Aðalráðstefna
Trúföst leit verðlaunuð
Aðalráðstefna október 2021


Trúföst leit verðlaunuð

Ég býð okkur öllum að auka trú okkar á Krist án afláts, á hann sem heldur áfram að breyta lífi þeirra sem leita hans.

Frá 1846 hafa þúsundir landnema, karlar, konur og börn, haldið í vesturátt til Síonar. Hin sterka trú vakti þeim takmarkalaust hugrekki. Fyrir suma þá lauk þessari ferð aldrei þar sem þeir dóu á leiðinni. Aðrir héldu áfram í trú og tókust á við mikið mótlæti.

Vegna þeirra, hefur fjölskylda mín notið blessana hins sanna fagnaðarerindis Jesú Krists, mögum kynslóðum seinna.

Ég var 14 ára, eins og annar ungur maður sem við munum nefna seinna, þegar ég hóf að efast um trúarbrögð og eigin trú. Ég sótti aðra kirkju nærri heimili mínu, en fann fyrir þrá til að heimsækja margar ólíkar kirkjur.

Einn eftirmiðdag tók ég eftir tveimur ungum mönnum í dökkum jakkafötum og hvítum skyrtum fara inn á heimili nágranna míns. Þessir ungu menn voru sérstakir að sjá.

Daginn eftir hitti ég nágranna minn, Leonor Lopez og spurði hana um þessa tvo menn. Leonor útskýrði fyrir mér að þeir væru trúboðar frá Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hún sagði mér glaðlega að hún og fjölskylda hennar hefðu skírst inn í kirkjuna ári áður. Þegar hún sá áhuga minn bauð Leonor mér að hitta trúboðana og læra um kirkjuna.

Tveimur dögum seinna hitti ég trúboðana með Lopez fjölskyldunni. Þeir kynntu sig sem öldung John Messerly frá Ogden Utah og öldung Christopher Osorio frá Walnut Creek, Kaliforníu. Ég gleymi þeim aldrei.

Ljósmynd
Trúboðar kenna í matarboði

Þar sem ég var einungis 14 ára, krafðist öldungur Messerly þess að við færum heim til mín í næsta hús, svo að móðir mín myndi vita hvað þeir væru að kenna mér. Þar útskýrði hann vingjarnlega að þeir væru þar til að miðla boðskap um Jesú Krist og báðu um leyfi hennar til að kenna mér. Móðir mín samþykkti það og var jafnvel með þegar þeir kenndu mér.

Trúboðarnir báðu Leonor fyrst að flytja bæn. Þetta snerti mig djúpt, þar sem bæn hennar voru ekki endurtekin orð, lærð utanbókar, heldur tjáning beint frá hjartanu. Mér fannst að hún væri raunverulega að tala við himneskan föður sinn.

Trúboðarnir kenndu okkur um Jesú Krist. Þeir sýndu mynd af honum sem snerti mig, því það var mynd af upprisnum, lifandi Jesú Kristi.

Ljósmynd
Frelsarinn Jesús Kristur

Þeir héldu kennslu sinni áfram, sögðu okkur hvernig Jesús hefði stofnað kirkju sína til forna, þar sem hann var höfuð kirkjunnar með tólf postulum. Þeir kenndu okkur um fráhvarfið – hvernig sannleikurinn og valdsumboð Krists hefðu verið fjarlægð af jörðunni, eftir að postular hans dóu.

Þeir sögðu okkur frá ungum 14 ára gömlum dreng, Joseph Smith að nafni, sem heimsótti mismunandi kirkjur snemma á 19. öldinni, í leit að sannleika. Þegar á leið var Joseph enn ráðvilltari. Eftir að hafa lesið í Biblíunni að við gætum „[beðið] … Guð“1 um visku, brást Joseph við í trú, fór út í trjálund til að biðja og spyrja í hvaða kirkju hann ætti að ganga.

Annar trúboðanna las frásögn Josephs af því sem gerðist er hann baðst fyrir:

„Ég sá ljósstólpa beint yfir höfði mér, skærari en sólin, og hann lækkaði hægt, uns hann féll á mig.

… Þegar ljósið hvíldi á mér, sá ég tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina – Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!2

Á meðan á lexíunni stóð, staðfesti andinn fyrir mér ýmsan sannleika.

Í fyrsta lagi að Guð hlustar á einlægar bænir allra barna sinna og að himininn er öllum opinn – ekki bara fáum.

Í öðru lagi að Guð faðirinn, Jesús Kristur og heilagur andi eru þrjár aðskildar verur, sameinaðar í þeim tilgangi sínum „að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“3

Í þriðja lagi að við erum sköpuð í mynd Guðs. Himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur hafa líkama af holdi og beinum eins og við, en þeir eru dýrðlegir og fullkomnir, og heilagur andi er andavera.4

Í fjórða lagi að Jesús Kristur endurreisti fagnaðarerindi sitt og sína sönnu kirkju hér á jörðu fyrir milligöngu Josephs Smith. Prestdæmisvaldið sem var veitt postulum Krists fyrir 2000 árum, er sama prestdæmið og veitt var Joseph Smith og Oliver Cowdery af Pétri, Jakobi og Jóhannesi.5

Að lokum lærðum við um annað vitni um Jesú Krist, Mormónsbók. Skrifuð af fornum spámönnum, segir hún frá fólki sem bjó í Ameríku fyrir, við og eftir fæðingu Jesú. Frá henni lærum við hvernig það þekkti elskaði og tilbað Krist, sem birtist þeim sem hinn endurreisti frelsari.

Andinn snerti mig svo djúpt er ég lærði um yfirlýsingu frelsarans til þeirra: „Sjá, ég er Jesús Kristur, sem spámennirnir vitnuðu um, að koma mundi í heiminn.“6

Trúboðarnir gáfu okkur eintak af Mormónsbók. Við lásum og þáðum boðið sem stendur aftast í Mormónsbók og segir:

„Og þegar þér meðtakið þetta, þá hvet ég yður að spyrja Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, hvort þetta er ekki sannleikur. Og ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda.

Og fyrir kraft heilags anda getið þér fengið að vita sannleiksgildi allra hluta.“7

Það eru um 45 ár síðan móðir mín og ég heyrðum fyrst um þá gleði og kraft sem fylgir því að hafa trú á Krist. Það var vegna trúar þeirra á Krist sem Lopez fjölskyldan miðlaði mér hinni nýju trú sinni. Það var vegna trúar þeirra á Krist sem þessir tveir trúboðar yfirgáfu heimili sín í Bandaríkjunum til að finna móður mína og mig. Það var trú þessara kæru vina sem gróðursetti sáðkorn trúar í okkur, sem hefur síðan vaxið í mikið tré eilífra blessana.

Á þessum blessuðu árum höfum við upplifað það sem Russell M. Nelson forseti sagði vera: „Allt gott í lífinu – sérhver möguleg blessun að eilífu mikilvægi – hefst með trú. Að láta Guð ríkja í lífi okkar, hefst með trú á að hann sér fús til að leiða okkur. Sönn iðrun hefst með trú á að Jesús Kristur hafi mátt til að hreinsa, lækna og styrkja okkur.“8

Ég býð okkur öllum að auka trú okkar á Krist án afláts, hann sem hefur breytt lífi ástkærrar móður minnar og mínu og heldur áfram að breyta lífi þeirra sem leita hans. Ég veit að Joseph Smith er spámaður endurreisnarinnar, að Nelson forseti er spámaður okkar í dag, að Jesús er hinn lifandi Kristur og lausnari okkar og að himneskur faðir lifir og svarar bænum allra barna sinna. Ég vitna um þennan sannleika í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.