Ritningar
Kenning og sáttmálar 138


138. Kafli

Sýn sem veittist Joseph F. Smith forseta í Salt Lake City, Utah, 3. október 1918. Í upphafsávarpi sínu á 89. haustráðstefnu kirkjunnar, 4. október 1918, lýsti Smith forseti því yfir, að hann hefði meðtekið nokkrar guðlegar opinberanir á síðustu mánuðum. Eina þeirra, um heimsókn frelsarans til anda hinna dánu meðan líkami hans var enn í grafhvelfingunni, hafði Smith forseti hlotið daginn áður. Hún var samstundis skráð í lok ráðstefnunnar. Hinn 31. október 1918 var hún afhent ráðgjöfum Æðsta forsætisráðsins, Tólfmannaráðinu og patríarkanum, sem samþykktu hana einróma.

1–10, Joseph F. Smith forseti ígrundar rit Péturs og heimsókn Drottins í andaheiminn; 11–24, Smith forseti sér hina réttlátu dánu samankomna í Paradís og þjónustu Krists meðal þeirra; 25–37, Hann sér hvernig prédikun fagnaðarerindisins var skipulögð meðal andanna; 38–52, Hann sér Adam, Evu, og marga hinna heilögu spámanna í andaheiminum, sem litu á ástand anda sinna án líkama fyrir upprisuna sem fjötra; 53–60, Réttlátir dánir þessa tíma halda áfram starfi sínu í andaheiminum.

1 Þann þriðja október árið nítján hundruð og átján sat ég í herbergi mínu og ígrundaði ritningarnar —

2 Og hugleiddi hina miklu friðþægingarfórn Guðssonarins, til endurlausnar heiminum —

3 Og þá miklu og undursamlegu ást föðurins og sonarins sem ásannaðist við komu lausnarans í heiminn —

4 Svo að með friðþægingu hans og hlýðni við reglur fagnaðarerindisins, gæti mannkyn frelsast.

5 Meðan ég var að íhuga þetta, leitaði hugur minn til bréfa Péturs postula til hinna fyrstu heilögu, sem dreifðir voru um Pontus, Galatíu, Kappadókíu og aðra hluta Asíu, þar sem fagnaðarerindið hafði verið prédikað eftir krossfestingu Drottins.

6 Ég opnaði Biblíuna og las þriðja og fjórða kapítula af fyrra almenna bréfi Péturs, og það sem ég las hafði mikil áhrif á mig, meiri en þessar ritningargreinar höfðu nokkru sinni fyrr haft:

7 „Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda.

8 Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi —

9 Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“ (1 Pét 3:18–20.)

10 „Því að til þess var og dauðum boðað fagnaðarerindið, að þeir, þótt dæmdir væru líkamlega með mönnum, mættu lifa í andanum með Guði.“ (1 Pét 4:6.)

11 Meðan ég ígrundaði það, sem skrifað stendur, lukust augu skilnings míns upp og andi Drottins hvíldi yfir mér og ég sá herskara hinna dánu, bæði smáa og stóra.

12 Og á einum stað söfnuðust saman óteljandi skarar af öndum hinna réttvísu, sem trúir höfðu verið vitnisburðinum um Jesú, meðan þeir lifðu hér á jörðu —

13 Og fært höfðu fórnir í líkingu við hina miklu fórn Guðssonarins, og þolað höfðu þrengingar í nafni lausnara síns.

14 Allir höfðu þeir yfirgefið hið dauðlega líf, staðfastir í von um dýrðlega upprisu, fyrir náð Guðs föðurins og hans eingetna sonar, Jesú Krists.

15 Ég sá, að þeir voru fullir ánægju og gleði og fögnuðu sameiginlega vegna þess að frelsunardagur þeirra var í nánd.

16 Þeir voru samankomnir og biðu komu Guðssonarins í andaheiminn, til að boða endurlausn þeirra úr viðjum dauðans.

17 Hið sofandi duft þeirra skyldi endurreist til fullkominnar umgjörðar sinnar, bein við bein, og sinar og hold á þau, andinn og líkaminn skyldu sameinaðir og aldrei framar aðskildir, svo að þeir gætu hlotið fyllingu gleðinnar.

18 Meðan þessi mikli fjöldi beið og ræddi saman, fagnandi á lausnarstund sinni úr viðjum dauðans, birtist sonur Guðs og boðaði frelsi hinum ánauðugu, sem trúir höfðu verið —

19 Og þar prédikaði hann fyrir þeim hið eilífa fagnaðarerindi, kenninguna um upprisu og endurlausn mannkyns frá fallinu, og frá syndum hvers einstaks, að tilskilinni iðrun.

20 En til hinna ranglátu fór hann ekki, og til hinna óguðlegu og þeirra sem iðruðust eigi og spillst höfðu, meðan þeir voru í holdinu, náði rödd hans eigi —

21 Og ekki fengu heldur hinir uppreisnargjörnu, sem höfnuðu vitnisburðum og aðvörunum hinna fornu spámanna, séð návist hans né litið ásjónu hans.

22 Þar sem þeir dvöldu ríkti myrkur, en meðal hinna réttlátu ríkti friður —

23 Og hinir heilögu fögnuðu yfir endurlausn sinni og beygðu knéð og viðurkenndu Guðssoninn sem lausnara sinn og bjargvætt frá dauða og hlekkjum heljar.

24 Það geislaði af svip þeirra og ljóminn af návist Drottins hvíldi á þeim, og þeir lofsungu hans heilaga nafn.

25 Ég undraðist, því að mér skildist að frelsarinn hefði varið um það bil þremur árum til helgrar þjónustu sinnar meðal Gyðinga og þeirra, sem af Ísraelsætt eru, og reynt að kenna þeim hið ævarandi fagnaðarerindi og kalla þá til iðrunar —

26 En þrátt fyrir hið mikla starf hans, og kraftaverk, og boðun sannleikans með miklum krafti og valdi, voru aðeins fáeinir, sem hlýddu á rödd hans og fögnuðu í návist hans, og urðu hólpnir af hans hendi.

27 En helg þjónusta hans meðal þeirra sem dánir voru, var takmörkuð við hinn stutta tíma milli krossfestingar hans og upprisu —

28 Og ég undraðist orð Péturs — þar sem hann segir, að Guðssonurinn hafi prédikað fyrir öndum í varðhaldi, sem óhlýðnast höfðu fyrrum, þegar langlyndi Guðs beið á dögum Nóa — og furðaði mig á hvernig honum hafði reynst mögulegt að prédika fyrir þessum öndum, og vinna nauðsynleg verk meðal þeirra, á svo skömmum tíma.

29 Og meðan ég undraðist þetta, lukust augu mín upp og skilningur minn lifnaði, og ég sá, að Drottinn fór ekki sjálfur og kenndi meðal hinna ranglátu og óhlýðnu, sem hafnað höfðu sannleikanum —

30 En sjá, meðal hinna réttlátu skipulagði hann sveitir sínar og tilnefndi sendiboða, klædda krafti og valdi, og fól þeim að ganga fram og flytja ljós fagnaðarerindisins til þeirra, sem í myrkri voru, já, til allra anda mannanna. Og þannig var fagnaðarerindið boðað hinum dánu.

31 Og hinir útvöldu sendiboðar fóru og boðuðu náðardag Drottins, boðuðu hinum fjötruðu frelsi, já, öllum, sem iðrast vildu synda sinna og taka á móti fagnaðarerindinu.

32 Þannig var fagnaðarerindið boðað þeim, sem dáið höfðu í syndum sínum, án þekkingar á sannleikanum eða í lögmálsbrotum, þar eð þeir höfðu hafnað spámönnunum.

33 Þeim var kennd trú á Guð, iðrun syndanna, staðgengilsskírn til fyrirgefningar syndanna og gjöf heilags anda með handayfirlagningu —

34 Og allar aðrar reglur fagnaðarerindisins, sem nauðsynlegt var fyrir þá að þekkja, til þess að reynast hæfir og dæma mætti þá eftir mönnum í holdinu, en þeir gætu lifað eftir Guði í anda.

35 Og þannig var það gjört kunnugt meðal hinna dánu, jafnt smárra sem stórra, óréttlátra sem staðfastra, að endurlausn hefði orðið með fórn Guðssonarins á krossinum.

36 Þannig var það kunngjört, að lausnari okkar varði þeim tíma, sem hann dvaldi í andaheiminum, við að leiðbeina og undirbúa hina staðföstu anda spámannanna, sem vitnað höfðu um hann í holdinu —

37 Svo að þeir gætu flutt endurlausnarboðin til allra hinna dánu, sem hann gat ekki sjálfur farið til, vegna uppreisnar þeirra og lögmálsbrota, svo að þeir fyrir helga þjónustu þjóna hans gætu einnig heyrt orð hans.

38 Á meðal hinna miklu og máttugu, sem samankomnir voru í þessum mikla söfnuði hinna réttlátu, var faðir Adam, hinn aldni daganna og faðir allra —

39 Og hin dýrðlega móðir okkar Eva, ásamt mörgum staðföstum dætrum sínum, sem lifað höfðu í aldanna rás og tilbeðið hinn sanna og lifanda Guð.

40 Abel, fyrsta fórnarlambið, var þar og bróðir hans Set, einn hinna máttugu, sem var nákvæm eftirmynd föður síns, Adams.

41 Nói, sem varaði við flóðinu, Sem, hinn mikli háprestur, Abraham, faðir hinna staðföstu, Ísak, Jakob og Móse, hinn mikli lögmálsgjafi Ísraels

42 Og einnig voru þar Jesaja, sem boðaði með spádómi, að lausnarinn væri smurður til að græða sundurkramin hjörtu og boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn.

43 Enn fremur Esekíel, sem sá í sýn dal fullan af skrælnuðum beinum, er klæðast skyldu holdi og koma fram aftur lifandi sálir í upprisu dauðra —

44 Daníel, sem sá og sagði fyrir um stofnun Guðs ríkis á síðari dögum, er aldrei framar skyldi á grunn ganga né annarri þjóð í hendur fengið —

45 Elías, sem var með Móse á fjalli ummyndunarinnar —

46 Og einnig var þar spámaðurinn Malakí, sem bar vitni um komu Elía — sem Moróní talaði einnig um við spámanninn Joseph Smith, og sagði, að hann mundi koma áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kæmi.

47 Spámaðurinn Elía skyldi gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheit það, sem feðrunum var gefið —

48 Forboði hins mikla verks, sem unnið yrði í musterum Drottins í ráðstöfun fyllingar tímanna, til endurlausnar hinum dánu, og innsiglun barna til foreldra sinna, svo að öll jörðin yrði ekki lostin banni og gjöreydd við komu hans.

49 Allir þessir og margir fleiri, já, spámennirnir, sem dvöldu meðal Nefíta og báru vitni um komu Guðssonarins, voru meðal hinnar miklu samkomu og biðu lausnar sinnar —

50 Því að hinir dánu höfðu litið á hina löngu fjarveru anda sinna frá líkömum þeirra sem fjötra.

51 Þessum kenndi Drottinn og gaf þeim kraft til að koma fram eftir upprisu hans frá dauðum og ganga inn í ríki föður hans og krýnast þar ódauðleika og eilífu lífi —

52 Og halda áfram starfi sínu, eins og Drottinn hafði heitið, og öðlast hlut í öllum þeim blessunum, sem geymdar eru þeim, sem elska hann.

53 Spámaðurinn Joseph Smith og faðir minn Hyrum Smith, Brigham Young, John Taylor, Wilford Woodruff og aðrir útvaldir andar, sem geymdir voru til að koma fram í fyllingu tímanna og taka þátt í að leggja grundvöllinn að hinu mikla verki síðari daga —

54 Þar á meðal byggingu mustera og framkvæmd helgiathafna þar inni til endurlausnar hinum dánu, þeir voru einnig í andaheiminum.

55 Ég sá, að þeir voru einnig meðal hinna göfugu og miklu, sem útvaldir voru í upphafi til að verða stjórnendur í kirkju Guðs.

56 Jafnvel áður en þeir fæddust, hlutu þeir, ásamt mörgum öðrum, fyrstu kennslu sína í heimi andanna og voru búnir undir það að koma fram á þeim tíma sem Drottni hentaði og vinna í víngarði hans til hjálpræðis sálum manna.

57 Ég sá, að staðfastir öldungar þessa ráðstöfunartíma halda áfram starfi sínu við prédikun fagnaðarerindis iðrunar og endurlausnar fyrir fórn hins eingetna sonar Guðs, eftir að þeir hafa yfirgefið hið dauðlega líf, meðal þeirra sem eru í myrkri og syndafjötrum í hinum mikla andaheimi hinna dánu.

58 Hinir dánu, sem iðrast, munu endurleystir fyrir hlýðni við helgiathafnir Guðs húss.

59 Og eftir að þeir hafa tekið út refsingu fyrir brot sín og eru laugaðir hreinir, munu þeir hljóta laun samkvæmt verkum sínum, því að þeir eru erfingjar að sáluhjálp.

60 Þetta var sýnin um endurlausn hinna dánu, sem mér birtist, og ég ber því vitni og veit, að þessi frásögn er sönn, fyrir blessun Drottins vors og frelsara, Jesú Krists. Já, vissulega. Amen.