Aðalráðstefna
Helgum okkur Drottni
Aðalráðstefna október 2021


Helgum okkur Drottni

Fórn snýst minna um að „láta af einhverju“ og frekar um að „færa“ Drottni nokkuð.

Á síðasta ári, þegar ég þjónaði í svæðisforsætisráði Norður-Asíu, fékk ég símtal frá Russell M. Nelson forseta þar sem hann bauð mér að þjóna sem annar ráðgjafi í Yfirbiskupsráðinu. Hann bauð Lori, eiginkonu minni, vinsamlega að taka þátt í samtalinu. Eftir símtalið trúðum við enn ekki hvað hafði gerst, þegar konan mín spurði: „Hvað gerir Yfirbiskupsráðið eiginlega?“ Eftir að íhuga það í augnablik, svaraði ég: „Ég veit það ekki nákvæmlega!“

Ári síðar – og eftir að hafa fundið innilega til auðmýktar og þakklætis – get ég svarað eiginkonu minni með meiri skilningi. Meðal annars, sér Yfirbiskupsráðið um velferðar- og hjálparstarf kirkjunnar. Þetta verk fer nú fram um alla jörðina og blessar fleiri börn Guðs en nokkru sinni fyrr.

Sem Yfirbiskupsráð, fáum við aðstoð frá dásamlegu starfsfólki kirkjunnar og annarra, þar á meðal aðalforsætisráði Líknarfélagsins, sem þjónar með okkur í framkvæmdastjórn velferðar- og sjálfsbjargarstarfi kirkjunnar. Sem meðlimir þessarar stjórnar, fengum við beiðni frá Æðsta forsætisráðinu – ásamt systur Sharon Eubank, sem talaði til okkar í gærkvöldi – að veita ykkur nýlegar upplýsingar um hjálparstarf kirkjunnar. Þeir báðu okkur sérstaklega að koma á framfæri djúpstæðu þakklæti sínu – vegna þess að það eruð þið, bræður og systur, sem hafið gert hjálparstarfið mögulegt.

Ljósmynd
Framlög til hjálparstarfsins
Ljósmynd
Viðbótarframlög til hjálparstarfsins

Þegar við fylgdumst áhyggjufullir með snemmbúnum efnahagsafleiðingum Kóvid-19 um allan heim, hefðum við auðveldlega getað búist við lækkun á því peningaframlagi sem hinir heilögu gátu látið af hendi rakna. Meðlimir okkar voru þrátt fyrir allt ekki undanþegnir áföllum faraldursins. Hugsið ykkur tilfinningar okkar þegar við sáum andstæðu þess verða að veruleika! Framlög til hjálparstarfsins árið 2020 urðu meiri en nokkru sinni fyrr – og allt lítur út fyrir að þau verði enn hærri á þessu ári. Kirkjan hefur getað brugðist við á víðtækari hátt en áður, vegna gjafmildi ykkar, allt frá stofnun hjálparsjóðsins, með yfir 1.500 Kóvid-tengdum líknarverkefnum í yfir 150 löndum. Þessi framlög, sem þið hafið gefið Drottni með svo óeigingjörnum hætti, hafa umbreyst í lífsnauðsynleg matvæli, súrefni, sjúkravörur og bólusetningar fyrir þá sem annars hefðu verið án þeirra.

Ljósmynd
Flóttafólk
Ljósmynd
Flóttafólk
Ljósmynd
Flóttafólk

Jafn mikilvæg og framlög í formi varnings er sá mikli tími og orka sem meðlimir kirkjunnar leggja af mörkum til mannúðarstarfsemi. Jafnvel á meðan faraldurinn hefur riðið yfir, hafa náttúruhamfarir, óeirðir og efnahagslegur óstöðugleiki verið miskunnarlaus og hrakið milljónir frá heimilum sínum. Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að yfir 82 milljónir hafi neyðst á vergang í heiminum öllum. 1 Þar að auki eru milljónir annarra sem kjósa að flýja fátækt eða kúgun í leit að betra lífi fyrir sig sjálf og börn sín og þá getum við komast í einhvern skilning um umfang þessa ástands í heiminum.

Ég get með ánægju greint frá því að þökk sé tíma sjálfboðaliða og hæfileika svo margra, starfrækir kirkjan móttökumiðstöðvar fyrir flóttamenn og innflytjendur á mörgum stöðum í Bandaríkjunum og Evrópu. Þökk sé framlagi ykkar, veitum við fæði, fjármagn og sjálfboðaliða til aðstoðar við svipuð verkefni hjá öðrum samtökum um allan heim.

Ég vil tjá innilegt þakklæti mitt til hinna heilögu sem hafa lagt sig fram við að veita mat, klæðnað og vingast við og hjálpa þessum flóttamönnum að skjóta rótum og verða sjálfum sér nógir.

Í gærkvöldi, miðlaði systir Eubank ykkur nokkrum dásamlegum dæmum um viðleitni hinna heilögu í þessu verki. Þegar ég ígrunda þessi verk, leita hugsanir mínar oft í regluna um fórn og samband þessarar reglu við hin tvö æðstu boðorð um að elska Guð og að elska náunga okkar.

Hugtakið fórn hefur í nútíma notkun falið í sér að það þurfi að „láta af einhverju“ fyrir Drottin og ríki hans. Hvað sem því líður, þá var merking enska orðsins fórn [sacrifice] til forna, nánara latneskum rótum sínum sem voru tvær: sacer, sem þýðir „helgur“ eða „heilagur,“ og facere, sem þýðir „að gera.“ 2 Fyrr á tímum táknaði því að fórna bókstaflega að „helga einhvern eða eitthvað.“ 3 Í þessu samhengi er fórn ferli í að verða heilög og kynnast Guði, ekki viðburður eða helgisiður þar sem við „látum af einhverju“ fyrir Drottinn.

Drottinn sagði: „[Kærleikur] þóknast mér en ekki sláturfórn og guðsþekking fremur en brennifórn.“ 4 Drottinn vill að við helgum okkur, 5 að við eigum kærleika 6 og að við kynnumst honum. 7 Postulinn Páll kenndi: „Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.“ 8 Drottinn vill í raun hjarta okkar; hann vill að við verðum nýir menn í Kristi. 9 Hann leiðbeindi Nefítunum: „En þér skuluð bjóða mér sem fórn sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda.“ 10

Ljósmynd
Heilagleiki til Drottins

Fórn snýst minna um að „láta af einhverju“ og frekar um að „færa“ Drottni nokkuð. Ofan við innganginn að öllum musterum okkar eru þessi orð rituð: „Heilagleiki til Drottins. Hús Drottins.“ Þegar við virðum sáttmála okkar með því að fórna, erum við helguð vegna náðar Jesú Krists; og við altari hins heilaga musteris helgum við okkur Drottni, með sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda. Öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Að gefa upp eigin vilja [eða hjarta 11 ] er í raun það eina sem er okkur einmuna persónulegt og getum sett á altari Guðs. … Þegar þið og ég gefum hins vegar okkur sjálf upp með því að gefa eftir einstaklingsbundinn vilja okkar fyrir vilja Guðs, þá gefum við honum sannarlega nokkuð!“ 12

Þegar litið er á fórnir okkar gagnvart öðrum með því sjónarmiði að við séum að „láta af einhverju,“ gætum við litið á þær sem byrði og fyllst vonleysi þegar fórnir okkar eru ekki viðurkenndar eða verðlaunaðar. Þegar litið er á fórnir okkar gagnvart öðrum með það í huga að við „færum“ Drottni nokkuð, verða þær að gjöfum og gleðin yfir því að gefa örlátlega verður umbun út af fyrir sig. Þegar við erum frelsuð frá þörfinni fyrir elsku, samþykki eða velþóknun annarra, þá verða fórnir okkar að flekklausri og innilegri tjáningu þakklætis og elsku til frelsarans og samferðarfólks okkar. Allt stolt yfir eigin fórn víkur fyrir þakklæti, gjafmildi, ánægju og gleði. 13

Eitthvað er helgað – hvort sem það sé líf okkar, eignir, tími eða hæfileikar – ekki aðeins með því að hætta við það, heldur frekar að vígja 14 það Drottni. Hjálparstarf kirkjunnar er slík gjöf. Það er afrakstur sameiginlegra, vígðra fórnargjafa hinna heilögu, birtingarmynd elsku okkar fyrir Guði og börnum hans. 15

Ljósmynd
Systir Canfield ásamt þeim sem hún þjónar

Steve og Anita Canfield eru dæmigerð fyrir Síðari daga heilaga um allan heim sem hafa upplifað sjálf ummyndandi blessanir þess að færa Drottni nokkuð. Í hlutverki sínu sem velferðar- og sjálfsbjargartrúboðar, voru Canfield-hjónin beðin um að veita aðstoð í flóttamannabúðum og innflytjendamiðstöðvum um alla Evrópu. Á starfsævi sinni var systir Canfield innanhússhönnuður á heimsmælikvarða, ráðin til starfa af auðugum viðskiptavinum til að fegra lúxus-íbúðir þeirra. Skyndilega var henni ýtt inn í heim sem var þveröfugur við það sem hún var vön, er hún þjónaði meðal fólks sem tapað hafði nánast öllum jarðneskum eigum sínum. Með hennar orðum, skipti hún út „marmaragangstígum fyrir moldargólf“ og við þessi viðbrigði fann hún ómælanlega uppfyllingu, þegar hún og eiginmaður hennar vinguðust við – og elskuðu og tóku brátt opnum örmum – þeim sem þörfnuðust umönnunar þeirra.

Canfield-hjónin tóku eftir þessu: „Okkur fannst við ekki hafa ‚látið af einhverju‘ til að þjóna Drottni. Þrá okkar var einfaldlega sú að ‚færa‘ honum tíma okkar og kraft, til að blessa börn hans á þann hátt sem honum þóknaðist að nota okkur. Þegar við unnum við hlið bræðra okkar og systra, hurfu hvers kyns ytri einkenni – mismunandi bakgrunnur eða eigur – og við sáum einfaldlega í hjörtu hvers annars. Enginn árangur á starfsferlinum eða efnislegur hagnaður gæti komist í námunda við það hvernig þessar upplifanir, að þjóna meðal auðmýkstu barna Guðs, auðguðu okkur.“

Saga Canfield-hjónanna og svo margra annarra, hefur hjálpað mér að meta texta einfalds en djúpstæðs Barnasöngs:

„Gef,“ segir lækur smár,

er hann streymir stöðugt fram.

Hversu smár ég er, og hvar sem ég fer,

Þar grasið grænna er.

Já, við erum öll smá, en þegar við herðum á í sameiningu og færum Guði og samferðarfólki okkar nokkuð, þá verður líf auðgað og blessað, hvert sem við förum.

Þriðja vers þessa lags er ekki jafn þekkt, en lýkur með þessu elskulega boði:

Gefum, því Jesús gaf

alltaf eitthvað gefa má.

Gefum sem lækur og skúrin skær,

gefum öllum fjær og nær. 16

Kæru bræður og systur, þegar við lifum fyrir Guð og aðra með því að gefa af fjárráðum okkar, tíma okkar og já, jafnvel okkur sjálfum, þá grænkum við jörðina og gerum börn Guðs eilítið hamingjusamari og verðum í því ferli örlítið helgari.

Megi Drottinn blessa ykkur ríkulega fyrir þær fórnir sem þið færið honum örlátlega.

Ég ber vitni um að Guð lifir. „Nafn hans [er] Maður heilagleika.“ 17 Jesús Kristur er sonur Guðs og hann gefur sérhverja góða gjöf. 18 Megum við, vegna náðar hans og virðingar við sáttmála okkar, verða helguð með fórnum og ávallt gefa af meiri elsku og helga okkur Drottni. 19 Í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.