Aðalráðstefna
Til þess að hún sjái
Aðalráðstefna apríl 2020


Til þess að hún sjái

Leitið og biðjið fyrir tækifærum til að láta ljós ykkar skína svo að aðrir megi finna leiðina til Jesú Krists.

Bræður og systur, hjörtu okkar hafa verið blessuð og endurnærð af þeim anda sem við höfum skynjað á þessari ráðstefnu.

Ljósmynd
Ljósstólpi

Fyrir tvöhundruð árum síðan féll ljósstólpi á ungan mann í trjálundi. Í því ljósi sá Joseph Smith Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist. Ljós þeirra hrakti burt hið andlega myrkur sem hjúpaði jörðina og vísaði leiðina áfram fyrir Joseph Smith – og okkur öll. Vegna þess sem ljósið opinberaði þennan dag, getum við hlotið fyllingu þeirra blessana sem eru í boði sökum friðþægingar frelsarans, Jesú Krists.

Vegna krafts endurreisnar fagnaðarerindis hans, getum við fyllst ljósi frelsarans. Hins vegar er þetta ljós ekki eingöngu ætlað mér og þér. Jesús Kristur hefur kallað á okkur og sagt: „Látið þannig ljós yðar lýsa meðal þessarar þjóðar, til þess að hún sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himni.“1 Mér hefur lærst að meta orðtakið: „Til þess að hún sjái.“ Það er einlægt boð frá frelsaranum að við verðum virkari við að aðstoða aðra við að finna veginn og koma þannig til Krists.

Ljósmynd
Öldungur L. Tom Perry

Þegar ég var 10 ára gömul, naut fjölskylda mín þess heiðurs að hýsa öldung L. Tom Perry, í Tólfpostulasveitinni, er hann vann að verkefni í heimabæ mínum.

Í lok dags sátum ég og fjölskylda mín og Perry-fjölskyldan í stofunni og gæddum okkur á ljúfengri eplaböku móður minnar, meðan öldungur Perry sagði sögur af hinum heilögu um allan heim. Ég var heilluð.

Það fór að líða að kvöldi þegar móðir mín kallaði á mig inn í eldhúsið og spurði mig einfaldrar spurningar: „Bonnie, gafstu hænunum að borða?“

Mér brá, ég hafði gleymt því. Þar sem mig langaði ekki að yfirgefa félagskap postula Drottins, lagði ég til að hænsnin gætu fastað fram á morgundaginn.

Móðir mín svaraði því ákveðið: „Nei.“ Á sama augnabliki kom öldungur Perry inn í eldhúsið og spurði kröftugri og hressandi röddu: „Heyrði ég að einhver þyrfti að gefa hænunum að borða? Megum við sonur minn koma með?

Það varð allt í einu spennandi að gefa hænunum! Ég hljóp til að ná í stóra gula vasaljósið okkar. Spennt leiddi ég þá út, valhoppandi yfir vel troðinn stíginn að hænsnakofanum. Sveiflandi vasaljósinu í hendi minni, fórum við yfir kornbeðið og gegnum hveitiakurinn.

Þegar við komum að litla áveituskurðinum sem fór þvert á stíginn, stökk ég ósjálfrátt yfir hann eins og ég hafði gert mörg kvöld fram að því. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að öldungur Perry átti erfitt með að halda í við mig á dimmum, ókunnum stígnum. Dansandi ljósið hjálpaði honum ekki að sjá skurðinn. Við hið óstöðuga ljós, steig hann beint ofan í vatnið og stundi hátt. Óttaslegin snéri ég mér við og sá hinn nýja vin minn lyfta rennvotum fæti sínum upp úr skurðinum og hrista vatnið úr þungum leðurskónum.

Með rennvotan skó sem sullaðist upp úr, hjálpaði öldungur Perry mér að gefa hænsnunum að borða. Þegar við vorum búin, leiðbeindi hann mér mildilega: „Bonnie, ég þarf að sjá stíginn. Ég þarf á því að halda að ljósið lýsi þar sem ég geng.

Ég var að lýsa ljósinu mínu en ekki þannig að það hjálpaði öldungi Perry. Vitandi núna að hann þurfti á ljósi mínu að halda til að komast örugglega eftir stígnum, beindi ég vasaljósinu rétt fyrir framan fætur hans og kom honum örugglega heim.

Kæru bræður og systur, í mörg ár hef ég velt þessu lögmáli fyrir mér, sem ég lærði hjá öldungi Perry. Boð Drottins um að láta ljós okkar skína, snýst ekki bara um að veifa ljósi einhvern vegin og lýsa heiminn upp á einhvern hátt. Það snýst um að beina ljósi okkar þannig að aðrir geti fundið leiðina til Krists. Það er samansöfnun Ísrels hérna megin hulunnar – að hjálpa öðrum að sjá næsta skrefið til að gera og halda helga sáttmála við Guð.2

Frelsarinn sagði: „Sjá ég er ljósið. Ég hef sýnt yður fordæmi.“3 Skoðum nú eitt af dæmum hans.

Konan við brunninn var Samverji sem þekkti ekki Jesú Krist og var álitin úrhrak af mörgum í samfélagi hennar. Jesús hitti hana og hóf samræður. Hann talaði við hana um vatn. Hann leiddi hana að auknu ljósi er hann lýsti því yfir að hann væri hið „lifandi vatn.“4

Í umhyggju sinni var Kristur meðvitaður um hana og þarfir hennar. Hann hitti konuna þar sem hún var stödd, og hóf að ræða við hana um eitthvað sem var kunnuglegt og almennt. Ef hann hefði hætt þar, hefði þetta verið jákvæð uppákoma. Það hefði þá ekki orðið til þess að hún færi inn í borgina og segði: „Komið og sjáið … skyldi hann vera Kristur?“5 Er leið á samræðurnar uppgötvaði hún Jesú Krist og þrátt fyrir fortíð hennar, varð hún verkfæri ljóss, sem lýsti upp veginn fyrir aðra að sjá.6

Gætum nú að tveimur manneskjum sem fylgja fordæmi frelsarans um að vera ljós. Nýlega sat vinur minn Kevin við hliðina á kaupsýslumanni í kvöldverðarboði. Hann hafði áhyggjur af því hvað hann ætti að tala um í tvo klukkutíma. Kevin fylgdi hvatningu andans og spurði: „Segðu mér frá fjölskyldu þinni. Hvaðan koma þau?

Herramaðurinn vissi lítið um arfleifð sína svo Kevin dró upp síma sinn og sagði: „Ég er með smáforrit sem tengir fólk við fjölskyldur þeirra. Sjáum hvað við getum fundið.“

Eftir langa umræðu spurði vinur Kevins: „Hvers vegna skiptir fjölskyldan svona miklu máli fyrir kirkju ykkar?“

Kevin svaraði einfaldlega: „Við trúum að við lifum áfram eftir dauðann. Ef við auðkennum áa okkar og förum með nöfn þeirra á helgan stað, sem við köllum musteri, getum við framkvæmt hjónabandsvígslur, sem halda fjölskyldum okkar saman, jafnvel eftir dauðann.“7

Kevin byrjaði á einhverju sem hann og hinn nýi vinur hans áttu sameiginlegt. Því næst fann hann leið til að bera vitni um ljós og elsku frelsarans.

Næsta saga er um Ellu, körfuknattleiksleikskonu í háskólaliði. Fordæmi hennar hófst þegar hún fékk trúboðsköllun sína á meðan hún var í burtu í skólanum Hún valdi að opna köllun sína frammi fyrir liðinu. Þær vissu nánast ekkert um kirkju Jesú Krists og gátu ekki skilið þrá Ellu til að þjóna. Hún bað ítrekað fyrir því hvernig hún gæti útskýrt trúboðsköllun sína þannig að liðsfélagar hennar gætu fundið fyrir andanum. Svar hennar?

„Ég bjó til Power Point skjal,“ sagði Ella, „því ég er bara svona töff.“ Hún sagði þeim frá möguleikunum á að þjóna í einu af rúmlega 400 trúboðum og að fá jafnvel að læra tungumál. Hún lagði áherslu á þær þúsundir trúboða sem eru nú þegar að þjóna. Ella lauk svo með mynd af frelsaranum og þessum stutta vitnisburði: „Körfubolti er eitt það mikilvægasta í lífi mínu. Ég flutti þvert yfir landið og yfirgaf fjölskyldu mína fyrir þennan þjálfara og þetta lið. Það eru einungis tveir aðrir hlutir sem eru mér mikilvægari en körfubolti og það er trúin og fjölskylda mín.“8

Ef þið kynnuð að vera að hugsa: „Þetta eru flott 1000 watta dæmi, en ég er 20 watta pera,“ munið þá að frelsarinn bar vitni: „Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á lofti.“9 Hann minnir okkur á að hann mun koma með ljósið, ef við vísum öðrum bara til hans.

Við höfum nægilegt ljós til að miðla öðrum núna. Við getum lýst upp næsta skref, til að hjálpa einhverjum að nálgast Jesú Krist, og svo næsta skref og það næsta.

Spyrjið ykkur sjálf: „Hver þarfnast ljóssins sem ég hef, til að finna veginn sem þau þarfnast en sjá ekki?“

Kæru vinir, af hverju er svo mikilvægt að lýsa með ljósi okkar? Drottinn hefur sagt okkur að „enn [séu] margir á jörðunni … [sem] er haldið frá sannleikanum vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna.“10 Við getum hjálpað. Við getum af ráðnum hug lýst ljósi okkar svo að aðrir fái séð. Við getum sett fram boð.11 Við getum gengið veginn með þeim sem eru að stíga í átt til frelsarans, sama hve haltrandi. Við getum safnað saman Ísrael.

Ég vitna um að Drottinn mun efla hvert lítið framlag. Heilagur andi mun vekja okkur til vitundar um hvað segja og gera skal. Slíkar tilraunir kunna að krefjast þess af okkur að við stígum út fyrir þægindaramma okkar, en við getum verið viss um að Drottinn mun hjálpa okkur að láta ljós okkar skína.

Ég er svo þakklát fyrir ljós frelsarans, sem heldur áfram að leiða þessa kirkju með opinberunum.

Ljósmynd
Frelsarinn með lampa í hendi

Ég býð okkur öllum að fylgja fordæmi Jesú Krists og vera umhugað um þá sem í kringum okkur eru. Leitið og biðjið fyrir tækifærum til að láta ljós ykkar skína svo að aðrir megi finna leiðina til Jesú Krists. Loforð hans er mikið: „Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“12 Ég ber vitni um að frelsari okkar, Jesús Kristur, er vegurinn, sannleikurinn, lífið, ljósið og elska heimsins. Í nafni Jesú Krists, amen.