Aðalráðstefna
Dýpka trúarlegan viðsnúning til Jesú Krists
Aðalráðstefna október 2021


Dýpka trúarlegan viðsnúning til Jesú Krists

Ritningarnar og þekking okkar á Guði eru gjafir – gjafir sem við of oft tökum sem sjálfgefnum. Við skulum varðveita þessar blessanir.

Þakka þér innilega, öldungur Nielson, fyrir þinn dásamlega boðskap. Við þurftum á þessu að halda.

Kæru bræður og systur, Russell M. Nelson forseti kenndi okkur nýlega: „Að gera eitthvað vel, krefst erfiðis. Að verða sannur lærisveinn Jesú Krists, er engin undantekning. Að auka trú og traust á hann, krefst erfiðis.“ Meðal þess sem hann hvatti okkur til að gera til að auka trú okkar á Jesú Krist, er að verða duglegir námsmenn, að við sökkvum okkur ofan í ritningarnar til að skilja betur hlutverk og þjónustu Krists. (Sjá „Kristur er risinn; trú á hann mun færa fjöll úr stað,“ aðalráðstefna, apríl 2021.)

Í Mormónsbók lærum við að ritningarnar hafi verið mikilvægur hluti af fjölskyldu Lehís – svo mikilvægur að Nefí og bræður hans snéru aftur til Jerúsalem til að ná í látúnstöflurnar (sjá 1. Nefí 3–4).

Ritningarnar opinbera vilja Guðs fyrir okkur, á svipaðan hátt og Líahóna gerði fyrir Nefí og föður hans. Eftir að Nefí braut bogann sinn, þurfti hann að vita hvert hann ætti að fara til að afla matar. Faðir hans, Lehí, leit á Líahóna og sá það sem þar var ritað. Nefí sá að vísarnir virkuðu eftir trú, kostgæfni og þeirri athygli sem þeim voru gefnir. Hann sá líka ritmál sem auðvelt var að lesa og veitti þeim skilning varðandi vegi Drottins. Hann varð meðvitaður um að Drottinn kemur miklu leiðar fyrir hið smáa. Hann hlýddi þeirri leiðsögn sem gefin var með Líahóna. Hann fór upp á fjallið og aflaði matar fyrir fjölskyldu sína, sem hafði þjáðst svo mikið vegna matarskorts. (Sjá 1. Nefí 16:23–31.)

Mér virðist svo að Nefí hafi helgað sig því að læra ritningarnar. Við lesum að Nefí hafi haft unun af ritningunum, ígrundað þær í hjarta og fært þær í letur börnum sínum til gagns (sjá 2. Nefí 4:15–16).

Russell M. Nelson forseti sagði:

„Ef við ,[sækjum fram, endurnærð af orði Krists og stöndum stöðug allt til enda, … munum við öðlast eilíft líf]‘ [2. Nefí 31:20].

Að endurnærast táknar meira en aðeins að smakka. Að endurnærast er að njóta. Við njótum ritninganna með því að læra þær í anda með undursamlegri uppgötvun og dyggri hlýðni. Þegar við endurnærumst af orði Krists sem greypt eru á ,hjartaspjöld úr holdi‘ [2. Korintubréf 3:3], verða þau óaðskiljanlegur hluti af eðli okkar“ („Lifa eftir leiðsögn ritninganna,“ Liahona, janúar 2001).

Hvað er eitthvað af því sem við gerðum, ef sál okkar hefði unun af ritningunum?

Þrá okkar til að taka þátt í samansöfnun Ísraels, beggja vegna hulunnar, mun verða sterkari. Okkur verður eðlislægt að bjóða fjölskyldu og vinum að hlýða á trúboðana. Við verðum verðug og munum hafa gild musterismeðmæli til þess að fara í musterið eins oft og mögulegt er. Við munum vinna, finna, undirbúa og senda nöfn áa okkar fyrir musterið. Við munum staðfastlega halda hvíldardaginn heilagan, fara í kirkju alla sunnudaga til að endurnýja sáttmála okkar við Drottin er við meðtökum sakramentið verðuglega. Við munum halda okkur á sáttmálsveginum og lifa eftir hverju orði sem fram gengur af Guðs munni (sjá Kenning og sáttmálar 84:44).

Hver finnst ykkur vera merking þess að hafa unun af því sem Drottins er?

Að hafa unun af ritningunum, er meira en að hungra og þyrsta eftir þekkingu. Nefí upplifði mikla gleði í lífi sínu. Hann tókst þó líka á við erfiðleika og sorg (sjá 2. Nefí 4:12–13). „Þó veit ég,“ sagði hann, „á hvern ég hef sett traust mitt“ (2. Nefí 4:19). Þegar við lærum ritningarnar, munum við skilja betur áætlun Guðs um sáluhjálp og upphafningu og reiða okkur á loforðin sem hann hefur gefið okkur í ritningunum, sem og loforð og blessanir nútíma spámanna.

Ljósmynd
Davíð og Golíat

Kvöld eitt var mér og eiginkonu minni boðið heim til vinar. Sjö ára gamall sonur hjónanna, David, hafði aldrei heyrt biblíusöguna um Davíð og Golíat og vildi fá að heyra hana. Þegar ég hóf að segja söguna, hreifst hann af því hvernig Davíð, með trú sinni og í nafni Guðs Ísraels, særði og drap Filisteann með slöngu og steini, án sverðs í hönd (sjá 1. Samúelsbók 17).

Hann horfði á mig með sínum afar dökku augum og spurði ákveðinn: „Hver er Guð?“ Ég útskýrði fyrir honum að Guð væri faðir okkar á himnum og við lærðum um hann í ritningunum.

Þá spurði hann: „Hvað eru ritningar?“ Ég sagði honum að ritningar væru orð Guðs og í þeim væru fallegar frásagnir sem hjálpuðu honum að þekkja Guð betur. Ég bað móður hans að nota Biblíuna sem hún hafði á heimili sínu og láta David ekki fara að sofa fyrr en hún hafði lesið alla söguna fyrir hann. Hann hafði unun af því að hlusta á hana. Ritningarnar og þekking okkar á Guði eru gjafir – gjafir sem við of oft tökum sem sjálfgefnum. Við skulum varðveita þessar blessanir.

Þegar ég þjónaði í trúboði sem ungur maður, tók ég eftir að kenningar ritninganna breyttu lífi margra. Ég varð meðvitaður um kraftinn sem í þeim býr og hvernig þær geta breytt lífi okkar. Hver einstaklingur sem við kenndum hið endurreista fagnaðarerindi var einstakur, með ólíkar þarfir. Hinar helgu ritningar – já, spádómarnir sem hinir heilögu spámenn rituðu – vöktu fólk til trúar á Drottin og iðrunar og breyttu hjarta þess.

Ritningarnar fylltu það gleði, er það hlaut innblástur, leiðsögn, huggun, styrk og svör við þörfum sínum. Margir á meðal þess ákváðu að gera breytingar á lífi sínu og tóku að halda boðorð Guðs.

Nefí hvetur okkur til að hafa unun af orði Krists, vegna þess að orð Krists munu segja okkur allt sem við þurfum að gera (sjá 2. Nefí 32:3).

Ljósmynd
Ritningarnám fjölskyldunnar

Ég býð ykkur að gera varanlega áætlun um að læra ritningarnar. Kom, fylg mér er dásamlegt efni sem við höfum til að kenna og læra fagnaðarerindið, dýpka trúarlegan viðsnúning til Jesú Krists og hjálpa okkur að verða líkari honum. Þegar við lærum fagnaðarerindið, erum við ekki einfaldlega að afla okkur nýrra upplýsinga; við erum fremur að reyna að verða „[ný sköpun]“ (2. Korintubréf 5:17).

Heilagur andi leiðir okkur í sannleikann og vitnar um þann sannleika (sjá Jóhannes 16:13). Hann upplýsir hug okkar, vekur skilning okkar og snertir hjarta okkar með opinberun frá Guði, uppsprettu alls sannleika. Heilagur andi hreinsar hjarta okkar. Hann vekur okkur þrá til að lifa eftir sannleikanum og hvíslar að okkur hvernig við getum gert það. „Andinn heilagi … [mun] kenna [okkur] allt“ (Jóhannes 14:26).

Frelsarinn ræddi um þau orð sem hann opinberaði spámanninum Joseph Smith og sagði:

„Þessi orð eru ekki frá mönnum, né frá nokkrum manni komin, heldur frá mér. …

Það er mín rödd, sem talar þau til yðar. Því að þau eru gefin yður af anda mínum. …

Þess vegna getið þér vottað, að þér hafið heyrt rödd mína og þekkið orð mín“ (Kenning og sáttmálar 18:34–36).

Við ættum að leita samfélags heilags anda. Það markmið ætti að stjórna ákvörðunum okkar og hugsunum og verkum. Við verðum að sækjast eftir öllu sem vekur áhrif andans og hafna öllu sem útilokar þau áhrif.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er hinn elskaði sonur himnesks föður. Ég elska frelsara minn. Ég er þakklátur fyrir ritningar hans og lifandi spámenn hans. Nelson forseti er spámaður hans. Í nafni Jesú Krists, amen.