Aðalráðstefna
Trú til að framkvæma og verða
Aðalráðstefna október 2021


Trú til að framkvæma og verða

Með bæn, ritningarnámi og að framkvæma, getum við lokið upp blessunum himins og orðið betri fylgjendur frelsarans Jesú Krists.

Stuttu eftir að ég var kallaður til þjónustu sem aðalvaldhafi Sjötíu, fékk ég tækifæri til að hitta Russell M. Nelson forseta í nokkrar mínútur. Við hittumst fyrir tilviljun í mötuneytinu og hann var svo vingjarnlegur að bjóða mér og öldungi S. Mark Palmer að setjast hjá sér og njóta saman hádegisverðar.

„Um hvað tölum við þegar við snæðum hádegisverð með spámanninum?“ hugsaði ég með mér. Ég ákvað að spyrja Nelson forseta hvort hann hefði einhverja leiðsögn fyrir mig, þar sem ég hafði nýlega tekið við köllun minni. Svar hans var einfald og beinskeytt; hann leit á mig og sagði: „Öldungur Schmeil, þú hefur verið kallaður til þess sem þú getur orðið.“ Ég fór frá þessari upplifun og velti vöngum yfir því hvað Drottinn vildi að ég yrði. Þegar ég hugleiddi þetta, gerði ég mér ljóst að hann vildi að ég yrði betri eiginmaður, faðir, sonur og þjónn. Ég skildi síðan að allt þetta gæti orðið að veruleika, ef ég ynni að því að verða betri lærisveinn Jesú Krists.

Nelson forseti sagði á síðustu aðalráðstefnu: „Að gera eitthvað vel, krefst erfiðis. Að verða sannur lærisveinn Jesú Krists, er engin undantekning.“ 1 Nelson forseti býður okkur að vinna ötul að því að verða betri lærisveinar Jesú Krists. Hann sagði okkur að til þess að verða líkari frelsaranum, þá þyrftum við að styrkja trú okkar með því að spyrja, framkvæma og læra, ásamt fleiru.

1. Biðja

Hann sagði: „Biðjið himneskan föður ykkar, í nafni Jesú Krists, um liðsinni.“ 2 Að spyrja í bæn er lykilatriði til að vita hvernig við getum orðið betri lærisveinar Jesú Krists.

Þegar dró að lokum þjónustu hans meðal Nefítanna í Ameríku, steig Jesús Kristur upp til himins. Lærisveinar hans komu síðar og „sameinuðust í máttugri bæn og föstu. Og Jesús birtist þeim enn á ný, því að þeir báðu til föðurins í hans nafni.“ 3 Hvers vegna birtist Jesús lærisveinum sínum á ný? Vegna þess að þeir báðust fyrir; þeir höfðu spurningar.

Hann hélt áfram:

„Nú fer ég til föðurins. Og sannlega segi ég yður, að hvað, sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, það skal yður veitast.

Biðjið því, og yður mun gefast. Knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að þeim, sem biður, mun gefast. Og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“ 4

Við þurfum að biðja í trú til að þekkja vilja Drottins og lúta því að Drottinn veit hvað okkur er fyrir bestu.

2. Framkvæma

Að framkvæma, er annað lykilatriði til að verða betri lærisveinn Jesú Krists. Þegar við framkvæmum, leiðbeinir hann okkur og vísar áfram á veginum. Ég er viss um að Nefí hafi leitað leiðsagnar Drottins um það hvernig hann gæti náð látúnstöflunum frá Laban, þrátt fyrir það reyndu hann og bræður hans tvisvar án árangurs. Þeir framkvæmdu þó og Drottinn leiddi þá áfram á veginum. Í þriðja skiptið náði Nefí loksins árangri. Hann sagði: „Andinn leiddi mig, og ég vissi ekki fyrirfram, hvað gjöra skyldi.“ 5

Svona vinnur Drottinn þegar við leggjum okkur fram og framkvæmum, jafnvel þegar við höfum ekki fullan skilning á því hvað skuli gera. Drottinn sagði Nefí hvað hann skyldi gera – fara og sækja töflurnar. Hann sagði Nefí þó ekki hvernig ætti að fara að því. Hann lét Nefí það eftir að leysa málið og leita liðsinnis Drottins – þannig vinnur Drottinn oft í okkar lífi. Þegar við framkvæmum í trú, leiðbeinir Drottinn okkur.

3. Læra

Í 3. Nefí segja lærisveinarnir frelsaranum frá því að deilur hafi verið meðal fólksins varðandi nafn kirkjunnar. Frelsarinn kenndi mikilvæga reglu með svari sínu, þegar hann spurði: „Hafa þeir ekki lesið ritningarnar?“ 6 Að læra, er líka lykilatriði til að verða betri lærisveinn Jesú Krists. Bæn og ritningarnám eru nátengd. Þetta tvennt samverkar okkur til góðs. Þetta er það ferli sem Drottinn hefur komið á. „[Endurnærist] af orðum Krists. Því að sjá. Orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.“ 7

Frelsarinn kenndi líka að við ættum ekki einungis að læra ritningarnar, heldur einnig að kenna úr þeim, eins og hann bauð Nefítunum: „Og nú bar svo við, að þegar Jesús hafði útlagt allar ritningarnar í einu, sem letraðar höfðu verið, bauð hann þeim að kenna það, sem hann hafði útlagt fyrir þá.“ 8

Þetta er ein af ástæðum þess að mikilvægt var fyrir Nefí að snúa til baka og sækja látúnstöflurnar – fjölskylda hans þarfnaðist ekki aðeins ritninganna til að hjálpa þeim á ferðalaginu til fyrirheitna landsins, heldur líka við að kenna börnunum. Við verðum líka að leita leiðsagnar ritninganna fyrir ferðalag okkar og við verðum að kenna úr þeim á heimili okkar og í kirkjuköllunum.

4. Framkvæmið til að verða

Oftar en ekki mun bænasvar ekki berast strax um hæl. Við verðum að hafa trú til að halda áfram, breyta í réttlæti og sýna þrautseigju eins og Nefí þegar hann reyndi að ná látúnstöflunum. Drottinn mun sýna okkur smávegis í einu; þegar við lærum ritningarnar, mun Drottinn veita okkur svörin eða nauðsynlegan styrk til að þrauka enn annan dag eða aðra viku og að reyna einu sinni aftur. Öldungur Richard G. Scott sagði: „Verum þakklát fyrir að Guð leyfi stundum að við heyjum baráttu um langa hríð áður en bænheyrsla berst. Það eflir trú okkar og persónuleika.“ 9

Með bæn og ritningarnámi hefur Drottinn ávallt veitt mér styrk til að breyta og þrauka enn annan dag eða aðra viku og að reyna einu sinni aftur. Oft barst svarið ekki strax um hæl. Ég hef spurningar sem enn hefur ekki verið svarað, en ég held áfram að biðja og læra og er glaður að Drottinn haldi áfram að veita mér styrk til að framkvæma á meðan ég bíð eftir svörum.

Öldungur Scott sagði þar að auki: „Þegar við förum að mörkum þekkingar okkar og út í hálfmyrkur óvissunar, og iðkum trú, verður okkur vísað á lausn, sem við hefðum ekki fundið á annan hátt.“ 10

Að bæta sig sem fylgjandi frelsarans Jesú Krists, er ævilangt ferðalag og við erum öll mislangt komin og erum á mismunandi hraða. Við verðum að hafa það í huga að þetta er ekki keppni og að við erum hér til að elska og liðsinna hvert öðru. Við verðum að framkvæma til að gefa frelsaranum tækifæri til að vinna með okkur í lífinu.

Drottinn sagði þetta, er hann talaði til Sidneys Rigdon: „Ég hef litið á þig og verk þín. Ég hef heyrt bænir þínar og búið þig undir stærra verk.“ 11 Ég ber vitni um að Drottinn heyrir og svarar bænum okkar; hann þekkir okkur; hann hefur mikið verk fyrir hvert okkar. Með bæn, ritningarnámi og að framkvæma, getum við lokið upp blessunum himins og orðið betri fylgjendur frelsarans Jesú Krists.

Öldungur Dallin H. Oaks kenndi að „lokadómurinn er ekki bara samantekt á öllum okkar góðu og slæmu verkum – því sem við höfum gert. Hann er staðfesting á endanlegum áhrifum verka og hugsana okkar – á því sem við höfum orðið.“ 12

Ég er þakklátur fyrir spámenn, sjáendur og opinberara; þeir eru varðmenn turnsins. Þeir koma auga á það sem við sjáum ekki. Ég ber vitni að með orðum þeirra, getum við orðið betri fylgjendur frelsarans Jesú Krists og náð okkar möguleikum. Ég ber vitni um að Kristur lifir og þekkir sérhvert okkar. Þetta er hans kirkja. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.