Aðalráðstefna
Verðugleiki er ekki óaðfinnanleiki
Aðalráðstefna október 2021


Verðugleiki er ekki óaðfinnanleiki

Þegar ykkur líður eins og ykkur hafi mistekist of oft til að halda áfram að reyna, minnist þess þá að friðþæging Krists – og sú náð sem hún gerir mögulega – er raunveruleg.

Ég sendi eitt sinn skilaboð til dóttur minnar og tengdasonar með tal-í-texta kerfi símans míns. Ég sagði: „Halló, þið tvö. Efist ekki að ég elska ykkur.“ Þau fengu sent: „Hata ykkur tvö. Efist að ég elski ykkur.“ Er ekki magnað hversu auðveldlega jákvæð og vel meint skilaboð geta misskilist? Þetta gerist stundum við skilaboð Guðs um iðrun og verðugleika.

Sumir taka skilaboðunum ranglega þannig að iðrun og breytingar séu óþarfar. Skilaboð Guðs eru að þau séu bráðnauðsynleg.1 Elskar Guð okkur ekki þrátt fyrir annmarka okkar? Auðvitað! Hann elskar okkur fullkomlega. Ég elska barnabörn mín þrátt fyrir galla þeirra, en það þýðir ekki að ég vilji ekki að þau taki framförum og nái að verða allt sem þau geta orðið. Guð elskar okkur eins og við erum, en hann elskar okkur of mikið til að skilja við okkur á þennan hátt.2 Jarðlífið snýst um að vaxa í Drottni.3 Friðþæging Krists snýst um breytingu. Kristur getur ekki aðeins reist upp, hreinsað, hughreyst og læknað okkur, en með þessu öllu umbreytir hann okkur svo við séum líkari honum.4

Sumir taka skilaboðunum ranglega þannig að iðrun sé stakur viðburður. Líkt og Russell M. Nelson forseti hefur kennt, eru skilaboð Guðs þau að „iðrun … er ferli.“5 Iðrun getur tekið tíma og þurft endurtekningu,6 því er það að láta af synd7 og „[hneigjast] ekki lengur til illra verka, heldur stöðugt til góðra verka“8 lífstíðar verkefni.9

Lífið er eins og bílferð um landsbyggðina. Við náum ekki á ákvörðunarstað með einum tanki af bensíni. Við þurfum aftur og aftur að fylla á tankinn. Að taka sakramentið er eins og að nema staðar á bensínstöð. Þegar við iðrumst og endurnýjum sáttmála okkar, þá erum við fús til að skuldbinda okkur að halda boðorðin og Guð og Kristur blessa okkur með heilögum anda.10 Í stuttu máli, þá lofum við að halda áfram á ferð okkar og Guð og Kristur heita því að fylla á tankinn.

Sumir taka skilaboðunum ranglega á þann hátt að þeir séu ekki verðugir að taka fullan þátt í fagnaðarerindinu, þar sem þeir eru ekki fullkomlega lausir við slæmar venjur. Skilaboð Guðs eru að verðugleiki er ekki óaðfinnanleiki.11 Verðugleiki er að vera heiðarleg og leggja okkur fram. Við verðum að vera heiðarleg gagnvart Guði, prestdæmisleiðtogum og öðrum sem elska okkur12 og við verðum að leggja okkur fram við að halda boðorð Guðs og gefast aldrei upp, bara vegna þess að við gerum mistök.13 Öldungur Bruce C. Hafen sagði að þróun kristilegra eiginleika „krefjist frekar þolinmæði og seiglu heldur en óaðfinnanleika.“14 Drottinn hefur sagt að gjafir andans séu „gefnar þeim til heilla, sem elska mig og halda öll boðorð mín, og þeim, sem leitast við að gjöra svo.“15

Ungur maður, sem ég kalla hér Damon, skrifaði: „Á uppvaxtarárunum átti ég í erfiðleikum með klámfengið efni. Ég skammaðist mín alltaf yfir því að geta ekki gert hlutina rétt.“ Í hvert skipti sem Damon fataðist, varð sársaukinn yfir eftirsjánni svo mikill að hann dæmdi sig harkalega óverðugan hvers kyns náðar, fyrirgefningar eða frekari tækifæra frá Guði. Hann sagði: „Ég ákvað að ég ætti það skilið að líða stöðugt hræðilega. Ég taldi að Guð hataði mig örugglega, þar sem ég var ekki tilbúinn að leggja enn meira á mig til að sigrast á þessu í eitt skipti fyrir öll. Stundum leið vika, stundum mánuður, en svo kom bakslag og ég hugsaði: ‚Ég verð aldrei nógu góður, gagnar það nokkuð að reyna?‘“

Þegar Damon var mikið niðri fyrir, sagði hann eitt sinn við prestdæmisleiðtoga sinn: „Kannski ætti ég bara að hætta að koma í kirkju. Ég er þreyttur á því að vera hræsnari.“

Leiðtogi hans svaraði: „Þú ert ekki hræsnari vegna glímu þinnar við slæman ávana sem þú reynir að vinna bug á. Þú ert hræsnari ef þú felur hann, lýgur eða reynir að telja þér trú um að það sé vandamál kirkjunnar að halda sig við svona háa staðla. Heiðarleiki um gjörðir þínar og að taka skref í rétta átt er ekki hræsni. Það er að vera lærisveinn.“16 Þessi leiðtogi vitnaði í öldung Richard G. Scott, sem kenndi: „Drottinn sér veikleika í öðru ljósi en hann sér uppreisn. … [Drottinn] talar … alltaf um veikleika af miskunn.“17

Þessi sýn veitti Damon von. Hann áttaði sig á því að Guð sæti ekki í hásæti sínu og segði: „Damon klúðraði þessu aftur.“ Hann segði líklega í staðinn: „Sjáið hvað Damon hefur náð langt.“ Þessi ungi maður hætti loksins að líta niður í skömm eða að leita að afsökunum og réttlætingu. Hann leit upp eftir guðlegri hjálp og hann fann hana.18

Damon sagði: „Einu skiptin sem ég hafði snúið mér til Guðs áður var til að biðjast fyrirgefningar, en nú baðst ég líka fyrir um náð – ‚kraft hans‘ [Leiðarvísir að ritningunum, „Náð“]. Ég hafði aldrei gert það áður. Ég ver minni tíma þessa dagana í að hata sjálfan mig fyrir það sem ég hef gert og meiri tíma í að elska Jesú fyrir það sem hann gerði.“

Miðað við hve lengi Damon hafði barist, hefði það verið ógagnlegt og óraunhæft ef foreldrar hans og leiðtogar sem hjálpuðu honum hefðu sagt „aldrei aftur“ of snemma eða upp á sitt einsdæmi sett honum bindindisstaðla til að teljast „verðugur.“ Þau byrjuðu þess í stað með litlum, viðráðanlegum markmiðum. Þau losuðu sig við væntingarnar um allt eða ekkert og einblíndu á stigvaxandi vöxt, sem gerði Damon kleift að byggja á velgengni frekar en mistökum.19 Hann, líkt og hin ánauðuga Limíþjóð, lærði að honum gæti „[vegnað] betur.“20

Öldungur D. Todd Christofferson hefur veitt ráð: „Til að glíma við eitthvað [afar] stórt, þurfum við mögulega að vinna í því í smáum, daglegum skömmtum. … Að bæta við nýjum og heilbrigðum venjum í manngerð okkar eða að sigrast á slæmum venjum eða fíkn, krefst oftast átaks í dag, sem fylgt er eftir með átaki á morgun og enn öðru, kannski í marga daga, jafnvel í mánuði og ár. … Við getum þó gert þetta, því við getum leitað ásjár Guðs … eftir þeirri hjálp sem við þurfum dag hvern.“21

Bræður og systur, Kóvid-19 faraldurinn hefur ekki verið einfaldur fyrir neinn, en sú einangrun sem fylgt hefur takmörkunum sóttkvíar hefur gert þeim sem glíma við slæmar venjur sérstaklega erfitt fyrir. Munið að breytingar eru mögulegar, iðrun er ferli og verðugleiki er ekki óaðfinnanleiki. Mikilvægast er að muna að Guð og Kristur vilja hjálpa okkur hér og nú.22

Sumir taka skilaboðunum ranglega þannig að Guð bíði með að hjálpa, þar til eftir að við höfum iðrast. Skilaboð Guðs eru að hann vilji hjálpa okkur þegar við iðrumst. Náð hans er tiltæk fyrir okkur, „hvar sem við erum á vegi hlýðni.“23 Öldungur Dieter F. Uchtdorf hefur sagt: „Guð hefur ekki þörf fyrir fólk sem er óaðfinnanlegt. Hann leitar þeirra sem bjóða fram ,hjarta og viljugan huga‘ [Kenning og sáttmálar 64:34], og hann vill gera þá ‚fullkomna í Kristi‘ [Moróní 10:32–33].”24

Afar margir hafa særst vegna brostinna og stirðra sambanda, sem eru þess valdandi að erfitt er fyrir þá að trúa á meðaumkun Guðs og langlundargeð. Þeir eiga erfitt með að sjá Guð eins og hann er – ástríkan föður sem kemur til móts við okkur í þörfum okkar25 og veit hvernig á að „gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann.“26 Náð hans er ekki aðeins til að verðlauna þá sem verðugir eru. Hún er „guðlega hjálpin“ sem hann veitir og hjálpar okkur að verða verðug. Hún er ekki aðeins laun hinna réttlátu. Hún er „gjöf þess krafts“ sem hann veitir og hjálpar okkur að verða réttlát.27 Við göngum ekki aðeins í átt til Guðs og Krists. Við göngum með þeim.28

Í kirkjunni allri þylja ungmenni þema Stúlknafélagsins og þema Aronsprestdæmissveita. Frá Nýja-Sjálandi til Spánar til Eþíópíu til Japans segja stúlkurnar: „[Ég] virði gjöf iðrunar.“ Frá Síle til Gvatemala til Moroni, Utah, segja piltarnir: „Er ég þjóna, iðka trú, iðrast og bæti mig dag hvern mun ég gera mig hæfan til að hljóta blessanir musterisins og varanlega gleði fagnaðarerindisins.“

Ég heiti því að blessanirnar og gleðin séu raunveruleg og innan seilingar fyrir þá sem halda öll boðorðin og „þeim, sem leitast við að gjöra svo.“29 Þegar ykkur finnst eins og ykkur hafi mistekist of oft til að halda áfram að reyna, minnist þess þá að friðþæging Krists og sú náð sem hún gerir mögulega eru raunverulegar.30 „Armur miskunnar [hans] er útréttur til yðar.“31 Þið eruð elskuð – í dag, eftir tuttugu ár og að eilífu. Í nafni Jesú Krists, amen.