Ritningar
Kenning og sáttmálar 42


42. Kafli

Opinberun gefin í tveim hlutum gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 9. og 23. febrúar 1831. Fyrsti hlutinn, sem nær yfir vers 1 til og með 72, var meðtekinn í viðurvist tólf öldunga og til uppfyllingar loforði, sem Drottinn hafði áður gefið um að „lögmálið“ yrði gefið í Ohio (sjá kafla 38:32). Seinni hlutinn nær yfir vers 73 til og með 93. Spámaðurinn segir þessa opinberun „fela í sér lögmál kirkjunnar.“

1–10, Öldungarnir eru kallaðir til að prédika fagnaðarerindið, skíra trúskiptinga og byggja upp kirkjuna; 11–12, Þá verður að kalla og vígja og þeir eiga að kenna reglur fagnaðarerindisins, sem í ritningunum eru; 13–17, Þeir eiga að kenna og spá með krafti andans; 18–29, Hinum heilögu er boðið, að þeir megi ekki drepa, stela, ljúga, girnast, drýgja hór, eða tala illa um aðra; 30–39, Lögmál varðandi helgun eigna sett fram; 40–42, Dramb og iðjuleysi fordæmt; 43–52, Hina sjúku skal lækna með líknarblessun og trú; 53–60, Ritningar stjórna kirkjunni og skulu kynntar heiminum; 61–69, Lega Nýju Jerúsalem og leyndardómar ríkisins mun opinberað; 70–73, Helgaðar eigur skulu notaðar til stuðnings embættismönnum kirkjunnar; 74–93, Lögmál varðandi saurlífi, hórdóm, morð, stuld og játningu synda sett fram.

1 Hlýðið á, ó, þér öldungar kirkju minnar, sem safnast hafið saman í mínu nafni, sjálfs Jesú Krists, sonar hins lifanda Guðs, frelsara heimsins — svo fremi að þér trúið á nafn mitt og haldið boðorð mín.

2 Og enn segi ég yður: Hlýðið á og heyrið og farið eftir því lögmáli, sem ég mun gefa yður.

3 Því að sannlega segi ég, að sem þér hafið safnast saman samkvæmt því boði, er ég gaf yður, og eruð einhuga í þessu og hafið beðið til föðurins í mínu nafni, einmitt svo munuð þér meðtaka.

4 Sjá, sannlega segi ég yður, ég gef yður þau fyrstu fyrirmæli, að þér farið í mínu nafni, sérhver yðar, nema þjónar mínir Joseph Smith yngri og Sidney Rigdon.

5 Og ég gef þeim þau fyrirmæli, að þeir fari skamma hríð, og það mun veitast þeim með krafti andans, hvenær þeir skuli snúa aftur.

6 Og þér skuluð fara í krafti anda míns og boða fagnaðarerindi mitt, tveir og tveir saman, í mínu nafni, og hefja upp rödd yðar sem lúðurhljóm, og boða orð mitt sem englar Guðs.

7 Og þér skuluð fara og skíra með vatni og segja: Iðrist, iðrist, því að himnaríki er í nánd.

8 Og frá þessum stað skuluð þér fara til landsvæðanna í vestri, og ef þér finnið þá, sem vilja taka á móti yður, skuluð þér reisa kirkju mína á hverju svæði —

9 Uns sú stund rennur upp, er það mun opinberað yður frá upphæðum, hvenær undirbúa skuli borg hinnar Nýju Jerúsalem, svo að safna megi yður saman og þér getið orðið minn lýður, og ég mun vera Guð yðar.

10 Og enn segi ég yður, að þjónn minn Edward Partridge skal standa í því embætti, sem ég hef tilnefnt hann í. Og svo ber við, að ef hann gjörist brotlegur, skal annar tilnefndur í hans stað. Já, vissulega. Amen.

11 Enn fremur segi ég yður, að engum skal leyft að fara og prédika fagnaðarerindi mitt eða byggja upp kirkju mína, nema hann sé vígður af þeim, sem vald hefur, og að kirkjunni sé kunnugt um, að hann hafi það vald, og leiðtogar kirkjunnar hafi formlega vígt hann.

12 Og enn fremur skulu öldungar, prestar og kennarar þessarar kirkju kenna grundvallarreglur fagnaðarerindis míns, sem eru í Biblíunni og Mormónsbók, er geyma fyllingu fagnaðarerindisins.

13 Og þeir skulu virða sáttmálana og kirkjureglurnar og fara eftir þeim, og þetta skulu þeir kenna eins og andinn býður þeim

14 Og andinn skal veitast yður með trúarbæn. Og ef þér meðtakið ekki andann, munuð þér ekki kenna.

15 Og gætið þess að gjöra allt þetta og haga kennslu yðar svo sem ég hef boðið, þar til fylling ritninga minna veitist.

16 Og þegar þér hefjið upp raust yðar með huggaranum, munuð þér mæla og spá eins og mér er þóknanlegt —

17 Því að sjá, huggarinn veit alla hluti og ber vitni um föðurinn og soninn.

18 Og sjá, nú tala ég til kirkjunnar. Þú skalt ekki morð fremja. Og sá, sem morð fremur, fær eigi fyrirgefningu í þessum heimi né í komanda heimi.

19 Og enn segi ég, þú skalt ekki morð fremja, en sá, sem morð fremur, skal deyja.

20 Þú skalt ekki stela. Og þeim, sem stelur og ekki vill iðrast, skal vísað burt.

21 Þú skalt ekki ljúga. Þeim, sem lýgur og iðrast ekki, skal vísað burt.

22 Þú skalt elska eiginkonu þína af öllu hjarta þínu og vera bundinn henni og engu öðru.

23 Og sá, sem lítur á konu með girndarhug, mun afneita trúnni og ekki hafa andann. Og iðrist hann ekki skal honum vísað burt.

24 Þú skalt ekki drýgja hór. Og þeim, sem drýgir hór og iðrast ekki, skal vísað burt.

25 En þú skalt fyrirgefa þeim, sem drýgt hefur hór og iðrast af öllu hjarta sínu og lætur af því og endurtekur það ekki —

26 En endurtaki hann það, skal honum ekki fyrirgefið, heldur vísað burt.

27 Þú skalt ekki tala illa um náunga þinn, né valda honum nokkrum skaða.

28 Þér vitið að lögmál mín varðandi þetta eru gefin í ritningum mínum. Þeim, sem syndgar og iðrast ekki, skal vísað burt.

29 Ef þér elskið mig, skuluð þér þjóna mér og halda öll boðorð mín.

30 Og sjá, þér skuluð minnast hinna fátæku og helga þann hluta eigna yðar, sem þér getið af hendi látið, þeim til framfærslu, með órjúfanlegum sáttmála og samningi.

31 Og sem þér gefið af eigum yðar til hinna fátæku, svo er það mér gefið. Og þær skulu lagðar fyrir biskup kirkju minnar og ráðgjafa hans, tvo öldunga eða hápresta, sem hann mun tilnefna eða hefur tilnefnt og sett í embætti í þeim tilgangi.

32 Og svo ber við, að eftir að þær hafa verið lagðar fyrir biskup kirkju minnar og eftir að hann hefur fengið þessa vitnisburði um helgun á eigum kirkjunnar, að þær verða ekki frá henni teknar nema gegn boði mínu, og sérhver maður skal gerður ábyrgur gagnvart mér, ráðsmaður sinna eigin eigna eða þess, sem hann hefur móttekið með helgun, og nægir honum og fjölskyldu hans.

33 Og enn fremur, ef vera skulu meiri eigur í höndum kirkjunnar eða einhverra einstaklinga hennar, eftir þessa fyrstu helgun, en þarf til framfærslu þeirra, skal það sem umfram er helgað biskupi og geymt til hjálpar þeim sem ekkert hafa, á hverjum tíma, svo að hver sá sem þarfnast þess fái nægilegar vistir í samræmi við þarfir sínar.

34 Þess vegna skal það sem umfram er geymt í forðabúri mínu til líknar hinum fátæku og þurfandi samkvæmt tilskipan háráðs kirkjunnar og biskupsins og ráðs hans —

35 Einnig til kaupa á landi til almennra nota kirkjunnar og byggingar guðsþjónustuhúss og til byggingar Nýju Jerúsalem, sem síðar mun opinberuð —

36 Svo að sáttmálsþjóð mín megi safnast saman á þeim degi, þegar ég kem til musteris míns. Og þetta gjöri ég til hjálpræðis fólki mínu.

37 Og svo ber við, að þeim, sem syndgar og iðrast ekki, skal vísað úr kirkjunni, og hann skal ekki fá aftur það sem hann hefur helgað hinum fátæku og þurfandi í kirkju minni, eða með öðrum orðum, helgað mér —

38 Því að það, sem þér gjörið einum hinna minnstu, það gjörið þér mér.

39 Því að svo ber við, að það, sem ég hef talað fyrir munn spámanna minna, mun uppfyllt verða. Því að auðæfi þeirra, sem meðtaka fagnaðarerindi mitt meðal Þjóðanna, mun ég helga hinum fátæku af þjóð minni, sem er af ætt Ísraels.

40 Og enn fremur skuluð þér ekki vera dramblátir í hjarta. Klæði yðar séu látlaus og fegurð þeirra fegurð yðar eigin handaverka —

41 Og gjörið allt í hreinleika frammi fyrir mér.

42 Þér skuluð ekki vera iðjulausir, því að sá, sem er iðjulaus, skal hvorki eta brauð verkamannsins né klæðast fötum hans.

43 Og hver sá, sem sjúkur er meðal yðar og hefur ekki trú til að læknast, en trúir, skal nærður af fullri alúð, með jurtum og mildu fæði, en ekki af hendi óvinar.

44 Og kalla skal til öldunga kirkjunnar, tvo eða fleiri, og þeir skulu biðja fyrir þeim og leggja hendur yfir þá í mínu nafni. Og deyi þeir, munu þeir deyja í mér, og lifi þeir, munu þeir lifa í mér.

45 Þér skuluð búa saman í kærleika, svo að þér grátið missi þeirra er deyja og þá einkum þeirra, sem enga von hafa um dýrðlega upprisu.

46 Og svo ber við, að þeir sem deyja í mér skulu eigi smakka dauðann, því að hann verður þeim ljúfur —

47 En vei sé þeim, sem ekki deyja í mér, því að dauði þeirra er bitur.

48 Og enn fremur ber svo við, að sá, sem hefur trú á mér til að læknast og ekki er útnefndur til að deyja, hann skal heill verða.

49 Sá, sem hefur trú til að sjá, skal sjá.

50 Sá, sem hefur trú til að heyra, skal heyra.

51 Hinn lamaði, sem hefur trú til að hlaupa, skal hlaupa.

52 Og þeir, sem ekki hafa trú til þessara hluta, en trúa á mig, hafa kraft til að verða synir mínir, og ef þeir brjóta ekki lögmál mín, skalt þú umbera veikleika þeirra.

53 Þú skalt standa í stöðu þinni sem ráðsmaður.

54 Þú skalt ekki taka klæði bróður þíns. Þú skalt greiða fyrir það, sem þú færð hjá bróður þínum.

55 Og hljótir þú meira en það sem nægir þér til framfæris, skalt þú gefa það í forðabúr mitt, svo að allt sé gjört samkvæmt því, sem ég hef sagt.

56 Þú skalt spyrja, og ritningar mínar skulu gefnar eins og ég hef útnefnt, og þær skulu tryggilega varðveittar —

57 Og æskilegt er, að þú haldir stillingu þinni varðandi þær og kennir þær ekki fyrr en þú hefur meðtekið þær að fullu.

58 Og ég gef þér boð um að kenna þær þá öllum mönnum, því að þær skulu kenndar öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum.

59 Þú skalt taka það sem þú hefur meðtekið og hefur verið gefið þér í ritningum mínum sem lögmál, og það skal vera lögmál mitt til stjórnunar kirkju minni —

60 Og sá sem fer eftir þessu mun hólpinn, en sá sem ekki fer eftir því mun dæmdur, haldi hann svo áfram.

61 Ef þú munt spyrja, munt þú hljóta opinberun á opinberun ofan, þekking á þekking ofan, svo að þú megir þekkja leyndardómana og hið friðsæla — það, sem færir gleði, það, sem færir eilíft líf.

62 Þú skalt spyrja, og það mun opinberað þér á mínum tíma, hvar hin Nýja Jerúsalem skuli reist.

63 Og sjá, svo ber við, að þjónar mínir skulu sendir til austurs og til vesturs, til norðurs og til suðurs.

64 Og lát jafnvel nú, þann sem fer í austur, segja þeim, sem þar snúast til trúar, að flýja í vestur, og það vegna þess sem koma skal yfir jörðina, og vegna leynisamtaka.

65 Sjá, þú skalt virða allt þetta, og mikil skulu laun þín, því að þér er gefið að þekkja leyndardóma ríkisins, en heiminum er ekki gefið að þekkja þá.

66 Þú skalt virða þau lögmál, sem þú hefur meðtekið, og vera staðfastur.

67 Og þú skalt héðan í frá taka á móti sáttmálum kirkjunnar eins og nægir til að koma þér á fastan grundvöll, bæði hér og í Nýju Jerúsalem.

68 Þess vegna skal sá, sem brestur visku, biðja mig, og ég mun gefa honum örlátlega og átölulaust.

69 Lyftið hjörtum yðar og fagnið, því að yður hefur verið gefið ríkið, eða með öðrum orðum, lyklar kirkjunnar. Já, vissulega. Amen.

70 Prestar og kennarar skulu hafa sína ráðsmennsku, já, eins og meðlimirnir.

71 Og öldungarnir og háprestarnir, sem tilnefndir eru ráðgjafar biskups og honum til aðstoðar í öllum málum, skulu fá framfærslu fjölskyldna sinna af eigum þeim sem helgaðar eru biskupi, til hjálpar hinum fátæku og til annarra mála, eins og áður hefur verið getið —

72 Eða þeir hljóti sanngjarna þóknun fyrir alla þjónustu sína, annaðhvort ráðsmannslaun eða annað, sem ráðgjafar og biskup telja best eða ákveða.

73 Og biskupinn skal einnig hljóta framfærslu sína eða sanngjarna þóknun fyrir alla þjónustu sína í kirkjunni.

74 Sjá, sannlega segi ég yður, að hverjir þeir á meðal yðar, sem hafa sagt skilið við maka sinn vegna saurlifnaðar, eða með öðrum orðum, ef þeir vitna fyrir yður í hjartans lítillæti, að þannig sé málum háttað, þá skuluð þér ekki vísa þeim burt frá yður —

75 En ef þér komist að því, að einhverjir hafi yfirgefið maka sinn vegna hjúskaparbrots, en sjálfir eru þeir sekir og maki þeirra á lífi, þá skal þeim vísað burt frá yður.

76 Og enn segi ég yður, að þér skuluð vera vel á verði og sýna gætni við allar fyrirspurnir, ef þeir eru giftir, svo að þér takið við engum slíkum —

77 En séu þeir ekki giftir, skulu þeir iðrast allra sinna synda, ella takið þér ekki við þeim.

78 Og enn, hver sá, sem tilheyrir þessari kirkju Krists, skal gæta þess að halda öll boðorð og alla sáttmála kirkjunnar.

79 Og svo ber við, að ef einhver yðar á meðal fremur morð, skal hann framseldur og farið með hann í samræmi við lög landsins, og sekt hans skal sönnuð að lögum landsins, því að hafa skal í huga, að hann hlýtur enga fyrirgefningu.

80 Og drýgi einhver maður eða kona hór, skulu tveir öldungar kirkjunnar, eða fleiri, yfirheyra hann eða hana, og hvert orð gegn honum eða henni skal sannað með tveim vitnum kirkjunnar, en ekki óvinar. Og séu vitnin fleiri en tvö, því betra.

81 En hann eða hún skulu borin sökum af munni tveggja vitna, og öldungarnir skulu leggja málið fyrir kirkjuna og kirkjan skal lyfta upp höndum sínum gegn honum eða henni, svo að með þau sé farið samkvæmt lögum Guðs.

82 Og ef unnt er, er nauðsynlegt að biskup sé einnig viðstaddur.

83 Og þannig skuluð þér fara með öll mál, sem fyrir yður koma.

84 Og ef maður eða kona gerast sek um rán, skal hann eða hún framseld lögum landsins.

85 Og steli hann eða hún, skulu þau framseld lögum landsins.

86 Og ljúgi hann eða hún, skulu þau framseld lögum landsins.

87 Og gjörist hann eða hún sek um einhvers konar misgjörðir, skal hann eða hún eftirlátin lögmálinu, já, lögmáli Guðs.

88 Og ef bróðir þinn eða systir misbýður þér, skalt þú taka málið fyrir einslega milli þín og hans eða hennar, og játi hann eða hún, skalt þú sættast.

89 En játi hann eða hún ekki, skalt þú afhenda hann eða hana kirkjunni, ekki meðlimunum heldur öldungunum. Og það skal gjört á fundi, en ekki fyrir umheiminum.

90 Og misbjóði bróðir þinn eða systir mörgum, skal hann eða hún öguð í viðurvist margra.

91 Og misbjóði einhver opinberlega, skal hann eða hún fá átölur opinberlega, svo að hann eða hún megi blygðast sín. Og játi hann eða hún ekki, skal hann eða hún eftirlátin lögmáli Guðs.

92 Og misbjóði einhver í leynum, skal hann eða hún fá átölur í leynum, svo að hann eða hún fái tækifæri til að játa í leynum fyrir honum eða henni, sem hann eða hún hefur misboðið, og fyrir Guði, svo að kirkjan geti ekki talað ásakandi um hann eða hana.

93 Og þannig skuluð þér breyta í öllu.