Aðalráðstefna
Varðandi geðheilsu
Aðalráðstefna október 2021


Varðandi geðheilsu

Leyfið mér að miðla nokkrum athugunum sem ég hef gert er fjölskylda mín upplifði erfiðleika.

Þótt fjölskylda mín hafi notið ríkulegra blessana á gleðiríkri göngu á sáttmálsveginum, höfum við einnig staðið frammi fyrir ofurháum fjöllum. Mig langar að miðla ykkur afar persónulegri reynslu varðandi geðheilsu. Þar á meðal eru klínískt þunglyndi, kvíðaröskun, geðhvarfasýki, ofvirkniröskun – og stundum jafnvel sambland af öllu þessu. Ég deili þessari ljúfu reynslu með samþykki hlutaðeigenda.

Í þjónustu minni hef ég hitt hundruð einstaklinga og fjölskyldna með svipaða reynslu. Stundum velti ég fyrir mér hvort hinn „eyðandi sjúkdómur“ sem herjar á landið, 1 eins og fram kemur í ritningunum, feli einnig í sér geðsjúkdóma. Þeir eru heimslægir, eru í öllum heimsálfum og menningum, og hafa áhrif á alla – unga, aldna, ríka og snauða. Meðlimir kirkjunnar eru ekki þar undanskildir.

Kenningar okkar kenna jafnframt að okkur ber að reyna að líkjast Jesú Kristi og fullkomnast í honum. Börnin okkar syngja: „Mig langar að líkjast Jesú.“ 2 Við þráum að vera fullkomin eins og himneskur faðir og Jesús Kristur eru fullkomnir. 3 Þar sem geðsjúkdómar geta stangast á við skilning okkar á fullkomleika, eru þeir allt of oft feimnismál. Þar af leiðandi er vanþekkingin mikil, of mikið er af óumtöluðum þjáningum og of mikið af örvæntingu. Mörgum finnst lífið yfirþyrmandi, vegna þess að þeir standast ekki ríkjandi viðmið og telja ranglega að þeir eigi ekki heima í kirkjunni.

Til að berjast gegn slíkum blekkingum, er mikilvægt að hafa í huga að „frelsarinn elskar sérhvert barna föður síns. Hann skilur fyllilega sársaukann og baráttuna sem margir upplifa sem lifa við margvíslegar geðrænar áskoranir. Hann þoldi ‚alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar … [og tók] á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns‘ (Alma 7:11; skáletrað hér; sjá einnig Hebreabréfið 4:15–16; 2. Nefí 9:21). Þar sem hann skilur allar þjáningar, veit hann hvernig ‚lækna á hina sorgmæddu‘ (Lúkas 4:18; sjá einnig Jesaja 49:13–16).“ 4 Áskoranir kalla oft á aukin úrræði og stuðning, en eru ekki persónuleikagallar.

Leyfið mér að miðla nokkrum athugunum sem ég hef gert er fjölskylda mín upplifði erfiðleika.

Í fyrsta lagi, eru þeir margir sem munu syrgja með okkur; þeir dæma okkur ekki. Sonur okkar kom heim af trúboði sínu eftir aðeins fjórar vikur vegna alvarlegra hræðslukasta, kvíða og þunglyndis. Sem foreldrar hans, fannst okkur erfitt að fást við vonbrigðin og dapurleikann, vegna þess að við höfðum beðið svo mikið fyrir árangri hans. Eins og allir foreldrar, viljum við að börn okkar séu farsæl og hamingjusöm. Trúboðið átti að vera mikilvægur áfangi fyrir son okkar. Við höfðum einnig áhyggjur af því hvað öðrum gæti fundist.

Við vissum ekki að heimkoma sonar okkar var honum talsvert meira áfall. Hafið í huga að hann elskaði Drottin og vildi þjóna, samt gat hann það ekki sökum ástæðna sem hann átti erfitt með að skilja. Brátt kom yfir hann algert vonleysi og barátta við mikla sektarkennd. Honum fannst hann ekki lengur þóknanlegur, heldur andlega ónæmur. Hugsanir um dauðann heltóku hann aftur og aftur.

Í þessu órökréttu ástandi trúði sonur okkar því að eina lausnin væri að taka eigið líf. Heilögum anda og hersveitum engla beggja vegna hulunnar tókst að bjarga honum.

Meðan hann barðist fyrir lífi sínu og meðan á þessum erfiða tíma stóð, fóru fjölskylda okkar, deildarleiðtogar, meðlimir og vinir út fyrir þægindarammann til að þjóna okkur.

Ég hef aldrei áður skynjað slíkar kærleikstjáningar. Ég hef aldrei áður fundið kröftugra og á slíkan persónulegan hátt hvað það merkir að hugga þá sem huggunar þarfnast. Fjölskylda okkur mun ætíð vera þakklát fyrir þessa úthellingu.

Ég fæ ekki lýst þeim fjölda kraftaverka sem voru samfara þessum atburðum. Sem betur fór lifði sonur okkar af, en það tók langan tíma og mörg lyf, meðhöndlun og andlega umönnun fyrir hann að læknast og viðurkenna að hann sé elskaður, metinn og að hans sé þörf.

Mér er ljóst að öll tilfelli fá ekki sama endi og okkar. Ég finn til með þeim sem hafa misst ástvini allt of snemma og standa eftir með sorgartilfinningar og ósvaraðar spurningar.

Næsta athugun mín er sú að það getur verið erfitt fyrir foreldra að bera kennsl á baráttu barna sinna, svo við þurfum að afla okkur fræðslu. Hvernig getum við greint á milli erfileika sem tengjast eðlilegum þroska og einkenna um sjúkleika? Sem foreldrar, höfum við helga skyldu til að aðstoða börn okkar við að rata í gegnum áskoranir lífsins; samt sem áður eru fá okkar sérfræðingar í geðheilsu. Engu að síður þurfum við að annast börnin okkar með því að hjálpa þeim að læra að vera ánægð með einlæga viðleitni sína er þau kappkosta að lifa eftir viðeigandi væntingum. Sérhvert okkar veit vegna eigin persónulegu annmarka að andlegur vöxtur er áframhaldandi ferli.

Við skiljum nú, að „engin einföld alhliða lækning er til við tilfinningalegum og sálarlegum sjúkleika. Við munum upplifa streitu og óróa vegna þess að við lifum í föllnum heimi í föllnum líkama. Auk þess geta samverkandi þættir leitt til greiningar geðsjúkdóms. Að einblína á vöxt er heilnæmara en þráhyggja yfir eigin annmörkum, burtséð frá andlegri og tilfinningalegri vellíðan.“ 5

Hið eina sem ávallt hjálpaði mér og eignkonu minni var að vera eins nálægt Drottni og unnt var. Eftir á að hyggja sjáum við nú hvernig Drottinn hefur með þolinmæði leitt okkur í gegnum tíma mikillar óvissu. Ljós hans leiddi okkur skref fyrir skref á myrkustu stundunum. Drottinn hjálpaði okkur að sjá að virði einnar sálar er miklu mikilvægara í eilífu samhengi, heldur en sérhvert jarðneskt verkefni eða árangur.

Aftur, að afla sér fræðslu um geðsjúkdóma býr okkur undir að hjálpa okkur sjálfum og öðrum sem gætu átt í baráttu. Opin og heiðarleg umræða við hvert annað mun hjálpa við að draga fram þá athygli sem þetta mikilvæga málefni verðskuldar. Upplýsingar koma þrátt fyrir allt á undan innblæstri og opinberun. Þessar áskoranir, sem eru allt of oft ósýnilegar, geta haft áhrif á hvern sem er og þegar við stöndum andspænis þeim, virðast þær óyfirstíganlegar.

Eitt það fyrsta sem við þurfum að læra er að við erum vissulega ekki einsömul. Ég býð ykkur að læra um geðheilsu í Life Help hluta smáforritsins Gospel Library. Fræðsla leiðir til aukins skilnings, aukinnar viðurkenningar, aukinnar samúðar, aukinnar elsku. Hún getur minnkað harmleik og jafnframt hjálpað okkur að koma á og stjórna heilnæmum væntingum og heilnæmum samskiptum.

Lokaathugun mín: Við þurfum sífellt að vaka yfir hvert öðru. Við verðum að elska hvert annað og draga úr gagnrýni – sérstaklega þegar væntingar okkar verða ekki strax að veruleika. Við ættum að aðstoða börn okkar og ungmenni við að skynja ást Jesú Krists í lífi sínu, þó að þau reyni sjálf að skynja elsku. Öldungur Orson F. Whitney, sem hefur þjónað sem meðlimur í Tólfpostulasveitinni, veitti foreldrum ráðgjöf um það hvernig hjálpa skuli afkvæmum sem eiga í baráttu: „Biðjið fyrir … börnum ykkar.“ 6

Ég hef oft íhugað hvað það merkir að halda þeim með trú. Ég trúi að í því felist lítil kærleiksverk, lítillæti, vinsemd og virðing. Það merkir að leyfa þeim að þroskast á sínum hraða og að gefa vitnisburð til að hjálpa þeim að skynja elsku frelsarans. Það krefst þess að við hugsum meira um þau og minna um okkur sjálf eða aðra. Venjulega merkir það að tala minna og hlusta miklu, miklu meira. Við verðum að elska þau, fela þeim ábyrgð og hrósa þeim oft í viðleitni þeirra til að ná árangri og að vera Guði trú. Að lokum ættum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vera nálægt þeim – rétt eins og við höldum okkur nálægt Guði.

Til allra sem sjálfir glíma við áhrif geðsjúkdóma, haldið fast í sáttmála ykkar, jafnvel þó að þið skynjið ekki elsku Guðs á þessum tíma. Gerið allt sem í ykkar valdi stendur og standið síðan „hljóð… eftir að sjá hjálpræði Guðs, og arm hans opinberast.“ 7

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari okkar. Hann þekkir okkur. Hann elskar okkur og setur traust sitt á okkur. Meðan erfiðleikar fjölskyldunnar stóðu yfir, hef ég komist að því hversu nálægur hann er. Fyrirheit hans eru sönn:

Ei hræðstu, ég Guð þinn mun gefa þér mátt,

á göngunnar leið, sem þú fyrir þér átt.

Þó reynist í heiminum vegferðin vönd,

þig verndar og leiðir mín almáttug hönd.

Megum við ætíð lýsa gleðilega yfir, vitandi hve sterkur grundvöllur okkar er:

Þá sál Jesús kaus sér að treysta og kalla

vil ég ekki, get ekki, látið í óvinahendur falla;

þá sál, þótt allir vindar heljar í móti blási,

mun ég aldrei, nei aldrei, yfirgefa! 8

Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Kenning og sáttmálar 45:31.

  2. „Mig langar að líkjast Jesú,“ Barnasöngbókin, 40.

  3. Sjá 3. Nefí 12:48.

  4. Like a Broken Vessel,“ Mental Health: General Principles, ChurchofJesusChrist.org.

  5. Sheldon Martin, „Strive to Be—A Pattern for Growth and Mental and Emotional Wellness,“ Liahona, ágúst 2021, 14.

  6. Orson F. Whitney, í Conference Report, apríl 1929, 110.

  7. Kenning og sáttmálar 123:17.

  8. „Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál,“ Sálmar, nr. 21.