Ritningar
Kenning og sáttmálar 38


38. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Fayette, New York, 2. janúar 1831. Tilefnið var ráðstefna kirkjunnar.

1–6, Kristur skapaði alla hluti; 7–8, Hann er mitt á meðal sinna heilögu, sem munu brátt sjá hann; 9–12, Allt hold er spillt frammi fyrir honum; 13–22, Hann hefur geymt sínum heilögu land fyrirheitsins um tíma og eilífð; 23–27, Hinum heilögu boðið að vera eitt og meta hver annan sem bróður; 28–29, Sagt fyrir um styrjaldir; 30–33, Hinum heilögu skal gefinn kraftur frá upphæðum og þeir fara út meðal allra þjóða; 34–42, Kirkjunni er boðið að annast hina fátæku og þurfandi og leita auðæfa eilífðarinnar.

1 Svo segir Drottinn Guð yðar, sjálfur Jesús Kristur, hinn mikli Ég Er, Alfa og Ómega, upphafið og endirinn, sá hinn sami, er leit yfir hina miklu víðáttu eilífðarinnar og allar serafsveitir himins, áður en heimurinn var gjörður —

2 Sá hinn sami, er veit alla hluti, því að allt er fyrir augum mínum —

3 Ég er hinn sami, sem talaði og heimurinn varð til, og fyrir minn tilverknað urðu allir hlutir til.

4 Ég er hinn sami, sem tók Síon Enoks að mínu eigin brjósti, og sannlega segi ég, jafnvel alla þá, sem trúað hafa á nafn mitt, því að ég er Kristur, og í eigin nafni, í krafti þess blóðs, sem ég hef úthellt, hef ég ákallað föðurinn þeirra vegna.

5 En sjá, öðrum ranglátum hef ég haldið í fjötrum myrkursins fram á hinn mikla dómsdag, sem koma mun við endalok jarðar —

6 Og þannig mun ég láta halda hinum ranglátu, sem ekki vilja heyra rödd mína, heldur herða hjörtu sín. Og vei, vei, vei er dómur þeirra.

7 En sjá, sannlega, sannlega segi ég yður, að augu mín hvíla á yður. Ég er mitt á meðal yðar, en þér fáið eigi séð mig —

8 En sá dagur kemur brátt, er þér munuð sjá mig og vita að ég er, því að hulu myrkursins mun brátt svipt frá, og sá sem ekki er hreinn fær eigi staðist þann dag.

9 Girðið þess vegna lendar yðar og verið viðbúnir. Sjá, ríkið er yðar og óvinurinn mun ekki sigra.

10 Sannlega segi ég yður, þér eruð hreinir, þó ekki allir, en enga aðra er ég vel ánægður með —

11 Því að allt hold er spillt frammi fyrir mér, og myrkraöflin ríkja á jörðunni á meðal mannanna barna í návist allra herskara himins —

12 Sem veldur því, að þögn ríkir og öll eilífðin þjáist, og englarnir bíða hins mikla boðs um að uppskera jörðina, að safna saman illgresinu, svo að hægt sé að brenna það, og sjá, óvinirnir hafa sameinast.

13 Og nú sýni ég yður leyndardóm, það sem geymt er í leynum og mun, er tímar líða, valda tortímingu yðar, og þér vissuð það ekki —

14 En nú segi ég yður það og þér eruð blessaðir. Ekki vegna misgjörða yðar, né vantrúar, því að sannlega eru nokkrir yðar sekir fyrir mér, en ég mun vera miskunnsamur gagnvart breyskleika yðar.

15 Verið því styrkir héðan af, óttist ei, því að ríkið er yðar.

16 Og yður til sáluhjálpar gef ég yður boðorð, því að ég hef heyrt bænir yðar og hinir fátæku hafa kvartað fyrir mér. Og hina ríku hef ég skapað, og allt hold er mitt, og ég fer ekki í manngreinarálit.

17 Og ég hef gjört jörðina auðuga, og sjá hún er fótskör mín. Þess vegna mun ég aftur standa á henni.

18 Og af lítillæti geymi ég yður enn meira ríkidæmi, já, fyrirheitna landið, land sem flýtur í mjólk og hunangi, og á því mun engin bölvun hvíla þegar Drottinn kemur —

19 Og ég mun gefa yður það til arfleifðar, ef þér leitið þess af öllu hjarta.

20 Og þetta skal vera sáttmáli minn við yður, þér skuluð hljóta það sem erfðaland og arfleifð barna yðar að eilífu, meðan jörðin stendur. Og þér skuluð eignast það aftur í eilífðinni, og það skal aldrei framar undir lok líða.

21 En sannlega segi ég yður, að sá tími kemur, er þér munuð engan konung hafa né stjórnanda, því að ég mun verða konungur yðar og vaka yfir yður.

22 Heyrið þess vegna rödd mína og fylgið mér og þér munuð verða frjáls þjóð og þér skuluð engin lög hafa önnur en mín lög þegar ég kem, því að ég er löggjafi yðar, og hvað fær stöðvað hönd mína?

23 En sannlega segi ég yður: Kennið hver öðrum í samræmi við það embætti, sem ég hef útnefnt yður —

24 Og látið sérhvern mann meta bróður sinn sem sjálfan sig og iðka dyggðir og heilagleika frammi fyrir mér.

25 Og enn segi ég yður: Látið sérhvern mann meta bróður sinn sem sjálfan sig.

26 Því að hvaða maður meðal yðar, sem á tólf sonu og gjörir engan greinarmun á þeim og þeir þjóna honum af hlýðni, mundi segja við einn: Klæð þig í skikkju og sit hér. Og við annan: Klæð þig í tötra og sit þar — og líta á syni sína og segja: Ég er réttvís?

27 Sjá, þetta hef ég gefið yður sem dæmisögu, og þetta er einmitt eins og ég er. Ég segi yður: Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.

28 Og enn segi ég yður, að óvinurinn í leynum sækist eftir lífi yðar.

29 Þér spyrjið hernað í fjarlægum löndum, og þér segið að senn verði miklar styrjaldir í fjarlægum löndum, en þér þekkið ekki hjörtu manna í yðar eigin landi.

30 Ég segi yður þetta vegna bæna yðar. Safnið þess vegna vísdómi í brjóst yðar, svo að ranglátir menn opinberi yður þetta ekki með ranglæti sínu, þannig að það hljómi hærra í eyrum yðar en sú rödd, sem skekja mun jörðina. En séuð þér viðbúnir þurfið þér ekki að óttast.

31 Og svo að þér megið komast undan valdi óvinarins og safnast til mín sem réttlátt fólk, flekklaust og vammlaust —

32 Gaf ég yður þess vegna fyrirmæli um að fara til Ohio. Og þar mun ég gefa yður lögmál mitt og þar mun yður veitast kraftur frá upphæðum —

33 Og þaðan skal hver sem ég óska fara út á meðal allra þjóða, og þeim mun sagt hvað gjöra skal. Því ég hef mikið verk sem bíður, því að Ísrael skal hólpinn verða, og ég mun leiða þá hvert sem ég vil, og ekkert afl fær stöðvað hönd mína.

34 Og nú gef ég kirkjunni í þessum landshluta þau fyrirmæli, að ákveðnir menn meðal þeirra verði tilnefndir og þeir skulu tilnefndir með rödd kirkjunnar —

35 Og þeir skulu líta til hinna fátæku og þurfandi og veita þeim líkn, svo að þeir líði ekki. Og sendið þá til þess staðar, sem ég hef boðið þeim —

36 Og það skal vera starf þeirra að stjórna málum varðandi eignir þessarar kirkju.

37 Og þeir sem eiga jarðir, sem ekki er unnt að selja, skulu yfirgefa þær eða leigja eftir því sem best hentar.

38 Sjáið um að allt sé varðveitt. Og þegar mönnum veitist kraftur frá upphæðum og þeir eru sendir út, skal öllu þessu safnað saman í faðm kirkjunnar.

39 Og ef þér leitið þess ríkidæmis, sem faðirinn vill gefa yður, skuluð þér verða ríkastir allra, því að þér skuluð eiga auðæfi eilífðarinnar, og það hlýtur að vera mitt að veita auðæfi jarðarinnar. En verið á verði gegn ofurdrambi, svo að þér verðið ekki eins og Nefítar til forna.

40 Og enn segi ég yður: Ég gef yður boð um að sérhver maður, bæði öldungur, prestur og kennari, og einnig meðlimur, vinni að því af öllum mætti sínum, með erfiði handa sinna, að undirbúa og ljúka því sem ég hef boðið.

41 Og látið prédikun yðar hljóma sem aðvörunarrödd. Sérhver maður aðvari náunga sinn, af mildi og hógværð.

42 Og farið frá hinum ranglátu. Bjargið sjálfum yður. Verið þér hreinir, sem berið ker Drottins. Já, vissulega. Amen.