr 1:1–2).

Guð heilagur andi

Heilagur andi er einnig Guð og er kallaður heilagur andi, andinn og andi Guðs, ásamt öðrum svipuðum nöfnum og titlum. Með hjálp heilags anda, geta menn kynnst vilja Guðs föðurins og vitað að Jesús er Kristur (1 Kor 12:3).