Aðalráðstefna
Komið til Krists og ekki koma einsömul
Aðalráðstefna október 2021


Komið til Krists og ekki koma einsömul

Besta leiðin fyrir ykkur til að bæta heiminn er að undirbúa heiminn fyrir Krist, með því að bjóða öllum að fylgja honum.

Ég fékk nýlega bréf frá forvitinni stúlku. Hún skrifaði: „Ég er föst. … Ég er ekki viss um það hver ég er, en mér finnst að ég sé hér fyrir eitthvað stórfenglegt.“

Hafið þið einhvern tíma haft þessa leitandi tilfinningu, velt því fyrir ykkur hvort himneskur faðir þekki ykkur og hvort hann þarfnist ykkar? Kæru ungmenni og allir aðrir, ég ber því vitni að svarið er ! Drottinn er með áætlun fyrir okkur! Hann hefur undirbúið ykkur fyrir þessa tíma, nákvæmlega núna, til að vera styrkur og kraftur til góðs í hans mikla verki. Við þörfnumst ykkar! Það verður hreinlega ekki eins stórfenglegt án ykkar!

Á helgri stundu minnti okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, mig eitt sinn á tvennt. Einfaldan sannleika sem er grundvöllur að ykkar stórfenglega og dýrðlega verki.

Ég sat á sófanum með eiginmanni mínum þegar spámaður okkar dró stól sinn til okkar, næstum hné við hné, og horfði á mig með stingandi bláu augum sínum. Ég var ekki viss hvort hjartað hefði tekið á rás eða hreinlega stoppað þegar hann kallaði mig til að vera aðalforseti Stúlknafélagsins. Hann spurði mig spurningar sem ómar enn í hjarta mínu: „Bonnie, hvað er það mikilvægasta sem [ungmennin] þurfa að vita?

Ég hugleiddi það eitt augnablik og sagði svo: „Þau þurfa að vita hver þau eru.“

„JÁ!“ sagði hann: „og þau þurfa að þekkja tilgang sinn.“

Guðlegt eðli okkar

Þið eruð ástkær, elskuð börn himnesks föður. Hann elskar ykkur svo fullkomlega að hann sendi son sinn, Jesú Krist, til að friðþægja fyrir ykkur og fyrir mig.1 Elska frelsarans til okkar er óbrigðul – jafnvel þegar okkur mistekst! Ekkert getur aðskilið okkur frá elsku Guðs.2 Það getur hjálpað ykkur að ýta óreiðu heimsins frá að minnast þessa kærleika, heims sem reynir að veikja sannfæringu ykkar á guðlegu eðli ykkar og blinda ykkur gagnvart möguleikum ykkar.

Á ráðstefnu FSY hitti ég tvær stúlkur sem höfðu átt í erfiðleikum. Báðar stúlkur minntust á að hafa leitað í patríarkablessanir sínar til að uppgötva elsku Drottins og persónulega leiðsögn. Finnið patríarkablessun ykkar, þurrkið af henni rykið ef þið þurfið, en lesið hana oft. Ef þið hafið ekki fengið hana, gerið það – fljótlega. Ekki bíða með að komast að því sem Drottinn vill segja ykkur um það hver þið eruð.

Eilífur tilgangur okkar

Annar sannleikurinn sem Nelson forseti ræddi við okkur um þennan dag, er að þekkja tilgang okkar. Þetta er okkar mikla og göfuga köllun.

Fyrir mörgum árum, þegar sonur minn, Tanner, var fimm ára, spilaði hann sinn fyrsta knattspyrnuleik. Hann var mjög spenntur!

Þegar við komum á leikinn sáum við að liðið hans notaði staðlaða stærð af marki – ekki lítið uppsett mark heldur mjög stórt net sem virtist allt of stórt fyrir fimm ára einstaklinga.

Leikurinn fékk á sig ævintýralegan blæ þegar ég sá Tanner stíga í stöðu markmannsins. Ég var svo hissa. Gerði hann sér virkilega grein fyrir hlutverki sínu að gæta marksins?

Blásið var í flautuna og við urðum svo hugfangin af leiknum að við gleymdum öllu um Tanner. Skyndilega fékk einn andstæðinganna boltann og rak hann hratt í áttina til hans. Ég leit í áttina til Tanners til að fullvissa mig um að hann væri tilbúinn að standa fast á sínu og verja markið. Ég sá nokkuð sem ég átti ekki von á.

Ljósmynd
Drengur í markmannsstöðu

Á einhverjum tímapunkti í leiknum hafði Tanner misst einbeitinguna og byrjaði að þræða vinstri handlegg sinn í hin ýmsu göt í netinu. Síðan gerði hann það sama með hægri handlegg sinn. Því næst vinstri fótinn. Að lokum, hægri fótinn. Tanner var algerlega flæktur í netið. Hann hafði gleymt tilgangi sínum og hverju honum hafði verið treyst fyrir.

Ljósmynd
Drengur flæktur í neti

Þó að knattspyrnuferill Tanners hafi ekki varað lengi, þá mun sú lexía sem ég lærði af honum aldrei gleymast. Við missum stundum einbeitinguna á því hvers vegna við erum hér og beinum kröftum okkar að einhverju öðru. Eitt af sterkustu vopnum Satans er að trufla okkur með góðum og betri málefnum sem geta, á neyðarstundu, blindað og bundið okkur frá besta málefninu – hinu raunverulega verki sem kallaði okkur hingað í heiminn.3

Eilífur tilgangur okkar er að koma til Krists og taka virkan þátt í hinu mikla verki hans. Það er eins einfalt og að gera það sem Nelson forseti hefur talað um: „Alltaf þegar við gerum eitthvað öðrum til hjálpar … [við] að gera og halda sáttmála við Guð, leggjum við samansöfnun Ísraels lið.“4 Þegar við vinnum verk hans með honum, lærum við að þekkja hann og elska hann meira.

Við höldum stöðugt áfram að komast nær frelsaranum með því að sýna trú, rækja iðrun og halda boðorðin. Þegar við bindumst honum með sáttmálum og helgiathöfnum, mun líf okkar fyllast fullvissu,5 vernd,6 og djúpri og varanlegri gleði.7

Þegar við komum til hans, sjáum við aðra með hans augum.8 Komið til Krists Komið núna, en ekki koma ein!9

Fagnaðarerindi Jesú Krists er ekki bara indælt; það er nauðsynlegt okkur öllum. „[Fyrir okkur er] engin önnur leið eða ráð til frelsunar, nema í og fyrir Krist.“10 Við þörfnumst Jesú Krists! Heimurinn þarfnast Jesú Krists.11

Munið að besta leiðin fyrir ykkur til að bæta heiminn er að undirbúa heiminn fyrir Krist, með því að bjóða öllum að fylgja honum.

Það er áhrifamikil saga í Mormónsbók sem talar kröftuglega um hinn upprisna Krist, er hann dvaldi um tíma með Nefítunum. Getið þið ímyndað ykkur hvernig það væri?

Þegar Kristur tilkynnti að hann yrði að snúa aftur til föður síns „leit hann enn yfir.“12 Þegar hann sá tárin í augum fólksins, vissi hann að hjörtu þeirra þráðu að hann dveldi lengur.

Ljósmynd
Frelsarinn býður Nefítum að læknast

Hann spurði: „Eru nokkrir sjúkir yðar á meðal? Færið þá hingað. Eru einhverjir lamaðir, blindir … daufir eða þjáðir á einhvern hátt? Færið þá hingað, og ég mun gjöra þá heila.“13

Þar sem hann hafði mikla samúð, setti hann engin mörk og kallaði eftir öllum sem voru „þjáðir á einhvern hátt“ Ég elska það að ekkert er of stórt eða of lítið fyrir Jesú Krist til að lækna.

Hann þekkir þjáningar okkar líka og kallar: Komið með alla þá sem eru kvíðnir eða þunglyndir, örmagna, drambsamir og misskildir, einmanna eða þá sem „eru þjáðir á einhvern hátt.“

Ljósmynd
Frelsarinn læknar

„Allur mannfjöldinn [fór] fram …; og hann læknaði þá, hvern og einn. …

Og allir, bæði þeir, sem læknast höfðu, og þeir, sem heilir voru, lutu að fótum hans og tilbáðu hann.14

Hvert sinn sem ég les þetta hugsa ég: Hvern hef ég fært til Krists? Hvern munið þið koma með?

Getum við horft aftur yfir, eins og Jesús gerði, til að vera viss um að engan vanti og bjóða öllum að koma og kynnast honum.

Leyfið mér að miðla ykkur dæmi um það hve einfalt það getur verrið. Peyton vinkona mín, 15 ára, hafði það markmið að lesa fimm ritningarvers við morgunmatinn á hverjum degi, en hún gerði það ekki einsömul. Hún leit aftur yfir og bauð foreldrum sínum og systkinum, jafnvel fimm ára bróður sínum. Þetta litla verk, að því er virtist, er það sem Kristur var að kenna þegar hann bauð „færið þá hingað.“

Boðið frá Drottni er enn fyrir hendi í dag. Stúlkur og piltar, hefjist handa núna, á heimilum ykkar. Munið þið biðja himneskan föður um að vita hvernig þið getið stutt foreldra ykkar er þau vinna að því að koma til Krists? Þau þarfnast ykkar jafn mikið og þið þarfnist þeirra.

Horfið síðan aftur á systkini ykkar, vini og nágranna. Hvern munið þið færa til Krists?

Frelsari okkar sagði: „Sjá ég er ljósið. Ég hef sýnt yður fordæmi.“15 Við munum þekkja elsku og frið frelsarans þegar við tökum þátt með honum í að frelsa fjölskyldu Guðs, því hann hefur lofað: „Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“16

Hve dásamlegir tímar til að starfa af kappi fyrir málstað Krists.

Já, þið eruð hér fyrir eitthvað stórfenglegt. Ég tek undir með Nelson forseta, sem sagði: „Drottinn þarf ykkur til að breyta heiminum. Er þið meðtakið og fylgið vilja hans fyrir ykkur, munið þið sjá ykkur sjálf áorka því ómögulega!“17

Ég ber því djarflega vitni að Drottinn veit hver þið eruð og hann elskar ykkur! Saman munum við stuðla að tilgangi hans þar til hinn mikla dag þegar Kristur sjálfur snýr aftur til þessarar jörðu og kallar hvert og eitt okkar „hingað.“ Við munum koma saman í gleði því við erum þau sem komum til Krists og við komum ekki einsömul. Í nafni Jesú Krists, amen.