Aðalráðstefna
Hreinn sannleikur, hrein kenning og hrein opinberun
Aðalráðstefna október 2021


Hreinn sannleikur, hrein kenning og hrein opinberun

Gerið þessa ráðstefnu að tíma þar sem þið endurnærist af boðskap Drottins fyrir tilstilli þjóna hans.

Kæru bræður og systur, velkomin á aðalráðstefnu! Hve dásamlegt það er að vera með ykkur! Síðustu sex mánuði hef ég stöðugt haft ykkur í huga. Ég hef beðist fyrir vegna ykkar og fyrir ykkur. Síðustu vikur hef ég beðið sérstaklega fyrir því að þessi ráðstefna verði að tíma opinberunar og íhugunar fyrir alla þá sem sækjast eftir þeim blessunum.

Við erum glöð að geta talað til ykkar frá Ráðstefnuhöllinni enn á ný. Flest sætin verða áfram auð, en nærvera nokkurra félaga Tabernacle Choir [Laufskálakórsins] er dásamlegt skref í rétta átt. Við bjóðum ykkur öll velkomin til þessarar næstum stafrænu ráðstefnu, hvar sem þið eruð.

Við glímum enn við eyðileggingu Kóvid-19 og afbrigða þess. Við þökkum ykkur fyrir að fylgja leiðsögn okkar og ráðum heilbrigðissérfræðinga og stjórnvalda á hverjum stað.

Á hverri aðalráðstefnu komum við saman að leiðsögn Drottins.1 Umgjörðin hefur verið breytileg í tímans rás. Þegar ég var miklu yngri stóð ráðstefna yfir í þrjá eða fjóra daga. Síðar fækkaði ráðstefnudögunum í tvo. Hver boðskapur – þá og nú – er afrakstur einlægra bæna og mikils andlegs undirbúnings.

Þeir aðalvaldhafar og aðalembættismenn kirkjunnar sem munu tala, hafa frelsara okkar, Jesú Krists, að þungamiðju í boðskap sínum, miskunn hans og óendanlegan endurlausnarmátt. Aldei í sögu heimsins hefur persónuleg vitneskja um frelsarann verið jafn mikilvæg og brýn fyrir sérhverja mannssál. Hugsið ykkur hve fljótt myndi greiðast úr hinum hrikalegu átökum um allan heim – og í persónulegu lífi okkar – ef við öll veldum að fylgja Jesú Kristi og hlýða kenningum hans.

Í þeim anda, býð ég ykkur að hlusta eftir þremur atriðum á þessari ráðstefnu: hreinum sannleika, hreinni kenningu Krists og hreinni opinberun. Andstætt efasemdum einhverra, þá er rétt og rangt raunverulega til. Alger sannleikur – eilífur sannleikur – er raunverulegur. Einn skaðvaldur okkar tíma, er að of fáir vita hvert á að snúa sér til að finna sannleika.2 Ég get fullvissað ykkur um að það sem þið heyrið í dag og á morgun er hreinn sannleikur.

Hin hreina kenning Krists er máttug. Hún breytir lífi allra þeirra sem skilja hana og reyna að lifa eftir henni. Kenning Krists hjálpar okkur að finna og dvelja á sáttmálsveginum. Að dvelja á hinum þrönga en vel skilgreinda vegi, mun að lokum gera okkur hæf til að meðtaka allt sem Guðs er.3 Ekkert er dýrmætara en allt það sem föðurins er!

Að lokum, mun hrein opinberun um ykkar hjartfólgnu spurningar gera þessa ráðstefnu gefandi og ógleymanlega. Ef þið hafið ekki enn leitað liðsinnis heilags anda til að hjálpa ykkur við að hlýða á það sem Drottinn vill að þið heyrið þessa tvo daga, þá býð ég ykkur að gera það núna. Gerið þessa ráðstefnu að tíma þar sem þið endurnærist af boðskap Drottins fyrir tilstilli þjóna hans. Lærið hvernig á að tileinka sér hann í eigin lífi.

Þetta er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við erum sáttmálslýður hans. Drottinn lýsti yfir að hann hugðist hraða verki sínu á tilsettum tíma4 og það gerir hann í síauknum mæli. Við njótum þeirra forréttinda að taka þátt í helgu verki hans.

Ég bið öllum þeim blessunar sem leita að meira ljósi, þekkingu og sannleika. Ég tjái sérhverju ykkar elsku mína, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.