Aðalráðstefna
Finna skjól frá stormum lífsins
Aðalráðstefna apríl 2020


Finna skjól frá stormum lífsins

Jesús Kristur og friðþæging hans eru okkar nauðsynlegt skjól, þrátt fyrir stormana sem herja á líf okkar.

Á háskólaárum mínum, um miðjan tíunda áratuginn, var ég hluti af Fjórðu sveit slökkviliðsins í Santiago í Chile. Meðan ég þjónaði þar, bjó ég á slökkvistöðinni sem var hluti af næturvaktinni. Þegar dró nær árslokum var mér sagt að ég þyrfti að vera á slökkvistöðinni á gamlárskvöld, því á þeim degi væru næstum alltaf einhver neyðartilvik. Ég sagði undrandi: „Í alvöru?“

Ég minnist þess að hafa verið í viðbragðsstöðu með félögum mínum, þegar flugeldunum var skotið upp á miðnætti í miðborg Santiago. Við föðmuðum hver annan með óskum um gott nýtt ár. Skyndilega hringdu bjöllur stöðvarinnar, til merkis um bráðaútkall. Við gripum búnaðinn okkar og stukkum upp í slökkviliðsbílana. Á leið okkar að útkallsstað fórum við framhjá mannfjölda sem fagnaði nýju ári og ég veitti því athygli að flestir þar voru nokkuð áhyggjulausir. Fólkið var afslappað og naut hlýs sumarkvöldsins. Þó var fólkið ekki fjarri sem við flýttum okkur að koma til hjálpar og átti í alvarlegum vanda.

Þessi reynsla hjálpaði mér að átta mig á, að þótt líf okkar geti stundum verið tiltölulega slétt og fellt, þá mun sá tími koma að sérhvert okkar þarf að takast á við óvæntar áskoranir og storma, sem munu reyna til hins ítrasta á þolrifin. Áskoranir sem eru líkamlegar, andlegar, varða fjölskyldu okkar, atvinnu, náttúruhamfarir eða annað sem getur skilið á milli lífs og dauða, eru aðeins nokkur dæmi um storma þessa lífs.

Þegar við tökumst á við slíka storma, fyllumst við oft örvæntingu og ótta. Russell M. Nelson forseti sagði: „Trúin er mótefni við ótta“ – trú á Drottin Jesú Krist („Leyfið trú ykkar að sjást,“ aðalráðstefna, apríl 2014). Þegar ég hef séð stormana sem hafa áhrif á líf fólks, hef ég dregið þá ályktun að engu skiptir hvaða stormar á okkur bylja – hvort sem lausn er í sjónmáli eða ekki – skjólið er einungis eitt og það á við um alla storma. Þetta eina skjól sem himneskur faðir hefur séð okkur fyrir, er Drottinn Jesús Kristur og friðþæging hans.

Ekkert okkar er undanskilið því að upplifa slíka storma. Helaman, spámaður í Mormónsbók, kenndi eftirfarandi: „Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið“ (Helaman 5:12).

Öldungur Robert D. Hales, sem sjálfur tókst á við storma, sagði: „Þjáning er altæk; hvernig við bregðumst við þjáningu er einstaklingsbundið. Við getum tekist á við þjáningu á tvo vegu. Hún getur verið styrkjandi og hreinsandi trúarleg reynsla eða eyðandi afl, ef við trúum ekki á friðþægingarfórn Drottins“ („Your Sorrow Shall Be Turned to Joy,“ Ensign, nóv. 1983, 66).

Við þurfum að trúa á hann til að fá notið skjóls Jesú Krists og friðþægingar hans – búa yfir trú sem gerir okkur kleift að rísa ofar öllum sársauka hins tímabundna jarðneska lífs. Hann hefur lofað að létta byrðar okkar, ef við komum til hans í öllu því sem við gerum.

„Komið til mín,“ sagði hann, „allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“ (Matteus 11:28–30; sjá einnig Mósía 24:14–15).

Sagt er að „sá sem trúir, þurfi engar útskýringar. Þeim sem ekki trúir, nægir engar útskýringar.“ (Þessi staðhæfing hefur verið eignuð Tómasi af Aquino, en er líklega gróft orðalag á því sem hann kenndi.) Við höfum þó takmarkaðan skilning á því sem á sér stað hér á jörðu og oft höfum við ekki svör við spurningunni afhverju. Afhverju er þetta að gerast? Afhverju er þetta að koma fyrir mig? Hvað er það sem ég á að læra? Þegar svörin berast ekki, þá eiga orðin sem frelsari okkar sagði við spámanninn Joseph Smith í Liberty fangelsinu fullkomlega við:

„Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund;

Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum“ (Kenning og sáttmálar 121:7–8).

Þótt margir trúi vissulega á Jesú Krist, þá er lykilspurningin sú hvort við trúum honum og hvort við trúum því sem hann hefur kennt okkur og boðið okkur að gera. Ef til vill kann einhver að hugsa: „Hvað veit Jesús Kristur um það sem ég má þola? Hvernig veit hann hvað ég þarf til að njóta hamingju?“ Það var sannlega lausnari okkar og meðalgöngumaður sem spámaðurinn Jesaja vísaði til þegar hann sagði:

„Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann; harmkvælamaður og kunnugur þjáningum. …

„En vorar þjáningar, voru það sem hann bar. …

En hann var særður vegna vorra brota og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar erum vér heilbrigðir“ (Jesaja 53:3–5).

Pétur postuli kenndi okkur líka um frelsarann: „Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir“ (1. Pétursbréfið 2:24).

Þótt dregið væri að píslarvættisdauða Péturs, þá eru orð hans ekki fyllt ótta eða bölsýni, heldur kenndi hann hinum heilögu „fagnaðarerindi Jesú Krists,“ jafnvel þótt þeir hafi „orðið að hryggjast í margs konar raunum.“ Pétur sagði að „trúarstaðfesta [okkar] … sem … stenst eldraunina,“ myndi leiða til „lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists“ og „frelsun sálna [okkar]“ (1. Pétursbréfið 1:6–7, 9).

Pétur sagði ennfremur:

„Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.

Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans“ (1. Pétursbréfið 4:12–13).

Russell M. Nelson kenndi: „Heilagir geta verið hamingjusamir við allar aðstæður. … Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs … og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar. Gleðin á rætur í honum og er sökum hans. Hann er uppspretta allrar gleði“ („Gleði og andleg þrautseigja,“ aðalráðstefna, apríl 2016).

Að segja þetta þegar við erum ekki mitt í stormi, er vissulega auðveldara en að lifa samkvæmt þessu þegar stormur bylur. Ég vona þó, sem bróðir ykkar, að þið finnið að ég þrái af einlægni að miðla ykkur hve dýrmætt það er að vita að Jesús Kristur og friðþæging hans eru okkar nauðsynlegt skjól, þrátt fyrir stormana sem herja á líf okkar.

Ég veit að við erum öll börn Guðs, að hann elskar okkur og að við erum ekki einsömul. Ég býð ykkur að koma og sjá að hann megnar að létta byrðar ykkar og vera skjólið sem þið leitið að. Komið og hjálpið öðrum að finna hið langþráða skjól sitt. Komið og dveljið áfram með okkur í skjólinu sem ver okkur gegn stormum lífsins. Það er enginn efi í hjarta mínu um, að ef þið komið, munuð þið sjá, hjálpa og dvelja áfram.

Spámaðurinn Alma bar syni sínum, Helaman, vitni um eftirfarandi: „Ég veit, að hver, sem setur traust sitt á Guð, hlýtur stuðning í raunum sínum, erfiðleikum og þrengingum, og honum mun lyft upp á efsta degi“ (Alma 36:3).

Frelsarinn sagði sjálfur:

„Lát því hjörtu yðar huggast …, því að allt hold er í mínum höndum. Hald ró yðar og vitið að ég er Guð. …

Hræðist þess vegna ekki, jafnvel ekki dauðann, því að í þessum heimi er gleði yðar ekki algjör, en í mér er gleði yðar algjör“ (Kenning og sáttmálar 101:16, 36).

Sálmurinn „Ver hljóð, mín sál,“ sem oft hefur snert við hjarta mínu, færir okkur sálarhughreystandi boðskap. Textinn er svohljóðandi:

Ver hljóð mín sál, ótt líður ævi stund,

eilífðin rennur upp við Drottins fund.

Heimsbölið verður gleymt og grafið þá,

guðlegur fögnuður þér skín á brá.

Ver hljóð, mín sál, því eftir allt sem var

örugg og blessuð munum hittast þar. Sálmar, nr. 41)

Þegar við tökumst á við storma lífsins, þá veit ég, að ef við gerum okkar besta og setjum traust okkar á Jesú Krist og friðþægingu hans, sem skjól okkar, munum við blessuð með þeirri líkn, huggun, styrk, sjálfsaga og friði sem við leitum, með fullvissu í hjarta um að við munum heyra þessi orð meistara okkar eftir að við ljúkum tíma okkar hér á jörðu: „Gott, þú góði og trúi þjónn. Gakk inn í fögnuð herra þíns“ (Matteus 25:21). Í nafni Jesú Krists, amen.