Aðalráðstefna
Einfaldlega fallegt – fallega einfalt
Aðalráðstefna október 2021


Einfaldlega fallegt – fallega einfalt

Megum við halda fagnaðarerindinu einföldu þegar við tökum á okkur guðlega tilskipaðar ábyrgðarskyldur.

Aðfaraorð

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á þessa ráðstefnu.

Í dag vonast ég til að lýsa tveimur þáttum hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists og síðan segja fjórar hrífandi frásagnir frá Síðari daga heilögum víða um heim, til að sýna fram á beitingu þessara reglna. Fyrri þáttur hins endurreista fagnaðarerindis – starf Guðs til sáluhjálpar og upphafningar – er um guðlega tilskipaðar ábyrgðarskyldur. Síðari þátturinn minnir okkur á að fagnaðarerindið er látlaust, dýrmætt og einfalt.

Guðlega tilskipaðar ábyrgðarskyldur

Við verðum að „[koma] til Krists og [fullkomnast] í honum,“ til að hljóta eilíft líf. 1 Þegar við komum til Krists og hjálpum öðrum að gera hið sama, tökum við þátt í starfi sáluhjálpar og upphafningar, sem byggir á guðlega tilskipuðum ábyrgðarskyldum. 2 Þessar guðlegu ábyrgðarskyldur fara samhliða prestdæmislyklum endurreistum af Móse, Elíasi og Elía, eins og skráð er í 110. kafla Kenningar og sáttmála, 3 og öðru æðsta boðorðinu, sem Jesús Kristur gaf okkur, um að elska náungann eins og sjálf okkur. 4 Þær má finna á fyrstu tveimur síðum hinnar uppfærðu General Handbook [Almennu handbókar], sem er tiltæk öllum meðlimum.

Ef hugtakið „Almenn handbók“ eða „guðlega tilskipaðar ábyrgðarskyldur“ fær ykkur til að skjálfa af ótta yfir flækjum, látið það þá ekki gerast, því þessi skylduverk eru einföld, innblásin, hvetjandi og framkvæmanleg. Þau eru hér:

  1. Lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists

  2. Annast hina þurfandi

  3. Bjóða öllum að taka á móti fagnaðarerindinu

  4. Sameina fjölskyldur um eilífð

Þið gætuð litið þær sömu augum og ég geri: sem vegvísi til að komast aftur til okkar kærleiksríka himneska föður.

Ljósmynd
Þættir í starfi sáluhjálpar og upphafningar

Fagnaðarerindið er skýrt, dýrmætt og einfalt

Sagt hefur verið að fagnaðarerindi Jesú Krists sé „einfaldlega fallegt og fallega einfalt.“ 5 Heimurinn er það ekki. Hann er flókinn, margslunginn og fullur af erjum og átökum. Við erum blessuð ef við gætum þess að gera það ekki of flókið, eins og svo algengt er í heiminum, að taka á móti og lifa eftir fagnaðarerindinu.

Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Okkur eru kenndir margir smáir og einfaldir hlutir í fagnaðarerindi Jesú Krists. Það þarf að minna okkur á að samanlagt og yfir langan tíma, þá gerast merkilegir hlutir fyrir hið smáa.“ 6 Jesús Kristur sjálfur segir sitt ok vera ljúft og byrði sína létta. 7 Við ættum öll að reyna að hafa fagnaðarerindið einfalt – í lífi okkar, í fjölskyldum okkar, í námsbekkjum okkar og sveitum og í deildum okkar og stikum.

Þegar þið hlustið á eftirfarandi frásagnir sem ég mun miðla ykkur, vitið þá að þær hafa verið vandlega valdar, annars vegar til hvatningar og hins vegar til upplýsingar. Breytni sérhvers þessara Síðari daga heilagra verður okkur öllum fyrirmynd að því hvernig lifa á eftir fagnaðarerindinu á skýran, dýrmætan og einfaldan hátt, er þau framfylgja einni af þessum guðlega tilskipuðu ábyrgðarskyldum sem hér voru áður kynntar.

Lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists

Fyrsta: Lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Jens í Danmörku biðst fyrir daglega til að lifa eftir fagnaðarerindinu og gæta að hughrifum frá heilögum anda. Hann hefur lært að bregðast skjótt við er hann skynjar leiðsögn andans.

Ljósmynd
Jens í Danmörku

Jens miðlaði eftirfarandi:

„Við búum í litlu, unaðslegu timburhúsi með stráþaki, í miðju litlu, notalegu þorpi, nálægt þorpstjörninni.

Ljósmynd
Friðsælt þorp
Ljósmynd
Þorpstjörn

„Þetta kvöld var hið danska sumarveður ólýsanlega fallegt, svo hurðir og gluggar voru opnir og allt var friðsælt og rótt. Þar sem sumarkvöldin okkar eru löng, björt og falleg, þá hafði ég ekki flýtt mér að skipta út útbrunninni peru í þvottahúsinu okkar.

Ljósmynd
Ljós í þvottahúsi

„Skyndilega fékk ég sterka tilfinningu fyrir því að ég yrði að skipta um hana undir eins! Á sama tíma heyrði ég eiginkonu mína, Mariann, kalla á mig og börnin til að þvo okkur um hendurnar, því kvöldmaturinn væri til reiðu!

„Ég hafði verið nógu lengi giftur til að vita að þetta væri ekki rétti tíminn til að gera nokkuð annað en að þvo sér um hendurnar, en ég hrópaði þó til Mariann að ég hugðist skreppa út í búð til að kaupa nýja peru. Ég fann sterka tilfinningu fyrir því að fara þegar í stað.

„Matvörubúðin var einungis hinum megin við tjörnina. Yfirleitt fórum við gangandi, en þennan dag greip ég hjólið mitt. Þegar ég hjólaði fram hjá tjörninni, sá ég út undan mér lítinn dreng, um tveggja ára gamlan, ganga einan afar nálægt tjarnarbakkanum – og allt í einu datt hann ofan í vatnið! Eitt andartak sá ég hann út undan mér – og svo var hann horfinn!

Enginn hafði tekið eftir þessu nema ég. Ég fleygði frá mér hjólinu, hljóp og stökk ofan í mittisháa tjörnina. Yfirborð vatnsins varð þegar gruggugt af andarþangi, sem gerði það ómögulegt að sjá ofan í vatnið. Ég skynjaði síðan hreyfingu til hliðar. Ég stakk hendinni ofan í vatnið, náði tökum á stuttermabol og dró litla drenginn upp. Hann greip andann á lofti, hóstaði og tók að gráta. Skömmu síðar sameinaðist drengurinn foreldrum sínum.

Ljósmynd
Jens og fjölskylda

Þegar bróðir Jens biður á hverjum morgni um hjálp til að þekkja hughrif frá heilögum anda, jafnvel varðandi eitthvað óvenjulegt eins og að skipta strax um ljósaperu, þá biður hann þess líka að fá að vera verkfæri til að blessa börn Guðs. Jens lifir eftir fagnaðarerindinu með því að leita guðlegrar leiðsagnar dag hvern, reyna að vera verðugur og síðan að gera sitt besta til að fylgja þeirri leiðsögn, þegar hún berst.

Annast hina þurfandi

Hér er dæmi um að annast hina þurfandi. Dag einn fór stikuforseti í Cucuta-stikunni í Kólumbíu með forseta Stúlknafélagsins til að heimsækja tvær stúlkur – og eldri unglingsbróður þeirra – sem tókust á við mikla erfiðleika. Faðir þeirra hafði nýlega látist og móðir þeirra látist ári áður. Systkinin þrjú voru nú ein eftir í sínu litla, fábrotna húsaskjóli. Veggirnir voru úr hráviði, klæddir plastpokum og bylgjupappaþakið náði aðeins yfir svæðið þar sem sofið var.

Eftir heimsókn sína, var þessum leiðtogum ljóst að þeir þyrftu að hjálpa. Deildarráðið tók að vinna að áætlun þeim til hjálpar. Leiðtogar deildar og stiku – Líknarfélagið, öldungasveitin, Piltafélagið og Stúlknafélagið – og margar fjölskyldur, lögðu sig öll fram við að blessa þessa fjölskyldu.

Ljósmynd
Hús í byggingu
Ljósmynd
Hús í byggingu

Deildarsamtökin höfðu samband við nokkra meðlimi deildarinnar sem unnu byggingavinnu. Sumir hjálpuðu við hönnun, aðrir gáfu tíma og vinnu, enn aðrir höfðu til máltíðir og einhverjir gáfu nauðsynlegt efni.

Ljósmynd
Fullbúið heimili

Þegar litla húsinu var lokið, var það gleðidagur fyrir þá sem hjálpuðu og fyrir þessa þrjá ungu deildarmeðlimi. Þessi munaðarlausu börn fundu hlý og hughreystandi tengsl deildarfjölskyldu sinnar og vissu að þau væru ekki ein og að Guð væri ætíð til staðar fyrir þau. Þau sem hjálpuðu til fundu fyrir elsku frelsarans til þessarar fjölskyldu og voru hendur hans við að þjóna henni.

Bjóða öllum að taka á móti fagnaðarerindinu

Ég held að þið munið njóta þessarar frásagnar um að bjóða öllum að taka á móti fagnaðarerindinu. Hinn sautján ára gamli Cleiton frá Grænhöfðaeyjum, hafði ekki hugmynd um hvað myndi gerast þegar hann gekk dag einn inn í námsbekk trúarskóla deildar sinnar. Líf hans og annarra myndi þó breytast að eilífu vegna þess að hann gerði það.

Cleiton hafði skírst í kirkjuna nokkru áður, ásamt móður sinni og eldri bróður, en samt hætti fjölskyldan að mæta. Þessi eina mæting í trúarskólann átti eftir að verða fjölskyldunni örlagarík.

Hin ungmennin í trúarskólabekknum voru ljúf og vingjarnleg. Þau létu Cleiton líða eins og hann væri heima hjá sér og hvöttu hann til að mæta aftur. Hann gerði það og tók brátt að mæta á aðra kirkjufundi sína. Vitur biskup sá andlega möguleika Cleitons og bauð honum að vera aðstoðarmaður sinn. „Frá þeirri stundu,“ segir Cruz biskup, „varð Cleiton fyrirmynd og áhrifavaldur fyrir annað ungt fólk.“

Fyrsta manneskjan sem Cleiton bauð að koma aftur í kirkju, var móðir hans, síðan eldri bróðir hans. Síðan stækkaði hann vinahring sinn. Einn þeirra vina var piltur á hans aldri, Wilson. Á fyrsta fundi sínum með trúboðunum, greindi Wilson frá löngun sinni til að láta skírast. Trúboðarnir voru hrifnir og undrandi yfir því hve miklu Cleiton hafði þegar miðlað Wilson.

Ljósmynd
Piltar á Grænhöfðaeyjum
Ljósmynd
Bjóða fólki að koma í kirkju
Ljósmynd
Stækkandi hópur virkra ungmenna

Cleiton lét ekki þar við sitja. Hann hjálpaði öðrum lítt virkum meðlimum að koma aftur, auk þess miðlaði hann vinum af öðrum trúarbrögðum fagnaðarerindinu. Í dag eru 35 virk ungmenni í deildinni, með blómlega trúarskóladagskrá, sem að miklu má þakka viðleitni Cleiton til að elska, miðla og bjóða. Cleiton og eldri bróðir hans, Cléber, eru báðir að búa sig undir að þjóna í fastatrúboði.

Sameina fjölskyldur um eilífð

Að endingu, ætla ég að segja frá fallegu dæmi um eilífa sameiningu fjölskyldu. Lydia frá Kharkiv í Úkraínu lærði fyrst um musterið frá trúboðunum. Lydia fann strax djúpa þrá til að fara í musterið og eftir að hún skírðist, tók hún þegar að búa sig undir að fá musterismeðmæli.

Lydia fór í musterið í Freiberg í Þýskalandi til að fá musterisgjöf sína og varði þar nokkrum dögum við að vinna staðgengilsverk. Eftir vígslu musterisins í Kíev í Úkraínu, fór Lydia oftar í musterið. Hún og eiginmaður hennar, Anatoly, voru innsigluð þar um eilífð og voru síðar kölluð til að þjóna sem musteristrúboðar. Saman hafa þau fundið meira en 15.000 áanöfn og unnið að musterishelgiathöfnum fyrir þau.

Ljósmynd
Úkraínskt par við musteri

Aðspurð um tilfinningar sínar til musterisstarfs, segir Lydia: „Hvað meðtók ég í musterinu? Ég hef gert nýja sáttmála við Guð. Vitnisburður minn hefur styrkst. Ég hef lært að meðtaka persónulega opinberun. Ég get framkvæmt endurleysandi helgiathafnir fyrir látna áa mína. Ég get líka elskað og þjónað öðru fólki.“ Hún lauk með þessum mjög svo sönnu orðum: „Drottinn vill sjá okkur oft í musterinu.“

Lokaorð

Ég hrífst af gæsku þessara Síðari daga heilagra, sem hver hefur mismunandi bakgrunn, eins og þessar fjórar frásagnir sýna. Margt er hægt að læra af hinum dásamlegu niðurstöðum sem hlutust af einfaldri beitingu einfaldra reglna fagnaðarerindisins. Allt sem þau gerðu er líka eitthvað sem við getum gert.

Megum við halda fagnaðarerindinu einföldu þegar við tökum á okkur guðlega tilskipaðar ábyrgðarskyldur til að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists, svo að við séum næm fyrir hughrifum, eins og Jens í Danmörku. Megum við annast hina þurfandi, eins og meðlimir Cucuta-stikunnar í Kólumbíu sýndu þegar þeir sáu munaðarlausum deildarmeðlimum fyrir húsaskjóli. Megum við bjóða öllum að taka á móti fagnaðarerindinu á þann hátt sem Cleiton frá afríska eyríkinu Grænhöfðaeyjum gerði með vinum sínum og fjölskyldu. Megum við að lokum sameina fjölskyldur um eilífð, eins og systir Lydia frá Úkraínu sýndi með eigin helgiathöfnum musterisins, framlagi við ættarsögu og þjónustu í musterinu.

Það mun vissulega færa gleði og frið. Þessu lofa ég og ber vitni um – og um Jesú Krist sem frelsara okkar og lausnara – í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Moróní 10:32.

  2. Sjá General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 1.2, ChurchofJesusChrist.org.

  3. Sjá Kenning og sáttmálar 110:11–16. Sjá einnig Dallin H. Oaks, „Melkísedeksprestdæmið og lyklarnir,“ aðalráðstefna, apríl 2020: „Í kjölfar vígslu fyrsta musteris þessarar ráðstöfunar í Kirtland, Ohio, endurreistu þrír spámenn – Móse, Elías og Elía – „lyklana að þessari ráðstöfun,“ ásamt lyklunum að samansöfnun Ísraels og musterisverki Drottins.“ Sjá einnig Quentin L. Cook, „Búa sig undir að mæta Guði,“ aðalráðstefna, apríl 2018: „Fornir spámenn endurreistu prestdæmislykla fyrir helgiathafnir fagnaðarerindis Jesú Krists til eilífrar frelsunar. … Þessir lyklar veittu ‚kraft frá upphæðum‘ [Kenning og sáttmálar 38:38] fyrir guðlega tilskipuð ábyrgðarverk, sem eru megin tilgangur kirkjunnar.“

  4. Sjá Matteus 22:36–40.

  5. Í Matthew Cowley Speaks: Discourses of Elder Matthew Cowley of the Quorum of the Twelve of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints (1954), xii.

  6. Dallin H. Oaks, „Hið smáa og einfalda,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

  7. Sjá Matteus 11:30.