Aðalráðstefna
Horfðu niður eftir veginum
Aðalráðstefna október 2021


Horfðu niður eftir veginum

Að einbeita sér að því sem er mikilvægast – einkum að því sem er „niður eftir veginum,“ því eilífa – er lykill að því að stýra sér í gegnum þetta líf.

Þegar ég varð 15 ára fékk leyfi til æfingaaksturs, sem gerði mér mögulegt að aka bíl ef annað foreldra minna var með. Þegar faðir minn spurði hvort ég vildi fara í bíltúr, varð ég yfir mig hrifinn.

Hann ók nokkra kílómetra að útjaðri bæjarins, að löngum, beinum tveggja akreina vegi, sem fáir fóru um – og ég ætti að benda á, líklega eini staðurinn sem honum hefur fundist öruggur. Hann sveigði út í vegkantinn og við skiptum um sæti. Hann veitti mér nokkra tilsögn og sagði síðan: „Farðu varlega út á veginn og aktu bara þar til ég segi þér að stoppa.“

Ég fór nákvæmlega eftir fyrirmælum hans. Eftir um 60 sekúndur sagði hann þó: „Sonur, aktu út í vegkantinn. Mér er að verða bumbult. Þú sikksakkar út um allan veg. Hann spurði: „Á hvað ertu að horfa?“

Af nokkurri örvæntingu sagði ég: „Ég horfi á veginn.“

Þá sagði hann þetta: „Ég horfi á augu þín og þú ert bara að horfa á það sem er rétt fyrir framan húddið á bílnum. Ef þú horfir bara á það sem er rétt fyrir framan þig, muntu aldrei aka beint.“ Síðan sagði hann með áherslu: „Horfðu niður eftir veginum. Það mun gera þér kleift að aka beint.“

Þegar ég var 15 ára fannst mér þetta góð aksturskennsla. Mér hefur síðan orðið ljóst að þetta var líka góð lífsins lexía. Að einbeita sér að því sem er mikilvægast – einkum að því sem er „niður eftir veginum,“ því eilífa – er lykill að því að stýra sig í gegnum þetta líf.

Í eitt skipti í lífi frelsarans, þráði hann einveru, svo „gekk hann til fjalls að biðjast fyrir.“ 1 Hann sendi lærisveina sína í burtu og bauð þeim að fara yfir vatnið. Í næturmyrkrinu skall ofsafenginn stormur á bátinn sem lærisveinarnir voru í. Jesús kom þeim til bjargar, en með óhefðbundnum hætti. Ritningin segir: „En [á fjórðu næturvöku] kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu.“ 2 Þegar þeir sáu hann urðu þeir óttaslegnir, því þeir héldu að veran sem nálgaðist þá væri einhvers konar vofa eða draugur. Jesús skynjaði ótta þeirra og vildi róa hug þeirra og hjarta og kallaði til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“ 3

Pétri létti ekki aðeins, heldur fylltist eldmóð. Alltaf hugrakkur og oft hvatvís, hrópaði Pétur til Jesú: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“ 4 Jesús svaraði með sínu kunnuga og sígilda boði: „Kom þú!“ 5

Pétur, örugglega hrifinn af tilhugsuninni, steig ekki út fyrir bátinn ofan í vatnið heldur ofan á vatnið. Þegar hann einblíndi á frelsarann gat hann gert hið ómögulega, jafnvel gengið á vatni. Til að byrja með var Pétur óhræddur við storminn. En „ofviðrið“ 6 truflaði hann að lokum og hann missti einbeitinguna. Óttinn kom aftur. Trú hans minnkaði þar af leiðandi og hann tók að sökkva. Þá kallaði hann: ‚Drottinn, bjarga þú mér!‘“ 7 Frelsarinn, sem ætíð er fús til að bjarga, rétti út höndina og dró hann upp í öryggið.

Það má læra margar lexíur af þessari undraverðu frásögn, en ég nefni þrjár.

Einblínið á Krist

Fyrsta lexía: Einblínið á Jesú Krist. Þegar Pétur horfði beint á Jesú, gat hann gengið á vatninu. Stormurinn, öldurnar og rokið gátu ekki varnað honum því, svo framarlega sem hann einblíndi á frelsarann.

Að skilja tilgang okkar til hlítar, hjálpar okkur að ákveða á hvað skal einblína. Við getum ekki náð árangri í leik, án þess að vita hver tilgangur hans er eða lifað innihaldsríku lífi, án þess að þekkja tilgang þess. Ein mesta blessun hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists, er að það svarar meðal annars spurningunni: „Hver er tilgangur lífsins?“ „Tilgangur okkar í þessu lífi er að njóta gleði og búa okkur undir að mæta Guði.“ 8 Hafið hugfast að við erum hér á jörðu til að búa okkur undir að dvelja að nýju hjá Guði og því þurfum við að einblína á það sem leiðir okkur til Krists.

Að einblína á Krist, krefst sjálfsaga, einkum hvað varðar hinar smáu og einföldu venjur sem gera okkur mögulegt að verða betri lærisveinar. Við getum ekki verið lærisveinar án sjálfsaga.

Skerpa okkar á Krist verður skýrari þegar við horfum niður eftir veginum og sjáum hvar við viljum vera og að hverju við viljum verða og gefum okkur síðan tíma dag hvern til að gera það sem hjálpar okkur að komast þangað. Að einblína á Krist, getur einfaldað ákvarðanir okkar og veitt leiðsögn um það hvernig við getum best varið tíma okkar og auðlindum.

Þó að það sé margt sem vert er að leggja áherslu á, þá lærum við af fordæmi Péturs mikilvægi þess að einblína stöðugt á Krist. Við fáum aðeins dvalið að nýju hjá Guði fyrir tilstilli Jesú Krists. Við reiðum okkur á náð Krists er við keppum að því að líkjast honum og leita fyrirgefningar hans og styrkjandi máttar, þegar við föllum.

Varist truflanir

Önnur lexía: Varist truflanir. Þegar Pétur leit af Jesú og á storminn og öldurótið við fætur hans, tók hann að sökkva.

Það er margt „rétt fyrir framan húddið“ sem getur truflað okkur frá því að einblína á Krist og hið eilífa „niður eftir veginum.“ Djöfullinn er meistari í truflunum. Af draumi Lehís lærum við að raddirnar frá hinni stóru og rúmmiklu byggingu reyndu að ginna okkur frá því ætlunarverki að búa okkur undir að dvelja að nýju hjá Guði. 9

Það er þó líka aðrar truflanir, síður áberandi, sem geta verið jafn hættulegar. Eins og orðtakið segir: „Það eitt er nauðsynlegt til sigurs hinu illa, að góðir menn sitji auðum höndum.“ Óvinurinn virðist staðráðinn í því að fá gott fólk til að halda að sér höndum eða allavega að verja tíma sínum í það sem truflar frá háverðugum tilgangi og markmiðum þess. Sumt sem er heilnæmt í hófi, getur t.d. orðið óheilnæm truflun án sjálfsaga. Óvinurinn skilur að truflanir þurfa ekki að vera slæmar eða ósiðsamlegar til að þær nái tilætluðum árangri.

Það er hægt að bjarga okkur

Þriðja lexía: Það er hægt að bjarga okkur. Þegar Pétur tók að sökkva, hrópaði hann: „,Drottinn, bjarga þú mér!‘ Jesús rétti þegar út höndina [og] tók í hann.“ 10 Þegar okkur finnst við vera að sökkva, þegar við upplifum þrengingar eða þegar við föllum, getur hann líka bjargað okkur.

Mitt í þrautum og þrengingum, gætuð þið verið eins og ég og vonast eftir skjótri björgun. Minnist þess þá að frelsarinn kom postulunum ekki til bjargar fyrr en á fjórðu næturvöku – eftir að þeir höfðu tekist á við storminn mestan hluta nætur. 11 Ef björgunin berst ekki skjótt, getum við beðið þess að hún berist allavega á annarri næturvöku eða jafnvel þriðju næturvöku á hinni kunnu nóttu. Þegar við þurfum að bíða, getum við verið viss um að frelsarinn fylgist alltaf með og gætir þess að við munum ekki þola meira en við fáum borið. 12 Til þeirra sem enn bíða á fjórðu næturvöku, ef til vill mitt í þjáningum, missið ekki vonina. Björgun berst alltaf hinum trúföstu, hvort heldur í jarðlífinu eða eilífðinni.

Stundum sökkvum við vegna eigin mistaka og misgjörða. Ef ykkur finnst þið sökkva af þeirri ástæðu, veljið þá hinn gleðilega valkost að iðrast. 13 Ég trúi að fátt annað gleðji frelsarann meira en að bjarga þeim sem koma eða koma aftur til hans. 14 Í ritningunum eru ótal frásagnir um fólk sem eitt sinn var syndugt og ófullkomið, en iðraðist og varð óhagganlegt í trú á Krist. Ég held að slíkar frásagnir séu í ritningunum til að minna okkur á að elska frelsarans til okkar og máttur hans til að endurleysa okkur séu altæk. Það er ekki aðeins frelsarinn sem gleðst þegar við iðrumst, heldur hljótum við líka mikla gleði.

Lokaorð

Ég býð ykkur að vera fús til að „horfa niður eftir veginum“ og skerpa sýn ykkar á það sem raunverulega skiptir máli. Megum við einblína stöðugt á Krist. Ég ber vitni um að mitt í öllum truflunum, þess sem er „rétt fyrir framan húddið“ og í umlykjandi stormum, þá er Jesús frelsari okkar og lausnari og bjargvættur. Í nafni Jesú Krists, amen.