Aðalráðstefna
Nafn kirkjunnar er ekki umsemjanlegt
Aðalráðstefna október 2021


Nafn kirkjunnar er ekki umsemjanlegt

Þegar við fylgjum fús leiðsögn Drottins eins og opinberast með lifandi spámanni hans, sérstaklega ef hún er í mótsögn við upphaflegar hugsanir okkar og þarfnast auðmýktar og fórnar, mun Drottinn blessa okkur með auknum andlegum krafti.

Á blaðamannafundi 16. ágúst 2018, sagði Russell M. Nelson forseti: „Drottinn hefur vakið upp í huga minn mikilvægi þess nafns sem hann hefur opinberað fyrir kirkjuna sína, já, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. 1 Okkar bíður það verk að laga okkur að vilja hans.“ 2

Tveimur dögum síðar, þann 18. ágúst, var ég með Nelson forseta í Montreal, Kanada. Í kjölfar samkomu meðlima okkar í hinu tilkomumikla Palais de Congrés, svaraði Nelson forseti spurningum fréttamanna. Hann gekkst við því að það yrði „áskorun að [endurheimta nafn kirkjunnar og] snúa við hefð sem var yfir hundrað ára gömul.“ Hann bætti þó við: „Nafn kirkjunnar er ekki umsemjanlegt.“ 3

Nelson forseti talaði á aðalráðstefnu sjö vikum síðar: „Drottinn hafði vakið upp í hug minn mikilvægi þess nafns sem hann hefur opinberað fyrir kirkjuna sína, já, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. … Það var frelsarinn sjálfur sem sagði: ‚Því að svo mun kirkja mín nefnd á síðustu dögum.‘“ Nelson forseti bætti þó við: „Nafn kirkjunnar er því ekki umsemjanlegt.“ 4

Góð spurning

Góðri spurningu var varpað fram: Af hverju núna, þegar við höfðum í áraraðir samþykkt gælunafnið „mormóni“? „The Mormon Tabernacle Choir [Laufskálakór mormóna],“ myndböndin „I‘m a Mormon [Ég er mormóni],“ Barnasöngurinn „I Am a Mormon Boy [Ég er mormónastrákur]“?

Kenning Krists er óbreytanleg og ævarandi. Þrátt fyrir það eru tiltekin og mikilvæg skref í verki frelsarans opinberuð á viðeigandi tíma. Í morgun sagði Nelson forseti: „Endurreisnin er ferli, ekki atburður.“ 5 Drottinn hefur sagt: „Allt verður að gerast á sínum tíma.“ 6 Nú er okkar tími og við erum að endurheimta hið opinberaða nafn kirkjunnar.

Auðkenni og hlutskipti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu felur í sér að við séum kölluð hans nafni. Ég var nýlega í Kirtland, Ohio, þar sem spámaðurinn Joseph Smith, ásamt nokkrum meðlimum kirkjunnar, spáði: „Kirkjan mun fylla Norður- og Suður-Ameríku – hún mun fylla alla jörðina.“ 7 Drottinn lýsti verki þessa ráðstöfunartíma sem „[dásemdarverki og undri].“ 8 Hann talaði um „[sáttmála], sem fullnægt skyldi á síðari dögum“ og fæli í sér að „[allir] … á jörðunni [myndu] blessun hljóta.“ 9

Orð þessarar ráðstefnu eru þýdd á rauntíma yfir á 55 tungumál. Þau orð verða að lokum heyrð og lesin á 98 tungumálum í yfir 220 löndum og svæðum.

Ljósmynd
Síðari koman

Þegar frelsarinn snýr aftur í veldi og dýrð, munu trúfastir meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu vera meðal allra þjóða, lýða, kynþátta og menningarheima heimsins.

Vaxandi áhrif kirkjunnar

Áhrif hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists munu ekki einungis ná til meðlima kirkjunnar. Vegna himneskrar staðfestingar á okkar tíma, vegna hinnar helgu ritningar sem endurreist var á jörðu og máttugrar gjafar heilags anda, verðum við skínandi ljós á hæðinni þegar myrkir skuggar vantrúar á Jesú Krist breiðast yfir heiminn. Þótt margir láti heiminn skyggja á trú sína á lausnarann, verður okkur „ekki haggað úr stað.“ 10 Kristið fólk, sem ekki tilheyrir kirkjunni, mun fagna hlutverki okkar og öruggum vitnisburði um Krist. Hinir kristnu, sem hafa haft efasemdir um okkur, munu jafnvel verða okkur vinveittir. Á þeim komandi dögum verðum við kölluð nafni Jesú Krists.

Takk fyrir göfugt framtak ykkar við að efla hið rétta nafn kirkjunnar. Á ráðstefnunni fyrir þremur árum lofaði Nelson forseti „að þessi stranga áhersla á að nota rétt nafn kirkju frelsarans … [myndi færa okkur aukna trú] og tengingu við enn sterkari andlegan kraft.“ 11

Þetta loforð hefur orðið að veruleika hjá dyggum lærisveinum um víða veröld. 12

Bróðir Lauri Ahola, frá austurhluta Bandaríkjanna, viðurkennir að honum finnst stundum óþægilegt að miðla fullu nafni kirkjunnar. Vegna leiðsagnar spámannsins, þá hélt hann ótrauður áfram. Í eitt skipti var hann í heimsókn hjá vini í annarri kirkju. Þetta eru orð hans:

Kunningi spurði mig: „Ert þú mormóni?“

„‚Já,‘ sagði ég, ‚ég er meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.‘ Hann spurði mig nokkurra spurninga, sem hver hófst á: ‚Trúir mormónakirkjan að …?‘ Í hvert sinn svaraði ég með orðtakinu: ‚Í hinni endurreistu kirkju Krists, trúum við að …‘

Þegar honum varð ljóst að ég brást ekki við hugtakinu ‚mormónar,‘ spurði hann blátt áfram: ‚Ertu ekki mormóni?‘

Ég spurði hann að því hvort hann vissi hver Mormón væri – sem hann ekki gerði. Ég sagði honum að Mormón hefði verið spámaður … [og að það væri mér] heiður að vera bendlaður við [hann].

Ég sagði þó enn fremur: ‚Mormón dó ekki fyrir syndir mínar. Mormón … þjáðist [ekki] í Getsemane eða dó á krossinum [fyrir mig]. … Jesús Kristur er Guð minn og frelsari. … Ég vona að ég verði auðkenndur hans nafni. …‘

… Eftir nokkurra mínútna þögn, [spurði kunninginn]: ‚Þú er þá kristinn?‘“ 13

Ljósmynd
Nelson forseti á aðalráðstefnu

Munið þið eftir orðum Nelsons forseta? „Ég lofa ykkur, að ef þið gerið ykkar besta til að endurheimta hið rétta nafn kirkju Drottins, mun sá er kirkjan tilheyrir úthella yfir höfuð hinna Síðari daga heilögu krafti sínum og blessunum, aldrei sem áður.“ 14

Drottinn sér okkur alltaf fyrir leið

Drottinn heldur alltaf loforð sín. Hann sér okkur fyrir leið þegar við vinnum hans verk.

Í mörg ár höfðum við vonast til að festa kaup á lénunum ChurchofJesusChrist.org og ChurchofJesusChrist.com. Hvorugt var til sölu. Um það leiti sem tilkynning Nelsons forseta átti að vera gerð opinber, voru þau bæði skyndilega laus. Þetta var kraftaverk. 15

Drottinn hefur eflt framlag okkar til að endurskoða nöfn sem lengi hafa tengst kirkjunni.

Með áframhaldandi trú, var nafninu á Mormon Tabernacle Choir [Laufskálakór mormóna] breytt í The Tabernacle Choir at Temple Square [Laufskálakórinn á Musteristorgi]. Vefsíðunni LDS.org, sem var skoðuð yfir 21 milljón sinnum á mánuði, var breytt í ChurchofJesusChrist.org. 16 Nafni LDS Business College [viðskiptaháskóla SDH] var breytt í Ensign College [Ensign-háskóli]. Vefsíðunni Mormon.org var beint inn á lénið ChurchofJesusChrist.org. Yfir eitt þúsund vörumerki með nöfnum sem innihéldu „mormóni“ eða „LDS [SDH]“ hafa fengið nýtt nafn. Trúfastir Síðari daga heilagir hafa breytt vefsíðum sínum, hlaðvörpum og Twitter aðgöngum.

Ljósmynd
Nýtt auðkennistákn kirkjunnar

Við innleiddum nýtt auðkennistákn með Jesú Krist sem þungamiðju.

„Í miðju táknsins er mynd af marmarastyttu Thorvaldsens, Kristur. Hún sýnir Drottin upprisinn, lifandi, með útrétta arma fyrir alla sem vilja koma til hans.

Táknrænt er að Jesús Kristur stendur undir boga. Boginn minnir okkur á að hinn upprisni frelsari steig úr gröfinni.“ 17

Ljósmynd
Nafn kirkjunnar á ýmsum tungumálum
Ljósmynd
Nafn kirkjunnar á fleiri tungumálum

Auðkenni Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur verið lagað að meira en 50 tungumálum. Ný lén hafa verið fengin um allan heim.

Þakklæti fyrir liðsinni annarra

Við erum þakklátir fyrir það góða og vingjarnlega fólk sem hefur virt þrá okkar til að vera kölluð réttu nafni. Ég las nýlega grein sem vitnaði í kaþólskan kardinála vísa til „hinna Síðari daga heilögu.“ 18 Þegar ég hitti leiðtoga kristinnar kirkju fyrir einum mánuði í austurhluta Bandaríkjanna, vísaði hann fyrst til kirkjunnar með fullu nafni, síðan með „kirkja Jesú Krists“ oftar en einu sinni.

Við skildum að það væri ekki ákjósanlegt fyrir fjölmiðla að bæta sex orðum við nafnið, en eins og Nelson sagði fyrir, þá „[munu] ábyrgir fjölmiðlar … sýna hluttekningu og bregðast við beiðni okkar.“ 19 Takk fyrir að taka sama tillit til okkar og menntastofnana, íþróttafélaga, stjórnmálahreyfinga eða félagasamtaka, með því að nota það nafn sem við kjósum.

Einhverjir munu vonast til þess að skaða eða draga úr alvarleika trúboðs okkar, með því að kalla okkur áfram „mormóna“ eða „mormónakirkjuna.“ Við biðjum kurteisislega um að þeir sem eru óhlutdrægir í fjölmiðlum virði þrá okkar til að vera kölluð með næstum tvö hundruð ára gömlu nafni okkar.

Hugrekki Síðari daga heilagra

Mörg þúsundir Síðari daga heilagra hafa með hugrekki kunngert nafn kirkjunnar. Þegar við gerum okkar hlut, munu aðrir fylgja á eftir. Ég elska þessa sögu frá Tahítí.

Hin tíu ára Iriura Jean ákvað að fylgja leiðsögn Nelsons forseta.

„Í bekknum hennar í skólanum, ræddu þau hvað þau höfðu gert um helgina … og Iriura talaði um … kirkjuna.

Kennari hennar, Vaite Pifao, spurði: ‚Ó, svo þú ert mormóni?‘

Iriura sagði djarflega: ‚Nei, … ég er meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu!‘

Kennari hennar svaraði: ‚Já, … þú ert mormóni.‘

Iriura hélt ákveðin áfram: ‚Nei, kennari, ég er meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu!‘

Frú Pifao var furðu lostin yfir sannfæringu Iriuru og velti fyrir sér hvers vegna hún væri svo ákveðin í að nota [hið] langa nafn kirkju sinnar. [Hún ákvað að læra meira um kirkjuna.]

[Síðar, þegar systir] Vaite Pifao var skírð, [tjáði hún þakklæti sitt] fyrir að Iriura hafi fylgt leiðsögn Nelsons forseta.“ 20

Ljósmynd
Systir sem kynntist kirkjunni vegna nemanda síns

„Nafn kirkjunnar er ekki umsemjanlegt.“ Við skulum sækja fram í trú. Þegar við fylgjum fús leiðsögn Drottins eins og opinberast með lifandi spámanni hans, sérstaklega ef hún er í mótsögn við upphaflegar hugsanir okkar og þarfnast auðmýktar og fórnar, mun Drottinn blessa okkur með auknum andlegum krafti og senda engla sína til að styðja okkur og vaka yfir okkur. 21 Við hljótum staðfestingu og samþykki Drottins.

Ég er sjónarvottur að þeim krafti himins sem hvílir yfir okkar ástkæra spámanni, Russell M. Nelson forseta. Ósvikin þrá hans er að þóknast Drottni og blessa börn himnesks föður okkar. Vegna helgrar, persónulegar upplifunar, vitna ég um elsku Drottins til hans. Hann er spámaður Guðs.

Ég ber vitni um að Jesús er Kristur, sonur Guðs. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá 3. Nefí 27:7–9; Kenning og sáttmálar 115:4.

  2. Russell M. Nelson, í „President Nelson Discusses the Name of the Church,“ Newsroom, 21. ágúst 2018, newsroom.ChurchofJesusChrist.org.

  3. President Nelson Discusses the Name of the Church,“ Newsroom, 21. ágúst 2018, newsroom.ChurchofJesusChrist.org.

  4. Russell M. Nelson, „Hið rétta nafn kirkjunnar,“ aðalráðstefna, október 2018.

  5. Russell M. Nelson, „Musterið og ykkar andlega undirstaða,“ aðalráðstefna, október 2021.

  6. Kenning og sáttmálar 64:32.

  7. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 135.

  8. 2. Nefí 27:26.

  9. 1. Nefí 15:18.

  10. Kenning og sáttmálar 101:17.

  11. Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, október 2018.

  12. Sjá Henry B. Eyring, „Svo mun kirkja mín nefnd,“ Líahóna, september/október 2021.

  13. Lauri Ahola, „Að nota fullt nafn kirkjunnar, var óþægilegt en þess virði“ (greinin er aðeins til á rafrænu formi), Líahóna, apríl 2020, KirkjaJesuKrists.org.

  14. Sjá Russell M. Nelson, „Hið rétta nafn kirkjunnar.“

  15. Hugverkaréttindaskrifstofa kirkjunnar hafði vaktað lénið ChurchofJesusChrist.org síðan 2006 og það hafði aldrei verið laust. Það var merkilegt að það var boðið til sölu um svipað leiti og Nelson forseti gaf út tilkynningu sína og kirkjan keypti lénið í fyrir litla upphæð.

    Á sama hátt hafði kirkjan byrjað að vakta stöðuna á og aðgengi að léninu ChurchofJesusChrist.com síðan 2011. Það varð óvænt líka laust í ágúst 2018 og var einnig keypt.

  16. Á aðalráðstefnu í október 2018 sagði Nelson forseti:

    „Bræður og systur, það eru mörg gild veraldleg rök gegn því að endurheimta hið rétta nafn kirkjunnar. Gagnrýnendur segja, að vegna hins starfræna heims sem við búum í og hámörkunar leitarvéla, sem gera okkur kleift að finna upplýsingar næstum samstundis – og þar með talið upplýsingar um kirkju Drottins – að slík leiðrétting sé ekki skynsamleg á þessu stigi. …

    Ég lofa ykkur, að ef þið gerið ykkar besta til að endurheimta hið rétta nafn kirkju Drottins, mun sá er kirkjan tilheyrir úthella yfir höfuð hinna Síðari daga heilögu krafti sínum og blessunum, aldrei sem áður“ („Hið rétta nafn kirkjunnar“).

    Síðan breytingin úr LDS.org í ChurchofJesusChrist.org tók gildi, er styrkur lénsins (geta og styrkur síðu til að birtast ofarlega í leitarvélum) meiri en áður. Sem dæmi, þá er vefsíðan ChurchofJesusChrist.org fyrsta leitarniðurstaða í Google í Bandaríkjunum þegar einhver leitar að hugtakinu „kirkja“ og hefur verið það í yfir ár, en áður var það ekki svo.

  17. Russell M. Nelson forseti, „Ljúka upp himnunum til liðsinnis,“ aðalráðstefna, apríl 2020.

  18. Sjá Tad Walch, „‚If We Can’t Get Along, It’s Downright Sinful‘: The Partnership between Catholics and Latter-day Saints,“ Deseret News, 1. júlí 2021, deseret.com.

  19. Sjá Russell M. Nelson, „Hið rétta nafn kirkjunnar.“

  20. The Correct Name of The Church: A Tahitian Story,“ Pacific Newsroom, 15. september 2019, news-nz.ChurchofJesusChrist.org.

  21. Sjá Kenning og sáttmálar 84:88.