Ritningar
Kenning og sáttmálar 68


68. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Hiram, Ohio, 1. nóvember 1831, sem svar við þeirri bæn, að vilji Drottins varðandi Orson Hyde, Luke S. Johnson, Lyman E. Johnson og William E. McLellin yrði kunngjörður. Þó að hluta þessarar opinberunar væri beint að þessum fjórum mönnum, þá varðar mikill hluti hennar alla kirkjuna. Undir leiðsögn Josephs Smith var þessi opinberun aukin, þegar hún var birt í útgáfu Kenningar og sáttmála árið 1835.

1–5, Orð öldunganna, sem þeir mæla fyrir áhrif heilags anda, er ritning; 6–12, Öldungarnir munu prédika og skíra, og tákn munu fylgja sönnum trúendum; 13–24, Frumburður meðal sona Arons má þjóna sem yfirbiskup (þ. e. halda forsætislyklum sem biskup) undir stjórn Æðsta forsætisráðsins; 25–28, Foreldrum er boðið að kenna börnum sínum fagnaðarerindið; 29–35, Hinir heilögu skulu virða hvíldardaginn, starfa af kappi og biðja.

1 Þjónn minn Orson Hyde var með vígslu sinni kallaður til að boða hið ævarandi fagnaðarerindi með anda hins lifanda Guðs frá einni þjóð til annarrar, úr einu landi í annað, í söfnuðum hinna ranglátu, í samkomuhúsum þeirra, og rökræða við þá og útskýra ritningarnar fyrir þeim.

2 Og sjá og tak eftir. Þetta er öllum þeim til eftirbreytni, sem vígðir voru til þessa prestdæmis og útnefnt er það ætlunarverk að fara út —

3 Og þetta er þeim til eftirbreytni, að þeir tali eins og heilagur andi hvetur þá til.

4 Og allt sem þeir segja, hvattir af heilögum anda, skal vera ritning, skal vera vilji Drottins, skal vera hugur Drottins, skal vera orð Drottins, skal vera rödd Drottins og kraftur Guðs til sáluhjálpar.

5 Sjá, þetta er fyrirheit Drottins til yðar, ó þér, þjónar mínir.

6 Verið þess vegna vonglaðir og óttist ei, því að ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður. Og þér skuluð vitna um mig, já, Jesú Krist, að ég er sonur hins lifanda Guðs, að ég var, að ég er og að ég kem.

7 Þetta er orð Drottins til þín, þjónn minn Orson Hyde, og einnig til þjóns míns Lukes Johnson og til þjóns míns Lymans Johnson og til þjóns míns Williams E. McLellin og til allra staðfastra öldunga kirkju minnar —

8 Farið um gjörvallan heiminn, prédikið fagnaðarerindið hverri skepnu, starfið með því valdi, sem ég hef veitt yður, skírið í nafni föðurins og sonarins og hins heilaga anda.

9 Og , sem trúir og lætur skírast, mun frelsaður verða, en sá, sem trúir ekki, mun fordæmdur verða.

10 Og sá, sem trúir, skal blessaður með táknum, sem fylgja, já, eins og ritað er.

11 Og yður skal gefið að þekkja tímanna tákn og táknin um komu mannssonarins —

12 Og yður skal gefið vald til að innsigla til eilífs lífs alla þá, sem faðirinn ber vitni um. Amen.

13 En varðandi þau atriði, sem koma skulu til viðbótar sáttmálunum og boðorðunum, þá eru þau þessi —

14 Síðar, þegar Drottni þóknast, munu fleiri biskupar settir í embætti í kirkjunni, til að þjóna á sama hátt og hinn fyrsti —

15 Þess vegna skulu þeir verða háprestar, sem verðugir eru, og æðsta forsætisráð Melkísedeksprestdæmisins skal tilnefna þá, nema þeir séu beinir afkomendur Arons.

16 Og séu þeir beinir afkomendur Arons, eiga þeir lagalegan rétt til biskupsdæmisins, ef þeir eru frumburðir sona Arons —

17 Því að frumburðurinn heldur rétti forsætis yfir þessu prestdæmi og lyklum eða valdi þess.

18 Enginn maður hefur lagalegan rétt til þessa embættis, að halda lyklum þessa prestdæmis, nema hann sé beinn og frumborinn afkomandi Arons.

19 En eins og háprestur Melkísedeksprestdæmisins hefur vald til að starfa í öllum lægri embættunum, svo má hann starfa í embætti biskups, þegar enginn beinn afkomandi Arons finnst, svo fremi, að hann sé kallaður og settur í embætti og vígður þessu valdi af hendi æðsta forsætisráðs Melkísedeksprestdæmisins.

20 Og beinn afkomandi Arons þarf einnig útnefningu þessa forsætisráðs, og verður að reynast verðugur og vera smurður og vígður af hendi þessa forsætisráðs, ella hafa þeir ekki löglegt vald til að starfa í prestdæmi sínu.

21 En samkvæmt eðli ákvæðanna um rétt þeirra til prestdæmisins frá föður til sonar, geta þeir krafist smurningar sinnar af hendi fyrrnefnds forsætisráðs, hvenær sem þeir geta sannað ættlegg sinn eða fullvissa fæst um það með opinberun frá Drottni.

22 Og ennfremur skal enginn biskup eða háprestur, sem settur verður í þá helgu þjónustu, yfirheyrður eða dæmdur fyrir nokkurt afbrot, nema frammi fyrir æðsta forsætisráði kirkjunnar —

23 Og sannist sekt hans fyrir forsætisráðinu með framburði, sem ekki er unnt að hrekja, skal hann dæmdur —

24 En iðrist hann, skal honum fyrirgefið í samræmi við sáttmála og boðorð kirkjunnar.

25 Og enn fremur, að því leyti sem foreldrar, er eiga börn í Síon eða einhverri skipulagðri stiku hennar, kenna þeim ekki, þegar þau eru átta ára að aldri, að skilja kenninguna um iðrun, trú á Krist, son hins lifanda Guðs, og um skírn og gjöf heilags anda með handayfirlagningu, fellur syndin á höfuð foreldranna.

26 Því að þetta skal vera lögmál fyrir íbúa Síonar eða sérhverrar skipulagðrar stiku hennar.

27 Og börn þeirra skulu skírð til fyrirgefningar synda sinna og hljóta handayfirlagningu, þegar þau eru átta ára gömul.

28 Og þeir skulu einnig kenna börnum sínum að biðja og ganga grandvör frammi fyrir Drottni.

29 Og íbúar Síonar skulu einnig virða hvíldardaginn og halda hann heilagan.

30 Og íbúar Síonar skulu af einlægri trúfestu einnig vera minnugir starfa sinna, hafi þeim verið falin þau, því að iðjuleysingjans skal minnst frammi fyrir Drottni.

31 Nú er ég, Drottinn, ekki vel ánægður með íbúa Síonar, því að iðjuleysingjar eru meðal þeirra, og börn þeirra vaxa einnig upp í ranglæti. Þeir leita heldur ekki af einlægni auðæfa eilífðarinnar, heldur eru augu þeirra full af ágirnd.

32 Þannig á þetta ekki að vera og verður að útrýma því frá þeim. Þess vegna skal þjónn minn, Oliver Cowdery, bera þessi orð til Síonarlands.

33 Og boðorð gef ég þeim — að sá, sem rækir ekki bænir sínar til Drottins á hverjum tíma, hans skal minnst frammi fyrir dómara fólks míns.

34 Þessi orð eru sönn og traust. Brjótið þess vegna hvorki gegn þeim né rýrið þau.

35 Sjá, ég er Alfa og Ómega, og ég kem skjótt. Amen.