29. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith, að viðstöddum sex öldungum, í Fayette, New York, í september 1830. Þessi opinberun var gefin nokkrum dögum fyrir ráðstefnuna, sem hófst 26. september 1830.
1–8, Kristur safnar saman sínum kjörnu; 9–11, Við komu hans hefst Þúsund ára ríkið; 12–13, Hinir tólf munu dæma alla Ísraelsþjóð; 14–21, Tákn, plágur og eyðing verður undanfari síðari komunnar; 22–28, Síðasta upprisan og lokadómurinn fylgja í kjölfar Þúsund ára ríkisins; 29–35, Allt er andlegt fyrir Drottni; 36–39, Djöflinum og herskörum hans var varpað frá himni til að freista mannsins; 40–45, Fallið og friðþægingin færir sáluhjálp; 46–50, Lítil börn eru endurleyst fyrir friðþæginguna.
1 Hlýðið á rödd Jesú Krists, lausnara yðar, hins mikla Ég Er, en miskunnsamur armur hans hefur friðþægt fyrir syndir yðar —
2 Sem safna mun fólki sínu saman, líkt og þegar hæna safnar ungum sínum undir vængi sér, já, öllum þeim, sem hlýða vilja rödd minni og auðmýkja sig fyrir mér og ákalla mig í máttugri bæn.
3 Sjá, sannlega, sannlega segi ég yður, að á þessari stundu eru syndir yðar fyrirgefnar; þess vegna móttakið þér þetta. En hafið hugfast að syndga ei framar, svo að ólán hendi yður ekki.
4 Sannlega segi ég yður, að þér eruð útvaldir úr heiminum til að boða fagnaðarerindi mitt með gleðiröddu, sem með lúðurhljómi.
5 Lyftið hjörtum yðar og gleðjist, því að ég er mitt á meðal yðar og er málsvari yðar hjá föðurnum. Og það er hans velþóknun að gefa yður ríkið.
6 Og eins og skrifað stendur: Hvers sem þér biðjið í trú, sameinaðir í bæn samkvæmt mínum boðum, það mun yður gefast.
7 Og þér eruð kallaðir til að gjöra samansöfnun minna kjörnu að veruleika, því að mínir kjörnu heyra raust mína og herða eigi hjörtu sín —
8 Sú ákvörðun hefur þess vegna komið frá föðurnum, að þeim skuli safnað á einn stað í þessu landi til að búa hjörtu sín undir og vera að öllu leyti viðbúnir þeim degi, er andstreymi og eyðing kemur yfir hina ranglátu.
9 Því að stundin er nálæg og dagurinn í nánd, þegar jörðin verður fullþroskuð. Og allir hinir dramblátu og þeir sem breyta ranglátlega verða sem hálmleggir og ég mun brenna þá upp, segir Drottinn hersveitanna, svo að ranglæti verði ekki á jörðu —
10 Því að stundin er nálæg og það, sem postular mínir mæltu, hlýtur að uppfyllast, því að það, sem þeir sögðu, mun verða —
11 Því að ég mun opinbera mig frá himni í veldi og mikilli dýrð ásamt öllum herskörum himins og dvelja í réttlæti meðal manna á jörðu í þúsund ár, og hinir ranglátu munu ekki standa.
12 Og enn, sannlega, sannlega segi ég yður, og það er gefið sem föst ákvörðun, að vilja föðurins, að postular mínir, hinir tólf, sem með mér voru í helgri þjónustu minni í Jerúsalem, skulu standa mér til hægri handar, þegar ég kem í eldstólpa, klæddir skikkjum réttlætisins með kórónur á höfðum sér, í dýrð, já, eins og ég, til að dæma alla Ísraelsætt, já, alla þá, sem hafa elskað mig og haldið boðorð mín, en enga aðra.
13 Því að básúna skal hljóma lengi og hátt, rétt eins og á Sínaífjalli, og gjörvöll jörðin mun skjálfa og þeir munu ganga fram — já, einmitt hinir dauðu, sem dóu í mér, til að meðtaka kórónu réttlætisins og klæðast, já, eins og ég, og vera með mér, svo að vér megum verða eitt.
14 En sjá, ég segi yður, að áður en þessi mikli dagur rennur upp mun sólin sortna og tunglið breytast í blóð og stjörnurnar falla af himni, og enn stærri tákn verða á himni uppi og á jörðu niðri —
15 Og það verður grátur og kvein á meðal herskara manna —
16 Og kröftug haglhríð skal send yfir til að tortíma gróðri jarðar.
17 Og svo ber við, að vegna ranglætis heimsins mun ég refsa hinum ranglátu, þar eð þeir vilja eigi iðrast, því að bikar réttlátrar reiði minnar er fullur. Því að sjá, blóð mitt mun ekki hreinsa þá, ef þeir hlusta eigi á mig.
18 Þess vegna mun ég, Drottinn Guð, senda flugur yfir jörðina, sem setjast munu að íbúum hennar og eta hold þeirra og valda því að maðkar þekja þá —
19 Og tungur þeirra skulu þagna, svo að þeir geti ekki mælt gegn mér. Og hold þeirra skal falla af beinum þeirra og augu þeirra úr augnatóftunum —
20 Og svo ber við, að dýr skógarins og fuglar loftsins munu rífa þá í sig.
21 Og hinni miklu og viðurstyggilegu kirkju, sem er skækja allrar jarðarinnar, skal varpað niður með eyðandi eldi, samkvæmt því sem mælt er af munni Esekíels spámanns, sem talaði um þessa hluti, er enn hafa ekki átt sér stað, en, sem ég lifi, munu vissulega verða, því að viðurstyggðin skal ekki sitja við völd.
22 Og sannlega, sannlega segi ég yður enn, að þegar þúsund árin eru á enda runnin og menn fara að nýju að afneita Guði sínum, þá mun ég þyrma jörðunni skamma stund —
23 Og endirinn mun koma og himni og jörð mun eytt og þau líða undir lok og það verður nýr himinn og ný jörð —
24 Því að allt hið aldna mun líða undir lok og allt verður nýtt, jafnvel himinn og jörð og öll fylling þeirra, bæði menn og skepnur, fuglar loftsins og fiskar sjávarins —
25 En hvorki skal glatast eitt einasta hár né hið minnsta duftkorn, því að það er verk handa minna.
26 En sjá, sannlega segi ég yður: Áður en jörðin líður undir lok, mun Míkael erkiengill minn þeyta básúnu sína, og þá munu allir hinir dauðu vakna, því að grafir þeirra munu opnast og þeir ganga fram — já, hver og einn.
27 Og hinum réttlátu mun safnað mér til hægri handar til eilífs lífs, en fyrir hina ranglátu mér til vinstri handar mun ég blygðast mín gagnvart föðurnum —
28 Þess vegna mun ég segja við þá: Farið frá mér, þér bölvaðir, í hinn ævarandi eld, sem fyrirbúinn er djöflinum og englum hans.
29 Og sjá, nú segi ég yður: Aldrei nokkurn tíma hef ég af eigin munni sagt, að þeir skyldu snúa aftur, því að þangað sem ég er geta þeir ekki komið, því að þeir hafa engan kraft.
30 En minnist þess, að alla mína dóma hef ég enn ekki birt mönnunum. Og eins og orðin hafa gengið fram af munni mínum svo skulu þau uppfyllast, svo að hinir fyrstu verði síðastir og hinir síðustu verði fyrstir í öllu því, sem ég hef skapað með orði krafts míns, sem er kraftur anda míns.
31 Því að með krafti anda míns skapaði ég þá, já, alla hluti, bæði andlega og stundlega —
32 Fyrst andlega, þá stundlega, sem er upphaf verks míns; og síðan, fyrst stundlega og þá andlega, sem er lok verks míns.
33 Þannig tala ég til yðar, svo að þér fáið eðlilega skilið, en gagnvart sjálfum mér eiga verk mín hvorki endi né upphaf. En þetta er gefið yður, svo að þér fáið skilið, vegna þess að þér hafið beðist þess og eruð einhuga.
34 Sannlega segi ég yður þess vegna, að allt er andlegt fyrir mér, og aldrei hef ég gefið yður stundlegt lögmál, né nokkrum manni, né heldur mannanna börnum eða Adam, föður yðar, sem ég skapaði.
35 Sjá, ég gaf honum sjálfræði og ég gaf honum boðorð, en ekkert stundlegt boðorð gaf ég honum, því að boðorð mín eru andleg. Þau eru hvorki náttúrleg né stundleg, hvorki holdleg né munúðarleg.
36 Og svo bar við, að Adam, sem freistaðist af djöflinum — því að sjá, djöfullinn var til á undan Adam, því að hann reis gegn mér og sagði: Veit mér heiður þinn, sem er kraftur minn. Og þriðja hluta af herskörum himins sneri hann einnig gegn mér vegna sjálfræðis þeirra —
37 Og þeim var varpað niður og þannig urðu djöfullinn og englar hans til —
38 Og sjá, þeim var fyrirbúinn staður frá upphafi, og sá staður er helja.
39 Og þess vegna hlaut svo að verða, að djöfullinn freistaði mannanna barna, ella væri ekki um neitt sjálfræði þeirra að ræða. Því að ef þeir kynnast aldrei hinu beiska geta þeir ekki þekkt hið sæta —
40 Því bar svo við, að djöfullinn freistaði Adams og hann neytti hins forboðna ávaxtar og braut boðorðið og varð þannig undirgefinn vilja djöfulsins, vegna þess að hann lét undan freistingunni.
41 Þess vegna lét ég, Drottinn, vísa honum burt úr aldingarðinum Eden, úr návist minni, vegna brots hans. Og þannig varð hann andlega dauður, sem er hinn fyrsti dauði, já, hinn sami dauði og er hinn síðasti dauði, sem er andlegur, og verður felldur yfir hinum ranglátu, þegar ég mun segja: Vík burt, þér bölvaðir.
42 En sjá, ég segi yður að ég, Drottinn Guð, veitti Adam og niðjum hans að þeir skyldu ekki deyja stundlegum dauða fyrr en ég, Drottinn Guð, sendi engla til að boða þeim iðrun og endurlausn, fyrir trú á nafn míns eingetna sonar.
43 Og þannig útnefndi ég, Drottinn Guð, manninum sinn reynslutíma — svo að með líkamsdauða hans mætti reisa hann upp í ódauðleika til eilífs lífs, já, alla þá, sem trúa munu —
44 En þá, sem ekki trúa, til eilífrar fordæmingar, því að ekki er unnt að endurleysa þá frá andlegu falli sínu, vegna þess að þeir iðrast ekki —
45 Því að þeir elska myrkrið meira en ljósið og verk þeirra eru ill, og þeir hljóta laun sín hjá þeim, sem þeir kjósa að hlýða.
46 En sjá, ég segi yður, að lítil börn eru endurleyst frá grundvöllun veraldar, fyrir minn eingetna —
47 Þau geta því ekki syndgað, því að Satan er ekki gefið vald til að freista lítilla barna fyrr en þau fara að verða ábyrg gjörða sinna gagnvart mér —
48 Því að það er þeim gefið, já, eins og ég vil og eins og mér hentar, svo að mikils verði krafist af feðrum þeirra.
49 Og enn segi ég yður: Hef ég ekki boðið öllum, sem vitneskjuna hafa, að iðrast?
50 En í mínu valdi er að breyta gagnvart þeim, sem engan skilning hefur, samkvæmt því sem skrifað stendur. Og nú boða ég yður ekkert fleira á þessari stundu. Amen.