Aðalráðstefna
Dagleg lagfæring
Aðalráðstefna október 2021


Dagleg lagfæring

Við þurfum áframhaldandi innblástur og ljós himins. Við þurfum „endurlífgunartíma.“ Tíma persónulegrar lagfæringar.

Við komum saman á þessum fallega hvíldardagsmorgni til að tala um Krist, gleðjast í fagnaðarerindi hans og styðja og efla hvert annað, er við göngum „[veg]“ frelsara okkar. 1

Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, komum við saman í þessum tilgangi á hverjum hvíldardegi, allt árið um kring. Ef þið eruð ekki meðlimir kirkjunnar, bjóðum við ykkur hjartanlega velkomin og þökkum ykkur fyrir að vera með okkur til að tilbiðja frelsarann og læra um hann. Eins og þið, þá reynum við – í ófullkomleika – að verða betri vinir, náungar og manneskjur 2 og það gerum við með því að fylgja fyrirmynd okkar, Jesú Kristi.

Ljósmynd
Frelsarinn Jesús Kristur

Við vonum að þið finnið einlægni vitnisburðar okkar. Jesús Kristur lifir! Hann er sonur hins lifandi Guðs og leiðir spámann á jörðinni á okkar tíma. Við bjóðum öllum að koma, hlýða á orð Guðs og njóta gæsku hans! Ég ber mitt persónulega vitni um að Guð er á meðal okkar og hann mun vissulega nálgast alla þá sem nálgast hann. 3

Við lítum á það sem heiður að ganga með ykkur á hinum beina og þrönga lærisveinsvegi frelsarans.

Sú leikni að ganga í beina stefnu

Oft er þeirri kenningu haldið á lofti að þeir sem villist gangi í hringi. Ekki er langt síðan að vísindamenn við Max Planck Institute for Biological Cybernetics prófuðu þá kenningu. Þeir fóru með þátttakendur í þéttan skóg og gáfu þeim einfaldar leiðbeiningar: „Gangið í beina stefnu.“ Þar voru engin sýnileg kennileiti. Einstaklingarnir urðu að treysta eingöngu á eigið áttaskyn.

Hvernig haldið þið að þeim hafi gengið?

Vísindamennirnir ályktuðu: „Fólk gengur vissulega í hringi þegar það hefur ekki áreiðanlegar vísbendingar um göngustefnu sína.“ 4 Aðspurðir í kjölfarið, fullyrtu sumir þátttakendur fullir sjálfstrausts að þeir hefðu ekki vikið hið minnsta frá stefnunni. Þrátt fyrir mikið sjálfstraust sýndu GPS-gögn að þeir gengu í bugðum sem voru allt að 20 metrar í þvermál.

Hvers vegna eigum við svona erfitt með að ganga í beina stefnu? Sumir vísindamenn álykta að lítil, að því er virðist óveruleg frávik í landslagi, skipti máli. Aðrir hafa bent á þá staðreynd, að annar fótur okkar allra er aðeins öflugri en hinn. „Líklegra er þó,“ samt sem áður, að við eigum erfitt með að ganga í beina stefnu „[vegna þeirrar] stigvaxandi óvissu um hvar bein stefna sé.“ 5

Hver sem ástæðan er, þá er þetta mannlegt eðli: án áreiðanlegra, sýnilegra kennileita, villumst við af leið.

Villast af veginum

Er ekki áhugavert hvernig litlir, að því er virðist ómerkilegir þættir, geta haft mikil áhrif á líf okkar?

Ég veit þetta af eigin reynslu sem flugmaður. Í hvert sinn sem ég hóf aðflug að flugvelli, vissi ég að mestur tími færi í að gera stöðugar smávægilegar leiðréttingar, til að beina flugvélinni örugglega að hinni fyrirhuguðu lendingarbraut okkar.

Þið gætuð hafa upplifað svipaða hluti við akstur ökutækis. Vindur, óreglulegir vegir, ófullkomin hjólastilling, athyglisbrestur – svo ekki sé minnst á gjörðir annarra ökumanna – allt þetta getur breytt ykkar fyrirhuguðu stefnu. Sé þessum þáttum ekki gefinn gaumur, gæti svo farið að dagurinn ykkar verði slæmur. 6

Ljósmynd
Bíll í sundlaug

Þetta á við um okkur efnislega.

Það á þó líka við um okkur andlega.

Flestar breytingar í andlegu lífi okkar – bæði jákvæðar og neikvæðar – gerast smám saman, skref fyrir skref. Eins og þátttakendurnir í Max Planck-rannsókninni, þá áttum við okkur kannski ekki á því hvenær við förum út af stefnunni. Við gætum jafnvel verið sannfærð um að við séum að ganga í beina stefnu. Staðreyndin er þó sú að án kennileita til leiðsagnar, munum við óhjákvæmilega víkja af leið og enda á stöðum sem við töldum okkur aldrei fara á.

Þetta er satt hvað varðar einstaklinga. Þetta er líka satt hvað varðar samfélög og þjóðir. Ótal dæmi eru um það í ritningunum.

Í Dómarabókinni er ritað að eftir andlát Jósúa, hafi „[komið] önnur kynslóð … sem hvorki þekkti Drottin né þau verk er hann hafði unnið fyrir Ísrael.“ 7

Þrátt fyrir undraverð himnesk inngrip, vitjanir, bjarganir og sigra sem Ísraelsmenn urðu vitni að á tímum Móse og Jósúa, hafði fólkið vikið af veginum innan kynslóðar og farið að eigin þrám. Auðvitað leið svo ekki á löngu þar til það galt fyrir breytni sína.

Stundum á slíkt fráhvarf sér stað yfir kynslóðir. Stundum gerist það á nokkrum árum, jafnvel mánuðum. 8 Við erum öll berskjölduð fyrir þessu. Við hneigjumst til að villast frá, sama hverjar andlegar upplifanir okkar hafa verið á liðinni tíð. Það hefur verið forskriftin allt frá tíma Adams.

Hér eru góðu tíðindin

Samt er ekki allt vonlaust. Ólíkt og í prófinu að ganga í beina stefnu, þá höfum við sýnileg kennileiti sem við getum notað til að kanna stefnu okkar.

Hver eru svo þessi kennileiti?

Vissulega eru þar á meðal dagleg bæn og ígrundun ritninganna og að nota innblásin verkfæri eins og Kom, fylg mér. Við getum dag hvern nálgast hásæti Guðs af auðmýkt og heiðarleika. Við getum ígrundað verk okkar og metið stundir dagsins – hugleitt vilja okkar og þrár í hans ljósi. Ef við höfum villst af leið, biðjum við Guð að lagfæra okkur og einsetjum okkur að gera betur.

Ljósmynd
Frelsarinn leiðir sauði sína

Slíkar stundir sjálfsskoðunar veita tækifæri til endurstillingar. Þær eru hugleiðslugarður, þar sem við getum gengið með Drottni og hlotið leiðsögn, fræðslu og hreinsun, með hinu ritaða og andlega opinberuðu orði okkar himneska föður. Þær eru helgistundir, er við minnumst okkar hátíðlegu sáttmála um að fylgja hinum gæskuríka Kristi, er við metum eigin framfarir og lögum okkur að hinum andlegu kennileitum sem Guð hefur séð börnum sínum fyrir.

Hugsið þær sem ykkar persónulegu, daglegu lagfæringu. Á ferð okkar sem pílagrímar á vegi dýrðar, vitum við hve auðvelt er að villast af leið. Líkt og smávægileg frávik geta leitt okkur út af vegi frelsarans, svo og geta smávægilegar leiðréttingar vissulega leitt okkur inn á hann aftur. Þegar myrkur læðist inn í líf okkar, eins og svo oft gerist, lýkur dagleg lagfæring upp hjarta okkar að himnesku ljósi, sem lýsir upp sál okkar og rekur burtu skugga, ótta og efa.

Lítið stýri, stórt skip

Ef við leitum hennar, mun „Guð [vissulega] veita [okkur] þekkingu með hinum heilaga anda sínum, já, með hinni ólýsanlegu gjöf heilags anda.“ 9 Hann mun kenna okkur um veginn, jafn oft og við biðjum hann, og hjálpa okkur að fylgja honum.

Það krefst auðvitað stöðugs erfiðis af okkur hálfu. Við getum ekki látið andlegar upplifanir liðins tíma nægja. Við þurfum stöðugt flæði.

Við getum ekki endalaust reitt okkur á vitnisburði annarra. Við verðum að afla okkar eigin.

Við þurfum áframhaldandi innblástur og ljós himins.

Við þurfum „endurlífgunartíma.“ 10 Tíma persónulegrar lagfæringar.

„Straumvötn“ geta ekki „haldist óhrein.“ 11 Við verðum að streyma áfram, til að hugsanir okkar og verk verði áfram hrein!

Hvað sem öllu líður, þá er endurreisn fagnaðarerindisins og kirkjunnar ekki eitthvað sem gerist einu sinni og er þá yfirstaðið. Hún er viðvarandi ferli – einn dag í senn, eitt hjarta í senn.

Líf okkar ákvarðast af liðnum dögum. Höfundur einn orðaði það svo: „Einn dagur er sem heil ævi. Við byrjum á því að gera eitthvað eitt, en endum á því að gera eitthvað allt annað, ráðgerum að reka erindi, en náum aldrei þangað. … Við ævilok, er öll okkar tilvera líka ómarkviss. Allt líf ykkar er mótað af einum degi.“ 12

Viljið þið breyta því hvernig líf ykkar mótast?

Breyta því hvernig dagur ykkar mótast?

Viljið þið breyta degi ykkar?

Breyta þessari klukkustund?

Breytið hugsunum ykkar, líðan og verkum einmitt nú.

Lítið stýri getur markað stefnu stórs skips. 13

Litlir múrsteinar geta orðið að tignarlegri byggingu.

Sáðkorn geta orðið að risafurum.

Vel varðar mínútur og klukkustundir eru byggingarefni gæðaríks lífs. Þær geta innblásið gæsku, lyft okkur upp úr ánauð ófullkomleika og leitt okkur inn á endurleysandi veg fyrirgefningar og helgunar.

Guð nýs upphafs

Ég hef upp hjarta mitt í þakklæti með ykkur fyrir hina undraverðu gjöf nýs tækifæris, nýs lífs, nýrrar vonar.

Við hefjum upp raddir okkar í lofgjörð til okkar örláta og fyrirgefandi Guðs. Því vissulega er hann Guð nýs upphafs. Hinn æðsti og endanlegi tilgangur alls hans erfiðis er að liðsinna okkur, börnum sínum, að ná því markmiði okkar að hljóta ódauðleika og eilíft líf. 14

Við getum orðið ný sköpun í Kristi, því Guð hefur lofað: „Jafnoft og fólk mitt iðrast, mun ég fyrirgefa því brot þess gegn mér“ 15 og „ég … minnist þeirra ekki lengur. 16

Kæru bræður og systur, kæru vinir, við munum öll láta reka á reiðanum endrum og eins.

Við getum þó endurstillt stefnu okkar. Við getum stýrt okkur út úr myrkri og raunum þessa lífs og fundið leiðina aftur til okkar kærleiksríka föður á himnum, ef við leitum hinna andlegu kennileita sem hann hefur séð okkur fyrir, meðtökum persónulega opinberun og keppum að daglegri lagfæringu. Á þennan hátt verðum við sannir lærisveinar okkar ástkæra frelsara, Jesú Krists.

Þegar við gerum það, mun Guð brosa við okkur. „Drottinn … blessar þig í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Drottinn mun hefja þig til að gera þig að heilagri þjóð sinni.“ 17

Ég bið þess að við megum keppa að daglegri lagfæringu og stöðugt reyna að ganga á vegum Jesú Krists. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Jesús kenndi: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“ (Jóhannes 14:6). NIV First-Century Study Bible hefur að geyma þessa útskýringu: „Myndlíkingin vegur í hebresku Biblíunni vísaði oft til þess að halda boðorðin eða fylgja kenningum Guðs [sjá Sálmana 1:1; 16:11; 86:11]. Þetta var algeng forn myndlíking um virka þátttöku í trú, kenningum eða iðkun. Samfélag Dauðahafshandrita kallaði sig fylgjendur ‚vegarins,‘ þar sem þeir héldu fram að þeir væru fylgjendur eigin túlkunar á þeim vegi sem væri Guði þóknanlegur. Páll og hinir fyrstu kristnu kölluðu sig líka ‚fylgjendur vegarins‘ [sjá Postulasagan 24:14]“ (í „What the Bible Says about the Way, the Truth, and the Life,“ Bible Gateway, biblegateway.com/topics/the-way-the-truth-and-the-life).

    Árið 1873 var forn bók með nafnið Didache uppgötvuð í bókasafni patríarka Jerúsalem í Konstantínópel. Margir fræðimenn telja hana hafa verið ritaða og notaða síðla á fyrstu öld (80–100 e.Kr.). Bókin Didache hefst á þessum orðum: „Tveir vegir eru til, annar til lífs og hinn til dauða, en það er mikill munur á þessum tveimur vegum. Vegur lífsins er þá þessi: „Þú skalt fyrst elska Guð sem skapaði þig; síðan náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Teaching of the Twelve Apostles, þýðing Roswells D. Hitchcock og Francis Brown [1884], 3).

    Aðrar heimildir, eins og The Expositor’s Bible Commentary, benda á að „á fyrri tíma kirkjunnar, hafi þeir sem meðtóku messíasarhlutverk Jesú og játuðu hann sem Drottin, sagt sig sjálfa tilheyra ‚veginum‘ [sjá Postulasagan 19:9, 23; 22:4; 24:14, 22]“ (ritst. af Frank E. Gaebelein og fleirum [1981], 9:370).

  2. Sjá Mósía 2:17.

  3. Sjá Kenning og sáttmálar 88:63.

  4. „Walking in Circles,“ 20. ágúst 2009, Max-Planck-Gesellschaft, mpg.de.

  5. „Walking in Circles,“ mpg.de. Myndin sýnir GPS-mælingar fjögurra þátttakenda í rannsókninni. Þrír þeirra gengu á skýjuðum degi. Einn þeirra (SM) byrjaði að ganga á meðan sólin var hulin skýjum, en eftir 15 mínútur létti til og þátttakandinn sá glitta í sólina. Gætið að því að þegar sólin var sýnileg, tókst göngumanni mun betur að halda beinni stefnu.

  6. Lesa má um eitt hörmulegt dæmi um það hvernig aðeins tveggja gráðu skekkja varð til þess að farþegaþota skall ofan á fjallið Erebus á Suðurskautslandinu og banaði 257 manns, sjá Dieter F. Uchtdorf, „Það veltur á örfáum gráðum,“ aðalráðstefna, apríl 2008.

  7. Dómarabókin 2:10.

  8. Eftir heimsókn Krists til Ameríku, iðraðist fólkið sannlega synda sinna, var skírt og meðtók heilagan anda. Þar sem það var eitt sinn þrætugjarnt og drambsamt fólk, voru nú „engar deilur né óeining meðal þeirra, heldur breyttu allir réttlátlega hverjir við aðra“ (4. Nefí 1:2). Þetta réttlætistímabil varði í um tvær aldir áður en hroki fór að valda því að fólk fór af veginum. Hins vegar getur andlegt fráhvarf einnig gerst mun hraðar. Sem dæmi má nefna að áratugum fyrr, á 50. ári stjórnartíðar dómaranna í Mormónsbók, var það svo „að friður hélst og mikil gleði“ meðal fólksins. Vegna hroka sem fyllti hjörtu kirkjumeðlima, var eftir stutt fjögurra ára skeið „mikil sundrung í kirkjunni og einnig svo miklar deilur meðal manna, að það leiddi til mikilla blóðsúthellinga“ (sjá Helaman 3:32–4:1).

  9. Kenning og sáttmálar 121:26.

  10. Postulasagan 3:20.

  11. Kenning og sáttmálar 121:33.

  12. Michael Crichton, Jurassic Park (2015), 190.

  13. „Tökum skip sem dæmi. Þótt þau séu afar stór og drifin áfram af sterkum vindum, þá er þeim stýrt með mjög litlu stýri hvert sem stýrimaðurinn vill fara“ (Jakobsbréfið 3:4; New International Version).

  14. Sjá HDP Móse 1:39.

  15. Mósía 26:30.

  16. Kenning og sáttmálar 58:42.

  17. 5. Mósebók 28:8–9; sjá einnig vers 1–7.