Aðalráðstefna
Miðla boðskap endurreisnarinnar og upprisunnar
Aðalráðstefna apríl 2020


Miðla boðskap endurreisnarinnar og upprisunnar

Endurreisnin tilheyrir heiminum og boðskapur hennar er sérstaklega áríðandi í dag.

Á þessari ráðstefnu höfum við talað og sungið af gleði um uppfyllingu hins aldagamla spádóms um „[endurreisn allra hluta],“1 um að „safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í Kristi,“2 um endurkomu fyllingu fagnaðarerindisins, prestdæmisins og kirkju Jesú Krists á jörðu, allt sem fellur undir heitið „endurreisnin.“

Endurreisnin er samt ekki bara fyrir þau okkar sem fögnum henni í dag. Opinberanir Fyrstu sýnarinnar voru ekki einungis fyrir Joseph Smith heldur voru settar fram sem ljós og sannleikur fyrir hvern þann sem „brestur visku.“3 Mormónsbók er eign mannkyns. Prestdæmishelgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar voru fyrirbúnar hverjum einstaklingi, þar með talið þeim sem dvelja ekki lengur í jarðnesku lífi. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og blessanir hennar eru ætlaðar öllum þeim sem æskja þeirra. Gjöf heilags anda er fyrir alla. Endurreisnin tilheyrir heiminum og boðskapur hennar er sérstaklega áríðandi í dag.

„Hversu mikilvægt er það því ekki að kynna íbúum jarðar þetta, svo að þeim sé ljóst, að ekkert hold getur dvalið í návist Guðs nema fyrir verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar, sem fórnaði lífi sínu í holdinu og tók það aftur fyrir kraft andans til að koma til leiðar upprisu dauðra og verða sjálfur hinn fyrsti til að rísa upp.“4

Frá þeim degi er Samuel Smith, bróðir spámannsins fyllti poka sinn af nýprentuðum eintökum af Mormónsbók og hélt fótgangandi af stað til að deila hinni nýju ritningu, hafa hinir heilögu unnið án hvíldar við að „kynna íbúum jarðar þetta.“

Árið 1920 hóf öldungur David O. McKay, sem þá var í Tólfpostulasveitinni, árslanga ferð um trúboð kirkjunnar. Í maí 1921, stóð hann í litlum kirkjugarði í Fagali‘i, Samóa, frammi fyrir vel hirtum gröfum þriggja lítilla barna, dóttur og tveggja sona Thomas og Sarah Hilton. Þessi litlu börn – það elsta var tveggja ára – dóu á meðan Thomas og Sarah þjónuðu sem ung trúboðshjón í lok 19. aldar.

Áður en öldungur McKay yfirgaf Utah, lofaði hann Söruh, sem þá var ekkja, að hann myndi vitja grafa barna hennar í Samóa, þar sem hún hafði ekki átt möguleika á að snúa þangað aftur. Öldungur McKay skrifaði henni: „Systir Hilton, litlu börnin þín þrjú halda áfram með hið göfuga trúboð sem þið hófuð fyrir nær þrjátíu árum … í þögulli málsnilli.“ Því næst bætti hann við eigin ritsmíð:

Af ást var líflausum augum þeirra lokað.

Af ást voru litlir limir lagðir til.

Ókunnir önnuðust þeirra litlu grafir.

Af ókunnum heiðruð, af ókunnum syrgð.5

Þessi saga er bara ein af þúsundum, hundruð þúsundum, sem segja frá atburðum, fjársjóðum og fórnuðum lífum liðinna 200 ára, við að miðla boðskap endurreisnarinnar. Metnaður okkar til að ná til hverrar þjóðar, kynkvíslar, tungu og lýðs, hefur ekki minnkað í dag, líkt og tugir þúsunda ungra karla, kvenna og hjóna bera vitni um, sem nú þjóna sem fastatrúboðar, og almennir kirkjumeðlimir, sem enduróma boð Filippusar, um að koma og sjá,6 ásamt milljónum dollara, sem árlega er varið í að standa undir þessu verki um allan heim.

Þó að boð okkar séu án nauðungar, þá vonumst við til að þau séu hvetjandi. Til þess að svo megi vera, er nauðsynlegt að þrennt komi til: í fyrsta lagi, kærleikur ykkar, í öðru lagi, fordæmi ykkar og í þriðja lagi, notkun ykkar á Mormónsbók.

Boð okkar mega ekki vera í eiginhagsmunaskyni, heldur verða þau að vera sett fram af óeigingjarnri elsku.7 Þessi elska, þekkt sem kærleikur, hin hreina ást Krists, er okkar ef við æskjum hennar. Okkur er boðið, jafnvel fyrirskipað að „[Biðja] … til föðurins, … af öllum hjartans mætti, að [vér megum] fyllast þessari elsku.“8

Sem dæmi, þá langar mig að deila reynslu sem systir Lanett Ho Ching sagði frá, er þjónar nú með eiginmanni sínum, Francis Ho Ching, trúboðsforseta Apia trúboðsins í Samóa. Systir Ho Ching sagði svo frá:

„Fyrir mörgum árum flutti ung fjölskylda okkar í lítið hús í Laie, Havaí. Bílskýlinu við húsið hafði verið breytt í eins herbergja íbúð og þar bjó maður að nafni Jonathan. Jonathan hafði áður verið nágranni okkar á öðrum stað. Okkur fannst það ekki vera tilviljun að Drottinn hefði leitt okkur saman, svo við ákváðum að vera opnari varðandi lífsmáta okkur og aðild að kirkjunni. Jonathan naut vinskapar okkar og að verja tíma með fjölskyldu okkar. Hann naut þess að læra um fagnaðarerindið, en hafði ekki áhuga á að ganga í kirkjuna.

Er tíminn leið, varð Jonathan þekktur á meðal barna okkar sem ,Jonathan frændi‘. Eftir því sem fjölskylda okkar óx og dafnað, jókst áhugi Jonathans einnig á því sem var að gerast hjá okkur. Boðin urðu fleiri og fjölskyldukvöld og skírnir barna okkar bættust við hátíðarveislur, afmæli og skóla- og kirkjuskemmtanir.

Dag einn fékk ég símtal frá Jonathan. Hann þarfnaðist aðstoðar. Hann var með sykursýki og hafði hlotið alvarlega sýkingu í fæti, er varð til þess að taka varð fótinn af. Fjölskylda okkar og meðlimir deildar okkar, sem bjuggu nálægt, studdu hann í gegnum erfiðleika hans. Við skiptumst á að fara á spítalann og honum voru boðnar prestdæmisblessanir. Á meðan á endurhæfingu hans stóð, þrifum við íbúð hans með aðstoð Líknarfélagins. Prestdæmisbræður byggðu ramp að dyrum hans og handrið inni á baðherberginu. Þegar Jonathan kom heim, báru tilfinningar hann ofurliði.

Hann hóf aftur að læra trúboðslexíurnar. Viku fyrir áramót hringdi hann í mig og spurði: ‚Hvað ertu að gera á gamlárskvöld?‘ Ég minnti hann á árlega veislu okkar. Þess í stað svaraði hann: ‚Mig langar til að bjóða þér í skírnina mína! Mig langar að byrja nýja árið á réttan hátt.‘ Eftir 20 ár af því að ‚koma og sjá‘, ‚koma og hjálpa‘ og ‚koma og vera,‘ þá var þessi dýrmæta sál tilbúin að skírast.

Árið 2018, þegar við vorum kölluð til að verða trúboðsforseti og félagi, var heilsu Jonathans farið að hraka. Við báðum hann að vera styrkan fram að komu okkar. Hann hélt áfram í um ár í viðbót en Drottinn var að undirbúa hann fyrir heimkomu. Hann átti hægt andlát í apríl 2019. Dætur mínar fóru í jarðaför ,Jonathans frænda‘ og sungu sama sálm og við sungum við skírn hans.“

Ég kynni þá fyrir ykkur það næsta sem þarf að vera til staðar til að geta deilt fagnaðarerindinu á farsælan máta, með þessari spurningu: Hvað þarf til þess að boð ykkar sé öðrum áhugavert? Er það ekki þið sjálf, fordæmi lífs ykkar? Margir sem hafa heyrt og meðtekið boðskap endurreisnarinnar, heilluðust fyrst af því sem þeir sáu í fari meðlims eða meðlima kirkju Jesú Krists. Það kann að hafa verið hvernig þeir komu fram við aðra, það sem þeir sögðu eða sögðu ekki, öryggið sem þeir sýndu í erfiðum aðstæðum eða hreinlega bara yfirbragð.9

Hvað svo sem það kann að vera, þá getum við ekki forðast þá staðreynd að við verðum að skilja og lifa eftir lögmáli hins endurreista fagnaðarerindis eins vel og við getum, til þess að boðið sé hvetjandi. Það er eitthvað sem kallast að vera trúverðugur. Ef elska Krists dvelur í okkur, þá munu aðrir vita að kærleikur okkar gagnvart þeim er einlægur. Ef ljós heilags anda brennur innra með okkur, mun það endurvekja ljós Krists innra með þeim.10 Það sem þið eruð, gerir boð ykkar um að koma og upplifa gleði fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists, trúverðugt.

Það þriðja sem þarf að koma til er örlát notkun þess trúarlega verkfæris sem Guð fyrirbjó fyrir þessa síðustu ráðstöfun fagnaðarerindisins, Mormónsbók. Hún er áþreifanleg sönnun um spámannlega köllun Josephs Smith og sannfærandi sönnun á guðdómleika og upprisu Jesú Krists. Umfjöllun hennar á áætlun himnesks föður okkar er óviðjafnanleg. Þegar þið miðlið Mormónsbók, miðlið þið endurreisninni.

Þegar Jason Olson var unglingur vöruðu fjölskyldumeðlimir og aðrir hann endurtekið við því að verða kristinn. Hann átti hins vegar tvo góða vini, sem voru meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og þeir ræddu oft um trúmál. Vinir hans, Shea og Dave, komu kurteisislega fram með mótrök gegn því sem aðrir höfðu kennt Jason um trú á Jesú Krists. Að lokum gáfu þeir honum eintak af Mormónsbók með þessum orðum: „Þessi bók mun svara spurningum þínum. Lestu hana endilega.“ Hann þáði hana hikandi og setti hana í bakpokann sinn, þar sem hún var í nokkra mánuði. Hann vildi ekki skilja hana eftir heima þar sem aðrir gátu séð hana og hann vildi ekki valda Shea og Dave vonbrigðum með því að skila henni. Að lokum ákvað hann að lausnin væri að brenna hana.

Kvöld eitt var hann að því kominn að brenna bókina, með kveikjara í annari hendi og Mormónsbók í hinni, þegar hann heyrði rödd í huga sínum sem sagði: „Ekki brenna bókina mína.“ Hann hikaði, forviða. Hugsandi að hann hefði ímyndað þér röddina, reyndi hann aftur að kveikja á kveikjaranum. Aftur kom röddin í huga hans: „Farðu til herbergis þíns og lestu bókina mína.“ Jason lagði kveikjarann frá sér, gekk inn í herbergið sitt, opnaði Mormónsbók og hóf lesturinn. Hann hélt því áfram, dag eftir dag, og oft langt fram eftir nóttu. Þegar Jason kom að endinum og baðst fyrir, skrifaði hann: „Ég var fylltur andanum frá toppi til táa. … Mér fannst ég fullur ljósi. … Það var gleðilegasta upplifun sem ég hafði nokkru sinni reynt í lífi mínu.“ Hann óskaði eftir skírn og fór svo sjálfur seinna í trúboð.

Kannski þarf ekki að nefna það, að þrátt fyrir sannan kærleika og einlægni, þá mun mörgum boðum okkar, ef ekki flestum, um að deila boðskap endurreisnarinnar vera hafnað. Munið samt þetta: Allir eru verðugir slíks boðs – „allir eru jafnir fyrir Guði“;11 Drottinn er ánægður með allt sem við gerum, sama hver niðurstaðan verður; afþakkað boð þýðir ekki að við þurfum að slíta sambandinu og áhugaleysi í dag gæti breyst í áhuga á morgun. Sama hvað, elska okkar er óbreytt.

Við skulum aldrei gelyma því að endurreisnin varð til vegna ákafrar eldraunar og fórnar. Það er umræða fyrir seinni tíma. Í dag fögnum við í ávöxtum endurreisnarinnar, einn þeirra verandi hin óviðjafnanlegi kraftur að binda á jörðu og á himnum.12 Eins og Gordon B. Hinckley forseti sagði fyrir mörgum árum síðan: „Ef ekkert kæmi út úr allri sorg, erfiðleikum og sársauka endurreisnarinnar annað en innsiglunarvald hins heilaga prestdæmis, til að binda fjölskyldur saman að eilífu, þá hefði það verið virði alls þessa.13

Hið endanlega loforð endurreisnarinnar, er endurlausn fyrir sakir Jesú Krists. Upprisa Jesú Krists er í raun sönnun þess að hann hefur kraftinn til að endurleysa alla sem munu koma til hans – endurleysa þá frá sorgum, óréttlæti, eftirsjá, synd og jafnvel dauða. Í dag er pálmasunnudagur, eftir viku eru páskar. Við minnumst og höfum ávallt í huga þjáningar og dauða Krists til að friðþægja fyrir syndir okkar og við höldum hátíðlegan dásamlegasta sunnudag allra, dag Drottins, þegar hann reis frá dauðum. Vegna upprisu Jesú Krists, hefur endurreisnin þýðingu, dauðlegt líf okkar hefur þýðingu og endanlega hefur tilvist okkar þýðingu.

Joseph Smith, hinn mikli spámaður endurreisnarinnar, býður hinn yfirgripsmikla vitnisburð fyrir okkar tíma, um hinn endurreista Krist: „Hann lifir! Því að við sáum hann, já, Guði til hægri handar.“14 Ég bæti auðmjúkum vitnisburði mínum við vitnisburð Josephs og postulanna og spámannana fyrir hans tíð og postulanna og spámannana eftir hans tíð, um að Jesús frá Nasaret er hinn fyrirheitni Messías, hin eingetni sonur Guðs og upprisni lausnari alls mannkyns.

„Við vitnum að þeir sem ígrunda boðskap endurreisnarinnar af kostgæfni og ganga fram í trú, munu blessaðir til að hljóta eigin vitnisburð um guðleika hennar og tilgang til að búa heiminn undir síðari komu Drottins okkar, Jesú Krists.“15 Upprisa Krists tryggir fyrirheit hans. Í nafni Jesú Krists, amen.