Aðalráðstefna
Trú til að spyrja og síðan framkvæma
Aðalráðstefna október 2021


Trú til að spyrja og síðan framkvæma

Trú á Jesú Krist er lykill að opinberun um sannleikann.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að fá að tala til ykkar á þessum laugardagskvöldhluta aðalráðstefnu. Í upphafsorðum sínum að ráðstefnunni í morgun, sagði Russell M. Nelson forseti að „hrein opinberun varðandi þær spurningar sem hvíla á hjarta okkar, muni gera þessa ráðstefnu afar gefandi og ógleymanlega. Ef þið hafið ekki enn leitað liðsinnis heilags anda til að hjálpa ykkur við að hlýða á það sem Drottinn vill að þið heyrið þessa tvo daga, þá býð ég ykkur að gera það núna.“ 1 Ég hef leitað þeirrar blessunar er ég bjó mig undir að hljóta opinberun fyrir þennan samfund með ykkur. Einlæg bæn mín er sú að þið megið hljóta opinberun frá Guði.

Sá háttur sem hafður er á við að hljóta opinberun frá Guði hefur ekki breyst frá tíma Adams og Evu. Hann hefur verið sá sami fyrir alla kallaða þjóna Drottins, allt frá upphafi til þessa dags. Það sama gildir um þig og mig. Það er alltaf gert með því að iðka trú. 2

Unglingurinn Joseph Smith hafði næga trú til að spyrja Guð spurningar, í þeirri trú að Guð svaraði hjartans þrá hans. Svarið sem barst breytti heiminum. Hann vildi vita í hvaða kirkju hann ætti að ganga til að hreinsast af synd. Svarið sem hann hlaut, hvatti hann til að halda áfram að spyrja sífellt betri spurninga og breyta samkvæmt hinu stöðuga opinberunarflæði, sem hafði rétt hafist. 3

Upplifun ykkar gæti hugsanlega verið svipuð á þessari ráðstefnu. Þið hafið spurningar sem þið leitið svara við. Þið hafið hið minnsta næga trú til að vonast eftir svörum frá Drottni fyrir milligöngu þjóna hans. 4 Ykkur gefst ekki kostur á að spyrja ræðumenn upphátt um svör, en þið getið spurt kærleiksríkan föður ykkar í bæn.

Af eigin reynslu veit ég að svör munu berast sem falla að eigin þörfum og andlegu þroskastigi. Ef þið þurfið svör sem eru mikilvæg eilífri velferð ykkar eða annarra, er líklegra að svar berist. Þið gætuð þó jafnvel þá hlotið svar – eins og Joseph Smith gerði – um að sýna biðlund. 5

Ef trú ykkar á Jesú Krist hefur leitt til hjartans auðmýktar, fyrir tilverknað friðþægingar hans, munið þið eiga betur með að skynja hina lágværu rödd andans svara bænum ykkar. Mín persónulega reynsla er sú að hin lága, hljóðláta rödd – sem er raunveruleg –er skýr og greinanleg í huga mínum er ég finn til innri friðsældar og undirgefni að vilja Drottins. Þeirri tilfinningu auðmýktar er best lýst með orðunum „verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ 6

Þetta ferli opinberunar gerir ykkur mögulegt að hlýða á ræðumenn þessarar ráðstefnu kenna það sem nefnt er kenning Krists. 7 Við hljótum opinberun í samræmi við einlæga viðleitni okkar til að meðtaka kenningu Krists í hjarta okkar og lifa eftir henni.

Þið munið eftir því í Mormónsbók að Nefí kenndi að trú á Jesú Krist væri lykill að opinberun um sannleikann og lykill að sannfæringu um að við séum að fylgja leiðsögn frelsarans. Nefí ritaði eftirfarandi orð mörgum öldum fyrir fæðingu Jesú Krists í jarðlífið:

„Englar tala með krafti heilags anda, og þess vegna hafa þeir orð Krists að mæla. Því að sjá. Orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.

Þegar ég hef mælt þessi orð og þér fáið eigi skilið þau, þá er það vegna þess, að þér spyrjið ekki og knýið ekki á. Og þess vegna eruð þér ekki leiddir inn í ljósið, heldur hljótið að farast í myrkri.

Því að sjá. Ég segi yður enn á ný, að ef þér viljið fara inn um hliðið og taka við heilögum anda, þá mun hann sýna yður allt, sem yður ber að gjöra.

Sjá. Þetta er kenning Krists, og engin önnur kenning mun látin í té, fyrr en hann hefur opinberað sig yður í holdinu. Og þegar hann opinberar sig yður í holdinu, skuluð þér gæta þess að gjöra það, sem hann segir yður að gjöra.“ 8

Drottinn mun í dag og á komandi dögum tala til þín og mín með þjónum sínum. Hann mun segja okkur hvað okkur ber að gera. 9 Frelsarinn mun ekki hrópa boðorð til þín eða mín. Eins og hann kenndi Elía:

„Drottinn svaraði: ‚Far út og gakk fram fyrir auglit Drottins uppi á fjallinu.‘ Þá gekk Drottinn þar hjá. Gífurlegur stormur fór fyrir Drottni, svo öflugur að hann molaði fjöll og klauf kletta. En Drottinn var ekki í storminum. Eftir storminn varð jarðskjálfti. En Drottinn var ekki í jarðskjálftanum.

Eftir jarðskjálftann kom eldur. En Drottinn var ekki í eldinum. Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ.“ 10

Trú á hann mun gera okkur kleift að heyra þá rödd. Sé trú okkar næg, munum við biðja um leiðsögn með ásetningi um að gera hvaðeina sem hann fer fram á. 11 Við munum hafa þróað trú til að vita að hvaðeina sem hann fer fram á mun blessa aðra og við getum hreinsast í þessu ferli, vegna elsku hans til okkar.

Þar sem trú okkar á Jesú Krist hefur leitt okkur til að biðja föðurinn um svör, mun sú trú líka hafa fært okkur hina mýkjandi snertingu frelsarans, sem nægir okkur til að heyra leiðsögn hans og af eftirvæntingu einsetja okkur að hlýða. Við munum þá syngja orð sálmsins með gleði, jafnvel þótt verkið sé erfitt: „Hve ljúft minn Guð, hve ljúft það [verkið] er.“ 12

Því meira sem við höfum kenningu Krists í hjarta okkar og lífi, því meira finnum við fyrir elsku og samúð með þeim sem hafa aldrei notið þeirrar blessunar að trúa á Jesú Krist eða eiga í erfiðleikum með að halda henni. Það er erfitt að halda boðorð Drottins án trúar og trausts á hann. Þegar sumir missa trú sína á frelsarann, geta þeir jafnvel gert atlögu að leiðsögn hans og kallað gott illt og illt gott. 13 Til að forðast þann harmleik, er mikilvægt að persónuleg opinberun um hugsun og athafnir samrýmist kenningum Drottins og spámanna hans.

Bræður og systur, það þarf trú til að hlýða boðorðum Drottins. Það þarf trú á Jesú Krist til að þjóna öðrum fyrir hann. Það þarf trú til að fara út að kenna fagnaðarerindi hans og bjóða það fólki sem fær jafnvel ekki skynjað rödd andans og afneitar raunveruleika boðskaparins. Þegar við hins vegar iðkum trú á Krist – og fylgjum lifandi spámanni hans – eykst trú um allan heim. Vegna tækninnar, munu ef til vill fleiri börn Guðs heyra og þekkja orð Guðs nú á þessari helgi en áður hefur gerst í sögunni á tveimur dögum.

Af aukinni trú á að þetta sé kirkja og ríki Drottins á jörðinni, greiða fleiri meðlimir tíund og gefa til aðstoðar hinum þurfandi, jafnvel þótt þeir takist sjálfir á við erfiðleika. Í trú á að þeir hafi verið kallaðir af Jesú Kristi, hafa trúboðar um allan heim fundið leiðir til að rísa ofar þeim áskorunum sem heimsfaraldur hefur skapað, af hugrekki og vongleði. Með auknu erfiði, hefur trú þeirra styrkst.

Mótlæti og erfiðleikar hafa löngum verið sáðreitur fyrir trúarvöxt. Það hefur alltaf verið satt, einkum frá upphafi endurreisnarinnar og stofnun kirkju Drottins. 14

Það sem George Q. Cannon forseti sagði fyrir löngu er satt í dag og mun verða svo, þar til frelsarinn kemur í eigin persónu til að leiða kirkju sína og fólk sitt: „Hlýðni við fagnaðarerindið leiðir [fólk] til afar náins sambands við Drottin. Það kemur á nánum tengslum manna á jörðu við hinn mikla skapara okkar á himnum. Það vekur mannshuganum tilfinningu algjörs trausts á hinum almáttuga og vilja hans til að hlusta á og svara bænum þeirra sem setja traust sitt á hann. Á tíma rauna og erfiðleika verður þetta traust ekki ofmetið. Einstaklingar eða hópar geta orðið fyrir erfiðleikum, hörmungar geta ógnað og öll mannleg von hrunið, en hafi fólk nýtt sér þau forréttindi sem felast í því að hlýða fagnaðarerindinu, á það sér öruggan stað; fætur þeirra standa á bjargi, sem ekki verður hreyft.“ 15

Ég ber vitni um að bjargið sem við stöndum á er vitnisburður okkar um að Jesús er Kristur, að þetta er kirkjan hans, sem hann leiðir persónulega, og að Russell M. Nelson forseti er lifandi spámaður hans á okkar tíma.

Nelson forseti leitar að og fær leiðsögn frá Drottni. Hann er mér fordæmi um að leita þeirrar leiðsagnar af staðfestu um að fylgja henni. Þessi sama staðfesta um að hlýða leiðsögn Drottins, býr í hjarta allra þeirra sem hafa talað eða munu tala, flytja bænir eða syngja á þessari aðalráðstefnu kirkju hans.

Ég bið þess að þeir sem horfa eða hlusta á þessa ráðstefnu um alla jörðu, upplifi elsku Drottins til þeirra. Himneskur faðir hefur svarað bæn minni um að ég megi hið minnsta finna örlítið af elsku frelsarans til ykkar og elsku hans til föður síns á himnum, sem er faðir okkar á himnum.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur lifir. Hann er frelsari okkar og lausnari. Þetta er hans kirkja. Hann er höfuð hennar. Hann, ásamt himneskum föður sínum, birtist Joseph Smith persónulega í trjálundi í New York. Fagnaðarerindi Jesú Krists og prestdæmi hans voru endurreist með himneskum sendiboðum. 16 Fyrir kraft heilags anda veit ég að það er sannleikur.

Ég bið þess að þið hljótið þetta sama vitni. Ég bið að þið munið biðja himneskan föður um þá trú á Jesú Krist sem þið þurfið, til að gera og halda sáttmála, sem gera heilögum anda mögulegt að vera ykkur stöðugur förunautur. Ég færi ykkur elsku mína og öruggan vitnisburð minn í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.