Aðalráðstefna
Musterið og ykkar andlega undirstaða
Aðalráðstefna október 2021


Musterið og ykkar andlega undirstaða

Hvenær sem einhverjar hræringar verða í lífi ykkar, verður andlega öruggast að lifa innan marka musterissáttmála ykkar!

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessum morgni, til að miðla því sem mér býr í hjarta.

Eins og þið vitið, þá standa yfir miklar endurbætur á hinu sögufræga Salt Lake-musteri. Þetta flókna verkefni felur í sér mikla styrkingu á hinni upprunalegu undirstöðu sem hefur gert sitt gagn í yfir meira en öld. Þetta musteri verður þó að standa miklu lengur. Í maílok skoðaði ég framvindu þessa mikla verkefnis. Ég hélt að þið kynnuð að meta að sjá það sem ég og eiginkona mín, Wendy, sáum. Ég held að þið munið sjá hvers vegna sálmurinn „Hin örugga undirstaða [Vor Guð hefur spámönnum gefið sitt mál]“ 1 hefur fengið nýja merkingu í huga mér.

Myndband frá byggingasvæði Salt Lake-musterisins: „Við erum að horfa á hina upprunalegu undurstöðu Salt Lake-musterisins. Ég stend á svæði undir því sem var Garðherbergið. Þegar ég kanna handverkið í allri þessari byggingu undrast ég hverju frumkvöðlarnir hafa áorkað. Ég verð alveg orðlaus yfir þeirri hugsun að þeir hafi byggt þetta stórkostlega musteri einungis með þeim tækjabúnaði og tækni sem þeim var tiltæk fyrir meira en öld síðan.

Eftir alla þessa mörgu áratugi, fáum við þó séð, ef við skoðum undirstöðuna vandlega, áhrifin af völdum jarðvegseyðingar, brestina í hinu upprunalega steinverki og ójafnan stöðugleika í múrnum.

Nú, þegar ég er vitni að því hvað nútíma verkfræðingar, arkitektar og byggingasérfræðingar geta gert til að styrkja hina upprunalegu undirstöðu, undrast ég stórlega. Starf þeirra er undravert!

Undirstaða allra bygginga, einkum af þessari stærðargráðu, verður að vera nægilega sterk og endingargóð til að standast jarðskjálfta, tæringu, mikla vinda og óumflýjanlegt jarðsig sem hefur áhrif á allar byggingar. Þessi flókna framkvæmd sem nú stendur yfir, mun styrkja þetta heilaga musteri og undirstöðu þess, svo það fái staðist tímans tönn.“

Það verður ekkert til sparað til að þetta virðulega musteri, sem var orðið stöðugt veikara, fái þá undirstöðu sem fær staðist náttúruöflin fram að þúsund ára ríkinu. Á sama hátt, er kominn tími á að hvert okkar grípi til óvenjulegra aðgerða – kannski aðgerða sem við höfum aldrei áður gripið til – að styrkja okkar persónulegu andlegu undirstöðu. Fordæmalausir tímar kalla á fordæmalausar aðgerðir.

Kæru bræður og systur, þetta eru síðari dagar. Ef ég og þið eigum að fá staðist komandi ógnir og áþján, er nauðsynlegt að hvert okkar hafi örugga andlega undirstöðu, byggða á bjargi frelsara okkar, Jesú Krists. 2

Ég spyr því hvert ykkar: „Hversu örugg er undirstaða ykkar? Hvað þarf nauðsynlega að styrkja í vitnisburði ykkar og skilningi á fagnaðarerindinu?

Musterið er þungamiðja þess að styrkja trú okkar og andlegar varnir, því frelsarinn og kenning hans eru hjarta musterisins. Allt sem kennt er í musterinu, með fræðslu og með andanum, eykur skilning okkar á Jesú Kristi. Hinar nauðsynlegu helgiathafnir hans binda okkur frelsaranum með helgum sáttmálum prestdæmisins. Þegar við síðan höldum sáttmála okkar, gæðir hann okkur sínum græðandi og styrkjandi mætti. 3 Ó, hve við þörfnumst þessa máttar á komandi dögum.

Okkur hefur verið lofað að „[séum við viðbúin þurfum við] ekki að óttast.“ 4 Þessi fullvissa á sér djúpar rætur í dag. Drottinn hefur lýst yfir, að þrátt fyrir hinar fordæmalausu áskoranir okkar tíma, þurfi þeir sem byggja undirstöðu sína á Jesú Kristi og hafa lært að hagnýta sér kraft hans, ekki að bugast undan einstæðum áhyggjumálum þessa tíma.

Helgiathafnir og sáttmálar musterisins eru frá fornum tíma. Drottinn bauð Adam og Evu að biðjast fyrir, gera sáttmála og færa fórnir. 5 Vissulega er það svo að alltaf þegar Drottinn hefur fólk á jörðinni sem vill hlýða orði hans, hefur því verið boðið að reisa musteri. 6 Í helgiritunum er fullt af ritningarversum um kenningar, klæðnað og tungumál musterisins og fleira. 7 Allt varðandi trú okkar og öll loforð sem Guð hefur gefið sáttmálsfólki sínu er sett fram í musterinu. Á öllum öldum, hefur musterið undirstrikað þann dýrmæta sannleika að þeir sem gera og halda sáttmála við Guð, eru börn sáttmálans.

Við getum því í húsi Drottins gert sömu sáttmála við Guð og Abraham, Ísak og Jakob gerðu. Við getum líka hlotið sömu blessanir!

Ljósmynd
Musterin í Kirtland og Nauvoo

Allt frá fyrstu dögum, hefur musterið verið hluti af þessari ráðstöfun. 8 Elía fól Joseph Smith lykla innsiglunarvalds í Kirtland-musterinu. Fylling prestdæmisins var endurreist í Nauvoo-musterinu. 9

Allt fram að píslarvætti sínu, hélt Joseph Smith áfram að fá opinberanir sem stuðluðu að endurreisn helgiathafna musterisgjafar og innsiglunar. 10 Honum var þó ljóst að þörf var á frekari lagfæringum. Eftir að Joseph hafði veitt Brigham Young musterisgjöfina í maí 1842, sagði hann við Brigham: „Þetta er ekki rétt útsett, en við höfum gert það besta sem við getum í aðstæðum okkar og ég vil að þú takir að þér að skipuleggja og koma reglu á allar þessar helgiathafnir.“ 11

Eftir dauða spámannsins, hafði Young forseti yfirumsjá með byggingu musterisins í Nauvoo 12 og byggði síðar musteri á Utah ríkissvæðinu. Við vígslu neðri hæða St. George-musterisins, lýsti Brigham Young ákveðið yfir hinu nauðsynlega staðgengilsverki musterisins, er hann sagði: „Þegar ég hugsa um þetta málefni, vil ég að hljómur sjö þruma veki upp fólkið.“ 13

Frá þeim tíma hafa helgiathafnir musterisins smám saman betrumbættar. Harold B. Lee forseti útskýrði hvers vegna verklag, reglur og jafnvel framkvæmd musterishelgiathafna taka stöðugum breytingum í hinni endurreistu kirkju frelsarans. Lee forseti sagði: „Reglur fagnaðarerindis Jesú Krists eru guðlegar. Enginn breytir reglum og [kenningu] kirkjunnar nema Drottinn með opinberun. Aðferðirnar breytast þó eftir þeirri innblásnu leiðsögn sem þeir hljóta sem eru í forsæti eru á tilteknum tíma. 14

Íhugið hvernig gjöf sakramentisins hefur breyst í gegnum árin. Á fyrri tíð var vatni sakramentisins boðið söfnuðinum í einu stóru íláti. Allir drukku af því. Nú notum við staka einnota bolla. Verklagið breyttist en sáttmálarnir eru þeir sömu.

Íhugið þessi þrjú sannindi:

  1. Endurreisnin er ferli, ekki atburður, og mun halda áfram þar til Drottinn kemur aftur.

  2. Hinn endanlegi tilgangur samansöfnunar Ísraels 15 er að færa trúföstum börnum Guðs blessanir musterisins.

  3. Þegar við reynum að áorka því ætlunarverki á skilvirkari hátt, opinberar Drottinn skilning. Hin áframhaldandi endurreisn þarf áframhaldandi opinberun.

Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa oft spurt Drottin hvort til séu betri leiðir til að færa trúföstum börnum hans blessanir musterisins. Við leitum reglubundið leiðsagnar um hvernig hægt er að tryggja nákvæmni og samræmi sáttmála og helgiathafna um allan heim, þrátt fyrir ólík tungumál og menningu.

Undir handleiðslu Drottins og sem svar við bænum okkar, hafa nýlegar breytingar á verklagi verið gerðar. Það er hann sem vill að þið skiljið skýrt og nákvæmlega um hvað þið eruð að gera sáttmála. Það er hann sem vill að þið upplifið helgiathafnir hans á fyllri hátt. Hann vill að þið skiljið forréttindi ykkar, loforð og ábyrgðarskyldur. Hann vill að þið hljótið andlegan skilning og vakningu aldrei sem fyrr. Hann þráir þetta fyrir alla gesti musterisins, hvar sem þeir búa.

Núverandi breytingar á musterisverklagi og aðrar sem á eftir koma, eru áframhaldandi staðfesting á því að Drottinn leiðir kirkju sína með virkum hætti. Hann gefur okkur öllum kost á að styrkja okkar andlegu undirstöður á áhrifaríkari hátt, með því að hafa hann að þungamiðju lífs okkar og helgiathafnir og sáttmála musteris hans. Þegar þið komið í hús Drottins með musterismeðmæli ykkar, sundurkramið hjarta og leitandi huga, mun hann kenna ykkur.

Ef fjarlægðir, heilsufarsáskoranir eða aðrar þrengingar koma í veg fyrir að þið farið í musterið að sinni, þá býð ég ykkur að ákveða reglubundinn tíma til að íhuga þá sáttmála sem þið hafið gert.

Ef þið hafið enn ekki unun af því að fara í musterið, farið þá oftar – ekki sjaldnar. Leyfið Drottni að kenna og hvetja ykkur þar með anda sínum. Ég lofa ykkur að með tímanum mun musterið verða staður öryggis, huggunar og opinberunar.

Ef mér væri mögulegt að tala einslega við hvern ungan fullorðinn, myndi ég fara þess á leit að þið leituðu að félaga sem þið getið innsiglast í musterinu. Þið gætuð velt fyrir ykkur hvaða gæfumun það gerir í lífi ykkar. Ég lofa að það mun gera allan gæfumuninn! Þegar þið giftist í musterinu og komið stöðugt aftur, hljótið þið styrk og leiðsögn í ákvörðunum ykkar.

Ef ég gæti talað við hvern eiginmann og eiginkonu sem enn hafa ekki verið innsigluð í musterinu, myndi ég biðja þau að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að taka á móti þeirri krýnandi, lífbreytandi helgiathöfn. 16 Mun það gera gæfumunin? Einungis ef þið viljið þróast að eilífu og vera saman að eilífu. Að óska sér þess að vera saman að eilífu, mun ekki gera það. Engin önnur athöfn eða samningur mun gera það. 17

Ef ég gæti talað við hvern karl eða konu sem þráir hjónaband, en hefur enn ekki fundið sér eilífan félaga, þá hvet ég ykkur til að bíða ekki þar til hjónabandið verður stofnað í húsi Drottins. Byrjið núna að læra og upplifa hvað í því felst að vera gæddur prestdæmiskrafti.

Ykkur öll, sem hafið gert musterissáttmála, bið ég að reyna – kostgæfið og stöðugt – að skilja musterissáttmála og helgiathafnir. 18 Andlegar dyr munu ljúkast upp. Ykkur mun lærast hvernig á að svipta frá hulunni milli himins og jarðar, hvernig á að biðja engla Guðs að gæta að ykkur og hvernig betur má hljóta leiðsögn frá himnum. Kostgæfin viðleitni ykkar til að gera það, mun styrkja og efla ykkar andlegu undirstöðu.

Kæru bræður og systur, þegar endurbótum á Salt Lake-musterinu lýkur, verður hvergi öruggara að vera en í musterinu, ef jarðhræringar verða í Saltvatnsdalnum.

Hvenær sem einhverjar hræringar verða í lífi ykkar, verður á sama hátt andlega öruggast að lifa innan marka musterissáttmála ykkar!

Trúið mér þegar ég segi, að þegar andleg undirstaða ykkar er örugglega byggð á Jesú Kristi, þá þurfið þið ekki að óttast. Þegar þið eruð trú þeim sáttmálum sem þið gerðuð í musterinu, munið þið styrkt með krafti hans. Þegar síðan andlegar jarðhræringar verða, munið þið geta staðið sterk, vegna þess að andleg undirstaða ykkar er óhagganleg.

Ég elska ykkur, kæru bræður og systur. Þennan sannleika veit ég: Guð, himneskur faðir okkar, vill að þið veljið að koma heim til hans. Áætlun hans um eilífa framþróun er ekki flókin og hún virðir sjálfræði ykkar. Ykkur er frjálst að velja hver þið verðið – og með hverjum þið verðið – í komandi heimi!

Guð lifir! Jesús er Kristur! Þetta er kirkjan hans, endurreist ykkur til hjálpar við að uppfylla guðleg örlög ykkar. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá „How Firm a Foundation,“ Hymns, nr. 85.

  2. Svo að „þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, … mun það ekkert vald hafa [yfir okkur], … vegna þess að það bjarg, sem [við byggjum] á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið“ (Helaman 5:12; skáletrað hér).

  3. Sjá Kenning og sáttmálar 109:15, 22.

  4. Kenning og sáttmálar 38:30; sjá einnig Kenning og sáttmálar 10:55.

  5. Sjá HDP Móse 5:5–6.

  6. Sjá Leiðarvísir að ritningunum, „Musteri, hús Drottins.“

  7. Sjá t.d. 2. Mósebók 28; 29; 3. Mósebók 8. Tjaldbúð Móse var þekkt sem „sáttmálstjaldið“ (4. Mósebók 9:15) og „sáttmálsbúðin“ (2. Mósebók 38:21). Musteri Salómons var eyðilagt árið 578 f.Kr., nokkrum árum eftir að fjölskylda Lehís yfirgaf Jerúsalem. Endurreisn þessa musteris fyrir milligöngu Serúbabels fór fram um 70 árum síðar. Það eyðilagðist síðan í eldi árið 37 f.Kr. Heródes stækkaði musterið um 16 f.Kr. Þetta musteri, sem Jesús þekkti, var síðan eyðilagt árið 70 e.Kr. Í Ameríku upplifði Nefí musterislíkar upplifanir með því að fara „oft á fjallið“ til að biðja (1. Nefí 18:3) og hann byggði síðar musteri í Ameríku „í líkingu musteris Salómons,“ þótt það væri án margra dýrmætra muna (sjá 2. Nefí 5:16).

  8. Sjá Kenning og sáttmálar 88:119; 124:31.

  9. Sjá Kenning og sáttmálar 110:13–16; 124:28. Hornsteinn Nauvoo-musterisins var lagður 6. apríl 1841, örfáum mánuðum eftir að Joseph Smith fékk opinberunina um að reisa það. Nauvoo-musterið sinnti viðbótar hlutverkum. Drottinn útskýrði t.d. að skírnarfontur væri nauðsynlegur til að hinir heilögu gætu skírst fyrir hina dánu (sjá Kenning og sáttmálar 124:29–30).

  10. Sjá Kenning og sáttmálar 131; 132. Í Kenningu og sáttmálum 128 er bréf sem Joseph Smith ritaði til hinna heilögu varðandi skírn fyrir dána. Í því lýsti hann yfir að sáluhjálp hinna dánu væri „nauðsynleg og óhjákvæmileg fyrir [okkar] sáluhjálp, … [því] að þeir án [okkar geta] ekki orðið fullkomnir – né heldur getum [við] án okkar dánu orðið fullkomin“ (vers 15).

  11. Joseph Smith, í Saints: The Story of the Church of Jesus Christ in the Latter Days , bindi 1, The Standard of Truth, 1815–1846 (2018), 454.

  12. „Kirkjusagnfræðingurinn George A. Smith ályktaði að 5.634 bræður og systur hefðu fengið musterisgjöf sína í hinu ófullgerða Nauvoo-musteri, í desember 1845 og janúar 1846. Innsiglun hjóna var haldið áfram til 7. febrúar 1846, en þá höfðu meira en 2.000 pör verið sameinuð um tíma og eilífð með prestdæminu“ (Bruce A. Van Orden, „Temple Finished before Exodus,“ Deseret News, 9. des. 1995, deseret.com; sjá einnig Richard O. Cowan, „Endowments Bless the Living and Dead,“ Church News, 27. ágúst 1988, thechurchnews.com).

  13. „Hvað haldið þið að feðurnir myndu segja, ef þeir gætu talað frá dauðum? Myndu þeir ekki segja: Við höfum dvalið hér í þúsundir ára, hér í þessari prísund, bíðandi eftir að þessi ráðstöfun komi? … Hvers vegna? Ef þeir réðu, þá hljómuðu þrumur himnaríkis í eyrum okkar, svo við fengjum enn áttað okkur á mikilvægi þess verks sem við tökum þátt í. Allir englar himins líta til þessarar handfylli af fólki og hvetur það til sáluhjálparstarfs mannkyns. … Þegar ég hugsa um þetta málefni, vil ég að hljómur sjö þruma veki upp fólkið“ (Discourses of Brigham Young, valið af John A. Widtsoe [1954], 403–4).

  14. Harold B. Lee, „God’s Kingdom—A Kingdom of Order,“ Ensign, jan. 1971, 10. Sjá einnig yfirlýsingu frá Wilford Woodruff forseta árið 1896: „Ég vil segja, sem forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, að við ættum nú að sækja fram og taka framförum. Við höfum ekki lokið við að fá opinberanir. … [Brigham] Young forseti, sem var eftirmaður Josephs Smith forseta, leiddi okkur hingað. Hann skipulagði þessi musteri og framfylgdi tilgangi köllunar og embættis síns. … Hann fékk ekki allar opinberanirnar sem tilheyra þessu verki; heldur ekki Taylor forseti eða Wilford Woodruff. Þetta verk tekur ekki enda fyrr en það hefur verið fullkomnað“ (The Discourses of Wilford Woodruff, valið af G. Homer Durham [1946], 153–54).

  15. Sjá 3. Nefí 29:8–9.

  16. Sjá Kenning og sáttmálar 131:2, 4.

  17. Sjá Kenning og sáttmálar 132:7.

  18. Öldungur John A. Widtsoe ritaði: „Við þann karl eða konu sem fer í gegnum musterið með augun opin og gefur táknum og sáttmálum gaum og reynir stöðugt að skilja merkinguna fyllilega, mun Guð tala orð sitt og opinberanir munu koma. Musterisgjöfin er svo rík að táknum að aðeins heimskingi myndi reyna að lýsa henni; hún er stútfull af opinberunum fyrir þá sem beita eigin kröftum til að leita og skynja, að engin mannleg orð geta útskýrt eða upplýst um möguleikana sem felast í musterisþjónustu. Musterisgjöfin, sem gefin var með opinberun, verður best skilin með opinberun“ (í Archibald F. Bennett, Saviors on Mount Zion [kennslubók sunnudagaskólans, 1950], 168).