Ritningar
Formáli
Neðanmálstilvísanir

Hide Footnotes

Þema

Formáli

Kenning og sáttmálar er safn guðlegra opinberana og innblásinna yfirlýsinga, sem gefnar voru fyrir stofnun og stjórn Guðs ríkis á jörðu á síðustu dögum. Þó að flestum köflunum sé beint til meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er boðskapurinn, aðvaranirnar og hvatningarorðin ætluð öllu mannkyni til heilla, og geyma boð til allra manna, alls staðar, um að hlýða á rödd Drottins Jesú Krists, sem talar til þeirra varðandi stundlega velferð þeirra og ævarandi sáluhjálp.

Flestar opinberanir þessa safns voru gefnar með Joseph Smith yngri, fyrsta spámanni og forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Aðrar voru gefnar með sumum eftirmanna hans í forsætisráðinu (sjá formála að K&S 135., 136. og 138. og Opinberar yfirlýsingar 1 og 2).

Bókin Kenning og sáttmálar er eitt af helgiritum kirkjunnar ásamt hinni heilögu Biblíu, Mormónsbók og Hinni dýrmætu perlu. Kenning og sáttmálar hefur þó sérstöðu, vegna þess að hún er ekki þýðing á fornum ritum, heldur nýtt rit, sem Guð gaf með útvöldum spámönnum sínum til endurreisnar heilögu verki sínu og til stofnunar Guðs ríkis á jörðu á þessum dögum. Í opinberununum heyrum við blíða en ákveðna rödd Drottins Jesú Krists, sem talar á ný í ráðstöfun fyllingar tímanna, og það verk, sem hér hefst, er til undirbúnings síðari komu hans, til uppfyllingar og samræmis orðum allra hinna heilögu spámanna frá upphafi veraldar.

Joseph Smith yngri fæddist 23. desember 1805 í Sharon, Windsorsýslu, Vermontfylki. Ungur að árum flutti hann ásamt fjölskyldu sinni þangað sem nú heitir Manchester í vesturhluta New York-fylkis. Meðan hann bjó þar gerðist það að vorlagi árið 1820, þegar hann var fjórtán ára, að hann sá fyrstu sýn sína, þar sem Guð, hinn eilífi faðir, og sonur hans, Jesús Kristur, vitjuðu hans í eigin persónu. Í þeirri sýn var honum sagt, að hin sanna kirkja Jesú Krists, sem stofnuð hafði verið á tímum Nýja testamentisins og veitt hafði fyllingu fagnaðarerindisins, væri ekki lengur á jörðu. Aðrar guðlegar vitranir fylgdu, þar sem margir englar kenndu honum. Honum var sýnt, að Guð ætlaði honum ákveðið verk að vinna á jörðu, og að með honum yrði kirkja Jesú Krists endurreist á jörðu.

Er fram liðu stundir var Joseph Smith fær um, með guðlegri aðstoð, að þýða og birta Mormónsbók. Meðan á því stóð, voru hann og Oliver Cowdery vígðir til Aronsprestdæmisins af Jóhannesi skírara, í maí 1829 (sjá K&S 13), og skömmu síðar voru þeir einnig vígðir til Melkísedeksprestdæmisins af hinum fornu postulum, Pétri, Jakob og Jóhannesi (sjá K&S 27:12). Aðrar vígslur fylgdu, þar sem Móse, Elía, Elías og margir fornir spámenn veittu prestdæmislykla (sjá K&S 110; 128:18, 21). Þær vígslur voru í raun endurreisn hins guðlega valds til manna á jörðu. Hinn 6. apríl 1830 stofnaði spámaðurinn Joseph Smith kirkjuna undir himneskri handleiðslu, og þannig er hin sanna kirkja Jesú Krists á ný starfrækt sem stofnun meðal manna, með valdi til að kenna fagnaðarerindið og framkvæma helgiathafnir sáluhjálpar. (Sjá K&S 20 og Hina dýrmætu perlu, Joseph Smith — Saga 1.)

Þessar helgu opinberanir fengust sem svar við bæn, þegar þeirra var þörf, og snertu eigið líf þeirra, sem í hlut áttu. Spámaðurinn og aðstoðarmenn hans leituðu guðlegrar handleiðslu, og þessar opinberanir sýna, að þeir fengu hana. Í opinberununum sjáum við endurreisnina og afhjúpun fagnaðarerindis Jesú Krists og upphaf þessarar ráðstöfunar í fyllingu tímanna. Í þessum opinberunum má einnig sjá flutning kirkjunnar í vesturátt frá New York og Pennsylvaníu til Ohio, Missouri, Illinois, og að lokum til hinna miklu dala Vestur-Ameríku, og hina erfiðu baráttu hinna heilögu við að byggja upp Síon á jörðu á þessum tímum.

Nokkrir fyrstu kaflarnir fjalla um mál varðandi þýðingu og útgáfu Mormónsbókar (sjá kafla 3, 5, 10, 17 og 19). Sumir síðari kaflarnir endurspegla verk spámannsins Josephs Smith við innblásna þýðingu á Biblíunni, en margir kaflar, ríkir af kenningaratriðum, fengust meðan á því stóð (sjá t.d. kafla 37, 45, 73, 76, 77, 86, 91 og 132, sem allir eru í beinum tengslum við þýðinguna á Biblíunni).

Í opinberununum eru kenningar fagnaðarerindisins settar fram með skýringum um grundvallaratriði, eins og eðli guðdómsins, uppruna mannsins, raunveruleika Satans, tilgang jarðlífsins, nauðsyn hlýðni, þörfina fyrir iðrun, starf hins heilaga anda, helgiathafnir og framkvæmdir er sáluhjálp varða, örlög jarðarinnar, framtíðarástand mannsins eftir upprisuna og dóminn, eilífð hjónabandstengsla og eilíft eðli fjölskyldunnar. Á sama hátt afhjúpast smátt og smátt stjórnaruppbygging kirkjunnar, með köllun biskupa, Æðsta forsætisráðsins, ráðs hinna tólf, hinna sjötíu og stofnun annarra embætta og sveita. Að lokum gerir vitnisburðurinn, sem gefinn er um Jesú Krist — guðdómleika hans, hátign hans, fullkomnun hans, ást hans og endurlausnarkraft — þessa bók afar verðmæta fyrir mannkyn allt og „meira virði fyrir kirkjuna en auðæfi allrar jarðar“ (sjá formála að K&S 70).

Opinberaninar voru upphaflega skráðar af riturum Josephs Smith og kirkjuþegnardeildu handskrifuðum handritum hver með öðrum, gagnteknir áhuga. Til þess að skapa varanlegri heimildirskráðu ritarar opinberanirnar í handritabækur, sem kirkjuleiðtogar notuðu til að búa þær undir prentun. Joseph og hinir fyrstu heilögu litu þessar opinberanir sömu augum og þeir litu kirkjuna, lifandi, kraftmikla og í þörf fyrir fágun með áframhaldandi opinberunum. Þeir gerðu sér einnig grein fyrir því, að góðar líkur voru á því að mistök hefðu verið gerð við afritun opinberananna og undirbúning þeirrafyrir útgáfu. Þar af leiðandi var Joseph Smith beðinn, á ráðstefnu árið 1831, um að „lagfæra þær villur eða þau mistök, sem hann kynni að finna, fyrir kraft heilags anda.“

Eftir þessa endurskoðun og leiðréttingar á opinberununum, hófu kirkjuþegnar í Missouri að prenta bók undir nafninu A Book of Commandments for the Government of the Church of Christ (Boðorðabókin, til stjórnunar á kirkju Krists), en í henni mátti finna margar af fyrstu opinberunum spámannsins. Þessari fyrstu tilraun til útgáfu opinberananna lauk hinsvegar þegar múgur eyðilagði prentsmiðju hinna heilögu í Jacksonsýslu þann 20. júlí 1833.

Þegar Joseph Smith heyrði af eyðileggingu prentsmiðjunnar, hóf hann og aðrir leiðtogar kirkjunnar undirbúning að útgáfu opninberananna í Kirtland, Ohio. Enn á ný var farið yfir villur, orðalag lagfært og þróun í kenningum kirkjunnar og skipulagningu hennar staðfest. Joseph Smithhafði yfirumsjón meðlagfæringu á texta nokkurra opinberana og undirbúningi þeirra fyrir útgáfu árið 1835, undir heitinu Doctrine and Covenants of the Church of the Latter Day Saints (Kenning og sáttmálar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu). Joseph Smith heimilaði aðra útgáfu Kenningar og sáttmála, sem gefin var út aðeins nokkrum mánuðum eftir píslarvættisdauða spámannsins 1844.

Hinir Síðari daga heilögu á þessum tíma mátu opinberanirnar mikils og litu á þær sem boðskap frá Guði. Í einu tilfelli, síðla árs 1831, gáfu nokkrir öldungar kirkjunnar hátíðlegan vitnisburð um, að Drottinn hefði borið sálum þeirra vitni um sannleiksgildi opinberananna. Sá vitnisburður var í 1835útgáfu Kenningar og sáttmála, undir heitinu Vitnisburður postulanna tólf:

Vitnisburður
Postulanna tólf um sannleiksgildi
bókarinnar Kenning og Sáttmálar

Vitnisburður vitnanna að Boðorðabók Drottins, en þau boðorð gaf hann kirkju sinni með Joseph Smith yngri, sem rödd kirkjunnar tilnefndi í þeim tilgangi.

Vér erum þess vegna fúsir til þess að bera því vitni fyrir öllum mannheimi, allri skepnu á yfirborði jarðar, að Drottinn hefur með heilögum anda, sem hann veitti oss, borið sálum vorum vitni um, að þessi boðorð voru veitt með innblæstri Guðs, öllum mönnum til heilla, og þau eru vissulega sönn.

Vér gefum heiminum þennan vitnisburð, Drottinn sé með oss, og það er fyrir náð Guðs föðurins og sonar hans, Jesú Krists, að oss veitast þau forréttindi að flytja heiminum þennan vitnisburð, en í honum fögnum vér ákaft, og biðjum Drottin þess, að mannanna börn megi njóta þar góðs af.

Nöfn hinna tólf voru:

 • Thomas B. Marsh

 • David W. Patten

 • Brigham Young

 • Heber C. Kimball

 • Orson Hyde

 • William. E. McLellin

 • Parley P. Pratt

 • Luke S. Johnson

 • William Smith

 • Orson Pratt

 • John F. Boynton

 • Lyman E. Johnson

Í síðari útgáfum Kenningar og sáttmála hefur frekari opinberunum eða öðru skráðu efni verið bætt við, eftir því sem það hefur verið meðtekið og samþykkt á réttmætum samkomum eða ráðstefnum kirkjunnar. Í 1876 útgáfunni, sem öldungur Orson Pratt undirbjó undir leiðsögn Brighams Young, var opinberunum raðað í tímaröð og ný formálsorð útbúin með sögulegri kynningu.

Í ensku útgáfunni árið 1835 birtist fyrst flokkur með sjö guðfræðifyrirlestrum, sem báru fyrirsögnina Lectures on Faith [Fyrirlestrar um trú]. Þeir höfðu verið samdir til að nota fyrir skóla spámannanna í Kirtland, Ohio, 1834–1835. Þó að þeir væru góðir, hvað kenningar og fræðslu snerti, voru þessir fyrirlestrar teknir úr Kenningu og sáttmálum frá og með útgáfunni 1921, vegna þess að þeir voru ekki gefnir eða kynntir sem opinberanir til allrar kirkjunnar.

Í útgáfu Kenningar og sáttmála, sem kom út árið 1981, var þremur skjölum bætt við í fyrsta sinn. Þetta eru kaflar 137 og 138, þar sem grundvallaratriði sáluhjálpar fyrir hina dánu voru sett fram og Opinber yfirlýsing 2, þar sem tilkynnt var að vígja mætti alla verðuga karlmenn innan kirkjunnar til prestdæmisins, án tillits til kynþáttar eða litarháttar.

Í hverri nýrri útgáfu af Kenningu og sáttmálum hafa eldri villur verið leiðréttar og nýjum upplýsingum bætt við, sérstaklega sögulegum atriðum í formálsorðum kaflanna. Í nýjustu útgáfunni eru gerðar endurbætur á dagsetningum og staðarheitum og aðrar leiðréttingar. Þessar breytingar hafa verið gerðar til þess að efnið sé í samræmi við nákvæmustu sögulegar upplýsingar. Aðrir nýir þættir, sem finna má í þessari útgáfu, eru endurskoðuð kort, sem sýna helstu landfræðilegar staðsetningar, þar sem opinberanir voru meðteknar, auk þess betri ljósmyndir af sögulegum stöðum kirkjunnar, tilvísanir, formálsorð kafla og efnislega samantekt, allt gert til að auðvelda lesendum að skilja og gleðjast yfir þeim boðskap, sem Drottinn gefur í Kenningu og sáttmálum. Upplýsingar í formálsorðum kafla koma úr Söguhandrit kirkjunnar og útgefinni History of the Church (Saga kirkjunnar) (oftast nefnd saga Josephs Smith í formálsorðunum), og Joseph Smith Papers (Skjöl Josephs Smith).