Aðalráðstefna
Elska Guðs
Aðalráðstefna október 2021


Elska Guðs

Faðir okkar og frelsari okkar hafa blessað okkur með boðorðum og með því að halda boðorð þeirra, finnum við fullkomna elsku þeirra í fyllri og ríkari mæli.

Himneskur faðir elskar okkur mikið og fullkomlega.1 Af elsku sinni, gerði hann áætlun, áætlun um endurlausn og hamingju, til að við gætum hlotið öll þau tækifæri og þá gleði sem við værum fús til að taka á móti, sem nær yfir allt sem hann á og er.2 Svo það mætti verða, var hann jafnvel fús til að bjóða fram sinn elskaða son, Jesú Krist, sem lausnara okkar. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“3 Hann býr yfir hreinni föðurlegri ást – öllum tiltæk, en samt öllum persónuleg.

Jesús Kristur á hlutdeild í þessari sömu fullkomnu elsku með föður sínum. Þegar faðirinn kynnti fyrst útfærslu sinnar miklu sæluáætlunar, kallaði hann eftir einhverjum sem frelsara til að endurleysa okkur – sem er nauðsynlegur hluti þeirrar áætlunar. Jesús bauð sig fram: „Hér er ég, send þú mig!“4 Frelsarinn „gjörir aðeins það, sem heiminum er til góðs, því að svo elskar hann heiminn, að hann gefur sitt eigið líf til að draga alla menn til sín. Hann hefur því boðið öllum hlut í hjálpræði sínu.“5

Þessi guðlega elska ætti að veita okkur mikla huggun og sjálfstraust þegar við biðjum til föðurins í nafni Krists. Ekkert okkar er þeim ókunnugt. Við ættum ekki að hika við að ákalla Guð, jafnvel þegar okkur finnst við vera óverðug. Við getum reitt okkur á miskunn og verðleika Jesú Krists til að á okkur sé hlustað.6 Ef við njótum elsku Guðs, verðum við stöðugt minna háð samþykki og leiðsögn annarra.

Elska Guðs afsakar ekki synd; hún býður aftur á móti endurlausn

Þar sem elska Guðs er alltumlykjandi, hafa sumir lýst henni sem „skilyrðislausri“ og í huga sínum dregið þá ályktun að blessanir Guðs séu „skilyrðislausar“ og að sáluhjálp sé „skilyrðislaus.“ Það er ekki rétt. Sumum er tamt að segja: „Frelsarinn elskar mig alveg eins og ég er. Það er vissulega rétt. Hann getur þó ekki tekið nokkurt okkar í ríki sitt eins og við erum, „því að ekkert óhreint fær dvalið þar eða dvalið í návist hans.“7 Fyrst er nauðsynlegt að greiða úr syndum okkar.

Prófessor Hugh Nibley sagði eitt sinn að ríki Guðs fengi ekki staðist, ef þar væri að finna jafnvel smæstu synd: „Smæsta spilling þýddi að hinn heimurinn væri hvorki óspilltur né eilífur. Minnsta veila í byggingu, stofnun, reglum eða persónuleika, mun óhjákvæmilega reynast örlagaríkur þegar til lengdar lætur í eilífðinni.“8 Boðorð Guð eru „ströng,“9 vegna þess að ríki hans og borgarar þess fá aðeins staðist, ef þeir hafna stöðugt og undantekningarlaust illu og velja gott.10

Jeffrey R. Holland sagði: „Jesús skildi vel það sem margir í okkar nútíma menningu virðast hafa gleymt: Að mikill munur er á boðorðinu um að fyrirgefa (sem hann hefur óendanlegan mátt til að gera) og aðvörunarinnar um að láta syndina viðgangast (sem hann gerði aldrei nokkurn tíma).“11

Þrátt fyrir núverandi ófullkomleika okkar getum við samt vonað að við fáum haldið „nafni og stöðu,“12 stað í kirkju hans og í hinum himneska heimi. Eftir að Drottinn gerir ljóst að hann getur ekki afsakað eða litið fram hjá synd, fullvissar hann okkur:

„Eigi að síður verður þeim fyrirgefið, sem iðrast og fylgir boðorðum Drottins.“13

„Og jafnoft og fólk mitt iðrast, mun ég fyrirgefa því brot þess gegn mér.“14

Iðrun og guðleg náð leysa þessar ógöngur:

„Minnist einnig orðanna, sem Amúlek talaði til Seesroms í borginni Ammónía, en hann sagði við hann, að Drottinn mundi vissulega koma og endurleysa lýð sinn, en að hann kæmi ekki til að endurleysa þá í syndum þeirra, heldur endurleysa þá frá syndum þeirra.

„Og hann hefur fengið vald frá föðurnum til að endurleysa þá frá syndum þeirra vegna iðrunar. Þess vegna hefur hann sent engla sína til að boða tíðindin um skilyrði þeirrar iðrunar, sem leiðir menn undir vald lausnarans til hjálpræðis sálum sínum.“15

Með skilyrðum iðrunar, getur Drottinn séð okkur fyrir miskunn, án þess að ganga á hlut réttvísinnar og „Guð hættir ekki að vera Guð.“16

Andkristur er háttur heimsins eða, eins og þið vitið, „allt nema Kristur.“ Okkar tími er endurtekning á sögu Mormónsbókar, þar sem töfrandi persónur sækjast eftir ranglátum yfirráðum yfir öðrum, fagna kynferðislegu frelsi og hvetja til auðssöfnunar sem hluta af tilveru okkar. Hugmyndfræði þeirra „[réttlætir lítils háttar syndir]“17 eða jafnvel stórar syndir, en ekkert í henni býður endurlausn. Hún hlýst aðeins með blóði lambsins. Það besta sem mannfjöldinn fær boðið og er „allt annað en Kristur“ eða „allt annað en iðrun,“ er sú tilhæfulausa fullyrðing að synd sé ekki til eða, að ef hún er til, hafi hún engar endanlegar afleiðingar. Ég fæ ekki séð að slíkar röksemdir haldi vatni við lokadóminn.18

Við þurfum ekki að reyna það ómögulega, að reyna að réttlæta syndir okkar í burtu. Við þurfum ekki heldur að reyna það sem ómögulegt er, að eyða áhrifum syndarinnar einungis með eigin verðleikum. Okkar trúarbrögð eru hvorki trúarbrögð réttlætingar né fullkomnunar, heldur trúarbrögð endurlausnar – endurlausnar fyrir tilverknað Jesú Krists. Ef við erum meðal hinna iðrandi, þá eru syndir okkar negldar á kross hans og „fyrir benjar hans urðum við [heilbrigð].“19

Hin mikla elska spámannanna endurspeglar elsku Guðs.

Ég hef lengi hrifist af, og líka fundið fyrir, hinni miklu elsku spámanna Guðs í aðvörunum þeirra gegn synd. Þeir eru ekki knúnir af löngun til að fordæma. Hin sanna þrá þeirra endurspeglar elsku Guðs; í raun er hún elska Guðs. Þeir elska þá sem þeir eru sendir til, hverjir sem þeir kunna að vera og hvernig sem þeim eru. Á sama hátt og Drottinn, þá vilja þjónar hans ekki að neinn þjáist af syndum og slæmu vali.20

Alma var sendur til hatramms fólks, sem var tamt að ofsækja, pynta og jafnvel drepa hina kristnu, þar á meðal Alma sjálfan, til að boða því iðrun og endurlausn. Samt elskaði hann það og þráði hjálpræði því til handa. Eftir að hafa sagt fólkinu í Ammónía frá friðþægingu Krists, sárbað Alma: „Og nú óska ég þess, bræður mínir, af innstu hjartans rótum, já, af svo heitri þrá, að það veldur mér sársauka, að þér hlýðið á orð mín og varpið syndum yðar frá yður, … [svo að] yður verði lyft upp á efsta degi og þér gangið inn til hvíldar [Guðs].“21

Með orðum Russells M. Nelson forseta: „Það er einmitt af því að við berum mikla umhyggju fyrir öllum börnum Guðs að við boðum sannleika hans.“22

Guð elskar ykkur; elskið þið hann?

Elska föðurins og sonarins er öllum frjálslega gefin, en felur líka í sér vonir og væntingar. Ég vitna aftur í Nelson forseta: „Lögmál Guð eru einungis sett sökum óendanlegrar elsku hans og þrár hans til að við verðum allt það sem við getum orðið.“23

Af því að þeir elska ykkur, vilja þeir ekki að þið séuð „eins og þið eruð.“ Af því að þeir elska ykkur, vilja þeir að þið njótið gleði og velgengni. Af því að þeir elska ykkur, vilja þeir að þið iðrist, því það er vegur hamingjunnar. Það er þó ykkar val – þeir virða sjálfræði ykkar. Þið verðið að velja að elska þá, þjóna þeim, að halda boðorð þeirra. Þá geta þeir bæði blessað ykkur ríkulegar og elskað ykkur heitar.

Þeir vænta þess mest af okkur að við elskum líka. „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur.“24 Eins og Jóhannes ritaði: „Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.“25

Fyrrverandi aðalforseti Barnafélagsins, Joy D. Jones, sagði frá því að þegar hún og eiginmaður hennar voru ung hjón hefðu þau verið kölluð til að heimsækja og þjóna fjölskyldu sem í mörg ár hafði ekki komið í kirkju. Það varð þegar ljóst í fyrstu heimsókn þeirra að þau væru ekki velkomin. Eftir vonbrigði nokkurra misheppnaðra tilrauna og eftir margar einlægar bænir og íhugun, hlutu bróðir og systir Jones svar við því sem varðaði þjónustu þeirra í þessu versi í Kenningu og sáttmálum: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, öllum mætti þínum, huga og styrk. Og í nafni Jesú Krists skalt þú þjóna honum.26 Systir Jones sagði:

„Við gerðum okkur grein fyrir því að við vorum einlæglega að reyna að þjóna þessari fjölskyldu og að þjóna biskupnum, en við urðum að spyrja okkur sjálf hvort við værum að þjóna vegna kærleika okkar til Drottins.

Við fórum að hlakka til heimsóknanna til þessarar fjölskyldu vegna elsku okkar til Drottins [sjá 1. Nefí 11:22]. Við vorum að gera það fyrir hann. Hann gerði erfiði okkar ekki lengur erfitt. Eftir marga mánuði af því að standa á tröppunum hjá þeim, fór fjölskyldan að bjóða okkur inn. Að lokum áttum við reglulega saman bæna- og lærdómsstundir um fagnaðarerindið. Langvarandi vináttusamband myndaðist. Við vorum að tilbiðja og elska hann, með því að elska börn hans.“27

Í þeirri viðleitni að viðurkenna að Guð elskar okkur fullkomlega, gætum við öll spurt: „Hversu mikið elska ég Guð? Getur hann reitt sig á elsku mína, eins og ég reiði mig á hans?“ Væri ekki verðugt viðfangsefni að lifa þannig að Guð elski okkur ekki bara þrátt fyrir veikleika okkar, heldur líka vegna þess sem við erum að verða. Ó, bara að hann gæti sagt um mig og ykkur það sama og hann sagði t.d við Hyrum Smith: „Ég, Drottinn, elska hann fyrir einlægni hjarta hans.“28 Við skulum hafa hugfasta þessa áminningu Jóhannesar: „Því að elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“29

Boðorð hans eru vissulega ekki þung – þvert á móti. Þau eru vegur lækningar, hamingju, friðar og gleði. Faðir okkar og frelsari okkar hafa blessað okkur með boðorðum og með því að halda boðorð þeirra, finnum við fullkomna elsku þeirra í fyllri og ríkari mæli.30

Hér er lausn við sífelldum deilum okkar tíma – elska Guðs. Á hinni gullnu söguöld Mormónsbókar, eftir þjónustu frelsarans, er svo sagt frá: „Engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.“31 Þegar við keppum að Síon, minnumst við loforðsins í Opinberunarbókinni: „Sælir eru þeir sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina [helgu].“32

Ég ber vitni um raunveruleika himnesks föður og lausnara okkar, Jesú Krists og linnulausa og varanlega elsku þeirra. Í nafni Jesú Krists, amen.