Aðalráðstefna
Vera eftirbreytandi Krists
Aðalráðstefna október 2021


Vera eftirbreytandi Krists

Að vera eftirbreytandi Krists, er að keppa að því að samræma gjörðir okkar, breytni og líf að frelsaranum.

Í einkanámi mínu á ritningunum hef ég verið hughrifinn af trúskiptum Sáls frá Tarsus, sem seinna varð þekktur sem Páll, eins og Biblían greinir frá.

Páll var virkur í ofsóknum á hendur kirkjunni og kristnum mönnum. Hann gjörbreyttist vegna krafts himins og friðþægingar Jesú Krists og varð einn mesti þjónn Guðs. Fyrirmynd lífs hans var frelsarinn Jesús Kristur.

Í einni kenningu sinni til Korintumanna, bauð hann þeim að vera eftirbreytendur sínir, eins og hann sjálfur var eftirbreytandi Krists (sjá 1. Korintubréf 11:1). Þetta er einlægt og gilt boð frá tíma Páls til okkar tíma; að vera eftirbreytendur Krists.

Ég hóf að íhuga hvað það merkir að vera eftirbreytandi Krists. Það sem meira er, ég tók að spyrja: „Á hvaða hátt ætti ég að líkjast honum?“

Að vera eftirbreytandi Krists, er að keppa að því að samræma gjörðir okkar, breytni og líf að frelsaranum. Það er að öðlast dyggðir. Það er að vera sannur lærisveinn Jesú Krists.

Ég hef kynnt mér nokkra þætti í lífi frelsarans og sem hluta af boðskap mínum í dag legg ég áherslu á fjóra af eiginleikum hans, sem ég reyni að tileinka mér og sem ég deili með ykkur.

Fyrsti eiginleiki frelsarans er auðmýkt. Jesús Kristur var mjög auðmjúkur allt frá fortilverunni. Á stórþingi himins viðurkenndi hann og laut vilja Guðs til að ríkja í sáluhjálparáætlun mannkyns. Hann sagði: „Faðir, verði þinn vilji og þín sé dýrðin að eilífu“ (HDP Móse 4:2).

Við vitum að Jesús Kristur kenndi auðmýkt og hann auðmýkti sig til að vegsama föður sinn.

Við skulum lifa í auðmýkt, vegna þess að hún færir frið (sjá Kenning og sáttmálar 19:23). Auðmýkt kemur á undan vegsemd og hún færir okkur velþóknun Guðs: „Og þér, yngri menn, verið öldungunum undirgefnir og skrýðist allir lítillætinu hver gagnvart öðrum, því að Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð“ (1. Pétursbréf 5:5). Auðmýkt veitir mild svör. Hún er uppspretta réttláts persónuleika.

Öldungur Dale G. Renlund kenndi:

„Þeir sem ganga í auðmýkt með Guði hafa hugfast það sem himneskur faðir og Jesús Kristur hafa gert fyrir þá.“

Við erum heiðvirð við Guð þegar við fram göngum í lítillæti fyrir honum“ („Gjörið rétt, hafið dálæti á miskunn og fram gangið í lítillæti fyrir Guði,“ aðalráðstefna, október 2020).

Annar eiginleiki frelsarans er hugrekki. Er ég hugsa um Jesú Krist 12 ára gamlan sitjandi í musteri Guðs meðal lögvitringanna og kennandi þeim guðlega hluti, þá tek ég eftir að hann hafði mjög snemma í lífi sínu góð tök á hugrekki, sérstöku hugrekki. Meðan flestir bjuggust við að hinum unga pilti yrði kennt af lögvitringunum, þá var það hann sem kenndi þeim „og þeir hlustuðu á hann og spurðu hann spurninga“ (Þýðing Josephs Smith, Lúkas 2:46 [í Lúkas 2:46, neðanmálstilvísun c]).

Við þjónuðum í fastatrúboði í Mbuji-Mayi trúboðinu í Austur-Kongó 2016 til 2019. Vegir voru notaðir til að ferðast frá einu svæði til annars í trúboðinu. Það fyrirbæri hafði skapast á svæðinu að þjófaflokkar, vopnaðir sveðjum, réðust inn á vegina og röskuðu umferð ferðalanga.

Fimm trúboðar, sem ferðuðust frá einu svæði til annars vegna félagaskipta, urðu fórnarlömb þessarar röskunar. Þar sem við höfðum sjálf verið fórnarlömb þessa fyrirbæris áður, tókum við að óttast um líf og öryggi okkar allra og hikuðum jafnvel við að ferðast um þessa vegi til að heimsækja trúboða og halda svæðisráðstefnur. Við vissum ekki hversu lengi þetta ástand myndi vara. Ég skrifaði skýrslu sem ég sendi til svæðisforsætisráðsins, þar sem ég sagði frá ótta okkar við frekari ferðalög eftir veginum, sem var eina leiðin til að ná til trúboðanna.

Í svari sínu til mín skrifaði öldungur Kevin Hamilton, sem var forseti Suðaustur-Afríkusvæðisins: „Ráðgjöf mín er sú að gera eins vel og þú getur. Vertu vitur og bænheitur. Ekki setja þig eða trúboðana þína viljandi í hættu, en sæktu þó fram í trú. ‚Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar‘ (2. Tímóteusarbréf 1:7).“

Þessi hvatning styrkti okkur mjög og gerði okkur kleift að halda ferðum áfram og þjóna af hugrekki, þar til trúboði okkar lauk, vegna þess að við hlutum leiðsögn frá himneskum föður með þessari ritningargrein.

Í nútíma ritningum lesum við innblásin orð spámannsins Josephs Smith sem endurspegla hvatningu Drottins til okkar: „Bræður, eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, bræður, og áfram, áfram til sigurs!“ (Kenning og sáttmálar 128:22).

Höfum hugrekki til að breyta rétt, jafnvel þó að það sé óvinsælt – hugrekki til að verja trú okkar og breyta í trú. Höfum hugrekki til þess að iðrast daglega, hugrekki til að meðtaka vilja Guðs og hlýða boðorðum hans. Höfum hugrekki til að lifa réttlátlega og gera það sem vænst er af okkur í hinum ýmsu skyldum og stöðum.

Þriðji eiginleiki frelsarans er að vera fús til að fyrirgefa. Í jarðneskri þjónustu sinni kom frelsarinn í veg fyrir að kona, sem hafði verið staðin að hórdómi, yrði grýtt. Hann bauð henni: „Far þú, syndga ekki framar“ (Jóhannes 8:11). Þetta leiddi til iðrunar hennar og væntanlega fyrirgefningar, því ritningin segir: „Konan vegsamaði Guð frá þessari stundu og trúði á nafn hans“ (Þýðing Josephs Smith, Jóhannes 8:11 [í Jóhannes 8:11, neðanmálstilvísun c]).

Á jólasamkomu í desember 2018, talaði Russell M. Nelson forseti um fjórar gjafir sem við höfum hlotið frá frelsaranum. Hann sagði að ein gjafanna væri hæfileikinn að geta fyrirgefið:

„Fyrir tilstilli hans altæku friðþægingar, getið þið fyrirgefið þeim sem hafa sært ykkur og þeim sem aldrei munu gangast við ábyrgð illskuverks síns á ykkur.

Að öllu jöfnu er auðvelt að fyrirgefa þeim sem af einlægni leita eftir fyrirgefningu ykkar. Frelsarinn mun þó gera ykkur kleift að fyrirgefa hverjum þeim sem á einhvern hátt hefur misboðið ykkur“ („Fjórar gjafir sem Jesús Kristur býður okkur“ [jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins, 2. des. 2018], churchofjesuschrist.org/study/broadcasts/christmas-devotional/2018/12/four-gifts-that-jesus-christ-offers-to-you?lang=isl).

Við skulum einlæglega fyrirgefa hvert öðru og hljóta fyrirgefningu föðurins. Fyrirgefning gerir okkur frjáls og verðug til að meðtaka sakramentið sérhvern sunnudag. Þess er krafist að við fyrirgefum til að geta verið sannir lærisveinar Jesú Krists.

Fjórði eiginleiki frelsarans er fórnfýsi. Hún er hluti af fagnaðarerindi Jesú Krists. Frelsarinn færði æðstu fórn lífs síns fyrir okkur svo að við yrðum endurleyst. Er hann skynjaði sársauka fórnarinnar, bað hann föður sinn um að taka bikarinn frá, en hann lauk við hina eilífu fórn. Þetta er friðþæging Jesú Krists.

M. Russell Ballard forseti kenndi: „Fórn er tjáning hreins kærleika. Hægt er að mæla hve mikil ást okkar er til Drottins, til fagnaðarerindisins og til náunga okkar, með því hve fús við erum til að fórna fyrir þá“ („The Blessings of Sacrifice,“ Ensign, maí 1992, 76).

Við getum fórnað tíma okkar í hirðisþjónustu, að þjóna öðrum, að gera góðverk, vinna í ættarsögu og að efla köllun okkar í kirkjunni.

Við getum fórnað fjárhagslega með tíundargreiðslu, föstufórnum og öðru framlagi til að byggja upp ríki Guðs á jörðu. Við þörfnumst fórna til að halda sáttmálana sem við höfum gert við frelsarann.

Bæn mín er sú að með því að fylgja Jesú Kristi og nýta okkur blessanir friðþægingar hans, verðum við stöðugt auðmjúkari, stöðugt kjarkmeiri, stöðugt fúsari til að fyrirgefa og fórna meiru meiru fyrir ríki hans.

Ég ber vitni um að himneskur faðir lifir og þekkir hvert okkar persónulega, að Jesús er Kristur, að Russell M. Nelson forseti er spámaður Guðs á okkar tíma. Ég ber vitni um að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Guðs á jörðu og að Mormónsbók er sönn. Í nafni Jesú Krists, lausnara okkar, amen.