Aðalráðstefna
Góð undirstaða fyrir komandi tíð
Aðalráðstefna apríl 2020


Góð undirstaða fyrir komandi tíð

Megum við, á komandi árum, láta þessar úrbætur sem við gerum á Salt Lake musterinu, hrífa og hvetja okkur.

Saga Salt Lake musterisins

Förum aftur til heits síðdegis 24. júlí 1847, um klukkan 14:00. Eftir erfiða 111 daga ferð með 148 meðlimum kirkjunnar, er skipuðu fyrsta hópinn sem hélt til vesturs, kom Brigham Young, þáverandi forseti Tólfpostulasveitarinnar, í Saltvatnsdalinn, veikur og máttfarinn af fjallahita.

Tveimur dögum síðar, meðan hann var að jafna sig eftir veikindi sín, fór Brigham Young í könnunarleiðangur, ásamt nokkrum meðlimum Tólfpostulasveitarinnar og fleirum. William Clayton skráði: „Um það bil þremur fjórðungum úr mílu, norður af búðunum, komum við að fallegu og sléttu landsvæði, sem hallaði prýðisvel til vesturs.“ 1

Ljósmynd
Brigham Young við musterislóðina
Ljósmynd
Brigham Young merkir stað musterisins
Ljósmynd
Merkt fyrir stað musterisins

Þegar Brigham Young var að skoða staðinn með hópnum, stoppaði hann skyndilega, stakk stafnum sínum ofan í jörðina og sagði: „Hér skal musteri Guðs okkar standa.“ Einn félaga hans var öldungur Wilford Woodruff, sem sagði að sú yfirlýsing hefði „farið í gegnum [hann] sem elding,“ og hann rak grein ofan í jörðina til að merkja staðinn þar sem stafur hins unga forseta hafði verið. Fjörutíu ekrur (16 hektarar) voru valdar fyrir musterið og ákveðið var að borgin skildi vera „fullkomlega ferningslaga, norður & suður, austur & vestur,“ með musterið sem miðpunkt. 2

Á aðalráðstefnu í apríl 1851 studdu meðlimir kirkjunnar einróma tillögu um að byggja „nafni Drottins“ musteri. 3 Tveimur árum síðar, 14. febrúar 1853, var lóðin helguð af Heber C. Kimball í opinberri athöfn, sem nokkur þúsund hinn heilögu sóttu og skóflustunga tekin að grunni Salt Lake musterisins. Nokkrum mánuðum síðar, 6. apríl, voru gríðarstórir hornsteinar musterisins lagðir og vígðir í vandlega skipulagðri athöfn, með litskrúðugri sveit, hljómsveitum og skrúðgöngu, sem kirkjuleiðtogar fóru fyrir, frá gamla Laufskálanum til musterislóðarinnar, þar sem ávörp og bænir voru flutt við hvern hinna fjögurra steina. 4

Ljósmynd
Undirstaða Salt Lake musterisins
Ljósmynd
Brigham Young

Við fyrstu skóflustunguathöfnina minntist Young forseti á að hann hefði fengið vitrun þegar hann fyrst setti fót á jörðu þegar þeir könnuðu dalbotninn og sagði: „Ég vissi [þá] alveg eins vel og ég veit nú, að þetta var landið sem reisa skildi musteri á – ég sá það fyrir mér.“ 5

Tíu árum síðar greindi Brigham Young frá eftirfarandi spámannlegu innsýn á aðalráðstefnu í október 1863: „Ég vil sjá musterið byggt á þann hátt að það standi í gegnum þúsund ára ríkið. Þetta er ekki eina musterið sem við munum byggja; mörg hundruð verða byggð og tileinkuð Drottni. Þetta musteri verður þekkt sem fyrsta musterið sem byggt er í fjöllunum af Síðari daga heilögum. … Ég vil að musterið … standi sem stolt minnismerki um trú, þrautseigju og vinnusemi hinna heilögu Guðs í fjöllunum.“ 6

Ljósmynd
Bygging Salt Lake musterisins
Ljósmynd
Bygging Salt Lake musterisins

Upprifjun þessarar stuttu frásagnar vekur mér furðu yfir framsýni Brighams Young – í fyrsta lagi vegna þess að hann tryggði að Salt Lake musterið yrði byggt á þennan hátt, til að standa í gegnum þúsund ára ríkið, eins og mögulegt var með byggingaraðferðum þess tíma, og í öðru lagi vegna spádóms hans um framtíðarfjölgun mustera um allan heim, jafnvel að þau skiptu hundruðum.

Endurnýjun Salt Lake musterisins

Líkt og Brigham Young, líta spámenn okkar tíma yfir Salt Lake musterið og öll önnur musteri af stakri umhyggju. Í áranna rás hefur Æðsta forsætisráðið, af og til, falið Yfirbiskupsráðinu að tryggja að undirstaða Salt Lake musterisins sé traust. Þegar ég starfaði í Yfirbiskupsráðinu, þá fórum við að beiðni Æðsta forsætisráðsins og létum grandskoða Salt Lake musterið, þar með talið að prófa það út frá nýjustu skjálftahönnun og byggingatækni.

Hér er hluti af þessu mati til Æðsta forsætisráðins á þeim tíma: „Við hönnun og byggingu Salt Lake musterisins var notast við bestu verkfræði, hæft vinnuafl, besta byggingarefni, innanhúsbúnað og önnur úrræði sem fáanleg voru á þeim tíma. Frá vígslu þess, árið 1893, hefur musterið staðið óhaggað og þjónað sem leiðarljós trúar [og] vonar og sem ljós fyrir fólkið. Þess hefur verið gætt að starfrækja, þrífa og viðhalda musterinu, svo það sé í góðu ástandi. Granít að utan er í góðu ásigkomulagi, sem og gólfbitar og burðarbitar. Nýlegar rannsóknir staðfesta að staðsetningin sem Brigham Young valdi fyrir musterið býr að góðum jarðvegi og framúrskarandi þjöppunareiginleikum.“ 7

Í matinu var komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegar viðgerðir og endurbætur væru nauðsynlegar til að endurnýja og uppfæra musterið, þar með talið úti- og yfirborðssvæði, úrelt veitukerfi og skírnarsvæði. Hins vegar var einnig mælt með sérstaklega ítarlegri skjálftauppfærslu frá musterisgrunni upp á við.

Undirstaða musterisins

Eins og þið kunnið að muna eftir, þá var Brigham Young með í ráðum margra smáatriða við byggingu hinnar upprunalegu undirstöðu musterisins, sem hefur skilað hlutverki sínu vel frá byggingarlokum fyrir 127 árum. Hin nýja tillaga um skjálftauppfærslu fyrir musterið, fæli í sér grunneinangrunartækni, sem engin hafði hugmynd um á byggingartíma þess. Þetta er talin nýjasta verkfræðin varðandi jarðskjálftavarnir.

Ljósmynd
Áætlun um endurnýjun musterisins
Ljósmynd
Áætlun um endurnýjun musterisins

Þessari tækni, nýlega þróaðri, er fyrst beitt á undirstöðu musterisins, sem veitir öfluga vörn gegn skemmdum af völdum jarðskjálfta. Í grunninn styrkir það musterið svo það haggist ekki, jafnvel þótt jarðvegurinn og umhverfið verði fyrir jarðskjálfta.

Æðsta forsætisráðið tilkynnti um endurnýjun musterisins, þar sem þessi tækni yrði notuð. Framkvæmdir hófust undir stjórn Yfirbiskupsráðsins fyrir nokkrum mánuðum, í janúar 2020. Áætlað er að henni verði lokið á um það bil fjórum árum.

Tryggja persónulega undirstöðu ykkar

Þegar ég hugleiði næstu fjögur ár í tilveru þessa fallega, göfuga, upphafna og undraverða Salt Lake musteris, þá sé ég þau fyrir mér sem tíma endurnýjunar, fremur en lokunartíma! Á svipaðan hátt gætum við spurt okkur: „Hvernig getur þessi yfirgripsmikla endurnýjun á Salt Lake musterinu innblásið okkur til að gangast undir eigin andlegu endurnýjun, endurfæðingu eða endurreisn?“

Ígrunduð skoðun gæti leitt í ljós að við og fjölskyldur okkar gætum haft hag af einhverri viðhalds- og endurbótavinnu, jafnvel skjálftauppfærslu! Við gætum hafið slíkt ferli á því að spyrja:

„Hvernig ætli undirstaðan mín líti út?“

„Hvað myndar hina þykku, stöðugu, sterku hornsteina, sem eru hluti af minni persónulegu undirstöðu, sem vitnisburður minn hvílir á?“

„Hverjir eru undirstöðuþættir míns andlega og tilfinningalega persónuleika, sem gera mér og fjölskyldu minni kleift að vera staðföst og óhagganleg, jafnvel til að standast jarðskjálfta og róstusama atburði, sem örugglega munu eiga sér stað í lífi okkar?“

Slíka atburði er oft erfitt að spá fyrir um, líkt og um jarðaskjálfta, og þeir eru af ýmsum styrkleika – erfiðar spurningar eða efasemdir, eymd eða mótlæti, greiða úr persónulegum brotum með leiðtogum kirkjunnar, meðlimir, kenningar eða reglur. Besta vörnin gegn þessu felst í okkar andlegu undirstöðu.

Hvernig gætu andlegir hornsteinar okkar sjálfra og fjölskyldunnar verið? Þeir gætu verið einfaldar, látlausar og dýrmætar lífsreglur fagnaðarerindisins – fjölskyldubæn, ritningarnám, þar með talið Mormónsbók, musterissókn og trúarnám með námsefninu Kom, fylg mér og fjölskyldukvöld. Önnur gagnleg úrræði til að styrkja andlega undirstöðu ykkar, gætu verið Trúatriðin, fjölskylduyfirlýsingin og „hinn lifandi Kristur.“

Sjálfum finnast mér reglur spurninganna sem ræddar eru þegar við æskjum musterismeðmæla fela í sér sterka andlega undirstöðu – einkum fyrstu fjórar spurningarnar. Ég sé þær sem andlega hornsteina.

Við þekkjum auðvitað þessar spurningar þar sem Russell M. Nelson forseti las þær upp fyrir okkur hverja af annarri á síðustu aðalráðstefnu.

  1. Trúir þú á og átt vitnisburð um Guð, eilífan föður, son hans, Jesú Krist og heilagan anda?

    Ljósmynd
    Guðdómurinn
  2. Átt þú vitnisburð um friðþægingu Jesú Krists og hlutverk hans sem frelsara og lausnara þíns?

    Ljósmynd
    Friðþæging Jesú Krists
  3. Átt þú vitnisburð um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists?

    Ljósmynd
    Endurreisnin
  4. Styður þú forseta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem spámann, sjáanda og opinberara og þann eina á jörðu sem hefur valdsumboð til að nota alla prestdæmislykla? 8

    Ljósmynd
    Spámenn

Getið þið séð hvernig þið gætuð litið á þessar spurningar sem mikilvæga þætti í persónulegri undirstöðu ykkar, til að hjálpa ykkur að byggja og efla hana? Páll sagði Efesusmönnum frá kirkju sem „hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni.“ 9

Ljósmynd
Örugg undirstaða musterisins

Ein mesta gleði lífs míns er að kynnast og fá innblástur frá meðlimum kirkjunnar um allan heim, sem lifa að fyrirmynd trúar á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Þeir hafa bjargfasta persónulega undirstöðu, sem gerir þeim kleift að takast á við erfiða atburði af öruggum skilningi, þrátt fyrir sorg og sársauka.

Til að sýna þetta á persónulegri hátt, þá talaði ég nýlega við útför fallegrar, líflegrar, ungrar konu og móður (einnig fjölskylduvinur okkar). Hún var sókndjörf knattspyrnukona í 1. deild, þegar hún kynntist og giftist eiginmanni sínum, sem var tannlæknanemi. Þau voru blessuð með fallegri, bráðþroska dóttur. Hún barðist hugdjörf við ýmis konar krabbamein í sex krefjandi ár. Þrátt fyrir stöðuga tilfinningalega og líkamlega vanlíðan, sem hún upplifði, setti hún traust sitt á sinn kærleiksríka himneska föður og fylgjendur hennar á samfélagsmiðilum vitnuðu oft í hið fræga orðatiltæki hennar: „Guð er í smáatriðum.“

Í einni af færslum sínum á samfélagsmiðlum skrifaði hún að einhver hefði spurt hana: „Hvernig getur þú trúað áfram í allri sorginni sem umlykur þig?“ Hún svaraði staðfastlega með þessum orðum: „Vegna þess að trú er það sem kemur mér í gegnum þessa myrku tíma. Að trúa þýðir ekki að ekkert slæmt muni gerast. Að hafa trú gerir mér kleift að trúa að það verði aftur ljós. Það ljós verður þá enn bjartara, af því að ég hef gengið í gegnum myrkrið. Þótt ég hafi orðið vitni að miklu myrkri í gegnum tíðina, þá hef ég orðið vitni að langtum meira ljósi. Ég hef séð kraftaverk. Ég hef fundið fyrir englum. Ég hef vitað að himneskur faðir ber mig uppi. Ég hefði ekki upplifað neitt af þessu, ef lífið væri auðvelt. Framtíð þessa lífs kann að vera óráðin, en trú mín er það ekki. Ef ég vel að trúa ekki, þá vel ég einungis að ganga í myrkri. Af því að án trúar, er ekkert nema myrkur.“ 10

Óhagganleg trú hennar á Drottin Jesú Krist, var – með hennar orðum og verkum – öðrum innblástur. Þótt líkami hennar væri veikur, lyfti hún öðrum til að styrkja þau.

Mér verður hugsað um ótal aðra meðlimi kirkjunnar, stríðsmenn, líkt og þessi systir, sem ganga dag hvern í trú, reynandi að vera sannir og hughraustir lærisveinar frelsara okkar, Jesú Krists. Þeir læra af Kristi. Þeir prédika um Krist. Þeir reyna að líkjast honum. Hvort sem þeir standa á tryggri eða ótryggri jörðu í lífi sínu, þá er andleg undirstaða þeirra bjargföst og óhagganleg.

Þetta eru þær dyggu sálir sem skilja djúpa merkingu sálmatextans „hve bjargföst undirstaða, heilagra Drottins“ og „sem í frelsarans skjól hafa flúið.“ 11 Ég er þakklátur fyrir að vera meðal þeirra sem hafa fyrirbúið andlega undirstöðu sem hæfir titlinum heilagir og eru nægilega sterkir og staðfastir til að takast á við margar hremmingar lífsins.

Mér finnst við ekki geta gert of mikið úr mikilvægi slíkrar bjargfastrar undirstöðu í lífi okkar. Börnin í Barnafélaginu læra jafnvel á unga árum þennan sannleika, er þau syngja:

Sá hyggni byggði á bjargi húsið sitt,

svo koma regn og flaumurinn féll. …

og regnið féll og flóðið kom upp,

en húsið á bjarginu stóð. 12

Ritningarnar styrkja þessa grundvallarkenningu. Frelsarinn kenndi fólkinu í Ameríku:

„Og blessaðir eruð þér, ef þér gjörið þetta ætíð, því að þér byggið á bjargi mínu.

En hver sá yðar á meðal, sem gjörir meira eða minna en þetta, byggir ekki á bjargi mínu, heldur byggir á sendnum grunni. Og þegar regnið fellur, flóðin koma og vindar blása og bylja á þeim, þá munu þeir falla.“ 13

Það er einlæg von kirkjuleiðtoga að umtalsverðar endurbætur á Salt Lake musterinu muni stuðla að uppfyllingu þeirrar þrár Brighams Young að sjá „musterið byggt á þann hátt að það stæði í gegnum þúsund ára ríkið.“ Megum við, á komandi árum, láta þessar úrbætur sem við gerum á Salt Lake musterinu, hrífa og hvetja okkur, sem einstaklinga og fjölskyldur, svo við megum líka – í myndrænni merkingu – vera „[byggð] á þann hátt að [við fáum staðið] í gegnum þúsund ára ríkið.“

Við munum vera það þegar við framfylgjum boði Páls postula um að „safna … handa sjálfum [okkur] fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og [þannig] geta höndlað hið sanna líf.“ 14 Það er mín brýna bæn, að andleg undirstaða okkar verði örugg og bjargföst, að vitnisburður okkar um friðþægingu Jesú Krists og hlutverk hans sem frelsara okkar og lausnara verði okkar aðalhyrningarsteinn, sem ég vitna um, í nafni hans, já, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. William Clayton, dagbók, 26. júlí 1847, Church History Library, Salt Lake City.

  2. Sjá „At the Tabernacle, Presidents Woodruff and Smith Address the Saints Yesterday Afternoon,“ Deseret Evening News, 30. ágúst 1897, 5; „Pioneers’ Day,“ Deseret Evening News, 26. júlí 1880, 2; dagbók Wilfords Woodruff, 28. júlí 1847, Church History Library, Salt Lake City.

  3. „Minutes of the General Conference of the Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, held at Great Salt Lake City, State of Deseret, April 6, 1851,“ Deseret News, 19. apríl 1851, 241.

  4. Sjá „The Temple,“ Deseret News, 19. feb. 1853, 130; „Minutes of the General Conference,“ Deseret News, 16. apríl 1853, 146; „Minutes of the General Conference,“ Deseret News, 30. apríl 1853, 150.

  5. „Address by President Brigham Young,“ Millennial Star, 22. apríl 22, 1854, 241.

  6. „Remarks by President Brigham Young,“ Deseret News, 14. okt. 1863, 97.

  7. Kynning Yfirbiskupsráðsins á Salt Lake musterinu fyrir Æðsta forsætisráðið, okt. 2015.

  8. Sjá Russell M. Nelson, „Lokaorð,“ aðalráðstefna, október 2019.

  9. Efesusbréfið 2:20–21.

  10. Samfélagsmiðlar, póstað af Kim Olsen White.

  11. „How Firm a Foundation,“ Hymns, nr. 85.

  12. „Hyggni maðurinn og heimski maðurinn,“ Barnasöngbókin, 132; skáletur fjarlægt í þessu tilviki.

  13. 3. Nefí 18:12–13; skáletrað hér.

  14. 1. Tímótesuarbréfið 6:19; skáletrað hér.