Aðalráðstefna
Helga Drottni tíma
Aðalráðstefna október 2021


Helga Drottni tíma

Ég bið ykkur í dag að sporna gegn tálbeitum heimsins, með því að helga Drottni tíma í lífi ykkar – sérhvern dag.

Kæru bræður og systur, í tvo daga hafa þjónar Drottins kennt okkur vandlega og leitast af kostgæfni við að vita hvað hann vill að þeir segðu.

Við höfum hlotið leiðsögn fyrir sex næstu mánuði. Spurningin núna er hvernig munum við breytast af því sem við höfum heyrt og skynjað?

Faraldurinn hefur sýnt hve fljótt lífið getur breyst, stundum af orsökum sem við fáum ekki ráðið við. Það er þó margt sem við fáum ráðið við. Við ráðum hvernig við forgangsröðum og hvernig við notum krafta okkar, tíma og úrræði. Við ákveðum hvernig við breytum við hvert annað. Við veljum þá sem við viljum leita til, til að fá sannleika og leiðsögn.

Raddir heimsins eru margar og ráðandi og þrýstingurinn mikill. Of margar raddir eru þó blekkjandi og lokkandi og geta dregið okkur út af sáttmálsveginum. Til að forðast óhjákvæmilega mikinn harm því fylgjandi, bið ég ykkur í dag að sporna gegn tálbeitum heimsins, með því að helga Drottni tíma í lífi ykkar – dag hvern.

Ef flestar upplýsingar ykkar eru frá samfélagsmiðlum eða öðrum miðlum, mun það draga úr hæfni ykkar til að heyra lágværa rödd andans. Ef þið eruð ekki líka að leita Drottins með daglegri bæn og trúarnámi, verðið þið berskjölduð gagnvart heimspeki sem getur verið forvitnileg en er ekki sönn. Jafnvel hinir heilögu sem eru trúfastir á öðrum sviðum, geta látið blekkjast af stöðugum takti hljómsveitar Babýlon.

Kæru bræður og systur, ég sárbið ykkur að helga Drottni tíma. Tryggið ykkar eigin andlegu undirstöðu, svo hún fái staðist tímans tönn, með því að gera það sem gerir heilögum anda kleift að vera ætíð með ykkur.

Vanmetið aldrei þann djúpstæða sannleika að „andinn [talar] um hlutina eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða.“ 1 „Hann [mun] sýna yður allt, sem yður ber að gjöra.“ 2

Ekkert laðar andann meira að en einbeitt auglit á Jesú Krist. Talið um Krist, fagnið í Kristi, endurnærist á orðum Krists og sækið fram staðföst í Kristi. 3 Megi hvíldardagurinn veita ykkur gleði, er þið tilbiðjið hann, meðtakið sakramentið og haldið dag hans heilagan. 4

Eins og ég lagði áherslu á í morgun, helgið Drottni tíma í hans heilaga húsi. Ekkert mun styrkja ykkar andlegu undirstöðu meira en þjónusta og tilbeiðsla í musterinu.

Við færum öllum þakkir sem vinna að hinum nýju musterum okkar. Þau eru í byggingu um allan heim. Í dag nýt ég þeirrar ánægju að tilkynna áætlun okkar um að byggja musteri á eftirfarandi svæðum: Kaohsiung, Tævan; Tacloban, Filippseyjum; Monróvía, Líberíu; Kananga, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó; Antananarívó, Madagaskar; Culiacán, Mexíkó; Vitória, Brasilíu; La Paz, Bólivíu; Santiago West, Síle; Fort Worth, Texas; Cody, Wyoming; Rexburg North, Idaho; Heber Valley, Utah; og um endurnýjun Provo-musterisins í Utah, eftir vígslu Orem-musterisins í Utah.

Ég elska ykkur, kæru bræður og systur. Drottinn þekkir og elskar ykkur. Hann er frelsari ykkar og lausnari. Hann leiðir kirkju sína. Hann mun leiða ykkur í ykkar persónulega lífi, ef þið helgið honum tíma í lífi ykkar – hvern einasta dag.

Megi Guð vera með ykkur uns við hittumst heil, er bæn mín í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.