Aðalráðstefna
Eru engin smyrsl til í Gíleað?
Aðalráðstefna október 2021


Eru engin smyrsl til í Gíleað?

Lækningarkraftur frelsarans er ekki bara hæfni hans til að lækna líkama okkar, heldur kannski enn mikilvægara, hæfni hans til að græða hjörtu okkar.

Skömmu eftir trúboðið mitt, þegar ég var nemandi við BYU, fékk ég símtal frá pabba. Hann sagði mér að hann hefði greinst með krabbamein í brisi og þótt lífslíkur hans væru ekki góðar, var hann staðráðinn í því að ná heilsu og takast aftur á við venjulegt líf. Símtalið var alvörugefandi stund fyrir mig. Faðir minn hafði verið biskup minn, vinur minn og leiðbeinandi minn. Þegar ég, mamma og systkini mín veltum fyrir okkur framtíðinni, virtist hún dökk. Yngri bróðir minn, Dave, var í trúboði í New York og tók þátt í þessari erfiðu atburðarás fjölskyldunnar úr fjarlægð.

Læknar þess dags lögðu til skurðaðgerð til að reyna að draga úr útbreiðslu krabbameinsins. Fjölskylda okkar fastaði af einlægni og bað fyrir kraftaverki. Mér fannst við hafa næga trú til að faðir minn gæti læknast. Rétt fyrir aðgerðina veittum ég og eldri bróðir minn, Norm, pabba blessun. Af allri þeirri trú sem við bjuggum yfir, báðum við þess að hann yrði læknaður.

Aðgerðin átti að taka margar klukkustundir, en eftir aðeins stuttan tíma kom læknirinn á biðstofuna til að hitta fjölskyldu okkar. Hann sagði að þegar þeir byrjuðu á aðgerðinni, hefðu þeir séð að krabbameinið hafði breiðst út um líkama föður míns. Miðað við það sem þeir sáu, þá átti faðir minn aðeins nokkra mánuði eftir. Við vorum harmþrungin.

Þegar faðir minn vaknaði eftir aðgerðina, vildi hann óðfús vita hvort hún hefði gengið vel. Við sögðum honum hin hörmulegu tíðindi.

Við héldum áfram að fasta og biðja fyrir kraftaverki. Þegar heilsu föður míns tók að hraka hratt, tókum við að biðja þess að hann mætti losna við sársaukann. Að lokum, eftir því sem ástand hans versnaði, báðum við Drottin um að leyfa honum að hljóta vægt andlát. Aðeins nokkrum mánuðum eftir aðgerðina, eins og skurðlæknirinn hafði sagt fyrir, dó faðir minn.

Fjölskylda okkar naut mikillar ástar og umhyggju deildarmeðlima og fjölskylduvina. Við höfðum fallega útför til minningar um líf föður míns. Í tímans rás, og þegar ég og fjölskylda mín tókum að upplifa sársaukann af fjarveru föður míns, tók ég þó að furða mig á því hvers vegna faðir minn hafði ekki hlotið lækningu. Ég velti fyrir mér hvort trú mín væri ekki nógu sterk. Af hverju hlutu sumar fjölskyldur kraftaverk, en ekki fjölskylda okkar? Í trúboðinu mínu hafði mér lærst að leita svara í ritningunum og því tók ég að leita í ritningunum.

Í Gamla testamentinu er sagt frá því að kryddjurtir eða smyrsl, sem unnið var úr runnum sem uxu í Gíleað, hefði verið notað til að græða sár. Á tímum Gamla testamentisins var smyrslið þekkt sem „smyrslið frá Gíleað.“1 Jeremía spámaður harmaði þær hörmungar sem hann sá meðal fólks síns og vonaðist eftir lækningu. Jeremía velti fyrir sér: „Eru engin smyrsl til í Gíleað?“2 Í bókmenntum, tónlist og listum hefur oft verið vísað í frelsarann Jesú Krist sem smyrslsins frá Gíleað, vegna hins merkilega lækningamáttar hans. Ég, eins og Jeremía, velti fyrir mér: „Eru engin smyrsl til í Gíleað fyrir Nielson fjölskylduna?“

Í 2. kapítula Markúsar í Nýja testamentinu, er frelsarinn staddur í Kapernaúm. Orð um lækningamátt frelsarans höfðu borist um landið og margir fóru til Kapernaúm til að leita lækningar hjá frelsaranum. Svo margir voru umhverfis húsið þar sem frelsarinn var staddur, að ekki var mögulegt að allir kæmust fyrir þar inni. Fjórir menn báru mann sem var lamaður til að leita lækningar hjá frelsaranum. Þeir komust ekki í gegnum mannfjöldann og rufu því þak hússins og létu manninn síga niður svo hann kæmist að frelsaranum.

Við lestur þessarar frásagnar, furðaði ég mig á að frelsarinn sagði, er hann sá manninn: „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“3 Mér fannst að ef ég hefði verið einn af þeim fjórum sem báru þennan mann, hefði ég kannski sagt við frelsarann: „Við komum í raun með hann hingað til að hann hlyti lækningu.“ Ég held að frelsarinn gæti hafa svarað: „Ég læknaði hann.“ Var mögulegt að ég hefði ekki fyllilega skilið – að lækningarkraftur frelsarans væri ekki bara hæfni hans til að lækna líkama okkar, heldur kannski það sem var enn mikilvægara, hæfni hans til að græða hjarta okkar og brostin hjörtu fjölskyldu minnar?

Frelsarinn kenndi mikilvæga lexíu með þessari upplifun, er hann að lokum læknaði þennan mann líkamlega. Mér varð ljóst að boðskapur hans var að hann gæti snert augu hinna blindu svo þeir fengju séð. Hann gat snert eyru þeirra sem voru heyrnarlausir svo þeir fengju heyrt. Hann gat snert fætur þeirra sem ekki gátu gengið svo þeir fengju gengið. Hann getur læknað augu okkar og eyru og fætur, en mikilvægast af öllu er að hann getur læknað hjörtu okkar, er hann hreinsar okkur frá synd og ber okkur í gegnum erfiðar raunir.

Þegar frelsarinn birtist fólkinu í Mormónsbók eftir upprisu sína, talar hann aftur um lækningamátt sinn. Nefítarnir heyrðu rödd hans frá himni segja: „Viljið þér nú ekki snúa til mín og iðrast synda yðar og snúast til trúar, svo að ég megi gjöra yður heila?“4 Síðar kennir frelsarinn: „Því að þér vitið ekki, nema þeir snúi til baka og iðrist og komi til mín í einlægum ásetningi, og ég mun gjöra þá heila.“5 Frelsarinn var ekki að vísa til líkamlegrar lækningar, heldur andlegrar lækningar sálar þeirra.

Moróní veitir aukinn skilning er hann miðlar orðum föður síns, Mormóns. Eftir að hafa rætt um kraftaverk, útskýrir Mormón: „Kristur hefur sagt: Ef þér trúið á mig, skuluð þér hafa kraft til að gjöra allt, sem mér er æskilegt.“6 Ég lærði að tilgangur trúar minnar hlyti að vera Jesús Kristur og að ég hafi þurft að sætta mig við það sem væri honum gagnlegt, er ég iðkaði trú á hann. Ég skil nú að andlát föður míns var gagnlegt áætlun Guðs. Nú, þegar ég legg hendur mínar á höfuð annarra til að veita þeim blessun, þá treysti ég á Jesú Krist og er ljóst að einstaklingur getur verið og mun verða læknaður líkamlega, sé það gagnlegt Kristi.

Friðþæging frelsarans, sem virkjar bæði endurlausn og kraft hans, er hin altæka blessun sem Jesús Kristur býður öllum. Þegar við iðrumst af einlægum ásetningi, mun frelsarinn hreinsa okkur af synd. Þegar við lútum fúslega vilja föðurins, jafnvel við erfiðustu aðstæður, mun frelsarinn lyfta byrðum okkar og gera þær léttar.7

Mér hefur þó lærst mikilvægari lexía. Ég hafði ranglega trúað því að lækningamáttur frelsarans hefði ekki virkað fyrir fjölskyldu mína. Þegar ég lít til baka þroskaðri augum, sé ég að lækningamáttur frelsarans var augljós í lífi sérhvers í fjölskyldu minni. Ég einblíndi svo á líkamlega lækningu að ég sá ekki kraftaverkin sem áttu sér stað. Drottinn styrkti og hughreysti móður mína og gerði henni kleift að takast á við þessa erfiðu raun og hún lifði löngu og árangursríku lífi. Hún hafði ótrúlega jákvæð áhrif á börnin sín og barnabörn. Drottinn blessaði mig og systkini mín með elsku, einingu, trú og þolgæði, sem varð mikilvægur hluti lífs okkar sem við búum enn að í dag.

Hvað með pabba minn? Eins og á við um alla sem iðrast, þá læknaðist hann andlega þegar hann leitaði og hlaut þær blessanir sem öllum stendur til boða vegna friðþægingar frelsarans. Hann hlaut fyrirgefningu synda sinna og bíður nú kraftaverks upprisunnar. Postulinn Páll kenndi: „Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“8 Sjáið til, ég var að segja við frelsarann: „Við fórum með pabba til þín til lækningar,“ og mér er nú ljóst að frelsarinn læknaði hann. Smyrslið frá Gíleað virkaði fyrir Nielson fjölskylduna – ekki á þann hátt sem við höfðum ætlað, heldur á enn mikilvægari hátt sem hefur blessað líf okkar og gerir það áfram.

Í Jóhannes, kapítula 6, í Nýja testamentinu, gerði frelsarinn afar áhugavert kraftaverk. Með fáeinum fiskum og fáeinum brauðhleifum mettaði frelsarinn fimm þúsund manns. Ég hef oft lesið þessa frásögn, en hluti af henni fór fram hjá mér, sem nú hefur mikla þýðingu fyrir mig. Eftir að frelsarinn mettaði fimm þúsund manns, bauð hann lærisveinum sínum að safna saman molunum sem eftir voru, leifunum, sem fylltu tólf körfur. Ég hef velt fyrir mér af hverju frelsarinn gaf sér tíma til að gera þetta. Mér hefur orðið ljóst að ein lexía sem við getum lært af þessum atburði er þessi: Hann gat mettað fimm þúsund og það voru afgangar. „Náð mín nægir öllum mönnum.“9 Endurlausnar- og lækningamáttur frelsarans fær hulið allar syndir, sársauka eða raunir – sama hversu miklar eða erfiðar þær eru – og það eru afgangar. Náð hans nægir.

Með þessa vitneskju, getum við sótt fram í trú og vitað að þegar erfiðir tímar koma – og þeir munu örugglega koma – eða syndin tekur yfir líf okkar, þá stendur frelsarinn með „[lækningu í vængjum sínum]“10 og býður okkur að koma til sín.

Ég ber ykkur vitni um smyrslið frá Gíleað, frelsarann Jesú Krist, lausnara okkar og um dásamlegan lækningamátt hans. Ég ber vitni um þrá hans til að lækna ykkur. Í nafni Jesú Krists, amen.