Aðalráðstefna
Melkísedeksprestdæmið og lyklarnir
Aðalráðstefna apríl 2020


Melkísedeksprestdæmið og lyklarnir

Í kirkjunni er vald prestdæmisins iðkað undir leiðsögn prestdæmisleiðtoga, sem hafa lykla þess prestdæmis.

Ég hef ákveðið að ræða ennfrekar um prestdæmi Guðs, sem var umfjöllunarefni fyrri ræðumanna, sem kenndu hvernig prestdæmið blessar konur, stúlkur og pilta.

Prestdæmið er guðlegur kraftur og vald, sem veitt er í því trausti að það sé notað fyrir verk Guðs, öllum börnum hans til farsældar. Þeir sem hafa verið vígðir prestdæmisembætti eða iðka vald þess, eru ekki prestdæmið. Karlmenn sem hafa prestdæmið eru ekki prestdæmið. Þótt við vísum ekki til vígðra karlmanna sem prestdæmið, þá er viðeigandi að vísa til þeirra sem handhafa prestdæmisins.

Kraftur prestdæmisins er fyrir hendi bæði í kirkjunni og fjölskyldunni sem stofnun. Kraftur og vald prestdæmisins hafa ólíka virkni í kirkjunni og fjölskyldunni. Allt er það samkvæmt þeim reglum sem Drottinn hefur komið á. Tilgangur áætlunar Guðs var að leiða börn hans til eilífs lífs. Jarðneskar fjölskyldur eru nauðsynlegar þeirri áætlun. Kirkjunni er ætlað að sjá okkur fyrir kenningunni, valdinu og helgiathöfnunum, sem nauðsynleg eru til að gera fjölskyldusambönd varanleg fyrir eilífðina. Samband fjölskyldunnar sem stofnunar og kirkju Jesú Krists er því gagnkvæmt og styrkjandi. Blessanir prestdæmisins – eins og fylling fagnaðarerindisins og helgiathafnir, líkt og skírn, staðfesting og móttaka heilags anda, musterisgjöfin og eilíft hjónaband – standa jafnt körlum og konum til boða.1

Prestdæmið sem hér um ræðir er Melkísedeksprestdæmið, endurreist í upphafi endurreisnar fagnaðarerindisins. Joseph Smith og Oliver Cowdery voru vígðir því af hendi Péturs, Jakobs og Jóhannesar, sem skýrðu frá því, að þeir hefðu „lykla ríkisins og að ráðstöfuninni í fyllingu tímanna“ (Kenning og sáttmálar 128:20). Þessum fyrstu postulum var veitt þetta vald af hendi sjálfs frelsarans. Allt annað vald eða embætti prestdæmisins, eru einungis viðaukar Melkísedeksprestdæmisins (sjá Kenning og sáttmálar 107:5), því það „hefur réttinn til forsætis og kraft og vald yfir öllum embættum kirkjunnar á öllum tímum heimsins“ (Kenning og sáttmálar 107:8).

Í kirkjunni er vald æðra prestdæmisins, Melkísedeksprestdæmisins, og þess lægra, eða Aronsprestdæmisins, iðkað undir leiðsögn prestdæmisleiðtoga, sem hafa lykla þess prestdæmis. Við verðum að skilja reglu prestdæmislykla, til að skilja iðkun prestdæmisvalds í kirkjunni.

Lyklar Melkísedeksprestdæmisins að ríkinu, voru veittir af hendi Pétus, Jakobs og Jóhannesar, en með því var endurreisn prestdæmislykla ekki lokið. Sumir lyklar prestdæmisins komu síðar. Í kjölfar vígslu fyrsta musteris þessarar ráðstöfunar í Kirtland, Ohio, endurreistu þrír spámenn – Móse, Elías og Elía – „lyklana að þessari ráðstöfun,“ ásamt lyklunum að samansöfnun Ísraels og musterisverki Drottins (sjá Kenning og sáttmálar 110), líkt og Eyring forseti útskýrði svo sannfærandi hér rétt áður.

Þekktasta dæmið um virkni lykla, er framkvæmd helgiathafna prestdæmisins. Helgiathöfn er hátíðleg framkvæmd til tákns um sáttmálsgjörð og fyrirheitnar blessanir. Í kirkjunni eru allar helgiathafnir framkvæmdar með heimild þess prestdæmisleiðtoga sem hefur lyklana að viðkomandi helgiathöfn.

Helgiathöfn er oftast framkvæmd af einstaklingum sem hafa verið vígðir embætti prestdæmisins, undir leiðsögn þess sem hefur prestdæmislykla. Handhafar hinna ýmsu embætta Aronsprestdæmisins, þjóna t.d. við helgiahöfn sakramentis, með lyklum og leiðsögn biskups, sem hefur lykla Aronsprestdæmisins. Þessi sama regla á við um þær helgiathafnir prestdæmis sem konur framkvæma í musterinu. Þótt konur hafi ekki embætti í prestdæminu, þá framkvæma þær helgiathafnir musterisins, með valdsumboði musterisforsetans, sem hefur lyklana að helgiathöfnum musterisins.

Annað dæmi um prestdæmisvald, undir leiðsögn þess sem hefur lykla, eru þeir karla og konur sem kölluð eru til að kenna fagnaðarerindið, hvort heldur í námsbekkjum deildar sinnar eða á trúboðsakrinum Enn önnur dæmi um það, eru þeir sem eru í leiðtogastöðum í deild og iðka prestdæmisvald sem tengist köllunum þeirra, samkvæmt embættisísetningu og leiðsögn þess prestdæmisleiðtoga sem hefur lyklana í deild eða stiku. Vald og krafur prestdæmisins eru á þennan hátt iðkuð og hagnýtt í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.2

Prestdæmisvald er líka iðkað og blessanir veittar í fjölskyldum Síðari daga heilagra. Með fjölskyldu á ég við karlmann með prestdæmið og konu sem eru gift og börn þeirra. Það á líka við um tilbrigði frá hinni fullkomnu fjölskyldumynd, svo sem vegna dauða eða skilnaðar.

Sú regla að einungis er hægt að nota prestdæmisvald undir leiðsögn þess sem hefur lykla að því valdssviði, er grundvallaratriði í kirkjunni, en það á þó ekki við um fjölskylduna. Sem dæmi um það, þá er faðir í forsjá fjölskyldu sinnar og iðkar þar prestdæmið, með því prestdæmisvaldi sem hann hefur. Engin þörf er á því að hann hljóti leiðsögn eða samþykki þeirra sem hafa prestdæmislykla við að leiða fjölskyldu sína með ýmsum hætti. Það felur meðal annars í sér að hafa fjölskyldufundi, veita eiginkonu og börnum prestdæmisblessanir eða veita fjölskyldumeðlimum eða öðrum blessanir til lækningar.3 Kirkjuvaldhafar kenna fjölskyldumeðlimum, en hafa ekki umsjá með iðkun prestdæmisvalds í fjölskyldunni.

Sama regla á við þegar faðir er fjarverandi og móðir er leiðandi í fjölskyldu sinni. Hún er í forsjá heimilis síns og er verkfæri við að færa fjölskyldu sinni kraft og blessanir prestdæmisins, fyrir eigin musterisgjöf og innsiglun í musterinu. Þótt hún hafi ekki valdsumboð til að veita prestdæmisblessanir, sem sá einn getur veitt sem hefur ákveðið embætti í prestdæminu, þá getur hún unnið að öllu öðru er varðar fjölskylduforsjá. Með því að gera það, iðkar hún vald prestdæmisins, börnum sínum til farsældar, sem hún er í forsjá fyrir í fjölskyldu sinni.4

Ef feður efldu prestdæmið í eigin fjölskyldu, myndi það flýta ætlunarverki kirkjunnar meira en nokkuð annað sem þeir gerðu. Feður sem hafa Melkísedeksprestdæmið, ættu að iðka vald sitt „með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást“ (Kenning og sáttmálar 121:41). Þessi hái staðall til iðkunar alls prestdæmisvalds er mikilvægastur í fjölskyldunni. Prestdæmishafar ættu að halda boðorðin, svo þeir hafi kraft prestdæmisins til að veita fjölskyldu sinni blessanir. Þeir ættu að stuðla að kærleiksríku fjölskyldusambandi, svo að fjölskyldmeðlimir vilji biðja þá um blessanir. Auk þess, ættu foreldrar að hvetja til fleiri prestdæmisblessana í fjölskyldu sinni.5

Á þessum ráðstefnusamkomum, er við um stund leitum skjóls frá jarðneskum áhyggjum hörmulegs heimsfaraldurs, hefur okkur verið kennd mikil eilífðarregla. Ég hvet sérhvert okkar til að hafa auga sitt „heilt,“ til að taka á móti þessum sannleika eilífðar, svo líkamar okkar „verði [fullir] af ljósi“ (3. Nefí 13:22).

Í ræðu sinni til fjöldans, sem skráð er í Biblíunni og í Mormónsbók, kenndi frelsarinn að dauðlegir líkamar geti verið fylltir ljósi eða fylltir myrkri. Við viljum auðvitað fyllast ljósi og frelsari okkar kenndi hvernig við getum látið það gerast. Við ættum að hlusta á boðskap um sannleika eilífðar. Hann notaði dæmi um augað, sem fyllir líkama okkar ljósi. Ef auga okkar er „heilt,“ – með öðrum orðum, ef við leitum einbeitt að eilífu ljósi og skilningi – „mun allur líkami [okkar] fullur af ljósi,“ sagði hann (Matteus 6:22; 3. Nefí 13:22). Sé hins vegar „auga [okkar] spillt,“ – ef við leitum hins illa og meðtökum það í líkama okkar – „myrkast allur líkami [okkar],“ aðvaraði hann“ (vers 23). Með öðrum orðum, ljósið eða myrkrið í líkömum okkar, er háð því hvernig við sjáum – eða meðtökum – þann eilífa sannleika sem okkur er kenndur.

Við ættum að hlíta boði frelsarans um að leita og biðja, til að skilja sannleika eilífðar. Hann lofar að faðir okkar á himnum sé fús til að kenna öllum þann sannleika sem þeir leita að (sjá 3. Nefí 14:8). Ef við þráum það, og gætum þess að auga okkar sé heilt til að meðtaka, lofar frelsarinn að sannleika eilífðar „mun upp lokið verða“ fyrir okkur (3. Nefí 14:7–8).

Satan er aftur á móti kappsamt að rugla hugsanir okkar eða leiða okkur afvega í mikilvægum málum, eins og hvernig prestdæmi Guðs virkar. Frelsarinn varaði okkur við „[falsspámönnum], sem koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar“ (3. Nefí 14:15). Hann veitti okkur þessa leiðsögn til að hjálpa okkur að velja sannleikann, meðal margra ólíkra ruglandi kenninga: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá“ (3. Nefí 14:16). „Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu“ (vers 18). Þess vegna ættum við að skoða afleiðingar – „ávexti“ – hinna kenndu reglna og einstaklingana sem þær kenna. Það er besta svarið við gagnrýninni sem við heyrum á kirkjuna, kenningar hennar, reglur og leiðtoga. Farið eftir þeirri leiðsögn sem frelsarinn kenndi. Skoðið ávextina – afleiðingarnar.

Þegar við hugsum um ávexti fagnaðarerindisins og hinar endurreistu kirkju Jesú Krists, fögnum við því hvað kirkjan hefur vaxið, á tíma nú lifandi meðlima hennar, úr staðbundnum söfnuðum í vestur-fjöllum, í yfir 16 milljón meðlima, sem að meirihluta búa í öðrum ríkjum en Bandaríkjunum. Með þessum vexti höfum við fundið að kirkjan getur liðsinnt meðlimum sínum betur. Við aðstoðum þá við að halda boðorðin, uppfylla þá ábyrgð sína að prédika hið endurreista fagnaðarerindi, safna saman Ísrael og byggja musteri um allan heim.

Við erum leidd af spámanni, Russell M. Nelson forseta, og Drottinn hefur notað leiðtogahæfni hans til að ná þeim árangri sem við höfum verið vitni að á rúmlega tveggja ára stjórnartíð hans. Við munum nú njóta þeirrar blessunar að hlýða á Nelson forseta, sem mun kenna okkur hvernig við stuðlum að ennfrekari framförum í þessari endurreistu kirkju Jesú Krists á þessum krefjandi tímum.

Ég ber vitni um sannleika alls þessa og sameinast ykkur í bæn fyrir spámanni okkar, sem við munum hlýða næst á, í nafni Jesú Krists, amen.