Aðalráðstefna
Með krafti Guðs í mikilli dýrð
Aðalráðstefna október 2021


Með krafti Guðs í mikilli dýrð

(1. Nefí 14:14)

Að heiðra sáttmála okkar vopnar okkur með réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.

Ég bið þess að heilagur andi muni upplýsa okkur öll og uppfræða er við hugleiðum saman hið stórkostlega verk sáluhjálpar og upphafningar í ráðstöfun fyllingar tímans.

Fyrsta heimsókn Morónís til Josephs Smith

Hér um bil þremur árum eftir Fyrstu sýnina, kvöldið 21. september 1832, var hinn ungi Joseph Smith á bæn, að biðja um fyrirgefningu synda sinna og um vitneskju um ástand hans og stöðu frammi fyrir Guði. 1 Við rúmstokk hans birtist vera, nefndi Joseph með nafni og lýsti yfir „að hann væri sendiboði, sem sendur væri … úr návist Guðs og héti Moróní.“ Hann útskýrið að „Guð ætlaði [Joseph] verk að vinna“ 2 og leiðbeindi honum síðan um framkomu Mormónsbókar. Það er eftirtektarvert að Mormónsbók var eitt af fyrstu umræðuefnunum sem nefnd voru í skilaboðum Morónís.

Mormónsbók er annað vitni um Jesú Krist og hið mikla verkfæri trúarumbreytingar á síðari dögum. Tilgangur okkar með að miðla fagnaðarerindinu er að bjóða öllum að koma til Jesú Krists, 3 meðtaka blessanir hins endurreista fagnaðarerindis og standast allt til enda með trú á frelsarann. 4 Það að hjálpa einstaklingum að upplifa hina miklu gjörbreytingu hjartans 5 og bindast Drottni í gegnum heilaga sáttmála og helgiathafnir eru grundvallarmarkmið þess að boða fagnaðarerindið.

Kynning Morónís á Mormónsbók fyrir Joseph Smith, hóf verk sáluhjálpar og upphafningar fyrir einstaklinga hérna megin hulunnar í ráðstöfun fyllingar tímans.

Til að halda kynningunni áfram vitnaði Moróní síðan í Malakí í Gamla testamentinu, með örlitlum blæbrigðamun frá því máli sem notað er í útgáfu Jakobs konungs:

„Sjá, með hendi spámannsins Elía opinbera ég yður prestdæmið, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.

…Og hann mun gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúa til feðra sinna. Ef svo væri ekki, mundi jörðin öll verða gjöreydd við komu hans.“ 6

Tilgangur okkar í að byggja musteri er að gera heilaga staði aðgengilega, þar sem hægt er að framkvæma helga sáttmála og helgiathafnir, sem nauðsynlegar eru mannkyni til sáluhjálpar og upphafningar, bæði hinna lifandi og látnu. Leiðbeiningar Morónís til Josephs, varðandi mikilvægi hlutverks Elía og prestdæmisvaldsins, útvíkkaði verk sáluhjálpar og upphafningar hérna megin hulunnar og hóf verk fyrir hina dánu í þessari ráðstöfun hinum megin hulunnar.

Í stuttu máli þá lagði kennsla Morónís, í september 1823, kenningarlegan grunn að verki sáluhjálpar og upphafningar beggja vegna hulunnar.

Kenningar spámannsins Josephs Smith

Sú lexía sem Joseph Smith lærði af Moróní, hafði áhrif á alla þætti þjónustu hans. Til dæmis lýstii spámaðurinn yfir á hátíðarsamkomu, haldinni í Kirtland musterinu þann 6. apríl 1837: „Þegar allt kemur til alls er mesta og mikilvægasta skyldan sú að prédika fagnaðarerindið.“ 7

Næstum sjö árum seinna, þann 7. apríl 1844, flutti Joseph Smith ræðu sem í dag kallast King Follett ávarpið. Hann sagði í þeirri ræðu: „Mikilvægasta ábyrgðin sem Guð hefur lagt á herðar okkar í þessum heimi er að leita okkar dánu.“ 8

Hvernig getur boðun fagnaðarerindisins og að leita okkar dánu, verið bæði hin mesta skylda og ábyrgð sem Guð hefur lagt á herðar okkar? Ég trúi því að spámaðurinn Joseph Smith hafi verið að leggja áherslu á þann grundvallar sannleika í báðum yfirlýsingum að sáttmálarnir sem við göngumst undir í helgiathöfnum með valdi prestdæmisins, geti tengt okkur Drottni Jesú Kristi og eru nauðsynlegur kjarni verks sáluhjálpar og upphafningar beggja vegna hulunnar.

Trúboðs-, musteris- og ættarsögustarf fylgjast að og eru samtengdir þættir í einu merku verki sem leggur áherslu á hina helgu sáttmála og helgiathafnir sem gera okkur kleift að meðtaka kraft guðdómleikans í lífi okkar og snúa svo endanlega til návistar himnesks föður. Þar af leiðandi undirstrika þessar tvær yfirlýsingar spámannsins, sem í fyrstu virtust mótsagnarkenndar, helsta áhersluatriði þessa merka síðari daga verks.

Bundin frelsaranum með sáttmálum og helgiathöfnum

Frelsarinn sagði:

„Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ 9

Við tökum ok frelsarans á okkur þegar við lærum um helga sáttmála og helgiathafnir, meðtökum þá verðuglega og heiðrum þá. Við erum tryggilega bundin frelsaranum þegar við minnumst þeirra af trúmennsku og gerum okkar besta til að lifa í samræmi við þær skyldur sem við höfum tekið á okkur. Sú tenging við hann er uppspretta andlegs styrks á hverjum árstíma lífs okkar.

Sáttmálslýður Drottins

Ég býð ykkur að hugleiða þær blessanir sem lofaðar eru sáttmálshaldandi lærisveinum Jesú Krists. Til dæmis, „sá [Nefí] kirkju Guðslambsins [á síðari dögum], og meðlimir hennar voru fáir, … hinir heilögu Guðs, [voru] einnig um allt yfirborð jarðar. En ítök [þeirra] … voru lítil.“ 10

Hann sá einnig „vald Guðslambsins. Það féll yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins, … Og þeir voru vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“ 11

Setningin „vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð“ er ekki einungis ljúf hugsun eða dæmi um fallegt ritningamálfar. Í staðinn eru þessar blessanir áberandi í lífi hinna fjölmörgu Síðari daga heilagra lærisveina Drottins.

Verkefni mín sem meðlimur í Tólfpostulasveitinni fara með mig um allan heim. Ég hef fengið þá blessun að hitta og öðlast eftirminnilegar lexíur af mörgum ykkar. Ég ber þess vitni að sáttmálslýður Drottins er sannarlega vopnaður réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð. Ég hef orðið vitni að trú, hugrekki, yfirsýn, þrautseigju og gleði, sem nær langt út fyrir mannlega getu – og sem einungis Guð gæti veitt.

Ég hef orðið vitni að réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð í gegnum trúfesti við sáttmála og helgiathafnir í lífi ungs meðlims kirkjunnar, sem lamaðist að hluta til í hræðilegu umferðarslysi. Eftir lýjandi mánuði þessa einstaklings í endurhæfingu og því að aðlagast nýjum lífsstíl með takmarkaðri hreyfigetu, hitti ég og talaði við þessa dyggu sál. Í samtali okkar spurði ég: „Hvað hefur þessi reynsla kennt þér?“ Svarið kom samstundis: „Ég er ekki sorgmæddur. Ég er ekki reiður. Það verður allt í lagi.“

Ég hef orðið vitni að réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð í gegnum trúfesti við sáttmála og helgiathafnir í lífi nýskírðra og staðfestra meðlima kirkjunnar. Þeir sem snérust til trúar voru ákafir að læra og þjóna, fúsir en oft óöruggir með það hvernig þeir ættu að láta af gömlum siðum og sterkum hefðum, en samt glaðir að verða „samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.“ 12

Ég hef orðið vitni að réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð í gegnum trúfesti við sáttmála og helgiathafnir í lífi fjölskyldu sem annaðist maka og foreldri með banvænan sjúkdóm á blíðlegan máta. Þessir fræknu lærisveinar lýstu því þegar fjölskyldan upplifði sig aleina – og stundum þegar þau vissu að hönd Drottins lyfti þeim og styrkti. Þessi fjölskylda tjáði einlægt þakklæti fyrir þessa erfiðu jarðnesku upplifanir sem leyfa okkur að vaxa og verða líkari himneskum föður og lausnara okkar, Jesú Kristi. Guð styrkti og blessaði þessa fjölskyldu með samfélagi heilags anda og gerði heimili þeirra að eins helgum stað og athvarfi og musterið er.

Ég hef orðið vitni að réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð í gegnum trúfesti við sáttmála og helgiathafnir í lífi meðlims sem upplifði hjartasár skilnaðar. Andlegar og tilfinningalegar þjáningar systurinnar jukust vegna óréttlætis sem tengdist sáttmálsbroti maka hennar og sundrun hjónabands þeirra. Hún þráði réttlæti og reikningsskap.

Þegar þessi trúfasta kona tókst á við allt sem hafði hent hana, lærði hún og hugleiddi friðþægingu frelsarans með meiri einbeitingu og á dýpri máta en nokkru sinni fyrr í lífi sínu. Smátt og smátt öðlaðist hún dýpri skilning á endurleysandi þjónustu Krists – þjáningu hans fyrir syndir okkar og einnig fyrir sársauka okkar, veikleika, vonbrigði og angist. Hún fann fyrir hvatningu til að spyrja sjálfa sig nístandi spurningar. Þar sem gjaldið hefur þegar verið greitt fyrir þessar syndir, myndir þú vilja að gjaldið væri greitt tvisvar? Hún gerði sér grein fyrir því að slík krafa væri hvorki réttlát né miskunnsöm.

Þessi kona lærði að það að bindast frelsaranum með sáttmálum og helgiathöfnum getur læknað þau sár sem aðrir valda með óréttlátri beitingu siðferðislegs sjálfræðis og hjálpað henni að fyrirgefa og öðlast frið, miskunn og kærleika.

Fyrirheit og vitnisburður

Sáttmálsloforð og blessanir eru einungis möguleg vegna frelsara okkar, Jesú Krists. Hann býður okkur að horfa til hans, 13 koma til hans, 14 læra um hann, 15 og tengjast honum 16 gegnum sáttmála og helgiathafnir endurreists fagnaðarerindis hans. Ég ber vitni um og lofa að er við heiðrum sáttmála okkar, vopnar það okkur með réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð. Ég ber einnig vitni um að Drottinn Jesús Kristur er frelsari okkar. Um þennan sannleika vitna ég í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.