Aðalráðstefna
Hvernig prestdæmið blessar æskufólkið
Aðalráðstefna apríl 2020


Hvernig prestdæmið blessar æskuna

Við getum verið upphafin með prestdæminu. Prestdæmið færir ljós í heim okkar.

Ég er þakklát fyrir að vera hér. Þegar ég frétti fyrst að ég myndi fá tækifæri til að tala til ykkar í dag, varð ég mjög spennt en að sama skapi mjög auðmjúk. Ég hef hugleitt mikið hverju ég ætti að miðla ykkur og ég vona að andinn tali beint til ykkar í gegnum boðskap minn.

Í Mormónsbók veitir Lehí hverjum sona sinna blessun, fyrir andlát sitt, sem hjálpar þeim að sjá styrk sinn og eilífa möguleika. Ég er yngst átta barna og á síðastliðnu ári hef ég verið eina barnið heima í fyrsta sinn. Það að hafa systkini mín ekki nærri og ekki einhvern til að tala við á öllum stundum, hefur verið mér erfitt. Það hafa verið nætur þar sem ég hef verið mjög einmana. Ég er þakklát foreldrum mínum, sem hafa gert sitt besta til að aðstoða mig. Sem dæmi, má nefna þegar pabbi minn bauð mér prestdæmisblessun til huggunar á mjög svo erfiðum tíma. Eftir blessun hans varð engin skyndileg breyting, en ég fann frið og kærleika streyma frá himneskum föður mínum og pabba mínum. Mér finnst ég blessuð að eiga verðugan föður sem getur veitt prestdæmisblessanir þegar ég þarfnast þeirra og sem hjálpar mér að sjá styrkleika mína og eilífa möguleika, á sama hátt og Lehí gerði, er hann blessaði börn sín.

Sama hverjar aðstæður ykkar eru, þá hafið þið ávallt aðgang að prestdæmisblessunum. Í gegnum fjölskyldumeðlimi, vini, þjónustubræður, prestdæmisleiðtoga og himneskan föður, sem mun aldrei bregðast ykkur, getið þið hlotið prestdæmisblessanir. Öldungur Neil L. Anderson sagði: „Blessanir prestdæmisins eru óendanlega meiri en sá sem beðinn er um að veita gjöfina. … Ef við erum verðug, þá munu helgiathafnir prestdæmisins auðga líf okkar.“1

Hikið ekki við að biðja um blessun þegar þið þarfnist aukinnar leiðsagnar. Það er á erfiðleikastundum okkar sem við þörfnumst aðstoðar andans mest. Enginn er fullkominn og við förum öll í gegnum mótlæti. Sum okkar þjást kannski af kvíða, þunglyndi, fíkn eða vanmáttartilfinningu. Prestdæmisblessanir geta hjálpað okkur að sigrast á þessum áskorunum og meðtaka frið er við höldum áfram inn í framtíðina. Ég vona að við vinnum að því að vera verðug þess að meðtaka þessar blessanir.

Önnur leið sem prestdæmið blessar okkur er í gegnum patríarkablessanir. Ég hef lært að notfæra mér patríarkablessun mína þegar ég er sorgmædd eða einmana, Blessun mín hjálpar mér að sjá möguleika mína og þá ákveðnu áætlun sem Guð hefur fyrir mig. Hún huggar mig og hjálpar mér að sjá lengra en mitt jarðneska sjónarhorn. Hún minnir mig á gjafir mínar og þær blessanir sem ég hlýt, ef ég lifi verðuglega. Hún minnir mig á og fyllir mig friði um að Guð muni veita mér svör og opna mér dyr á þeim stundum er ég þarfnast þess mest.

Patríarkablessanir hjálpa okkur að búa okkur undir að snúa aftur til að lifa með himneskum föður okkar. Ég veit að patríarkablessanir koma frá Guði og geta hjálpað okkur að breyta veikleika okkar í styrkleika. Þetta eru ekki skilaboð frá spámiðlum, þetta eru blessanir sem segja okkur það sem við þurfum að heyra. Þær eru eins og Líahóna fyrir hvert okkar. Þegar við setjum Guð í fyrsta sætið og trúum á hann, mun hann leiða okkur í gegnum okkar eigin óbyggðir.

Á sama hátt og Guð blessaði Joseph Smith með prestdæminu, þannig að blessanir fagnaðarerindisins gætu verið endurreistar, getum við meðtekið blessanir fagnaðarerindisins í okkar lífi í gegnum prestdæmið. Í hverri viku njótum við þess tækifæris og þeirra forréttinda að meðtaka sakramentið. Í gegnum þessa prestdæmisathöfn getum við haft andann ávallt með okkur, sem getur hreinsað og göfgað okkur. Ef þið finnið þá þörf að losa ykkur við eitthvað í lífi ykkar, leitið þá til okkar traustu leiðtoga sem geta hjálpað ykkur aftur inn á rétta braut. Leiðtogar ykkar geta aðstoðað við fá aðgang að fullum krafti friðþægingar Jesú Krists.

Þökk sé prestdæminu að við getum einnig meðtekið blessanir helgiathafna musterisins. Frá því að ég hef getað farið í musterið, hef ég sett mér það markmið, og gert það að forgangsatriði, að fara reglulega þangað. Með því að taka frá tíma og færa nauðsynlegar fórnir til að komast nær himneskum föður mínum í hinu helga húsi hans, hef ég öðlast blessanir í gegnum opinberanir og hvatningu sem hefur hjálpað mér í lífi mínu.

Við getum verið upphafin með prestdæminu. Prestdæmið færir ljós í heim okkar. Öldungur Robert D. Hales sagði: „Án krafts prestdæmisins‚ mundi ,jörðin öll verða gjöreydd við komu hans‘ (sjá K&S 2:1–3). Það væri ekkert ljós, engin von – einungis myrkur.“2

Guð hvetur okkur áfram. Hann vill að við snúum aftur til hans. Hann þekkir okkur persónulega. Hann þekkir ykkur. Hann elskar okkur. Hann er alltaf meðvitaður um okkur og blessar okkur, jafnvel þegar okkur finnst við ekki eiga það skilið. Hann þekkir þarfir okkar og veit hvers við þörfnumst.

„Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða“ (Matteus 7:7–8).

Ef þið hafið ekki nú þegar öðlast vitnisburð um prestdæmið, hvet ég ykkur til að biðja og fá eigin vitnisburð um kraft þess og lesa síðan ritningarnar til að heyra orð Guðs. Ég veit að ef við leggjum okkur fram við að upplifa kraft prestdæmis Guðs í lífi okkar, munum við blessuð. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Neil L. Andersen, „Kraftur í prestdæminu,“ aðalráðstefna, október 2013.

  2. Robert D. Hales, „Blessanir prestdæmisins,“ aðalráðstefna, október 1995.