Ritningar
Kenning og sáttmálar 90


90. Kafli

Opinberun til spámannsins Josephs Smith, gefin í Kirtland, Ohio, 8. mars 1833. Opinberunin er í framhaldi af stofnun Æðsta forsætisráðsins (sjá formála að kafla 81), og þar af leiðandi voru nefndir ráðgjafar vígðir 18. mars 1833.

1–5, Lyklar ríkisins eru afhentir Joseph Smith og kirkjunni með honum; 6–7, Sidney Rigdon og Frederick G. Williams skulu þjóna í Æðsta forsætisráðinu; 8–11, Fagnaðarerindið skal prédikað fyrir þjóðum Ísraels, Þjóðunum, og Gyðingunum, hver maður heyri það á sinni eigin tungu; 12–18, Joseph Smith og ráðgjafar hans komi reglu á kirkjuna; 19–37, Drottinn ráðleggur ýmsum einstaklingum að ganga grandvarir og þjóna í ríki hans.

1 Svo segir Drottinn: Sannlega, sannlega segi ég þér sonur minn, syndir þínar eru þér fyrirgefnar, samkvæmt heitum bænum þínum, því að bænir þínar og bænir bræðra þinna hafa borist eyrum mínum.

2 Blessaður ert þú því framvegis, þú, sem fengið hefur lykla ríkisins afhenta, þess ríkis, sem fram gengur í síðasta sinn.

3 Sannlega segi ég þér, að lyklar þessa ríkis skulu aldrei frá þér teknir, hvorki meðan þú dvelst í heiminum né í komanda heimi —

4 Með þér munu hin lifandi orð þó gefin öðrum, já, einmitt kirkjunni.

5 Og allir þeir, sem meðtaka hin lifandi orð Guðs, skulu gæta þess að fara ekki léttúðlega með þau, svo að þeir komist ekki þannig undir fordæmingu og hrasi og falli, þegar stormar geisa og vindar blása og regnið fellur og bylur á húsi þeirra.

6 Og enn, sannlega segi ég við bræður þína, Sidney Rigdon og Frederick G. Williams, að syndir þeirra eru þeim einnig fyrirgefnar og þeir teljast halda lyklum þessa síðasta ríkis til jafns við þig —

7 Og fyrir þinn tilverknað einnig lyklunum að skóla spámannanna, sem ég hef boðið að stofnaður verði —

8 Og á þann veg megi þeir fullkomnast í helgri þjónustu sinni til sáluhjálpar Síon, Ísraelsþjóðum, og Þjóðunum, öllum sem trúa vilja —

9 Að fyrir þinn tilverknað fái þeir meðtekið orðið og fyrir þeirra tilverknað berist orðið til endimarka jarðarinnar, fyrst til Þjóðanna og síðan, sjá og tak eftir, snúi þeir sér til Gyðinganna.

10 Og þá rennur upp sá dagur, er armur Drottins mun opinberast í veldi og sannfæra þjóðirnar, hinar heiðnu þjóðir, hús Jósefs, um fagnaðarerindi sáluhjálpar þeirra.

11 Því að svo ber við þann dag, að sérhver maður mun heyra fyllingu fagnaðarerindisins á sinni eigin tungu og á sínu eigin máli, frá þeim sem vígðir eru þessu valdi, fyrir tilverknað huggarans, sem úthellt mun yfir þá til opinberunar á Jesú Kristi.

12 Og sannlega segi ég þér nú: Ég býð þér að halda áfram í helgri þjónustu þinni og forsætisráði.

13 Og eftir að þú hefur lokið þýðingunni á spámönnunum skalt þú þaðan í frá hafa forsæti í málum kirkjunnar og skólans —

14 Og smátt og smátt meðtaka opinberanir, sem afhjúpa leyndardóma ríkisins, eins og huggarinn birtir þér þær —

15 Og koma reglu á söfnuðina og nema og læra og kynnast öllum góðum bókum, málum, tungum og lýðum.

16 Og þetta skal vera starf ykkar og ætlunarverk í öllu lífi ykkar, að vera í forsæti í ráðum og koma reglu á öll mál þessarar kirkju og ríkis.

17 Verið ei til skammar eða háðungar, heldur varist ofmetnað ykkar og dramb, því að það leggur snöru fyrir sálir ykkar.

18 Komið reglu á hús ykkar, haldið hyskni og óhreinleika fjarri ykkur.

19 Sannlega segi ég þér nú, sjá þú fjölskyldu ráðgjafa þíns og ritara, já, Fredericks G. Williams, fyrir íverustað, eins fljótt og unnt er.

20 Og lát hinn aldna þjón minn, Joseph Smith eldri, dvelja áfram ásamt fjölskyldu sinni á þeim stað, þar sem hann nú býr; og lát ekki selja hann, fyrr en munnur Drottins segir.

21 Og lát ráðgjafa minn, já, Sidney Rigdon, halda kyrru fyrir þar sem hann nú dvelst, þar til munnur Drottins segir annað.

22 Og lát biskupinn af kostgæfni leita sér að erindreka, og lát það vera mann, sem er birgur af auði — sterktrúaðan Guðsmann.

23 Svo að hann sé þannig fær um að greiða hverja skuld, og forðabúr Drottins vanvirðist eigi í augum fólksins.

24 Leitið af kostgæfni, biðjið ávallt og trúið, og allt mun vinna saman að velfarnaði yðar, ef þér gangið grandvarir og hafið þann sáttmála í huga, sem þér hafið gjört hver við annan.

25 Hafið ekki fjölda heimilisfólks, og er þar átt við þá, sem ekki tilheyra fjölskyldum ykkar, sérsaklega gildir þetta um hinn aldraða þjón minn, Joseph Smith eldri —

26 Svo að það, sem ykkur er léð til að koma verki mínu til leiðar, verði ekki frá ykkur tekið og gefið þeim, sem ekki eru verðugir —

27 Og þið séuð þannig hindraðir í að gjöra það, sem ég hef boðið.

28 Og enn, sannlega segi ég ykkur: Það er vilji minn að ambátt mín Vienna Jaques fái fé fyrir útgjöldum sínum og fari til Síonarlands —

29 En annað fé verði mér helgað, og mun henni launað þegar mér hentar.

30 Sannlega segi ég ykkur, að í mínum augum er rétt að hún fari til Síonarlands og fái arfshluta hjá biskupi —

31 Svo að hún geti komið sér fyrir í friði, í samræmi við trú sína og iðjusemi þaðan í frá.

32 Og sjá, sannlega segi ég ykkur, að þið skuluð skrá þessi fyrirmæli og segja bræðrum ykkar í Síon, með kærri kveðju, að ég hafi einnig kallað ykkur til að vera í forsæti yfir Síon á mínum tíma.

33 Lát þá þess vegna hætta að ónáða mig varðandi þetta mál.

34 Sjá, ég segi þér, að bræður þínir í Síon eru teknir að iðrast, og englarnir fagna yfir þeim.

35 Engu að síður er margt, sem ég er ekki vel ánægður með. Ég er ekki vel ánægður með þjón minn William E. McLellin, né þjón minn Sidney Gilbert. Eins hafa biskupinn og aðrir margs að iðrast.

36 En sannlega segi ég yður, að ég, Drottinn, mun stríða við Síon og höfða til hinna sterku og aga hana, þar til hún sigrar og stendur hrein frammi fyrir mér.

37 Því að hún skal ekki flutt úr sínum stað. Ég, Drottinn, hef talað það. Amen.