Aðalráðstefna
Fullkomið vonarljós
Aðalráðstefna apríl 2020


Fullkomið vonarljós

Það sem endurreisnin staðfestir þann grundvallarsannleika að Guð er að verki í þessum heimi, þá getum við vonað og ættum að vona, þegar allar leiðir virðast lokaðar og ófærar.

Í október síðastliðnum bauð Russell M. Nelson forseti okkur að horfa fram til þessarar apríl ráðstefnu 2020, með því að hvert okkar á sinn hátt líti um öxl, til að sjá hina tignu hönd Guðs endurreisa fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég og systir Holland tókum þetta spámannlega boð alvarlega. Við ímynduðum okkur að við værum uppi árla á nítjándu öldinni og könnuðum trúarskoðanir þess tíma. Í þessu ímyndaða umhverfi spyrðum við okkur sjálf: „Hvað vantar hér? Hvað myndum við vilja hafa? Hvaða von eigum við um svar Guðs við andlegri þrá okkar?

Við gerðum okkur fyrst ljóst að fyrir tveimur öldum hefðum við innilega vonast eftir að sannari og heilagri hugmynd um Guð, en flestir höfðu á þessum tíma, yrði endurreist, eins falinn og Guð virtist oft vera að baki guðfræðilegrar villu og kirkjulegs misskilnings aldanna. Svo ég fái lánað orðtak frá William Ellery Channing, þekktum trúmanni síns samtíma, þá hefðum við leitað eftir hinum „föðurlega eiginleika Guðs,“ sem Channing taldi „fyrstu mikilvægu kenningu kristninnar.“1 Slík kenning hefði viðurkennt Guð sem ástríkan föður á himnum, fremur en harðneskjulegan dómara, sem framfylgir ströngu réttlæti, eða fjarverandi húsbónda, sem eitt sinn helgaði sig jarðneskum málum, en starfaði nú við annað í alheimi.

Já, vonir okkar árið 1820 hefðu verið þær að finna Guð mælandi og leiðandi, jafn opinskátt á líðandi stundu og hafði verið á liðinni tíð, sannan föður, jafn kærleiksríkan og þess orðs fyllsta merking. Hann hefði vissulega ekki verið kaldur og tilviljunarkenndur einvaldur, sem fyrirfram hefði ákveðið sáluhjálp fyrir fáeina og síðan ráðgert fordæmingu fyrir allan hinn hluta mannkyns. Nei, hann væri sá sem með guðlegri yfirlýsingu, gerði allt „sem heiminum er til góðs, því að svo elskar hann heiminn“2 og alla íbúa hans. Sú elska væri honum full ástæða til að senda Jesú Krist, eingetinn son sinn, til jarðar.3

Talandi um Jesú, þá hefði sá váboði orðið okkur ljós, ef við hefðum lifað á upphafsárum 19. aldar, að mikilla efasemda væri farið að gæta innan hins kristna heims um raunveruleika lífs og upprisu frelsarans. Þess vegna hefðum við vonað að sönnun bærist öllum heimi, sem staðfesti hið biblíulega vitni um að Jesús er Kristur, bókstaflegur sonur Guðs, Alfa og Ómega, og eini frelsarinn sem þessi heimur fær nokkru sinni þekkt. Það hefði verið ein okkar kærasta von að fram kæmi önnur ritningarleg staðfesting, eitthvað sem gæti verið annar vitnisburður um Jesú Krist, sem gæti aukið og eflt þekkingu okkar á undursamlegri fæðingu hans, dásamlegri þjónustu, friðþægingu og dýrðlegri upprisu. Sannlega væri slíkt skjal „réttlæti … [sent] niður af himni, og [sannleikur sendur] frá jörðu.“4

Ef við hefðum fylgst með hinum kristna heimi þess tíma, hefðum við vonast eftir að finna einhvern sem hefði vald frá Guði með rétt prestdæmisvald, sem gæti skírt okkur, veitt okkur gjöf heilags anda og þjónustað allar þær helgiathafnir fagnaðarerindisins sem nauðsynlegar væru til upphafningar. Árið 1820 hefðum við vonast til að sjá uppfyllt hin vel orðuðu loforð Jesaja, Míka og annarra forna spámanna, varðandi endurkomu tignarlegs húss Drottins.5 Við hefðum glaðst yfir að sjá dýrð helgra mustera aftur komið á, með andann, helgiathafnir, kraftinn og valdið til að kenna eilíf sannindi, græða persónuleg sár og binda fjölskyldur að eilífu. Ég hefði leitað alsstaðar og hvarvetna að einhverjum sem hefði vald til að segja við mig og mína elskuðu Patriciu, að á slíkum stað væri hjónaband okkar innsiglað um tíma og alla eilífð, og hin ásækna bölvun „uns dauðinn aðskilur,“ mun aldrei aftur ná eyrum okkar. Ég veit að „í húsi föður [okkar] eru margar vistarverur,“6 og talandi persónulega, ef ég væri svo lánsamur að erfa eina þeirra, yrðu hún mér ekki meira virði en fúið kofaskrifli, ef Pat og börnin okkar væru ekki með í þeirri arfleifð. Fyrir áa okkar, sem sumir lifðu og dóu fyrir löngu, án þess jafnvel að heyra nafnið Jesús Kristur, hefðum við vonað að réttlátustu og miskunnsömustu biblíulegu hugtökin yrðu endurreist – sú iðkun hinna lifandi að vinna að endurleysandi helgiathöfnum í þágu sinna dánu.7 Engin iðkun sem ég fæ ímyndað mér, gæti verið meira lýsandi fyrir kærleika Guðs og umhyggju fyrir hverju sinna jarðnesku barna, burt séð frá hvenær þau lifðu eða hvar þau dóu.

Vonarlistinn okkar frá 1820 gæti verið langur, en kannski er mikilvægasti boðskapur endurreisnarinnar sá að slíkar vonir hefðu ekki orðið til einskis. Slíkar þrár eiga sér upptök í Lundinum helga, eru raunverulegar allt til þessa dags og, líkt og Páll postuli og fleiri hafa kennt, eins og akkeri sálarinnar, traust og öruggt.8 Það sem eitt sinn var vonað eftir er nú hluti af sögunni.

Þannig lítum við til baka og sjáum 200 ára gæsku Guðs til heimsins. Hvað sjáum við þá framundan? Við höfum vonir sem hafa ekki enn uppfyllst. Einmitt á þessari stundu eigum við í „alsherjar stríði,“ við COVID-19, sem er alvarleg áminning um að veira,9 sem er 1.000 sinnum minni en sandkorn,10 megni að knésetja heilar þjóðir og hagkerfi heimsins. Við biðjum fyrir þeim sem hafa misst ástvini vegna þessarar nútíma plágu, sem og þeim sem þegar eru sýktir eða í hættu. Við biðjum vissulega fyrir þeim sem veita svo frábæra læknisumönnun. Þegar við höfum sigrast á þessu – og það munum við gera – megum við þá af jafn mikilli áræðni losa heiminn við veiru hungursneyðar og samfélög og þjóðir við veiru örbirgðar. Megum við vonast eftir skólum þar sem nemendur geta lært – en eru ekki skelfdir yfir að verða skotnir – og eftir reisn hvers barns Guðs, óspilltu af hverskyns kynþátta-, þjóðernis- eða trúarfordómum. Að baki alls þessa býr okkar linnilausa von um aukna skuldbindingu við tvö æðstu boðorð allra: Að elska Guð, með því að hlíta ráðum hans, og elska náunga sinn, með góðvild og samkennd, þolinmæði og fyrirgefningu.11 Þessi tvö guðlegu boð eru enn – og verða að eilífu – eina raunverulega von okkar til að sjá börnum okkar fyrir betri heimi, en við nú þekkjum.12

Auk þessarar altæku þrár, hafa margir meðal þessara áheyrenda í dag, djúpar persónulegar vonir: Von um bætt hjónaband eða stundum bara von um hjónaband, von um sigur yfir fíkn, von um að villuráfandi barn komi aftur, von um að líkamlegum og tilfinningalegum sársauka, af ýmsu tagi, muni linna. Það sem endurreisnin staðfestir þann grundvallarsannleika að Guð er að verki í þessum heimi, þá getum við vonað og ættum að vona, þegar allar leiðir virðast lokaðar og ófærar. Það var það sem fólst í ritningunni þegar Abraham gat vonað gegn von13 – sem er að hann gat trúað, þrátt fyrir öll rök um að trúa ekki – að hann og Sara hans gætu getið barn þegar það virtist algjörlega útilokað. Ég spyr því: „Ef svo margar vonir okkar árið 1820 gátu ræst sem leiftur guðlegs ljóss til drengs nokkurs, sem kraup í trjálundi í uppsveitum New York, af hverju ættum við þá ekki að vona að réttlátar þrár og kristilegar langanir geti enn verið undursamlega og dásamlega uppfylltar af Guði allra vona?“ Við þurfum öll að trúa að það sem við þráum í réttlæti, geti þrátt fyrir allt einhvern tíma og einhvern veginn uppfyllst.

Bræður og systur, við vitum að nokkru í hverju hinn ófullnægði trúaráhugi árla á 19. öld fólst. Við þekkjum líka að nokkru annmarka trúarbragða okkar tíma, sem enn seðja ekki hungur og uppfylla vonir sumra. Við vitum að ýmis óánægja þessu tengd, fær stöðugt fleiri til að segja skilið við hefðbundnar kirkjustofnanir. Við vitum líka, líkt og einn ergilegur rithöfundur skrifaði, að „margir trúarleiðtogar [samtímans] virðast utangátta“ við að takast á við þessa afturför og bjóða þess í stað „útþynnta meðferðarguðstrú, ódýra táknræna aðgerðastefnu, vandlega sefandi villutrú, [eða stundum bara] óinnblásna firru“14 – og einmitt á þeim tíma þegar heimurinn hefur þörf fyrir svo miklu meira, þegar upprennandi kynslóð á skilið svo miklu meira og þegar Jesús var uppi bauð hann upp á svo miklu meira. Við getum, sem lærisveinar Krists á okkar tíma, risið ofar hinum fornu Ísraelsmönnum, er kveinuðu: „Bein vor eru skinin, von vor þrotin, úti er um oss!“15 Sannlega, ef við missum vonina, missum við okkar síðustu haldgóðu eign. Það var yfir hliði vítis sem Dante ritaði öllum þeim viðvörun sem hugðust ferðast um Gleðileikinn guðdómlega: „Hverfið frá öllum vonum,“ sagði hann, „þér sem hingað komið.“16 Sannlega er það svo að þegar vonin er horfin, munu logar vítis æða að frá öllum hliðum.

Þannig að þegar öll sund eru lokuð og eins og sálmurinn segir: „Nær sérhver aðstoð bregst í heimi hér,“17 verður hin dýrmæta gjöf vonar ein okkar mesta og mikilvægasta dyggð, órjúfanlega tengd trú okkar á Guð og kærleika okkar til annarra

Á þessu tveggja alda afmælisári, þegar við lítum til baka til að minnast alls sem okkur hefur verið gefið og gleðjast í raunveruleika svo margra uppfylltra vona, þá enduróma ég viðhorfi heimkomins trúboða, fallegrar ungrar systur, sem sagði við okkur í Jóhannesarborg fyrir nokkrum mánuðum: „ [Við] komum ekki alla leið hingað aðeins til að koma hingað.“18

Ég segi með spámanninum Nefí og þessari ungu systur, með því að umorða ein innblásnustu kveðjuorð í ritningunum:

„Ástkæru bræður mínir [og systur, ég vil] spyrja, hvort allt sé fengið, þegar þér hafið [meðtekið þessa fyrstu ávexti endurreisnarinnar]?“ Sjá, þá svara ég neitandi. …

… Þér [verðið] að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. … Ef þér [gerið það], … fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.“19

Ég færi þakkir, bræður og systur, fyrir allt sem okkur hefur verið gefið í þessari síðustu og mestu ráðstöfun, ráðstöfun hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Gjafirnar og blessanirnar sem streyma frá þessu fagnaðarerindi eru mér allt – algjörlega allt – og í viðleitni minni til að þakka föður mínum á himnum fyrir þær, hef ég „loforð að halda og mílur að fara fyrir svefn minn, já, mílur að fara fyrir svefn minn.“20 Megum við sækja fram með kærleika í hjarta og ganga í „vonarljósi,“21 því ljósi sem lýsir veg helgrar eftirvæntingar, sem við höfum nú notið í 200 ár. Ég ber vitni um að framtíðin verður jafn fyllt kraftaverkum og ríkulegum blessunum og fortíðin hefur verið. Við höfum allar ástæður til að vonast eftir jafnvel enn meiri blessunum en við höfum þegar hlotið, því þetta er verk hins almáttuga Guðs, þetta er kirkja viðvarandi opinberunar, þetta er fagnaðarerindi óendanlegrar náðar og velgjörðar Krists. Ég ber vitni öllum þessum sannleika og miklu meiru til, í nafni Jesú Krists, amen.