Aðalráðstefna
Eitt prósent betri
Aðalráðstefna október 2021


Eitt prósent betri

Hver sú viðleitni sem við sýnum til að breytast – sama hversu lítil hún virðist okkur – gæti hreinlega skipt sköpum í lífi okkar.

Í rúma öld hafði landslið Bretlands í hjólreiðum verið að athlægi í heimi hjólreiðaíþrótta. Breskir hjólreiðamenn höfðu aðeins unnið handfylli gullverðlauna í 100 ára sögu ólympíuleikanna og ollið jafnvel enn meiri vonbrigðum í hinni erfiðu þriggja vikna löngu hjólreiðakeppni Tour de France – þar sem enginn breskur hjólreiðamaður hafði unnið í 110 ár. Svo afleit var staða breskra hjólreiðamanna að sumir hjólaframleiðendur neituðu að selja Bretum hjól af ótta við að það myndi endanlega brjóta niður áunnið orðspor þeirra. Þrátt fyrir að verja gríðarlegu fjármagni í háþróaða tækni og hverja nýstárlega þjálfunaráætlun, þá virkaði ekkert.

Ljósmynd
Breskir hjólreiðamenn

Alls ekkert, eða fram að árinu 2003, þegar lítil og að mestu óveruleg breyting var gerð, sem átti eftir að hafa varanleg áhrif á stefnu breskra hjólreiða. Sú nýja nálgun varpar líka ljósi á eilífa reglu – með loforði – varðandi stöðuga og oft flókna jarðneska viðleitni okkar til að bæta okkur sjálf. Hvað gerðist í breskum hjólreiðum, sem hefur skírskotun í persónulega viðleitni okkar til að verða betri dætur og synir Guðs?

Árið 2003 var Sir Dave Brailsford ráðinn. Ólíkt fyrri þjálfurum, sem höfðu reynt stórbrotinn viðsnúning á skömmum tíma, þá hélt Sir Brailsford sig fast við þjálfunaráætlun sem hann kallaði „samanlagðan árangur margra lítilla sigra.“ Hún fólst í því að gera smávægilegar endurbætur á öllu. Hún fólst í stöðugum mælingum lykilþátta og beindist að sérstökum veikleikum.

Það er nokkurn veginn í takt við það sem spámaðurinn og Lamanítinn Samúel kallaði að „[ganga] gætilega.“ 1 Þessi víðtækari heildarskoðun sneiðir hjá þeirri gildru að einskorða sig aðeins við hinn augljósa vanda eða tiltekna synd. Brailsford sagði: „Meginreglan spratt út frá þeirri hugmynd að ef allt sem hugsanlega snýr að hjólreiðum er aðgreint og sundurliðað og hvert atriði síðan endurbætt um eitt prósent, verða framfarir verulegar þegar allt er talið saman.“ 2

Nálgun hans virðist nokkuð lík nálgun Drottins, sem kenndi mikilvægi hins eina prósents – jafnvel á kostnað hinna 99 prósentanna. Hann var auðvitað að kenna þann mikilvæga þátt fagnaðarerindisins að leita að nauðstöddum einstaklingum. Hvað ef við beitum sömu reglunni á hina ljúfu frumreglu fagnaðarerindisins, iðrun? Í stað þess að fyllast vonleysi yfir endalausri ágjöf letjandi geðshræringa andstæðra sveiflna á milli syndar og iðrunar, hvað ef við myndum skerpa sýn okkar – og um leið víkka hana út? Hvað með að taka aðeins eitt fyrir í einu, í stað þess að reyna að fullkomna allt?

Hvað ef t.d. nýtt víðara sjónarhorn gerði ykkur kleift að sjá að þið hefðuð vanrækt að lesa Mormónsbók daglega? Í stað þess að reyna af örvæntingu að lesa allar 531 blaðsíðurnar á einu kvöldi, hvað ef við einsettum okkur fremur að lesa aðeins eitt prósent af þeim – eða með öðrum orðum fimm síður á dag – eða annað viðráðanlegt markmið fyrir ykkar aðstæður? Gæti samanlagður árangur margra lítilla endurbóta í lífi okkar verið raunveruleg leið til sigurs, jafnvel á okkar hvimleiðustu persónulegu annmörkum? Gæti sú aðferð að aðgreina annmarka okkar virkilega virkað?

Hinn rómaði höfundur, James Clear, segir þessa aðferð virka fyrir okkur stærðfræðilega. Hann heldur því fram að „venjur séu ‚samanlagður árangur‘ sjálfsbetrunar. Ef þið getið bætt ykkur um einungis eitt prósent í einhverju á hverjum degi, … verðið þið 37 sinnum betri í árslok.“ 3

Hinar smáu sigrar Brailsfords hófust á því augljósa, svo sem hjólabúnaði, búningsefni og þjálfunaraðferðum. Liðið hans lét þó ekki staðar numið hér. Það hélt áfram að vinna að eitt prósent endurbótum á vanræktum og óvæntum atriðum, eins og næringu og jafnvel hjólaviðhaldi. Í tímans rás, mynduðu þessar og ótal aðrar litlar endurbætur sláandi heildarárangur, sem náðist hraðar en nokkur hefði getað ímyndað sér. Sannlega höfðu þeir hagnýtt sér hina eilífu reglu „orð á orð ofan, setning á setning ofan, örlítið hér og örlítið þar.“ 4

Munu smávægilegar lagfæringar koma til leiðar þeirri „[gjörbreytingu]“ 5 sem þið þráið? Sé þetta rétt útfært, er ég 99 prósent viss um að það gerist! Eini fyrirvari þessarar aðferðar er sá, að til þess að margir litlir sigrar leiði til mikils árangurs, þá þarf að halda sig við efnið, stöðugt, dag frá degi. Þótt við verðum líklega ekki fullkomin, þá verðum við að einsetja okkur að sýna þolinmæði og þrautseigju. Gerið það og þá mun hin ljúfa umbun aukins réttlætis færa ykkur þá gleði og þann frið sem þið leitið að. Eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt: „Ekkert er jafn frelsandi, göfgandi eða nauðsynlegt framþróun okkar sjálfra, en að einblína á iðrun daglega og reglubundið. Iðrun er ekki atburður; hún er ferli. Hún er lykill að hamingju og hugarró. Fari iðrun og trú saman, greiðir hún okkur aðgang að krafti friðþægingar Jesú Krists.“ 6

Ljósmynd
Mustarðskorn
Ljósmynd
Mustarðstré

Ritningarnar eru skýrar um að trú er forsenda að iðrun. Allt sem þarf í upphafi er aðeins að sýna „örlitla trú.“ 7 Ef okkur tekst að höndla slíkt „mustarðskorn“ 8 hugarfarslega, þá getum við líka búist við óvæntum og óvenjulegum framförum í lífi okkar. Hafið þó hugstætt að á sama hátt og við myndum ekki reyna að breytast frá því að vera Atli Húnakonungur yfir í að verða móðir Teresa á einni nóttu, þá ættum við líka að endurstilla framfaraferli okkar stig af stigi. Þótt breytingarnar sem þarf að gera í lífi ykkar séu heilmargar, byrjið þá í litlum mæli. Þetta á einkum við ef ykkur finnst þið vera yfirhlaðin eða full vonleysis.

Þið fáið ekki alltaf áorkað þessu með jöfnum línulegum hætti. Bakslag getur líka orðið, jafnvel meðal hinna ákveðnustu. Þar sem ég hef sjálfur upplifað vonbrigði yfir þessu í eigin lífi, þá veit ég að stundum finnst okkur við fara eitt prósent áfram og tvö prósent aftur á bak. Ef við þó höldum stöðugt áfram, ótrauð og einbeitt, við að ná þessum eitt prósent árangri, mun sá sem „[hefur borið þjáningar okkar],“ 9 vissulega bera okkur.

Augljóslega, ef við eigum aðild að alvarlegum syndum, þá er Drottinn skýr og afdráttarlaus; við þurfum að láta af því, leita hjálpar frá biskupi okkar og snúa þegar í stað frá öllu slíku. Eins og öldungur David A. Bednar kenndi: „Drottinn vill að við tökum lítil, stöðug og stigvaxandi skref í andlegri framþróun okkar. Að búa okkur undir að ganga fram fyrir Guð án sektar, er einn megin tilgangur jarðlífsins og ævilöng barátta; það gerist ekki með miklu átaki í andlegum málum endrum og eins.“ 10

Ljósmynd
Breskir hjólreiðamenn

Virkar í raun þessi smækkaða aðferð til iðrunar og raunverulegra breytinga? Felst prófsteinninn í fótstiginu, ef svo mætti spyrja? Íhugið hvað átti sér stað í breskum hjólreiðum á undanförnum tveimur áratugum, frá innleiðingu þessarar hugmyndafræði. Breskir hjólreiðamenn hafa nú sigrað hina þekktu keppni, Tour de France, sex sinnum. Á undanförnum fjórum Ólympíuleikum, hefur Bretland verið sigursælasta landið í öllum hjólreiðagreinum. Á nýafstöðnum Ólympíuleikum í Tókýó ávann Bretland sér fleiri gullpeninga í hjólreiðum en nokkurt annað land.

Ljósmynd
Sigurvegarar á Ólympíuleikum

Ljósmyndir af breskum hjólreiðamönnum (efst frá vinstri til hægri), eftir Friedemann Vogel, John Giles og Greg Baker/Getty Images

Langtum dýrmætara silfri eða gulli er þó hið dýrmæta loforð okkar á veginum til eilífðar, um að við munum örugglega „[sigra í Kristi].“ 11 Þegar við einsetjum okkur að gera litlar en stöðugar endurbætur, er okkur lofað „dýrðarsveig sem aldrei fölnar.“ 12 Ég býð ykkur skoða eigið líf, með því að baða ykkur í þessum dýrðarljóma og sjá hvað stöðvaði ykkur eða hægði á ykkur á sáttmálsveginum. Víkkið þá sjóndeildarhringinn. Leitið hóflegra, en viðráðanlegra lagfæringa í lífi ykkar, sem gætu leitt til þeirrar ljúfu gleði að verða aðeins betri.

Hafið hugstætt að Davíð notaði aðeins einn lítinn stein til að sigra hinn að því er virtist ósigrandi risa. Hann hafði þó fjóra aðra steina í handraðanum. Á svipaðan hátt, þá var það aðeins ein einföld, kyrrlát hugsun sem breytti ranglátri afstöðu og eilífum örlögum Alma yngri – minningin um kennslu föður hans um frelsandi náð Jesú Krists. Það átti líka við um frelsarann, sem þó var syndlaus, er „hlaut ekki fyllinguna í fyrstu, heldur hélt áfram frá náð til náðar, þar til hann hafði hlotið fyllingu.“ 13

Ljósmynd
Jesús Kristur

Það er sá sem veit hvenær spörfugl fellur, sem einblínir engu að síður á augnablik en afdrifaríkar stundir lífs okkar og sem er fús einmitt nú til að liðsinna ykkur við hvert það eina prósent sem þið takist á við og verður útkoma þessarar ráðstefnu. Vegna þess að hver sú viðleitni sem við sýnum til að breytast – sama hversu lítil hún virðist okkur – gæti hreinlega skipt sköpum í lífi ykkar.

Í þessum tilgangi kenndi öldungur Neal A. Maxwell: „Hver einbeitt réttlát þrá, hvert þjónustuverk og hver tilbeiðslustund, hversu lítil og stigvaxandi, eflir okkur andlega.“ 14 Sannlega er það með hinu litla og einfalda og, já, jafnvel aðeins einu prósenti, sem miklir hlutir verða að veruleika. 15 Endanlegur sigur er 100 prósent tryggður „að afloknu öllu, sem vér getum gjört,“ 16 fyrir mátt, verðleika og miskunn Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.