Aðalráðstefna
Íhugið gæsku og mikilleika Guðs
Aðalráðstefna apríl 2020


Íhugið gæsku og mikilleika Guðs

Ég hvet ykkur til að minnast mikilleika himnesks föður og Jesú Krists alla daga og hvað þeir hafa gert fyrir ykkur.

Í tímans rás, einkum á erfiðum tímum, hafa spámenn hvatt okkur til að hafa í huga mikilleika Guðs og íhuga hvað hann hefur gert fyrir okkur sem einstaklinga, fjölskyldur og fólk. 1 Leiðsögn þessa er víðsvegar að finna í ritningunum, en hún er þó afgerandi mest í Mormónsbók. Titilsíðan útskýrir að einn tilgangur Mormónsbókar sé að „sýna leifum Ísraelsættar, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir feður þeirra.“ 2 Mormónsbók lýkur meða annars með ákalli Morónís: „Sjá. Ég hvet yður, þegar þér lesið þetta … að þér hafið það hugfast, hve miskunnsamur Drottinn hefur verið mannanna börnum … og ígrundið það í hjörtum yðar.“ 3

Samræmið í beiðni spámanna um að íhuga gæsku Guðs er eftirtektarvert. 4 Himneskur faðir vill að við höfum í huga gæsku hans og hans elskaða sonar, ekki sjálfum sér til velþóknunar, heldur sökum þeirra áhrifa sem slík minning hefur á okkur. Með því að íhuga góðvild þeirra, eykst víðsýn okkar og skilningur. Með því að íhuga samúð þeirra, getum við orðið auðmýkri, bænheitari og stöðugri.

Átakanleg reynsla með fyrrverandi sjúkling sýnir hve þakklæti fyrir örlæti og samúð getur breytt okkur. Árið 1987 kynntist ég Thomas Nielson, óvenjulegum manni sem þurfti á hjartaígræðslu að halda. Hann var 63 ára gamall og bjó í Logan, Utah, í Bandaríkjunum. Eftir herþjónustu í heimstyrjöldinni síðari, kvæntist hann Donnu Wilkes í Logan musterinu í Utah. Hann varð ötull og farsæll steinsmiður. Á síðari árum naut hann þess einkum að vinna með elsta barnabarni sínu, Jonathan, í skólafríum. Þeir þróuðu með sér sérstakt samband, að hluta vegna þess hve mikið Tom sá sjálfan sig í Jonathan.

Það tók á Tom að bíða eftir hjartagjafa. Hann var ekki sérlega þolinmóður maður. Hann hafði ávallt verið fær um að setja sér markmið og ná þeim með mikilli vinnu og óbilandi ákveðni. Tom spurði mig oft, meðan hann barðist við hjartveiki og lífið hékk á bláþræði, hvað ég gerði til að flýta fyrir ferlinu. Í gríni stakk hann upp á aðferðum sem gerðu mér kleift að finna hjartagjafa fyrr en ella

Einn ánægjulegan, en jafnframt kvíðafullan dag, fannst fyrirtaks hjartagjafi fyrir Tom. Stærðin og blóðflokkurinn pössuðu, og var gjafinn ungur að árum, bara 16 ára gamall. Gjafahjartað tilheyrði Jonathan, hinu elskaða barnabarni Toms. Fyrr þennan dag hafði Jonathan látist í slysi, er farþegalest á ferð lenti á bílnum sem hann ók.

Þegar ég kom í heimsókn til Toms og Donnu á spítalann, voru þau frávita af sorg. Það er erfitt að ímynda sér hvað þau gengu í gegnum, vitandi að hægt væri að framlengja líf Toms með því að nota hjarta barnabarnsins. Í fyrstu neituðu þau að þiggja hjartað, sem syrgjandi foreldrar Jonathans, dóttir þeirra og tendgasonur, buðu þeim. Tom og Donna vissu að Jonathan væri heiladáinn og skildu loks að bænir þeirra um gjafahjarta fyrir Tom væri ekki orsökin að slysi Jonathans. Nei, hjarta Jonathans var gjöf sem gæti reynst Tom blessun á neyðartíma. Þau sáu að eitthvað gott gæti hlotist af þessum harmleik og létu því til leiðast.

Ígræðsluaðgerðin gekk vel. Í kjölfarið var Tom breyttur maður. Breytingin var meiri en heilsubati eða jafnvel þakklæti. Hann sagði mér að hann hugsaði sérhvern morgun um Jonathan, dóttur sína og tengdason, um gjöfina sem hann hafði hlotið og hvað sú gjöf hafði í för með sér. Þrátt fyrir að hin eðlislæga kímni og þrautseigja hans væru enn nokkuð augljós, tók ég eftir að Tom var orðinn alvarlegri, tillitssamari og góðhjartaðri.

Eftir ígræðsluna lifði Tom í 13 ár í viðbót, ár sem hann að öðru leyti hefði ekki átt. Í minningargrein um hann sagði að á þessum árum hefði honum leyfst að snerta líf fjölskyldu sinnar og annarra með örlæti og kærleika. Hann studdi marga persónulega og var fordæmi um jákvæðni og ákveðni.

Rétt eins og Tom, þá á sérhvert okkar gjafir sem við gátum ekki veitt okkur sjálfum, gjafir frá himneskum föður og ástkærum syni hans, þar á meðal hjálpræði fyrir friðþægingarfórn Jesú Krists. 5 Við höfum þegið þetta jarðlíf; við munum hljóta efnislegt líf eftir þetta líf, sem og eilífa sáluhjálp og upphafningu – ef við kjósum svo – allt frá himneskum föður og Jesú Kristi.

Í hvert sinn sem við notum þessar gjafir, högnumst af þeim og jafnvel hugsum um þær, ættum við að íhuga fórn, örlæti og samúð þeirra sem gáfu þær. Lotning fyrir gjafaranum gerir okkur meira en bara þakklát. Ígrundun á gjöfum þeirra getur og ætti að umbreyta okkur.

Ein óvenjuleg umbreyting átti sér stað hjá Alma yngri. Þegar Alma „[fór] um og [gerði] uppreisn gegn Guði,“ 6 birtist engill. Með „þrumuraust“ 7 ávítaði engillinn Alma fyrir að ofsækja kirkjuna og „[afvegaleiða] hjörtu fólksins.“ 8 Engillinn bætti þessari áminningu við: „Farið og minnist ánauðar feðra yðar, … og minnist þess, hve mikið [Guð] hefur fyrir þá gjört.“ 9 Af öllum áminningum var þetta sú sem engillinn lagði áherslu á.

Alma iðraðist og hafði hugfast. Síðan deildi hann áminningum engilsins með syni sínum, Helaman. Alma ráðlagði: „Það er ósk mín, að þú gjörir eins og ég hef gjört, minnist ánauðar feðra okkar. Því að þeir voru í ánauð, og enginn gat leyst þá nema Guð Abrahams, …Ísaks og … Jakobs. Og hann bjargaði þeim svo sannarlega úr þrengingum þeirra.“ 10 Alma sagði einfaldlega: „Ég legg traust mitt á hann.“ 11 Alma skildi að með því að minnast lausnar úr ánauð og stuðnings „í alls kyns þrengingum,“ getum við þekkt Guð og verið fullviss um fyrirheit hans. 12

Fá okkar búa við eins stórbrotna reynslu og Alma, en umbreyting okkar getur samt sem áður orðið eins djúp. Frelsarinn lofaði forðum:

„Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað… og gefa yður hjarta af holdi.

Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst. …

… Og þá munuð þér vera mín þjóð, og ég mun vera yðar Guð.“ 13

Hinn upprisni frelsari sagði Nefítunum hvernig þessi umbreyting hefst. Hann nefndi mikilvægt atriði í áætlun himnesks föður er hann sagði:

„Og faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín, eftir að mér hefði verið lyft upp á krossinum. …

Og vegna þessa hefur mér verið lyft upp. Þess vegna mun ég draga alla menn til mín samkvæmt krafti föðurins.“ 14

Hvað felst í því að vera dregin til frelsarans? Íhugið undirgefni Jesú Krists við vilja föður síns, sigur hans yfir dauðanum, að hann tók á sig syndir ykkar og mistök, að hann hlaut kraft föðurins ykkur til fyrirbænar og endurleysti ykkur að lokum. 15 Dugar þetta ekki til að draga ykkur til hans? Það dugar fyrir mig. Jesús Kristur „stendur með útbreidda arma, vonar og er fús til að lækna, fyrirgefa, hreinsa, styrkja og helga [ykkur og mig].“ 16

Þessi sannleikur ætti að gefa okkur nýtt hjarta og hvetja okkur til að velja að fylgja himneskum föður og Jesú Kristi. Samt eiga ný hjörtu það til „að reika um, … eiga það til að yfirgefa þann Guð sem [við] elskum.“ 17 Til að spyrna á móti þessari tilhneigingu, þurfum við að íhuga hvern dag þær gjafir sem við höfum hlotið og hvað í þeim felst. Benjamín konungur ráðlagði: „[Ég] vil … að þér munið og varðveitið ætíð í hug yðar mikilleik Guðs, … gæsku hans og langlundargeð í yðar garð.“ 18 Ef við gerum það, verðum við hæf fyrir undraverðar himneskar blessanir.

Að ígrunda gæsku Guðs og miskunn, hjálpar okkur að verða andlega móttækilegri. Aukin andleg næmni gerir okkur ennfremur kleift að læra sannleika allra hluta með krafti heilags anda. 19 Þar á meðal vitnisburð um sannleiksgildi Mormónsbókar, vitneskjuna um að Jesús er Kristur, persónulegur frelsari okkar og lausnari, sem og að meðtaka að fagnaðarerindi hans hefur verið endurreist á þessum síðari dögum. 20

Þegar við minnumst mikilleika himnesks föður okkar og Jesú Krists og hvað þeir hafa gert fyrir okkur, munum við ekki taka því sem sjálfögðum hlut, rétt eins og Tom meðtók ekki hjarta Jonathans sem sjálfsögðum hlut. Með glaðlyndum og lotningarfullum hætti minntist Tom sérhvern dag þess harmleiks sem framlengdi líf hans. Í sælu þess að vita að við getum frelsast og hlotið upphafningu, verðum við að hafa í huga að sáluhjálp og upphafning voru dýru verði keypt. 21 Við getum verið lotningarfull og glöð í þeirri vitneskju að án Jesú Krists værum við glötuð, en með honum getum við hlotið þá æðstu gjöf sem himneskur faðir getur gefið. 22 Sannlega leyfir þessi lotning okkur að njóta fyrirheitsins um „[eilíft líf] í þessum heimi“ og að lokum að hljóta „[eilíft líf] í komanda heimi … ódauðleg[a] dýrð.“ 23

Þegar við íhugum gæsku himnesks föður okkar og Jesú Krists, mun traust okkar á þeim aukast. Bænir okkar breytast vegna þess að vitum að Guð er faðir okkar og að við erum börn hans. Við reynum ekki að breyta vilja hans, heldur lögum vilja okkar að vilja hans og tryggjum okkur þar með blessanir sem hann vill veita, með því skilyrði að við biðjum um þær. 24 Við þráum að vera bljúgari, hreinni og staðfastari, að vera líkari Kristi. 25 Breytingar þessar gera okkur hæf til að hljóta auknar himneskar blessanir.

Með því að viðurkenna að allir góðir hlutir komi frá Jesú Kristi, munum við miðla trú okkar til annarra enn betur. 26 Við munum eiga kjark þegar við stöndum frammi fyrir ómögulegum verkefnum og aðstæðum. 27 Við verðum staðráðnari í því að halda sáttmálana sem við höfum gert um að fylgja frelsaranum. 28 Við munum fyllast elsku Guðs; við viljum aðstoða þá sem eru í nauð, án þess að dæma, elska börn okkar og ala þau upp í réttlæti, hljóta fyrirgefningu synda okkar og gleðjast ávallt. 29 Þetta eru hinir stórfenglegu ávextir þess að minnast gæsku og miskunnar Guðs.

Á hinn bóginn veitti frelsarinn viðvörun: „Og í engu misbýður maðurinn Guði, eða gegn engum tendrast heilög reiði hans, nema þeim, sem ekki játa hönd hans í öllu.“ 30 Ég tel ekki að Guði sé misboðið þegar við gleymum honum. Ég hugsa frekar að hann verði innilega vonsvikinn. Hann veit að við höfum neitað okkur sjálf um möguleikann á að dragast nær honum, með því að minnast hans og gæsku hans. Við missum þá af því að hann nálgist okkur og þeim sérstöku blessunum sem hann hefur lofað. 31

Ég hvet ykkur til að minnast mikilleika himnesks föður og Jesú Krists alla daga og hvað þeir hafa gert fyrir ykkur. Bindið reikul hjörtu ykkar enn betur við þá, er þið íhugið gæsku þeirra. 32 Ígrundið samúð þeirra og þið verðið blessuð með aukinni andlegri næmni og verðið líkari Kristi. Með því að íhuga samhyggð þeirra, munið þið „haldast [staðföst] allt til enda,“ þar til „tekið [er] á móti [ykkur] á himni“ til að þið „[fáið] dvalið með Guði í óendanlegri sælu.“ 33

Himneskur faðir sagði, er hann vísaði til ástkærs sonar síns: „Hlýðið á hann!“ 34 Þegar þið farið eftir þessum orðum og hlýðið á hann, munið þá, full gleði og lotningar, að frelsaranum er kært að endurreisa það sem þið getið ekki endurreist, honum er kært að laga það sem er óbætanlega brotið, 35 hann bætir upp allt ranglæti sem þið hafið orðið fyrir 36 og honum er kært að laga jafnvel varanlega brostin hjörtu. 37

Þegar ég hef hugleitt gjafir himnesks föður og Jesú Krists, hef ég kynnst óendanlegum kærleika þeirra og óskiljanlegri samúð fyrir öll börn himnesks föður. 38 Þessi þekking hefur breytt mér og hún mun einnig breyta ykkur. Í nafni Jesú Krists, amen.