Aðalráðstefna
Elska Guðs, eftirsóknarverðust af öllu
Aðalráðstefna október 2021


Elska Guðs, eftirsóknarverðust af öllu

Elsku Guðs er ekki að finna í aðstæðum lífs okkar heldur í nærveru hans í lífi okkar.

Bræður og systur, vitið þið hve heitt Guð, himneskur faðir okkar elskar ykkur? Hafið þið fundið elsku hans djúpt í sálu ykkar?

Þegar þið vitið og skiljið hve mikið þið eruð elskuð sem börn Guðs, breytist allt. Það breytir því hvernig þið sjáið ykkur sjálf þegar þið gerið mistök. Það breytir því hvernig ykkur líður á erfiðleikatímum. Það breytir viðhorfi ykkar til boðorða Guðs. Það breytir viðhorfi ykkar gagnvart öðrum og getu til að hafa áhrif.

Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Æðsta boðorð allrar eilífðar, er að elska Guð af öllu okkar hjarta, mætti, huga og styrk – það er hið æðsta og mikla boðorð. Æðsti sannleikur allrar eilífðar, er þó sá að Guð elskar okkur af öllu sínu hjarta, mætti, huga og styrk.“ 1

Hvernig getur hvert og eitt okkar þekkt þennan eilífðarsannleika djúpt í sál sinni?

Spámaðurinn Nefí fékk að sjá áhrifaríkustu staðfestinguna á elsku Guðs í sýn. Þegar hann sá lífsins tré, bað Nefí um að fá útskýringar á því. Sem svar við því, sýndi engillinn Nefí borg, móður og ungabarn. Þegar Nefí leit á borgina Nasaret og hina réttlátu móður Maríu, þar sem hún hélt á ungbarninu Jesú í örmum sínum, sagði engillinn: „Sjá Guðslambið, já, son hins eilífa föður!“ 2

Á þessari helgu stundu, skildi Nefí að í fæðingu frelsarans væri Guð að sýna fram á hreina og altæka elsku sína. Nefí bar þess vitni að elska Guðs, „breiðir úr sér í hjörtum mannanna barna.“ 3

Ljósmynd
Lífsins tré

Við getum ímyndað okkur elsku Guðs sem ljós sem skín frá lífsins tré, dreifir úr sér yfir alla jörðu og inn i hjörtu mannanna barna. Ljós Guðs og elska smýgur inn í öll sköpunarverk hans. 4

Stundum gerum við þau mistök að halda að við getum einungis skynjað elsku Guðs eftir að við höfum fylgt járnstönginni og meðtekið af ávextinum. Elska Guðs er hinsvegar ekki einungis meðtekin af þeim sem koma trénu, heldur er hún hinn eiginlegi kraftur sem knýr okkur áfram til að leita trésins.

„Hún er því eftirsóknarverðust af öllu,“ kenndi Nefí, og engillinn svaraði: „Já, það sem færir sálinni mesta gleði.“ 5

Fyrir tuttugu árum fjarlægðist fjölskyldumeðlimur kirkjuna. Hann hafði margar ósvaraðar spurningar. Eiginkona hans, sem hafði snúist til trúar, hélt sér fast að trú sinni. Þau unnu hörðum höndum að því að varðveita hjónaband sitt í þeim ágreiningi sem kom upp.

Á síðasta ári skrifaði hann niður þrjár spurningar um kirkjuna, sem hann átti erfitt með að sætta sig við og sendi tvennum hjónum, sem höfðu verið vinir hans í mörg ár. Hann bauð þeim að hugleiða þessar spurningar og koma svo í kvöldmat og deila hugleiðingum sínum.

Eftir þessa heimsókn vina sinna, fór hann til herbergis síns og hóf að vinna að verkefni. Samtal kvöldsins og sú elska sem vinir hans sýndu honum var efst í huga hans. Hann skrifaði seinna að hann hefði fundið sig knúinn til að hætta verki sínu: Hann sagði: „Bjart ljós fyllti sál mína. … Ég kannaðist við þessa djúpu tilfinningu upplýsingar, en í þessu tilfelli hélt hún áfram að vaxa meira en nokkru sinni fyrr og varði í nokkrar mínútur. Ég sat hljóðlega með tilfinningu, sem ég fór að skilja að væri staðfesting á elsku Guðs til mín. … Ég fékk andleg hughrif sem sögðu mér að ég ætti að snúa aftur til kirkju og tjá þessa elsku Guðs í því sem ég gerði þar.“

Hann hugleiddi síðan spurningar sínar. Þessi tilfinning sem hann fékk var að Guð virti spurningar hans og að það að hafa ekki skýr svör, ætti ekki að hindra hann í að því sækja fram. 6 Hann ætti að miðla elsku Guðs til allra á sama tíma og hann héldi áfram að hugleiða. Þegar hann fylgdi þessari hvatningu, fann hann tengingu við Joseph Smith, sem sagði eftir Fyrstu sýnina: „Sál mín var fyllt elsku, og í marga daga gat ég fagnað í mikilli gleði.“ 7

Athyglisvert er að nokkrum stuttum mánuðum seinna hlaut þessi fjölskyldumeðlimur sömu köllun og hann hafði haft 20 árum áður. Í fyrra skiptið sem hann hafði köllunina sinnti hann skyldum sínum af skyldurækni sem meðlimur kirkjunnar. Nú var spurningin fyrir hann ekki: „Hvernig get ég sinnt þessari köllun?“ heldur „hvernig get ég sýnt elsku Guðs í þjónustu minni?“ Með þessu nýja viðhorfi, fann hann gleði, þýðingu og tilgang í öllum þáttum köllunarinnar.

Systur og bræður, hvernig getum við meðtekið umbreytandi kraft elsku Guðs? Spámaðurinn Mormón bauð okkur: „Biðjið þess vegna til föðurins, … af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists.“ 8 Mormón býður okkur að biðja ekki einungis um að við megum fyllast elsku Guðs til annarra heldur að biðja um að við mættum þekkja hreina elsku Guðs til okkar sjálfra. 9

Er við meðtökum elsku hans, finnum við meiri gleði í að reyna að elska og þjóna eins og hann gerði, verða að „sönnum fylgjendum sonar [hans], Jesú Krists.“ 10

Elsku Guðs er ekki að finna í aðstæðum lífs okkar heldur í nærveru hans í lífi okkar. Við vitum af elsku hans þegar við meðtökum styrk sem er umfram okkar eigin og þegar andi hans færir okkur frið, huggun og leiðsögn. Stundum kann það að vera erfitt að skynja elsku hans. Við getum beðið þess að augu okkar opnist til að sjá hönd hans í lífi okkar og sjá elsku hans í fegurð sköpunarverks hans.

Þegar við ígrundum líf frelsarans og eilífa fórn frelsarans, getum við byrjað að skilja elsku hans til okkar. Við syngjum orð Eliza R. Snow: af lotningu: „Og fórn þá Jesús fús til var, að færa’ á sinni braut.“ 11 Auðmýkt Jesú í þjáningu fyrir okkur fellur á sál okkar, opnar hjörtu okkar til að biðjast fyrirgefningar frá honum og fyllir okkur þrá til að lifa eins og hann gerði. 12

Russel M. Nelson forseti ritaði: „Því skuldbundnari sem við verðum því að móta líf okkar eftir hans, því hreinni og guðlegri verður elska okkar.“ 13

Sonur okkar sagði svo frá: „Þegar ég var 11 ára ákváðum ég og vinir mínir að fela okkur frá kennaranum og skrópa í fyrri helmingi kennslustundarinnar í Barnafélaginu. Þegar við komum loks, vorum við hissa yfir því að kennarinn tók hlýlega á móti okkur. Því næst flutti hann hjartnæma bæn þar sem hann þakkaði Drottni einlæglega fyrir að við skyldum hafa ákveðið af eigin vilja að koma í kennslustund þann daginn. Ég man ekki hvað var kennt í þessari kennslustund eða jafnvel nafn kennarans okkar, en núna, um þrjátíu árum seinna, þá snertir þessi hreina elska sem hann sýndi mig enn.“

Fyrr fimm árum varð ég vitni að dæmi um guðlega elsku, er ég sat inni í Barnafélagskennslu í Rússlandi. Ég sá trúfasta systur krjúpa frammi fyrir tveimur börnum og bera þeim vitni um að þó að þau væru þau einu sem lifðu á jörðinni, hefði Jesú þjáðst og dáið, bara fyrir þau.

Ég ber ykkur vitni um að Drottinn vor og frelsari dó sannarlega fyrir hvert og eitt okkar. Hann sýndi okkur þannig sína óendanlegu elsku til okkar og himnesks föður síns.

„Ég veit minn lifir lausnarinn, hve ljúft það gleður huga minn. Á himni bætir málstað [okkar].“ 14

Megum við opna hjörtu okkar til að meðtaka þá hreinu elsku sem Guð hefur handa okkur og endurvarpa elsku hans í öllu sem við gerum og erum. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Jeffrey R. Holland, „„Á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar,“ aðalráðstefna, apríl 2016.

  2. 1. Nefí 11:21.

  3. 1. Nefí 11:22; skáletrað hér.

  4. Sjá Kenning og sáttmálar 88:13.

  5. 1. Nefí 11:22, 23.

  6. Sjá 1. Nefí 11:17.

  7. Joseph Smith, í Karen Lynn Davidson and others, eds., The Joseph Smith Papers, Histories, Bindi 1: Joseph Smith Histories, 1832–1844 (2012), 13; greinarmerki og stafsetning hafa verið færði í nútímahorf.

  8. Moróní 7:48.

  9. Sjá Neill F. Marriott, „Að vera í Guði og græða sárin,“ aðalráðstefna, október 2017 „Lífsmáti okkar í kærleiksríkri fortilveru hefur hugsanlega innrætt okkur þrá eftir sannri og varanlegri elsku á jörðunni. Við erum guðlega mótuð til að sýna elsku og vera elskuð og innilegasta elskan hlýst af því að vera eitt með Guði.“

  10. Moróní 7:48.

  11. „Þá ást og visku veitti hann,“ Sálmar, nr. 69.

  12. Sjá Linda S. Reeves, „Verðug okkar fyrirheitnu blessana,“ aðalráðstefna, október 2015: „Ég trúi að ef við gætum haft í huga og skynjað hinn mikla kærleika sem himneskur faðir og sonur hans bera til okkar, yrðum við fúsar til að gera hvaðeina sem þeir bæðu okkur um, til að komast aftur í návist þeirra, umluktar elsku þeirra að eilífu.“

  13. Russell M. Nelson, „Divine Love,“ Liahona, febrúar 2003, 17.

  14. „Ég veit minn lifir lausnarinn.“ Sálmar, nr. 36.