Aðalráðstefna
Minnstu þjáninga þinna heilögu, ó, Guð vor
Aðalráðstefna október 2021


Minnstu þjáninga þinna heilögu, ó, Guð vor

Að halda sáttmála leysir úr læðingi kraft friðþægingarfórnar Jesú Krists, sem veitir styrk og jafnvel gleði til þeirra sem þjást.

Sæluáætlun himnesks föður gerir ráð fyrir jarðneskri tilvist, þar sem öll börn hans verða reynd og þau glíma við raunir. 1 Fyrir fimm árum greindist ég með krabbamein. Ég fann fyrir og finn enn fyrir líkamlegum sársauka eftir skurðaðgerðir, geislameðferð og aukaverkanir lyfjagjafa. Ég gekk í gegnum tilfinningabaráttu á kvalafullum andvaka nóttum. Læknisfræðileg tölfræði gefur til kynna að ég muni líklega yfirgefa jarðlífið fyrr en ég átti von á og skilja eftir fjölskyldu, í smá tíma, sem mér er dýrmætari en allt annað.

Sama hvar þið búið, þá hafa líkamlegar eða tilfinningalegar þjáningar ýmissa rauna og jarðneskra veikleika verið hluti af lífi ykkar eða eru það nú eða munu einhvern tíma verða það.

Líkamleg þjáning getur orsakast af eðlilegri öldrun, óvæntum sjúkdómum og tilviljanakenndum slysum; hungri eða heimilisleysi; eða misnotkun, ofbeldi og stríði.

Tilfinningaleg þjáning getur stafað af kvíða eða þunglyndi; svikum maka, foreldris eða trausts leiðtoga; atvinnumissi eða fjárhagserfiðleikum; ósanngjarnri dómgreind annarra; vali vina, barna eða annarra fjölskyldumeðlima; misnotkun af ýmsu formi; óuppfylltum draumum um hjónaband eða börn; alvarlegum veikindum eða ótímabærum dauða ástvina; eða af mörgum öðrum ástæðum.

Hvernig getið þið hugsanlega þolað þær einstöku og stundum lamandi þjáningar sem verða á vegi okkar allra?

Til allrar hamingju, þá finnst von í fagnaðarerindi Jesú Krists og vonin getur líka verið hluti af lífi okkar. Í dag miðla ég fjórum reglum vonar úr ritningunum, spámannlegum kenningum, frá heimsóknum hirðisþjóna og eigin stöðugum heilsufarsvanda. Reglur þessar eru ekki bara almennar, heldur einnig mjög persónulegar.

Í fyrsta lagi þýða þjáningar ekki að Guð sé óánægður með líf ykkar. Fyrir tvö þúsund árum sáu lærisveinar Jesú blindan mann við musterið og spurðu: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“

Lærisveinar virtust hafa þær ranghugmyndir, sem virðast alltof almennar á okkar tíma, að allir erfiðleikar og þjáningar í lífinu séu afleiðingar synda. Frelsarinn svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.“ 2

Verk Guðs er að gera ódauðleika og eilíft líf okkar að veruleika. 3 Hvernig geta raunir og þjáningar – sérstaklega þegar slíkt orsakast af syndsamlegri notkun á valfrelsi annarrar manneskju 4 – á endanum stuðlað að framgangi verks Guðs?

Drottinn sagði sáttmálsþjóð sinni: „Ég hreinsaði þig … ég reyndi þig í bræðsluofni þjáningarinnar.“ 5 Hver svo sem orsök þjáninga ykkar er, getur kærleiksríkur faðir á himnum gert það að verkum að þær hreinsi sál ykkar. 6 Hreinsaðar sálir geta borið byrðar annarra af sannri samkennd og samúð. 7 Hreinsaðar sálir, sem komið hafa „úr þrengingunni miklu,“ eru undir það búnar að lifa í gleði í návist Guðs að eilífu og „Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ 8

Í öðru lagi er himneskur faðir algjörlega meðvitaður um þjáningar ykkar. Mitt í raunum getum við ímyndað okkur ranglega að Guð sé óralangt í burtu og að hann láti sér ekki annt um sársauka okkar. Jafnvel spámaðurinn Joseph Smith tjáði tilfinningar sínar á lágpunkti lífs síns. Meðan hann var í haldi í Liberty fangelsinu og þúsundir Síðari daga heilagra voru hraktir frá heimilum sínum, leitaði Joseph skilnings í bæn: „Ó, Guð, hvar ert þú? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt?“ Að lokum sárbað hann: „Minnstu þjáninga þinna heilögu, ó, Guð vor.“ 9

Svar Drottins fullvissaði Joseph og alla þá er þjást:

„Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund.

Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum.” 10

Margir heilagir sem þjást, hafa sagt mér frá því hvernig þeir skynjuðu elsku Guðs í raunum sínum. Ég minnist greinilega eigin reynslu eitt sinn í baráttu minni við krabbameinið, er læknarnir höfðu ekki enn greint orsök einhverra alvarlegra verkja. Ég sat með eiginkonu minni er ég ætlaði að blessa hádegismatinn okkar á venjulegan hátt. En allt sem ég gat gert var að gráta: „Himneskur faðir, viltu hjálpa mér? Ég er svo veikur.“ Næstu 20, 30 sekúndur var ég umvafinn kærleika hans. Ég fékk enga skýringu á veikindum mínum eða hugsanlegri framvindu og enga líkn við sársaukanum. Ég skynjaði einungis hina hreinu ást hans og það var og er mér nóg.

Ég vitna að himneskur faðir, sem jafnvel tekur eftir falli eins spörva, veit um þjáningar ykkar. 11

Í þriðja lagi býður Jesús Kristur virkjandi kraft sinn til að hjálpa ykkur að eiga styrk til að þola þjáningar ykkar vel. Friðþæging hans gerir þennan virkjandi kraft mögulegan. 12 Ég óttast að of margir kirkjuþegnar hugsi, að ef þeir væru bara örlítið harðari, gætu þeir komist í gegnum þjáningar sínar á eigin spýtur. Það er erfitt að lifa þannig lífi. Tímabundinn styrkur ykkar getur aldrei jafnast á við óþrjótandi mátt frelsarans til að styrkja sál ykkar. 13

Mormónsbók kennir að Jesús Kristur muni „taka á sig“ sársauka, sjúkdóma og veikleika, svo að hann geti liðsinnt okkur. 14 Hvernig getið þið hlotið kraftinn sem Jesús Kristur býður ykkur til hjálpar og styrks á tímum þjáninga? Lykillinn er að bindast frelsaranum með því að halda þá sáttmála sem þið hafið gert við hann. Við gerum þessa sáttmála er við meðtökum helgiathafnir prestdæmisins. 15

Fólk Alma gerði skírnarsáttmála. Síðan var það í ánauð og því bannað að tilbiðja opinberlega og jafnvel að biðja upphátt. Samt hélt það sáttmála sína eins og unnt var með því að ákalla hljóðlega í hjarta sínu. Niðurstaðan var sú að guðlegur kraftur kom. „Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega.“ 16

Frelsarinn býður okkur í dag: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“ 17 Er við höldum sakramentissáttmála okkar, um að hafa hann ávallt í huga, lofar hann að andi hans verði með okkur. Andinn veitir okkur styrk að þola raunir og gera það sem við alls ekki getum gert á eigin spýtur. Andinn getur læknað okkur, þó að James E. Faust forseti hafi kennt okkur: „Nokkuð af lækningunni kann að eiga sér stað í öðrum heimi.“ 18

Við erum einnig blessuð með musterissáttmálum og helgiathöfnum, þar sem „ kraftur guðleikans [opinberast].“ 19 Ég heimsótti konu sem misst hafði dóttur á táningsaldri í hræðilegu slysi og síðar eiginmann úr krabbameini. Ég spurði hvernig hún fengi afborið slíkan missi og þjáningu. Hún svaraði því til að styrkur kæmi frá andlegri fullvissu um eilífa fjölskyldu sem hún hlaut við reglubundna musterisþjónustu. Eins og fyrirheitið var, höfðu helgiathafnir húss Drottins brynjað hana krafti Guðs. 20

Í fjórða lagi, veljið að finna gleði daglega. Þeim sem þjást finnst oft á tíðum að nóttin haldi ávallt áfram og að dagsljósið muni aldrei koma. Það er í lagi að gráta. 21 Ef þið eruð í svartnætti þjáninga, getið þið samt vaknað við bjarta dagrenningu gleðinnar, ef þið veljið trú. 22

Sem dæmi um það, þá heimsótti ég unga móður sem var í krabbameinsmeðferð og brosti tígurlega í stólnum sínum, þrátt fyrir sársauka og hárleysi. Ég hitti miðaldra hjón sem þjónuðu gleðilega sem leiðtogar ungmenna, þótt þeim væri ekki barna auðið. Ég sat með kærri konu – ungri ömmu, móður og eiginkonu – sem innan fárra daga myndi deyja, en þótt fjölskyldan væri í tárum, var samt hlátur og gleðilegar endurminningar.

Þessir þjáðu heilögu eru fyrirmynd að því sem Russell M. Nelson forseti kenndi:

„Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með aðstæður okkar í lífinu, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.

Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs … og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar.“ 23

Ég vitna um 24 að himneskur faðir okkar minnist hinna heilögu sem þjást, elskar ykkur og er algerlega meðvitaður um ykkur. Frelsari okkar veit hvernig ykkur líður. „En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli.“ 25 Ég – sem daglegur viðtakandi 26 –veit að það að halda sáttmála leysir úr læðingi kraft friðþægingarfórnar Jesú Krists, sem veitir þeim styrk sem þjást og jafnvel gleði.

Ég bið með öllum sem þjást: „Megi þá Guð gefa, að byrðar ykkar verði léttar fyrir gleðina yfir syni hans.“ 27 Í nafni Jesú Krists, amen.