Aðalráðstefna
Hósanna og hallelúja – Hinn lifandi Jesús Kristur: Hjarta endurreisnar og páska
Aðalráðstefna apríl 2020


Hósanna og hallelúja – Hinn lifandi Jesús Kristur: Hjarta endurreisnar og páska

Syngið hallelúja á þessum tíma hósanna og hallelúja – því hann mun ríkja alltaf og að eilífu.

Kæru bræður og systur, með hósanna og hallelúja fögnum við hinum lifandi Jesú Kristi á þessum tíma viðvarandi endurreisnar og páska. Af fullkominni elsku, fullvissar frelsarinn okkur: „Þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“1

Þegar ég og systir Gong kynntumst yndislegri fjölskyldu fyrir nokkrum árum, náði ung dóttir hjónanna feiminn í fiðlutöskuna sína. Hún tók upp fiðlubogann, strekkti hann og bar kvoðu á strengina. Síðan setti hún bogann aftur í töskuna, hneygði sig og settist niður. Hún var byrjandi og hafði sýnt allt sem hún kunni á fiðluna. Nú, mörgum árum síðar, leikur Ivy dásamlega á fiðluna.

Ljósmynd
Ivy með fiðluna sína

Í þessu jarðlífi erum við svolítið eins og Ivy og fiðlan hennar. Við byrjum á byrjuninni: Við vöxum og þroskumst með æfingu og þolgæði. Með tímanum gerir siðferðislegt sjálfræði og jarðnesk reynsla okkur kleift að líkjast meira frelsaranum, er við störfum með honum í víngarði hans2 og fylgjum sáttmálsvegi hans.

Afmæli, þar á meðal þessi 200 ára hátíð, sýna fyrirmynd endurreisnar.3 Þegar við fögnum hinni viðvarandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists, undirbúum við okkur líka fyrir páska. Í hvorutveggja gleðjumst við yfir endurkomu Jesú Krists. Hann lifir – ekki aðeins áður, heldur núna; ekki aðeins fyrir suma, heldur alla. Hann kom og kemur til að græða hina sorgmæddu, bjarga ánauðugum, gefa blindum sýn og frelsa lemstraða.4 Það er hvert okkar. Endurleysandi loforð hans eiga við, hver sem fortíð eða nútíð okkar er eða áhyggjur framtíðar.

Ljósmynd
Sigurinnreiðin í Jerúsalem

Á morgun er pálmasunnudagur. Pálmagreinar voru hefðbundið og heilagt tákn til að gleðjast í Drottni, líkt og átti sér stað í sigurinnreið Krists í Jerúsalem, þar sem „mikill mannfjöldi … [tók] pálmagreinar [og fór] út á móti honum.“5 (Það gæti vakið áhuga ykkar að vita að frumeintak þessa málverks Harrys Anderson er í skrifstofu Russells M. Nelson forseta, fyrir aftan skrifborðið hans.) Í opinberunarbókinni voru þeir sem lofsungu Guð og lambið „skrýddir hvítum skikkjum og höfðu pálmagreinar í höndum.“6 Ásamt „skikkjum réttlætisins“ og „[dýrðarkórónum],“ var minnst á pálmagreinar í vígslubæn Kirtlands-musterisins.7

Auðvitað er merking pálmasunnudags meiri en mannfjöldi sem tekur á móti Jesú með pálmagreinum. Jesús reið inn í Jerúsalem á pálmasunnudegi, á þann hátt er hinir trúföstu skildu sem uppfyllingu spádóms. Líkt og Sakaría8 og Sálmaskáldið spáðu, þá reið Drottinn okkar á ösnu inn í Jerúsalem, þegar mannfjöldinn hrópaði: „Hósanna í hæstum hæðum.“9 Hósanna merkir „frelsa núna.“10 Við fögnum nú, líkt og þá var gert: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.“11

Viku eftir pálmasunnudag er páskadagur. Russell M. Nelson forseti kennir að Jesús Kristur „kom til að greiða skuld sem var ekki hans, því við áttum skuld sem við gátum ekki greitt.“12 Öll börn Guðs geta vissulega, fyrir friðþægingu Krists, „orðið [hólpin] með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“13 Á páskum syngjum við hallelúja. Hallelúja merkir „lofið Drottin Jehóva.“14 „Hallelújakórinn“ í Messías eftir Handel, er kær páskayfirlýsing um að hann er „Drottinn drottna og konungur konunga.“15

Helgir atburðir milli pálmasunnudags og páskadags eru saga hósanna og hallelúja. Hósanna er bæn okkar um að Guð frelsi. Hallelúja tjáir lofgjörð okkar til Drottins fyrir von sáluhjálpar og upphafningar. Með hósanna og hallelúja viðurkennum við hinn lifandi Jesú Krist sem hjarta páska og síðari daga endurreisnar.

Endurreisn síðari daga hefst með guðlegri birtingu – bókstaflegri birtingu Guðs föðurins og sonar hans, Jesú Krists, hinum unga spámanni Joseph Smith. Spámaðurinn Joseph sagði: „Ef þið gætuð horft inn í himnaríki í fimm mínútur, munduð þið hljóta meiri vitneskju um efnið, en ef þið læsuð allt sem vitað væri um það.“16 Þar sem himnarnir eru opnir aftur, þá þekkjum við og trúum á „Guð, hinn eilífa föður, og á son hans, Jesú Krist, og á heilagan anda“17 – Guðdóminn.

Á páskadag, 3. apríl 1836, á fyrstu árum endurreisnarinnar, birtist hinn lifandi Jesús Kristur eftir að Kirtland-musterið hafði verið vígt. Þeir sem sáu hann þar vitnuðu um hann í samfellandi andstæðum elds og vatns: „Augu hans voru sem eldslogi, hárið á höfði hans var hvítt sem nýfallin mjöll, ljóminn frá svip hans bar af ljóma sólarinnar og rödd hans var sem dynur mikilla vatnsfalla, já, rödd Jehóva.“18

Við þetta tilefni lýsti frelsarinn yfir: „Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti. Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var. Ég er málsvari yðar hjá föðurnum.“19 Aftur samfallandi andstæður – fyrsti og síðasti, lifandi og deyddur. Hann er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn,20 höfundur og fullkomnari trúarinnar.21

Eftir að Jesús Kristur birtist, komu Móse, Elías og Elía líka. Að guðlegri tilskipan, þá endurreistu þessir miklu spámenn lykla og vald prestdæmisins. Þannig eru „lyklar [þessarar ráðstöfunar] seldir … í hendur“22 hinnar endurreistu kirkju, til að blessa öll börn Guðs.

Koma Elía í Kirtland-musterið uppfyllti líka spádóm Malakís í Gamla testamentinu, um að Elía kæmi „áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.“23 Það var því ekki tilviljun að Elía birtist á páskatíð Gyðinga, því hefð var fyrir því að vænta komu Elía á þeim tíma.

Margir trúfastar fjölskyldur Gyðinga hafa stað við páskaborðið fyrir Elía. Margir fylla bikar barmafullan til að bjóða hann velkominn. Á hefðbundnum páskatíma senda sumir barn til dyra, sem stundum eru í hálfa gátt, til að sjá hvort Elía sé úti bíðandi þess að verða boðið inn.24

Til uppfyllingar spádóms og sem hluti af fyrirheitinu um endurreisn allra hluta,25 þá kom Elía, eins og lofað var, á páskum og í upphafi páskatíðar Gyðinga. Hann kom með innsiglunarvaldið til að binda fjölskyldur á jörðu og á himni. Líkt og Moróní sagði við spámanninn Joseph, þá mun Elía: „gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheit þau, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúast til feðra sinna. Ef svo væri ekki,“ sagði Moróní ennfremur, „mundi jörðin öll verða gjöreydd við komu [Drottins].“26 Andi Elía, staðfesting heilags anda, snýr okkur að kynslóðum okkar – fortíðar, nútíðar og framtíðar – í gegnum ættfræði, ættarsögu og musterisþjónustu.

Við skulum stuttlega rifja upp merkingu páskahátíðar Gyðinga. Páskar er minningarhátið um frelsun Ísraelsmanna úr 400 ára ánauð. í 2. Mósebók segir frá því hvernig þessi frelsun átti sér stað, eftir plágur froska, lúsa, flugna, dauðra nautgripa, sjúkdóma, húðsára, hagls og elds, engisprettna og mikils myrkurs. Síðasta plágan var dauði frumgetinna barna í landinu, en ekki á heimilum Ísraelsmanna – ef fjölskyldurnar réru blóði óflekkaðs frumborins lambs á dyrastafina.27

Engill dauðans fór framhjá þeim húsum sem merkt voru hinu táknræna blóði lambs.28 Þessi framhjá för er táknræn fyrir að Jesús Kristur sigraði dauðann að lokum. Sannlega veitir friðþægingarblóð Guðslambsins okkar góða hirði kraft til að safna saman fólki sínu frá öllum stöðum og í öllum kringumstæðum, í öryggi hjarðar sinnar, beggja vegna hulunnar.

Mikilvægt er að Mormónsbók lýsir „krafti og upprisu Krists“29 – kjarna páska – í tengslum við tvennskonar endurreisn.

Fyrst er það líkamleg endurreisn í okkar „réttu og fullkomnu umgjörð“ – „hver limur og hver liðamót,“ og „ekki svo mikið sem eitt höfuðhár mun glatast.“30 Þetta loforð veitir þeim von sem hafa misst limi, getu til að sjá, heyra eða ganga, eða þjást af erfiðum sjúkdómi, geðsjúkdómi eða öðrum ófullkomleika. Hann finnur okkur. Hann gerir okkur heil.

Annað loforð páskanna og friðþægingar Drottins, er að andlega muni „hver hlutur … endurreistur á sinn stað.“31 Þessi andlega endurreisn endurspeglar verk okkar og þrár. Líkt og brauð á vatni,32 er það endurreist sem er „gott,“ „réttlátt,“ „réttvíst“ og „miskunnsamt.“33 Engin furða er að Alma notar orðið endurreisa 22 sinnum34 er hann brýnir fyrir okkur að vera „réttvís, [dæma] af réttlæti og [gjöra] gott án afláts.“35

Þar sem „Guð sjálfur [friðþægði] fyrir syndir heimsins,“36 þá megnar friðþæging Drottins að bæta bæði fyrir það sem var og það sem getur orðið. Þar sem hann þekkir sársauka okkar, þrengingar og sjúkdóma og „allskyns … freistingar,“37 þá getur hann, af miskunn, liðsinnt okkur í vanmætti.38 Þar sem Guð er „fullkominn, réttvís Guð og einnig miskunnsamur Guð,“ þá megnar miskunnaráætlunin að „[fullnægja] kröfum réttvísinnar.“39 Við iðrumst og gerum allt sem við getum. Hann umlykur okkur eilíflega „í elskandi [örmum sínum].“40

Í dag fögnum við endurreisn og upprisu. Ég fagna með ykkur yfir hinni viðvarandi endurreisn fyllingar fagnaðarerindisins Jesús Krists. Líkt og hófst fyrir tvö hundruð árum í vor, þá munu ljós og opinberun áfram veitast með lifandi spámanni Drottins og kirkju hans, sem nefnd er hans nafni – Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu – og með persónulegri opinberun og innblæstri hinnar guðlegu gjafar heilags anda.

Ég ber vitni með ykkur, um Guð, okkar eilífa föður, og elskaðan son hans, hinn lifandi Jesú Krist. Jarðneskir menn voru grimmilega krossfestir og síðar uppreistir. Aðeins Jesús Kristur, í sínu fullkomna upprisna ástandi, ber þó enn merki krossfestingar á höndum sínum, fótum og síðu. Hann einn getur sagt: „Ég hef rist þig á lófa mína.“41 Aðeins hann getur sagt: „Ég er sá, sem upp var hafinn. Ég er Jesús, sem var krossfestur. Ég er sonur Guðs.“42

Líkt og Ivy litla með fiðluna sína, þá erum við að nokkru enn á byrjunarstigi. Vissulega er það svo að „auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“43 Á þessum tíma getum við lært mikið um gæsku Guðs og guðlega möguleika okkar til að elska Guðs fái vaxið í okkur, er við leitum hans og liðsinnum hvert öðru. Á nýjan hátt og á nýjum stöðum, getum við starfað og vaxið „setning á setning ofan, góðvild á góðvild ofan, persónulega og sameiginlega.

Kæru bræður og systur hvarvetna, þegar við komum saman og lærum, fyllist ég trúarlegum ævintýraljóma og þakklæti yfir trú ykkar og gæsku. Vitnisburður ykkar og trúarreynsla auðgar vitnisburð minn og trúarreynslu. Umhyggja ykkar og gleði, elska ykkar til heimamanna Guðs og samfélag heilagra og lifandi skilningur á endurreistum sannleika og ljósi, eykur mér fyllingu hins endurreista fagnaðarerindis, með lifandi Jesú Krist sem hjarta þess. Saman biðjum við, „gegnum skin og skúrir, … Herra, dvel hjá mér.“44 Sameiginlega vitum við, mitt í basli og byrðum, að við getum talið okkur mörgu blessanir.45 Í daglegu lífi hins smá og einfalda, fáum við séð hið mikla verða að veruleika í lífi okkar.46

„Og svo ber við, að hinum réttlátu verður safnað frá öllum þjóðum og þeir koma til Síonar, syngjandi söngva hinnar ævarandi gleði.“47 Syngið hallelúja á þessum tíma hósanna og hallelúja – því hann mun ríkja alltaf og að eilífu. Hrópið hósanna Guði og lambinu! Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.