Ritningar
Kenning og sáttmálar 124


124. Kafli

Opinberun gefin spámanninum Joseph Smith í Nauvoo, Illinois, 19. janúar 1841. Vegna síaukinna ofsókna og ólögmætra aðgerða opinberra embættismanna gegn hinum heilögu, höfðu þeir neyðst til að yfirgefa Missouri. Þegar Lilburn W. Boggs, fylkisstjóri Missouri, gaf út tilskipun, dagsetta 27. október 1838, um að útrýma þeim, áttu þeir engra annarra kosta völ. Þegar þessi opinberun var gefin, 1841, höfðu hinir heilögu reist borgina Nauvoo, þar sem þorpið Commerce í Illinois hafði áður staðið, og þar urðu höfuðstöðvar kirkjunnar

1–14, Joseph Smith er boðið að senda forseta Bandaríkjanna, fylkisstjórum og ráðamönnum allra þjóða, hátíðlega yfirlýsingu um fagnaðarerindið; 15–21, Hyrum Smith, David W. Patten, Joseph Smith eldri og aðrir meðal lifenda og dauðra eru blessaðir fyrir heiðarleika sinn og dyggðir; 22–28, Hinum heilögu er bæði boðið að byggja gistihús fyrir ferðamenn og musteri í Nauvoo; 29–36, Skírnir fyrir dána skulu framkvæmdar í musterum; 37–44, Fólk Drottins reisir alltaf musteri fyrir framkvæmd heilagra athafna; 45–55, Hinir heilögu þurfa ekki að reisa musteri í Jacksonsýslu vegna ofsókna óvina sinna; 56–83, Leiðbeiningar gefnar um byggingu Nauvoohússins; 84–96, Hyrum Smith er kallaður sem patríarki og til að hljóta lyklana og koma í stað Olivers Cowdery; 97–122, William Law og aðrir fá ráðleggingar varðandi störf sín; 123–145, Aðalembættismenn og embættismenn staða eru tilnefndir, og skyldur þeirra og aðild að sveitum tilgreind.

1 Sannlega, svo segir Drottinn við þig, þjón minn Joseph Smith: Fórnir þínar og játningar eru mér þóknanlegar, því að í þeim tilgangi hefi ég uppvakið þig, að ég gæti sýnt visku mína með hinu veika á jörðunni.

2 Bænir þínar eru mér þóknanlegar, og sem svar við þeim segi ég þér, að þú ert nú kallaður samstundis til að gefa út hátíðlega yfirlýsingu um fagnaðarerindi mitt og um þessa stiku, sem ég hef sett til að vera hornstein Síonar, sem fægð skal þar til hún jafnast á við glæsta höll.

3 Þessi yfirlýsing skal gefin öllum konungum heims, hinna fjögurra skauta hans, hinum hæstvirta kjörna forseta og háttvirtu fylkisstjórum þeirrar þjóðar, sem þér lifið meðal, og öllum þjóðum jarðar um alla jörð.

4 Hún skal rituð í anda hógværðar og með krafti heilags anda, sem vera skal í þér, þegar þú ritar hana —

5 Því að það mun þér gefið með heilögum anda að þekkja vilja minn varðandi þessa konunga og þessi yfirvöld, jafnvel það, sem hendir þá á komandi tíð.

6 Því að sjá, ég er á leið með að kalla þá til að gefa gaum að ljósi og dýrð Síonar, því að hinn ákveðni tími er kominn, er hlúð skal að henni.

7 Kalla þess vegna á þá háum rómi, með yfirlýsingu þinni og vitnisburði, svo að þeir verði einnig án afsökunar. Óttast þá ekki, því að þeir eru sem gras, og öll dýrð þeirra sem blóm þess, er bráðlega fellur —

8 Og svo að ég megi vitja þeirra á degi vitjunarinnar, þegar ég mun afhjúpa ásjónu mína, til að útnefna kúgaranum hlut sinn meðal hræsnara, þar sem er gnístran tanna, ef þeir hafna þjónum mínum og vitnisburði mínum, sem ég hef opinberað þeim.

9 Og enn, ég mun vitja þeirra og milda hjörtu margra þeirra yður til góðs, svo að þér finnið náð fyrir augum þeirra, og þeir megi koma til ljóss sannleikans, og Þjóðirnar til upphafningar eða upplyftingar Síonar.

10 Því að vitjunardagur minn rennur skyndilega upp, á þeirri stundu sem þér hyggið ekki að. Og hvar verður öryggi fólks míns og athvarf fyrir þá þeirra sem eftir verða?

11 Vaknið, ó, konungar jarðar! Komið, ó, komið þér með gull yðar og silfur, til hjálpar fólki mínu, til húss dætra Síonar.

12 Og sannlega segi ég þér enn, lát þjón minn Robert B. Thomson aðstoða þig við að rita þessa yfirlýsingu, því að ég er vel ánægður með hann og vil að hann verði með þér —

13 Hann skal því fara að ráðum þínum og ég mun blessa hann margföldum blessunum. Hann skal vera trúr og sannur í öllu héðan í frá, og hann mun verða mikill í augum mínum —

14 En hann skal hafa hugfast, að ég mun krefja hann reikningsskila fyrir ráðsmennsku sína.

15 Og sannlega segi ég þér enn: Blessaður er þjónn minn Hyrum Smith, því að ég, Drottinn, elska hann fyrir einlægni hjarta hans og vegna þess að hann elskar það, sem rétt er í mínum augum, segir Drottinn.

16 Enn fremur skal þjónn minn John C. Bennett hjálpa þér í því starfi þínu að senda konungum og þjóðum jarðar orð mitt, og standa með þér, já, þér þjóni mínum Joseph Smith, á þrengingartímum. Og laun hans munu ekki bregðast, fari hann að ráðleggingum.

17 Og vegna elsku sinnar skal hann mikill verða, því að hann verður minn, ef hann gjörir þetta, segir Drottinn. Ég hef séð verk hans og ég þigg þau, ef hann heldur áfram. Og ég mun krýna hann blessunum og mikilli dýrð.

18 Og enn segi ég þér, að það er vilji minn, að þjónn minn Lyman Wight haldi áfram að prédika fyrir Síon, í anda hógværðar, og kannist við mig fyrir heiminum. Og ég mun bera hann uppi sem á arnarvængjum og hann skal leiða dýrð og heiður yfir sig og nafn mitt.

19 Svo að þegar hann hefur lokið verki sínu, geti ég tekið hann til mín, já, eins og þjón minn David Patten, sem með mér er nú, og einnig þjón minn Edward Partridge, og einnig hinn aldraða þjón minn Joseph Smith eldri, sem situr hjá Abraham, honum til hægri handar, og blessaður og heilagur er hann, því að hann er minn.

20 Og sannlega segi ég þér enn, að þjónn minn George Miller er falslaus. Honum má treysta vegna einlægni hjarta hans, og ég, Drottinn, elska hann fyrir ást þá, sem hann hefur á vitnisburði mínum.

21 Þess vegna segi ég þér, að ég innsigla embætti biskupsráðsins á höfuð hans, eins og þjóns míns Edwards Partridge, svo að hann megi taka á móti helgunargjöfum húss míns, og megi veita fátæku fólki mínu blessanir, segir Drottinn. Enginn maður skal vanvirða þjón minn George, því að hann mun heiðra mig.

22 Lát þjón minn George og þjón minn Lyman og þjón minn John Snider, og aðra, reisa nafni mínu hús, slíkt sem þjónn minn Joseph mun sýna þeim, á þeim stað, sem hann mun einnig sýna þeim.

23 Og það skal vera gistihús, hús, sem framandi menn, langt að komnir, geta búið í. Það skal því vera gott hús, verðugt eftirsóknar, svo að þreyttur ferðamaður finni þar heilsu og öryggi meðan hann íhugar orð Drottins, og þann hyrningarstein, sem ég hef útnefnt Síon.

24 Þetta hús skal vera heilsusamlegur bústaður, sé það reist mínu nafni, og ef sá, sem útnefndur verður til að veita því forstöðu, leyfir ekki að það vanhelgist. Það skal vera heilagt, ella mun Drottinn Guð yðar ekki dvelja í því.

25 Og sannlega segi ég yður enn: Lát alla mína heilögu koma hvaðanæva að.

26 Og sendið hraðboða, já, valda boðbera, að segja þeim: Komið með allt gull yðar og silfur og dýrmæta steina og með alla forngripi yðar, og með alla þá, sem þekkingu hafa á forngripum, og þeir, sem vilja koma, mega koma, og hafi með sér límvið, þintré og furu, ásamt öllum dýrmætum trjám jarðar —

27 Og með járn, kopar og látún og sink og með alla dýrmæta jarðneska muni yðar, og reisa nafni mínu hús, fyrir hinn æðsta að dvelja í.

28 Því að enginn staður finnst á jörðu, sem hann getur komið til og endurreist aftur það, sem yður var glatað eða hann hefur burtu tekið, sjálfa fyllingu prestdæmisins.

29 Því að skírnarfontur er ekki til á jörðu, sem þeir, mínir heilögu, geti skírst í fyrir þá, sem dánir eru —

30 Því að þessi helgiathöfn tilheyrir húsi mínu og getur ekki verið mér þóknanleg nema á fátæktardögum yðar, þegar þér eruð ekki færir um að reisa mér hús.

31 En ég býð yður, öllum yður, mínum heilögu, að reisa mér hús, og ég gef yður nægilegan tíma til að byggja hús fyrir mig, og á meðan á því stendur eru skírnir yðar mér þóknanlegar.

32 En sjá, að þeim útnefnda tíma loknum mun ég ekki viðurkenna skírnir yðar fyrir yðar látnu. Og ef þér hafið ekki gjört þetta að útnefndum tíma loknum, mun yður hafnað sem kirkju, ásamt yðar látnu, segir Drottinn Guð yðar.

33 Því að sannlega segi ég yður, að eftir að þér hafið fengið nægilegan tíma til að reisa mér hús, þar sem helgiathöfnin skírn fyrir hina dánu á heima í, og sem innleidd var áður en jörðin var grundvölluð, viðurkenni ég ekki skírnir yðar fyrir yðar dánu —

34 Því að þar í eru lyklar hins heilaga prestdæmis vígðir, svo að þér fáið meðtekið heiður og dýrð.

35 Og eftir þann tíma viðurkenni ég ekki skírnir yðar fyrir yðar dánu, sem framkvæmdar eru af þeim sem dreifðir eru vítt og breitt, segir Drottinn.

36 Því að ákveðið er, að í Síon og stikum hennar og í Jerúsalem, þeim stöðum sem ég hef tilgreint sem athvarf, skuli skírnir yðar fyrir yðar dánu framkvæmdar.

37 Og sannlega segi ég yður enn, hvernig getur laugun yðar verið mér þóknanleg, nema þér framkvæmið hana í því húsi, sem þér hafið reist nafni mínu?

38 Því að af þessari ástæðu bauð ég Móse að reisa helgidóm, svo að þeir gætu flutt hann með sér í eyðimörkinni, og að reisa hús í fyrirheitna landinu, svo að þessar helgiathafnir, sem huldar höfðu verið frá því áður en heimurinn varð til, mættu opinberaðar verða.

39 Sannlega segi ég yður þess vegna, að smurningar yðar og lauganir og skírnir fyrir hina dánu, og hátíðarsamkomur yðar og minningarhátíðir yðar fyrir fórnir yðar með sonum Levís, og lifandi orð yðar á helgustu stöðum yðar, þar sem þér meðtakið orðin, og ákvæði yðar og dómar til upphafs opinberananna og grundvöllunar Síonar, og til dýrðar, heiðurs og gjafar öllum íbúum hennar, er vígt með helgiathöfn í heilögu húsi mínu, sem fólki mínu er ætíð boðið að reisa heilögu nafni mínu.

40 Og sannlega segi ég yður: Lát reisa þetta hús nafni mínu, svo að ég geti opinberað fólki mínu helgiathafnir mínar í því —

41 Því að náðarsamlegast vil ég opinbera kirkju minni það, sem verið hefur hulið allt frá grundvöllun veraldar, það sem tilheyrir ráðstöfunum í fyllingu tímanna.

42 Og ég mun sýna þjóni mínum Joseph allt, sem tilheyrir þessu húsi og prestdæmi þess, og staðinn sem það skal reist á.

43 Og þér skuluð byggja það á þeim stað, sem þér hafið hugsað yður að byggja það á, því að það er bletturinn, sem ég hef valið yður fyrir það.

44 Ef þér erfiðið af öllum mætti yðar, mun ég helga þann blett, svo að hann verði heilagur gjörður.

45 Og vilji fólk mitt hlýða rödd minni og rödd þjóna minna, sem ég hef útnefnt til að leiða fólk mitt, sjá, sannlega segi ég yður, þá skal það ekki flutt úr stað.

46 En vilji það hvorki hlýða rödd minni né rödd þeirra manna, sem ég hef útnefnt, mun það eigi blessað, því að það vanhelgar heilög landsvæði mín og helgiathafnir mínar og reglur og heilög orð mín, sem ég gef þeim.

47 Og svo ber við, að ef þér reisið nafni mínu hús, en gjörið ekki það sem ég segi, mun ég hvorki halda þann eið, sem ég gef yður, né uppfylla fyrirheitin, sem þér væntið af mér, segir Drottinn.

48 Því að í stað blessana munuð þér með verkum yðar leiða bölvun, heilaga og réttláta reiði og dóm yfir yður sjálfa með heimsku yðar og allri þeirri viðurstyggð, sem þér hafið í frammi, segir Drottinn.

49 Sannlega, sannlega segi ég yður, að þegar ég gef einhverjum mannanna sonum boð um að vinna verk fyrir mitt nafn, og þessir mannanna synir ganga að því af öllum mætti sínum og með öllu, sem þeim er tiltækt, að framkvæma þetta verk, og láta ekki af kostgæfni sinni, og óvinir þeirra sækja að þeim og hindra þá í að vinna þetta verk, sjá, þá þóknast mér að krefjast ekki lengur þessa verks af þessum mannanna sonum, heldur þiggja fórnir þeirra.

50 Og misgjörðirnar og brotin á heilögum lögmálum mínum og boðorðum mun ég láta falla yfir þá, sem hindra verk mitt, í þriðja og fjórða ættlið, svo lengi sem þeir iðrast ekki og forsmá mig, segir Drottinn Guð.

51 Af þeim sökum hef ég þegið fórnir þeirra, sem ég hef boðið að byggja upp borg og reisa hús fyrir nafn mitt í Jacksonsýslu í Missouri, en hindraðir voru af óvinum sínum, segir Drottinn Guð yðar.

52 Og ég mun svara með dómi, heilagri og réttlátri reiði, gráti og angist og gnístran tanna yfir höfuð þeirra í þrjá og fjóra ættliði, svo lengi sem þeir iðrast ekki, og forsmá mig, segir Drottinn Guð yðar.

53 Og þetta gef ég yður sem dæmi, yður til huggunar vegna allra þeirra, sem hafa fengið boð um að vinna verk, en hafa verið hindraðir í því af höndum óvina sinna og af nauðung, segir Drottinn Guð yðar.

54 Því að ég er Drottinn Guð yðar og mun frelsa alla þá bræður yðar, sem hafa verið hjartahreinir og deyddir í landi Missouri, segir Drottinn.

55 Og sannlega segi ég yður: Enn býð ég yður að reisa nafni mínu hús, já, á þessum stað, svo að þér fáið sannað mér trúfesti yðar í öllu því, sem ég býð yður, að ég megi blessa yður og krýna yður heiðri, ódauðleika og eilífu lífi.

56 Og varðandi gistihúsið, sem ég hef boðið yður að reisa fyrir ókunnuga, segi ég yður nú: Lát reisa það nafni mínu og setja nafn mitt á það, og látið þjón minn Joseph og heimilisfólk hans vera þar til húsa, kynslóð eftir kynslóð.

57 Því að þeirri smurningu hef ég smurt hann, að blessanir hans skulu einnig falla á höfuð afkomenda hans eftir hann.

58 Og eins og ég sagði við Abraham varðandi kynkvíslir jarðarinnar, einmitt svo segi ég við þjón minn Joseph: Í þér og niðjum þínum skulu allar kynkvíslir jarðar blessun hljóta.

59 Lát þess vegna þjón minn Joseph og niðja hans eftir hann eiga aðsetur í þessu húsi, kynslóð eftir kynslóð, alltaf og að eilífu, segir Drottinn.

60 Og nafn þessa húss skal vera Nauvoohúsið og það skal vera unaðslegur mannabústaður og hvíldarstaður þreyttum ferðamanni, svo að hann megi ígrunda dýrð Síonar og dýrð þessa, hyrningarsteins hennar —

61 Að hann megi einnig hljóta ráðleggingar þeirra, sem ég hef sett sem rómaðan gróður og varðmenn á múrum hennar.

62 Sjá, sannlega segi ég yður, lát þjón minn George Miller, og þjón minn Lyman Wight, og þjón minn John Snider og þjón minn Peter Haws, taka höndum saman, og tilnefnið einn þeirra sem forseta sveitar sinnar, í þeim tilgangi að byggja þetta hús.

63 Og þeir skulu mynda félag til að fá inn hlutafé til byggingar þessa húss.

64 Og þeir skulu ekki taka minna en fimmtíu dollara fyrir hvern hlut í þessu húsi, og þeir skulu hafa heimild til að taka á móti fimmtán þúsund dollurum af einum einstökum manni fyrir hlut í því húsi.

65 En þeir skulu ekki hafa heimild til að taka meira en fimmtán þúsund dollara frá nokkrum einstökum manni.

66 Og þeir skulu ekki hafa heimild til að taka minna en fimmtíu dollara sem hlut í þessu húsi frá nokkrum einstökum manni.

67 Og þeir skulu ekki hafa heimild til að taka nokkurn mann sem hluthafa í því húsi, nema hann greiði sinn hlut, þegar hann tekur við hlut sínum —

68 Og hlutur hans í húsinu skal vera í hlutfalli við hlutafjárupphæð þá, sem hann greiðir þeim. En greiði hann þeim ekkert, skal hann engan hlut fá í því húsi.

69 Og hver sem greiðir þeim hlutafé skal eiga hlut í því húsi, hann sjálfur og afkomendur hans, frá kyni til kyns, svo lengi sem hann eða erfingjar hans halda þeim hlut og selja hann ekki eða af frjálsum vilja og verki láta hann af hendi, ef þér farið að vilja mínum, segir Drottinn Guð yðar.

70 Og sannlega segi ég yður enn: Ef þjónn minn George Miller og þjónn minn Lyman Wight og þjónn minn John Snider og þjónn minn Peter Haws fá í hendur einhvern hlut, í peningum eða eigum, sem jafngilda fjárhæðum, skulu þeir ekki nota neitt af því til nokkurs annars en þessa húss.

71 Og noti þeir einhvern hluta þessa hlutafjár til einhvers annars en þessa húss án samþykkis hluthafa, og greiða ekki fjórfalt fyrir hvern hlut, sem þeir nota til annars en þessa húss, skulu þeir bölvaðir og þeim vikið úr stöðu sinni, segir Drottinn Guð. Því að ég, Drottinn, er Guð og læt í engu þessu að mér hæða.

72 Sannlega segi ég yður: Lát þjón minn Joseph greiða þeim hlut til byggingar þessa húss eins og honum hentar, en þjónn minn Joseph getur ekki greitt yfir fimmtán þúsund dollara hlut í þessu húsi, né minna en fimmtíu dollara, né heldur nokkur annar maður, segir Drottinn.

73 Og enn eru aðrir, sem óska þess að vita vilja minn varðandi þá, því að þeir hafa beðið mig um það.

74 Þess vegna segi ég yður varðandi þjón minn Vinson Knight, að vilji hann fara að vilja mínum, skal hann eignast hlut í þessu húsi fyrir sjálfan sig og niðja sína eftir sig, frá kyni til kyns.

75 Og lát hann hefja upp raust sína, lengi og hátt, mitt á meðal fólksins, og tala máli hinna fátæku og þurfandi, og hann skal hvorki bregðast né láta hugfallast, og ég mun þiggja fórnir hans, því að þær verða mér ekki sem fórnir Kains, því að hann verður minn, segir Drottinn.

76 Fjölskylda hans skal fagna og snúa hjörtum sínum frá þrengingum, því að ég hef útvalið hann og smurt hann, og hann skal heiðraður meðal húss síns, því að ég fyrirgef honum allar syndir hans, segir Drottinn. Amen.

77 Sannlega segi ég yður, lát þjón minn Hyrum kaupa hlut í þessu húsi, eins og honum hentar, fyrir sjálfan sig og niðja sína eftir sig, frá kyni til kyns.

78 Lát þjón minn Isaac Galland kaupa hlut í þessu húsi, því að ég, Drottinn, ann honum fyrir það verk, sem hann hefur unnið, og mun fyrirgefa allar syndir hans. Þess vegna skulu hagsmunir hans í þessu húsi í minnum hafðir frá kyni til kyns.

79 Lát tilnefna þjón minn Isaac Galland yðar á meðal og lát þjón minn William Marks vígja hann og blessa, til að fara með þjóni mínum Hyrum og vinna það verk, sem þjónn minn Joseph mun fela þeim, og þeir skulu ríkulega blessaðir.

80 Lát þjón minn William Marks kaupa hlut í þessu húsi, eins og honum hentar, fyrir sjálfan sig og ætt sína, frá kyni til kyns.

81 Lát þjón minn Henry G. Sherwood kaupa hluta í þessu húsi, eins og honum hentar, fyrir sjálfan sig og niðja sína eftir sig, frá kyni til kyns.

82 Lát þjón minn William Law kaupa hlut í þessu húsi fyrir sjálfan sig og niðja sína eftir sig, frá kyni til kyns.

83 Vilji hann gjöra vilja minn, skal hann ekki fara með fjölskyldu sína í austurátt, já, til Kirtland. Engu að síður mun ég, Drottinn, byggja upp Kirtland, en ég, Drottinn, hef refsivönd til reiðu fyrir íbúana þar.

84 Og margt er það varðandi þjón minn Almon Babbitt, sem ég er ekki ánægður með. Sjá, hann vill helst fylgja eigin ráðum í stað þess að hlíta þeim ráðum, sem ég hef gefið, já, forsætisráðs kirkju minnar. Og hann stillir upp gullkálfi handa fólki mínu að tilbiðja.

85 Enginn, sem hingað er kominn til að reyna að halda boðorð mín, skal yfirgefa þennan stað.

86 Lifi þeir hér, skulu þeir lifa mér, og deyi þeir, skulu þeir deyja mér, því að þeir munu hvílast frá öllu erfiði sínu hér og halda áfram starfi sínu.

87 Þjónn minn William setji þess vegna traust sitt á mig og óttist ei lengur um fjölskyldu sína vegna sjúkdómsins í landinu. Ef þér elskið mig, skuluð þér halda boðorð mín, og sjúkdómurinn, sem herjar landið, skal verða yður til dýrðar.

88 Lát þjón minn William fara og með hárri raust og mikilli gleði kunngjöra ævarandi fagnaðarerindi mitt íbúum Varsjár og einnig íbúum Carthage og einnig íbúum Burlington og einnig íbúum Madison, eins og andi minn býður honum, og bíða þolinmóður og af kostgæfni frekari leiðbeininga á aðalráðstefnu minni, segir Drottinn.

89 Vilji hann gjöra vilja minn, skal hann héðan í frá hlíta ráðum þjóns míns Josephs, og af áhuga styðja málstað hinna fátæku og birta íbúum jarðarinnar hina nýju þýðingu á heilögu orði mínu.

90 Og vilji hann gjöra svo, mun ég blessa hann margföldum blessunum, og hann skal ekki yfirgefinn, og niðjar hans ekki þurfa að betla sér brauð.

91 Og sannlega segi ég yður enn: Lát tilnefna þjón minn William, vígja hann og smyrja sem ráðgjafa þjóns míns Josephs, í stað þjóns míns Hyrums, svo að þjónn minn Hyrum geti tekið við embætti prestdæmis og patríarka, sem faðir hans útnefndi honum með blessunum og einnig rétti —

92 Og hann hafi héðan í frá lykla patríarkablessana fyrir allt mitt fólk.

93 Og hver, sem hann blessar, mun blessaður verða, og hver, sem hann fordæmir, mun fordæmdur verða. Og hvað, sem hann bindur á jörðu, mun bundið verða á himni, og hvað, sem hann leysir á jörðu, mun leyst verða á himni.

94 Og frá þessari stundu útnefni ég hann sem spámann, sjáanda og opinberara kirkju minnar, eins og þjón minn Joseph —

95 Svo að hann í eindrægni geti starfað með þjóni mínum Joseph, og að hann fái ráðleggingar frá þjóni mínum Joseph, er sýni honum þá lykla, sem opna honum leið til að biðja og fá svar og verða krýndur sömu blessun, dýrð og heiðri og prestdæmi og gjöfum prestdæmisins, sem eitt sinn veittist þjóni mínum Oliver Cowdery —

96 Svo að þjónn minn Hyrum megi bera vitni um það, sem ég mun sýna honum, og nafn hans megi í heiðri og minnum haft frá kyni til kyns, alltaf og að eilífu.

97 Þjónn minn William Law skal einnig hljóta lyklana, svo að hann megi biðja og fá blessanir. Hann skal vera auðmjúkur gagnvart mér og falslaus, og hann skal meðtaka anda minn, sjálfan huggarann, sem mun opinbera honum sannleiksgildi allra hluta og gefa honum á hverri stundu hvað segja skal.

98 Og þessi tákn munu fylgja honum: Hann mun lækna sjúka, hann mun kasta út djöflum og hann mun losna undan þeim, sem byrla vilja honum banvænt eitur —

99 Og hann mun leiddur þá stigu, þar sem eitraðar nöðrur ná ekki að stinga hæl hans, og hugarflug hans mun lyfta honum sem arnarvængir væri.

100 Og sé það vilji minn að hann uppveki dauða, skal hann ekki hlífa raust sinni.

101 Þess vegna skal þjónn minn William hrópa hátt af gleði og fögnuði og hlífast hvergi, og með hósanna til hans, sem situr í hásætinu alltaf og að eilífu, segir Drottinn Guð yðar.

102 Sjá, ég segi yður: Ég geymi þjóni mínum William og þjóni mínum Hyrum ætlunarverk, og þeim einum. Og þjónn minn Joseph skal dvelja kyrr heima, því hans er þörf. Annað mun ég sýna yður síðar. Já, vissulega. Amen.

103 Og sannlega segi ég yður enn: Ef þjónn minn Sidney vill þjóna mér og vera ráðgjafi þjóns míns Josephs, skal hann rísa á fætur og koma og standa í embætti köllunar sinnar og vera auðmjúkur gagnvart mér.

104 Og vilji hann færa mér þóknanlega fórn og viðurkenningu og vera kyrr hjá fólki sínu, sjá, þá mun ég, Drottinn Guð yðar, lækna hann, svo að hann verði heill, og hann mun aftur hefja upp raust sína á fjöllunum og verða talsmaður fyrir augliti mínu.

105 Hann skal koma og koma fjölskyldu sinni fyrir í grennd við þann stað, sem þjónn minn Joseph býr á.

106 Og á öllum ferðum sínum skal hann hefja upp raust sína sem með lúðurhljómi og aðvara íbúa jarðarinnar um að flýja hina heilögu reiði, sem koma skal.

107 Hann skal aðstoða þjón minn Joseph, og einnig skal þjónn minn William Law aðstoða þjón minn Joseph við að semja hátíðlega yfirlýsingu til konunga jarðar, já, eins og ég hef áður sagt yður.

108 Vilji þjónn minn Sidney gjöra vilja minn, skal hann ekki flytja fjölskyldu sína til landsvæðanna í austri, heldur skipta um verustað, eins og ég hef mælt.

109 Sjá, það er ekki vilji minn, að hann leiti öryggis og athvarfs utan þeirrar borgar, sem ég hef útnefnt yður, já, Nauvooborgar.

110 Sannlega segi ég yður, já nú, vilji hann hlýða rödd minni, mun honum farnast vel. Já, vissulega. Amen.

111 Og sannlega segi ég yður enn: Lát þjón minn Amos Davies greiða hlutafé til þeirra, sem ég hef útnefnt til að reisa gistihús, já, Nauvoohúsið.

112 Þetta skal hann gjöra, vilji hann gæta hagsmuna sinna. Og hann skal hlíta ráðum þjóns míns Josephs og erfiða eigin höndum, svo að hann öðlist traust manna.

113 Og þegar hann sannar sig trúan í öllu, sem honum verður falið að annast, já, jafnvel í litlu, skal hann yfir mikið settur —

114 Þess vegna skal hann niðurlægja sig, svo að hann megi upphafinn verða. Já, vissulega. Amen.

115 Og sannlega segi ég yður enn: Vilji þjónn minn Robert D. Foster hlýða rödd minni, skal hann byggja hús fyrir þjón minn Joseph, samkvæmt þeim samningi, sem hann hefur við hann gjört, og eins og honum opnast leiðir er tímar líða.

116 Og lát hann iðrast allrar heimsku sinnar og íklæðast kærleika og láta af öllu illu og leggja niður alla harðmælgi —

117 Og greiða sveit Nauvoohússins hlutafé fyrir sjálfan sig og niðja sína eftir sig, frá kyni til kyns —

118 Og hlíta ráðum þjóna minna Josephs og Hyrums og Williams Law og þeirra valdhafa, sem ég hef kallað til að leggja grundvöllinn að Síon, og honum mun farnast vel alltaf og að eilífu. Já, vissulega. Amen.

119 Og sannlega segi ég yður enn: Enginn maður skal greiða hlutafé til sveitar Nauvoohússins nema hann trúi Mormónsbók og opinberunum þeim, sem ég hef gefið yður, segir Drottinn Guð yðar —

120 Því að það, sem er meira eða minna en þetta, kemur frá hinu illa, og því skal tekið með bölvun en ekki blessun, segir Drottinn Guð yðar. Já, vissulega. Amen.

121 Og sannlega segi ég yður enn: Lát sveit Nauvoohússins fá réttmæt laun fyrir alla vinnu sína við byggingu Nauvoohússins, og lát laun þeirra vera þau, sem þeir verða einhuga um og í samræmi við verðmæti hennar.

122 Og reynist það nauðsynlegt, skal hver maður, sem kaupir hlut, bera hluta af launum þeirra, þeim til framfærslu, segir Drottinn, ella skal starf þeirra metið til hluts í húsinu. Já, vissulega. Amen.

123 Sannlega segi ég yður: Ég gef yður nú, embættismönnum prestdæmis míns, leyfi til að halda lyklum þess, sjálfs prestdæmisins, sem er eftir reglu Melkísedeks, sem er eftir reglu míns eingetna sonar.

124 Í fyrsta lagi gef ég yður Hyrum Smith sem patríarka yðar, til að halda innsiglunarblessunum kirkju minnar, já, heilögum anda fyrirheitsins, sem innsiglar yður fram að degi endurlausnar, svo að þér fallið ei, þó að stundir freistinga geti komið yfir yður.

125 Ég gef yður þjón minn Joseph sem ráðandi öldung yfir allri kirkju minni, að vera þýðandi, opinberari, sjáandi og spámaður.

126 Ég gef honum sem ráðgjafa þjón minn Sidney Rigdon og þjón minn William Law, að þeir myndi saman sveit og Æðsta forsætisráð, sem tekur á móti lifandi orðum fyrir alla kirkjuna.

127 Ég gef yður þjón minn Brigham Young sem forseta yfir farandráði hinna tólf —

128 En þeir tólf hafa lyklana, sem ljúka upp valdi ríkis míns á hinum fjórum jarðarskautum og þar næst að senda orð mitt til sérhverrar skepnu.

129 Þeir eru Heber C. Kimball, Parley P. Pratt, Orson Pratt, Orson Hyde, William Smith, John Taylor, John E. Page, Wilford Woodruff, Willard Richards, George A. Smith —

130 David Patten hef ég tekið til mín. Sjá, prestdæmi hans tekur enginn maður frá honum, en sannlega segi ég yður, annan má tilnefna í sömu köllun.

131 Og enn segi ég yður: Ég gef yður háráð sem hornstein Síonar —

132 Þá: Samuel Bent, Henry G. Sherwood, George W. Harris, Charles C. Rich, Thomas Grover, Newel Knight, David Dort, Dunbar Wilson — Seymour Brunson hef ég tekið til mín. Enginn maður tekur prestdæmi hans, en annan má tilnefna í hans stað til hins sama prestdæmis. Og sannlega segi ég yður: Lát þjón minn Aaron Johnson vígjast í þessa köllun í hans stað — David Fullmer, Alpheus Cutler, William Huntington.

133 Og enn gef ég yður Don C. Smith sem forseta háprestasveitar —

134 Sú vígsla er gefin í þeim tilgangi að gera hæfa þá sem tilnefndir verða fastaforsetar eða þjónar hinna ýmsu stika, sem dreifðar eru —

135 Og þeir mega einnig ferðast, ef þeir æskja þess, en skulu frekar vígðir sem fastaforsetar. Það er embætti köllunar þeirra, segir Drottinn Guð yðar.

136 Ég gef honum Amasa Lyman og Noah Packard sem ráðgjafa, svo að þeir geti verið í forsæti háprestasveitar kirkju minnar, segir Drottinn.

137 Og enn segi ég yður: Ég gef yður John A. Hicks, Samuel Williams og Jesse Baker, hverra prestdæmi er að vera í forsæti öldungasveitar, þeirrar sveitar, sem stofnuð var fyrir fastaþjóna. Þó mega þeir ferðast, en eru samt vígðir til að vera fastaþjónar kirkju minnar, segir Drottinn.

138 Og enn gef ég yður Joseph Young, Josiah Butterfield, Daniel Miles, Henry Herriman, Zera Pulsipher, Levi Hancock, James Foster til að vera í forsæti sveitar hinna sjötíu —

139 En sú sveit er stofnuð fyrir farand-öldunga, sem bera nafni mínu vitni um víða veröld, hvert sem farand-háráðið, postular mínir, sendir þá til að greiða mér veg.

140 Munurinn á þessari sveit og sveit öldunganna er, að önnur skal ferðast að staðaldri, en hin skal vera í forsæti safnaðanna frá einum tíma til annars. Önnur ber þá ábyrgð að vera í forsæti frá einum tíma til annars, en hin ber enga ábyrgð á forsæti, segir Drottinn Guð yðar.

141 Og enn segi ég yður: Ég gef yður Vinson Knight, Samuel H. Smith og Shadrach Roundy, vilji hann taka við því, til að vera í forsæti biskupsráðsins, en yður er veitt þekking á nefndu biskupsráði í bókinni Kenningu og sáttmálum.

142 Og sannlega segi ég yður enn, Samuel Rolfe og ráðgjafar hans yfir prestunum, og forseti kennaranna og hans ráðgjafar og einnig forseti djáknanna og hans ráðgjafar og einnig forseti stikunnar og hans ráðgjafar.

143 Þessi fyrrnefndu embætti hef ég gefið yður og tilheyrandi lykla til hjálpar og til stjórnunar, til helgra þjónustustarfa og fullkomnunar minna heilögu.

144 Og fyrirmæli gef ég yður, að þér fyllið öll þessi embætti og samþykkið þau nöfn, sem ég hef nefnt, eða hafnið þeim á aðalráðstefnu minni —

145 Og að þér ætlið öllum þessum embættum herbergi í húsi mínu, þegar þér reisið það nafni mínu, segir Drottinn Guð yðar. Já, vissulega. Amen.