Aðalráðstefna
Búa sig undir síðari komuna
Aðalráðstefna október 2021


Búa sig undir síðari komuna

Af okkur er krafist, meira en nokkru sinni áður, að takast á við þann raunveruleika að það dregur stöðugt nær síðari komu Jesú Krists.

Eins og skráð er í Mormónsbók, sex árum fyrir fæðingu Jesú Krists, þá spáði Samúel, réttlátur Lamaníti, fyrir Nefíþjóðinni, sem þá hafði að mestu orðið fráhverf, 1 um þau tákn sem fylgja myndu fæðingu frelsara okkar. Því miður höfnuðu flestir Nefítar þessum táknum, vegna þess að „ekki [var] rökrétt, að þess konar vera sem Kristur [kæmi].“ 2

Því miður, samkvæmt ritningunni, þá gátu margir Gyðinga, með sama hætti, ekki sætt sig við að maður að nafni Jesús, frá hinu lítt álitna héraði í Galíleu, væri hinn langþráði Messías. 3 Jesús, sem sannlega var kominn til að uppfylla marga spádóma, sem hebreskir spámenn settu fram, var hafnað og hann jafnvel krossfestur, vegna þess að Gyðingar „[horfðu] yfir markið,“ eins og spámaðurinn Jakob í Mormónsbók kenndi. Í beinu framhaldi spáði Jakob: „Guð hefur samkvæmt þeirra eigin vilja tekið frá þeim hinn skýra einfaldleik sinn og látið þeim í té margt, sem þeir fá eigi skilið. Og að ósk þeirra gjörði Drottinn þetta, svo að þeir megi hrasa.“ 4

Svo furðulegt sem það nú er, þá virðist engin kenning, ekkert kraftaverk og engin birting himneskra engla, eins og Laman og Lemúel urðu vitni að, 5 hafa haft nægan sannfæringarmátt fyrir suma einstaklinga um að breyta eigin stefnu, sýn eða trú á að eitthvað væri sannleikur. Þetta á einkum við þegar kenningar eða kraftaverk samræmast ekki fyrir fram gefnum persónulegum duttlungum, óskum eða hugmyndum.

Berum aðeins saman eftirfarandi tvo ritningarhluta, hinn fyrri frá Páli postula, sem ræðir um síðari daga og hætti mannsins, og hinn síðari frá spámanninum Alma, sem greinir frá því hvernig Guð framkvæmir verk sitt meðal mannkyns. Fyrst frá Páli:

„Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.

Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,

kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er,

sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. …

Alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.“ 6

Við hlýðum nú á Alma, sem greinir frá grundvallarreglu fagnaðarerindis Jesú Krists: „Nú kannt þú að álíta þetta fávisku mína, en sjá, ég segi þér, að fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika. Og oft gjörir hið smáa hina vitru ráðþrota.“ 7

Við búum í heimi nútímans, sem er fylltur mikilli þekkingu og yfirburðum. Engu að síður, fela þessir hlutir of oft þann óstöðuga grunn sem þeir eru byggðir á. Þess vegna leiða þeir ekki til raunverulegs sannleika og áfram til Guðs og þess kraftar sem þarf til að hljóta opinberun, afla sér andlegrar þekkingar og þróa trú á Jesú Krist sem leiðir til hjálpræðis. 8

Við erum alvarlega minnt á orð Drottins til Tómasar og hinna postulanna í aðdraganda friðþægingarfórnar hans: „Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.” 9

Þeir sem hafa augu til að sjá, eyru til að heyra og hjarta til að skynja, þá er af okkur krafist, meira en nokkru sinni áður, að takast á við þann raunveruleika að það dregur stöðugt nær síðari komu Jesú Krists. Satt er að miklir erfiðleikar bíða enn þeirra sem eru á jörðinni við endurkomu hans, en hvað það varðar, þurfa hinir trúuðu ekki að óttast.

Ég vitna nú um stund í trúfræðiefni kirkjunnar, undir fyrirsögninni „Síðari koma Jesú Krists“:

„Þegar frelsarinn kemur aftur, mun hann koma í mætti og dýrð, til að krefjast jarðarinnar sem ríkis síns. Síðari koma hans verður upphaf þúsund ára ríkisins.

Síðari koman mun verða hinum ranglátu óttalegur harmatími, en hinum réttlátu dagur friðar. Drottinn kunngjörði:

„,Því að þeir sem vitrir eru og hafa tekið á móti sannleikanum og haft hinn heilaga anda sér til leiðsagnar, og ekki látið blekkjast – sannlega segi ég yður, að þeir munu ekki upp höggnir og þeim eigi á eld kastað, heldur munu þeir standast daginn.

Og þeir hljóta jörðina í arf. Og þeir munu margfaldast og verða sterkir og börn þeirra munu vaxa upp syndlaus til sáluhjálpar.

Því að Drottinn verður mitt á meðal þeirra og dýrð hans mun hvíla á þeim, og hann verður konungur þeirra og löggjafi‘ (Kenning og sáttmálar 45:57–59).“ 10

Hvað undirbúning okkar varðar fyrir síðari komu Jesú Krists, þá vitna ég í mikilvæg og hughreystandi orð spámanns Gamla testamentisins, Amosar, fyrir hina trúföstu: „Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ 11

Í þessum anda, hefur spámaður Drottins fyrir heiminn, Russell M. Nelson forseti, nýlega veitt okkur þessa innblásnu leiðsögn: „Fagnaðarerindi Jesú Krists er fagnaðarerindi iðrunar. Vegna friðþægingar frelsarans, býður fagnaðarerindi hans okkur að halda áfram að breytast, vaxa og verða hreinni. Það er fagnaðarerindi vonar, lækningar og framfara. Þannig er fagnaðarerindið boðskapur gleði! Andar okkar fagna yfir hverju litlu skrefi sem við tökum fram á við.“ 12

Ég ber innilegt vitni um og staðfesti veruleika Guðs og kraftaverk í daglegu lífi ótal manna, af öllum stigum lífsins. Satt er að sjaldan er talað um margar helgar upplifanir, að hluta vegna guðlegs uppruna þeirra, og mögulega athlægis þeirra sem ekki vita betur.

Hvað þetta varðar, þá minnir síðasti spámaður Mormónsbókar okkur á:

„Og enn fremur tala ég til yðar, sem afneitið opinberunum Guðs og segið, að þær séu ekki lengur til, hvorki opinberanir, spádómar, gjafir, lækning, tungutal né túlkun tungumála –

Sjá. Ég segi yður, að sá, sem afneitar þessu, þekkir ekki fagnaðarerindi Krists. Já, hann hefur ekki lesið ritningarnar, en hafi hann gjört það, hefur hann ekki skilið þær.

Því að lesum vér ekki, að Guð er hinn sami í gær, í dag og að eilífu og að í honum er hvorki að finna tilbrigði né minnsta skugga breytingar?“ 13

Ég lýk máli mínu með afar innblásinni, spámannlegri yfirlýsingu frá spámanninum Joseph Smith, sem gefin var þegar dró að lokum þjónustu hans, er hann vænti síðari komu Jesú Krists: „Eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, bræður [og mætti ég bæta við, systur], og áfram, áfram til sigurs! Hjörtu ykkar fagni og gleðjist ákaft.“ 14 Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.