Aðalráðstefna
Ég bið þess að hann noti okkur
Aðalráðstefna október 2021


Ég bið þess að hann noti okkur

Smá viðvik safnast saman í stór áhrif, sem magnar upp þau mörgu persónulegu verk sem við framkvæmum sem lærisveinar Jesú Krists.

Þessi smákaka sem er búin til úr smjördeigi og pistasíuhnetum er þakkargjöf. Hún var búin til af Kadado-fjölskyldunni sem átti þrjú bakarí í Damaskus, Sýrlandi í marga áratugi. Þegar stríðið kom, þá kom hafnarbann í veg fyrir allar sendingar á mat og nauðsynjum til þeirra borgarhluta. Kadado-fjölskyldan tók að svelta. Þegar ástandið náði hámarki sínu í þessari vonlausu stöðu, hóf Hjálparstofnun Síðari daga heilagra og nokkrir mjög hugrakkir starfsmenn Rahma Worldwide að bjóða upp á daglegar heitar máltíðir, ásamt mjólk fyrir litlu börnin. Eftir erfitt tímabil hófst fjölskyldan handan við nýtt líf – og bakaríið þeirra – enn á ný í nýju landi.

Nýlega kom kassi af smákökum í höfuðstöðvar kirkjunnar með eftirfarandi skilaboðum: „Í meira en tvo mánuði tókst okkur að fá mat frá Rahma – eldhúsi [Hjálparstofnunar] Síðari daga heilagra. Án þess hefðum við dáið úr hungri. Þiggið þetta vinsamlega … smá sýnishorn úr búð minni, sem þakklætisvott. Ég bið Guð almáttugan að blessa ykkur … í öllu sem þið gerið.“1

Smákaka þakklætis og minningar. Hún er til ykkar. Til allra sem fluttuð bænir eftir að hafa horft á fréttir, til allra sem unnu sjálfboðavinnu þegar það var óhentugt eða sem gáfu pening í mannúðarsjóðinn, treystandi því að það kæmi að gagni, takk fyrir.

Guðleg ábyrgð að annast hinna fátæku

Kirkja Jesú Krists er undir guðlegri skipan að annast hina fátæku.2 Þetta er einn af stólpum starfs sáluhjálpar og upphafningar.3 Það sem satt var á tímum Alma er sannarlega satt á okkar tímum núna: „Og í þessari velmegun sinni sendu þeir því engan á burt nakinn eða hungraðan, þyrstan, sjúkan eða vannærðan. Og í hjarta sér sóttust þeir ekki eftir auðæfum. Þess vegna voru þeir örlátir við alla, jafnt aldna og unga, jafnt ánauðuga og frjálsa, jafnt karla sem konur, hvort sem þau voru í kirkjunni eða utan hennar, og fóru ekki í manngreinarálit, þegar einhver þurfti einhvers með.“4

Kirkjan bregst við þessari köllun á fjölbreyttan hátt, þar með talið með:

  • Hirðisþjónustunni sem við innum af hendi í gegnum Líknarfélagið, prestdæmissveitir og kennslustundir;

  • föstu og notkun föstufórna;

  • velferðarbóndabæjum og niðursuðuverksmiðjum;

  • móttökumiðstöðvum fyrir innflytjendur;

  • þjónustustarfi fyrir fanga;

  • hjálparstarfi kirkjunnar;

  • og JustServe smáforritinu, sem tengir sjálfboðaliða við þjónustutækifæri.

Þetta eru allt leiðir sem skipulagðar eru í gegnum prestdæmið, þar sem mörg smá viðvik safnast saman í stór áhrif, sem magnar upp þau mörgu persónulegu verk sem við framkvæmum sem lærisveinar Jesú Krists.

Spámenn eru ráðsmenn fyrir alla jörðina

Spámenn bera ábyrgð á allri jörðinni, ekki bara meðlimum kirkjunnar. Frá minni eigin reynslu get ég sagt ykkur hve persónulega og einlæglega Æðsta forsætisráðið tekur þessari áskorun. Á sama tíma og þörfin eykst, hefur Æðsta forsætisráðið falið okkur það verkefni að auka hjálparstarf okkar verulega. Þeir hafa áhuga á þróun stærstu málanna og minnstu smáatriðunum.

Nýlega færðum við þeim einn af hlífðarsloppunum fyrir heilbrigðisstarfsmenn sem Beehive Clothing hefur saumað fyrir spítala til notkunar í heimsfaraldrinum. Sem læknir, var Russell M. Nelson forseti mjög áhugasamur. Hann vildi ekki bara sjá hann. Hann vildi máta hann – skoða stroffið og lengdina og hvernig hann var bundinn að aftanverðu. Hann sagði okkur seinna, sýnilega hrærður: „Þegar þið hittið fólkið sem þið vinnið með, þakkið þeim þá fyrir föstu þeirra, fórnargjafir og hirðisþjónustu í nafni Drottins.“

Skýrsla hjálparstarfsins.

Að beiðni Nelsons forseta flyt ég ykkur fréttir varðandi það hvernig Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu tekst á við fellibylji, jarðskjálfta, flóttamannavandann – og jafnvel heimsfaraldur – þökk sé góðvilja hinna Síðari daga heilögu og margra vina. Jafnvel þó að hin rúmlega 1.500 Kóvid-19 verkefni væru sannarlega aðaláhersla hjálparstarfs kirkjunnar síðustu 18 mánuðina, þá tók kirkjan einnig þátt í 933 verkefnum tengdum náttúruhamförum og flóttamannavanda í 108 löndum. Tölfræðin segir samt ekki alla söguna. Leyfið mér að miðla ykkur fjórum stuttum dæmum til að sýna örlítið brot af því sem verið er að gera.

Kóvíd-hjálparstarf í Suður Afríku

Hin sextán ára Dieke Mphuti frá Welcom, Suður Afríku, missti foreldra sína fyrir ári síðan og var eftir það eina fyrirvinna þriggja yngri systkina. Það var alltaf ógnvænlegt fyrir hana að finna nægilega mikinn mat, en birgðaskortur vegna Kóvid og sóttkvíar gerði það næstum ómögulegt. Þau voru oft hungruð og náðu rétt að skrapa saman mat með örlæti nágrannanna.

Ljósmynd
Dieke Mphuti

Á sólríkum degi í ágúst 2020 varð Dieke hissa er drepið var á dyr. Hún opnaði og sá þar tvær ókunnar manneskjur – eina sem var kirkjufulltrúi frá svæðisskrifstofu Jóhannesarborgar og hina sem var opinber fulltrúi félagsþróunardeildar Suður-Afríku.

Þessar tvær deildir höfðu bundist samtökum um að færa berskjölduðum heimilum mat. Léttir helltist yfir Dieke er hún eygði hrúgu af kornhveiti og aðrar undirstöðufæðutegundir sem mannúðarsjóðir kirkjunnar höfðu útvegað. Þetta átti eftir að hjálpa henni að sjá fyrir fjölskyldu hennar í nokkrar vikur, þar til sérstök ríkisaðstoð yrði virk fyrir hana.

Saga Dieke er eitt af þúsundum slíkra tilfella sem eiga sér stað víða um heim á meðan Kóvid heimsfaraldurinn hefur geisað, þökk sé helguðum framlögum ykkar.

Hjálparstarf fyrir Afgana í Ramstein

Við höfum öll séð nýlegar myndir í fréttunum, brottflutningar þúsunda flóttamanna frá Afganistan. Margir lentu á flugvöllum eða öðrum tímabundnum staðsetningum í Katar, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Spáni áður en þeir héldu til lokaákvörðunarstaða sinna. Þarfir þeirra voru brýnar og kirkjan brást við með vistum og sjálfboðaliðum. Á Ramstein flugvellinum í Þýskalandi sá kirkjan þeim fyrir gjafasendingu af bleyjum, þurrmjólk, mat og skóm.

Ljósmynd
Mannúðarframlög fyrir flóttamenn
Ljósmynd
Konur sauma fyrir afganska flóttamenn

Sumar af Líknarfélagssystrunum tóku eftir að margar af konunum frá Afganistan notuðu skyrtur eiginmanna sinna til að hylja höfuð sitt vegna þess að hefðbundinn höfuðbúnaður þeirra hafði verið rifinn af þeim í óðagotinu á flugvellinum í Kabúl. Sem vinarvott, sem brúaði öll mörk trúar eða menningar, þá söfnuðust systurnar saman í fyrstu deildinni í Ramstein og saumuðu hefðbundinn múslimaklæðnað fyrir afganskar konur. Systir Bethani Halls sagði: „Við heyrðum að konur væri í þörf fyrir bænarklæðnað og við erum að sauma svo að þeim líði vel fyrir bænagjörð.“5

Aðstoð vegna jarðskjálfta á Haítí

Næsta dæmi sýnir ykkur að þið þurfið ekki að vera auðug eða gömul til að vera verkfæri til góðs. Hin átján ára Marie „Djadjou“ Jacques er í Cavaillon-greininni í Haítí. Þegar hinir eyðileggjandi jarðskjálftar riðu yfir nærri heimabæ hennar í ágúst, var heimili fjölskyldu hennar eitt af tugþúsundum heimila sem hrundu. Það er næstum því ómögulegt að ímynda sér örvæntingu þess að missa heimili sitt. Frekar en að leyfa örvæntingunni að gleypa sig, snéri Djadjou út á við – á ótrúlegan máta.

Ljósmynd
Marie Jacques
Ljósmynd
Jarðskjálfti í Haítí

Associated Press

Hún sá eldri nágranna í erfiðleikum og hóf að annast hana. Hún hjálpaði öðrum að hreinsa brak. Þrátt fyrri örmögnun sína, tók hún þátt, ásamt öðrum meðlimum kirkjunnar, í að dreifa mat og hreinlætisvörum til annarra. Saga Djadjou er bara eitt margra öflugra dæma þeirra þjónustuverka sem ungmenni og ungt fullorðið fólk hafa framkvæmt, er þau leggja sig fram við að fylgja fordæmi Jesú Krists.

Aðstoð vegna flóða í Þýskalandi

Einungis nokkrum vikum fyrir jarðskjálftana, veitti annar hópur ungs fullorðins fólks svipaða þjónustu hinum megin Atlantshafsins. Flóðin sem gengu yfir vesturhluta Evrópu í júlí voru þau alvarlegustu í áratugi.

Ljósmynd
Flóð í Þýskalandi

Þegar vatnið gekk loks tilbaka, skoðaði búðareigandi einn í árhéraðinu Ahrweiler í Þýskalandi, skemmdirnar og var algerlega agndofa. Þessi auðmjúki maður, sanntrúaður kaþólikki, hvíslaði bæn til Guðs um að hann myndi senda honum einhvern til hjálpar. Næsta morgun kom Dan Hammon, forseti Frankfurtartrúboðsins í Þýskalandi, í götuna með lítinn hóp trúboða í gulum bolum Hjálparhanda. Vatnið hafði náð 3 metra upp á veggi búðareigandans og hafði skilið eftir þykkt lag af aur. Sjálfboðaliðarnir mokuðu aurnum út, fjarlægðu teppið og gifsplöturnar og hentu því út á götuna fyrir brottflutning. Hinn himinlifandi búðareigandi vann við hlið þeirra í marga klukkutíma, undrandi yfir því að Drottinn hefði sent hóp þjóna sinna til að svara bæn hans – og það innan 24 klukkustunda!6

„Ég bið þess að hann noti okkur“

Öldungur Jeffrey R. Holland sagði eitt sinn, þegar hann talaði um hjálparstarf kirkjunnar: „Bænum er oftast svarað … með því að Guð notar annað fólk. Ég bið þess þó að hann noti okkur. Ég bið þess að við verðum svarið við bænum fólks.“7

Bræður og systur, þið hafið verið svarið við svo mörgum bænum í gegnum hirðisþjónustu ykkar, fórnargjafir, tíma og kærleika. Samt er svo mikið meira sem þarf að gera. Sem skírðir meðlimir kirkjunnar erum við undir sáttmála að annast hina þurfandi. Einstaklingsframtak okkar þarf ekki endilega að krefjast peninga eða fjarlægra staðsetninga8; það þarf hins vegar leiðsögn heilags anda og viljugt hjarta til að segja við Drottinn: „Hér er ég, send þú mig.“9

Náðarár Drottins

Lúkas 4 segir að Jesús hafi komið til Nasaret, þar sem hann hafði alist upp, og staðið upp í bænahúsinu til að lesa. Þetta var í upphafi jarðneskrar þjónustu hans og hann vitnaði í ritningarvers í Bók Jesaja:

„Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa

og kunngjöra náðarár Drottins.

… ‚Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.‘“10

Ég ber vitni um að þessi ritning er líka að uppfyllast á okkar tíma. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er kominn til að lækna þá sem hafa sundurkramið hjarta. Fagnaðarerindi hans er til að veita blindum sýn á ný. Tilgangur kirkju hans er að boða hinum ánauðugu lausn og að lærisveinar hans um heim allan vinni að því að frelsa þá sem eru þjáðir.

Leyfið mér að ljúka máli mínu með því að endurtaka spurninguna sem Jesú spurði postulann Símon Pétur: „Elskar þú mig?“11 Kjarni fagnaðarerindisins er falinn í því hvernig við svörum þessari spurningu sjálf og „[gætum] lamba [hans].“12 Með mikilli lotningu og kærleika til Jesú Krists, meistara okkar, þá býð ég sérhverju okkar að vera þátttakandi í hinu mikla þjónustuverki hans og ég bið þess að hann noti okkur. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.