Aðalráðstefna
Upphafsboðskapur
Aðalráðstefna apríl 2020


Upphafsboðskapur

Okkur ber að leitast við, á allan hátt sem við getum, að hlýða á Jesú Krist, sem talar til okkar fyrir kraft og þjónustu heilags anda.

Ástkæru bræður mínir og systur, er við bjóðum ykkur velkomin á þessa sögulegu aðalráðstefnu í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, í apríl 2020, af ástæðum sem ykkur eru kunnar, þá stend ég frammi fyrir ykkur í tómum sal!

Ekki hvarflaði að mér, þegar ég lofaði ykkur á aðalráðstefnunni í október 2019, að þessi ráðstefna í apríl yrði „eftirminnileg“ og „ógleymanleg,“ að hún yrði mér sjálfum eftirminnileg og ógleymanleg fyrir þá sök að sýnilegur söfnuður væri færri en 10 talsins! En vitneskjan um að þið takið þátt með rafrænni útsendingu og hinn fallegi söngur kórsins „Sál mín er friðsæl“ veitir sál minni mikla hughreystingu.

Eins og þið vitið, þá hefur aðsókn á þessa aðalráðstefnu verið algjörlega takmörkuð, sem hluti af þeirri viðleitni okkar að vera góðir heimsborgarar og gera allt í okkar valdi til að takmarka útbreiðslu COVID-19. Þessi veira hefur haft mikil áhrif um allan heim. Hún hefur líka breytt kirkjusamkomum okkar, trúboðsþjónustu og musterisstarfi um hríð.

Þótt takmarkanir líðandi stundar séu tengdar þessari skaðlegu veiru, þá ná persónulegir erfiðleikar lífsins langt út fyrir þennan heimsfaraldur. Erfiðleikar framtíðar gætu stafað af slysi, náttúruhamförum eða óvæntri persónulegri sorg.

Hvernig getum við tekist á við slíka erfiðleika? Drottinn hefur sagt okkur að „séuð þér viðbúnir þurfið þér ekki að óttast.“ 1 Stundlega getum við auðvitað komið okkur upp matarforða, vatnsbirgðum og varasjóði. Þó er jafn mikilvægt að fylla okkar persónulega andlega forðabúr, með trú, sannleika og vitnisburði.

Okkar endanlega takmark er að búa okkur undir að mæta skapara okkar. Það gerum við með því að keppa að því dag hvern að líkjast frelsara okkar, Jesú Kristi, meira. 2 Það gerum við með því að iðrast dag hvern og meðtaka hreinsandi, græðandi og styrkjandi mátt hans. Þá getum við fundið viðvarandi frið og gleði, jafnvel á örðugum tíðum. Þetta er einmitt ástæða þess að Drottinn hefur sárbeðið okkur að standa á heilögum stöðum og „[haggast] ekki.“ 3

Á þessu ári höldum við hátíðlegt 200 ára afmæli eins merkilegasta atburðar í sögu heimsins – er Guð faðirinn og hans elskaði sonur, Jesús Kristur, birtust Joseph Smith. Í þessari einstöku sýn, benti Guð faðirinn á Jesú Krist og sagði: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ 4

Þetta boð til Josephs er ætlað okkur öllum. Okkur ber að leitast við, á allan hátt sem við getum, að hlýða á Jesú Krist, sem talar til okkar fyrir kraft og þjónustu heilags anda.

Tilgangur þessarar ráðstefnu og allra annarra, er að gera ykkur kleift að hlýða á hann. Við höfum beðið og boðið ykkur að biðja þess að andi Drottins verði svo ríkulega með okkur að þið fáið heyrt boðskapinn sem frelsarinn ætlar ykkur persónulega – boðskap sem mun færa sál ykkar frið. Boðskap sem mun græða brostið hjarta ykkar. Boðskap sem mun upplýsa huga ykkar. Boðskap sem mun vekja vitund ykkur um hvað gera skal er þið takast á við lífið á tíma rauna og erfiðleika.

Við biðjum að þessi ráðstefna muni verða minnisstæð og ógleymanleg, vegna boðskaparins sem þið hlýðið á, hinna sérstöku tilkynninga sem hér verða settar fram og gjörninganna sem þið verðið beðin að taka þátt í.

Í lok morgunhluta sunnudags munum við t.d. boða til heimslægrar hátíðarsamkomu, þar sem ég mun leiða ykkur í helgu hósannahrópi. Við biðjum þess að þetta verði ykkur mikil andleg upplifun, er við um allan heim tjáum einum rómi þakklæti okkar fyrir Guð föðurinn og hans elskaða son, með því að lofa þá á þennan sérstaka hátt.

Í þessari helgu gjörð notum við hreina, hvíta vasaklúta. Ef þið eigið ekki einn slíkan, getið þið einfaldlega veifað hendi ykkar. Við lok hósannahrópsins, mun kórinn syngja „Nú andi Guðs ljómar og logar sem eldur.“ 5

Kæru bræður og systur, þessi ráðstefna verður stórkostleg. Þetta ár verður einstakt, er við einblínum einbeitt á frelsarann og hið endurreista fagnaðarerindi hans. Mikilvægustu og varanlegustu áhrif þessarar sögulegu ráðstefnu, munu verða þegar hjörtu okkar breytast og við hefjum ævilanga leit til að hlýða á hann.

Velkomin á aðalráðstefni apríl 2020! Ég veit að Guð, okkar himneski faðir, og sonur hans Jesús Kristur, eru okkur minnugir. Þeir munu verða með okkur í framvindu þessara tveggja dýrðlegu daga, er við leitumst við að komast nær þeim og heiðra þá. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.