2010–2019
Andlegir fjársjóðir
Aðalráðstefna október 2019


Andlegir fjársjóðir

Eftir því sem þið iðkið trú á þennan prestdæmiskraft, munuð þið verða hæfari til að nota þann andlega fjársjóð sem Drottinn hefur gert ykkur mögulegan.

Takk fyrir þessa dásamlegu tónlist. Er við stóðum og sungum millisálminn „Vorn spámann vér þökkum þér, Drottinn,“ fann ég tvær afar áhrifamiklar hugsanir berast mér. Önnur varðar Joseph Smith, spámann þessarar ráðstöfunar. Ást mín og aðdáun á honum vex með hverjum degi sem líður. Hin hugsunin barst er ég horfði á eiginkonu mína, dætur, barnabörn og barnabarnabörn. Mig langaði til að gera tilkall til sérhverrar ykkar sem hluta af fjölskyldu minni.

Fyrir nokkrum mánuðum, við lok musterissetu, sagði ég við eiginkonu mína Wendy: „Ég vona að systurnar skilji hinn andlega fjársjóð sem er þeirra í musterinu.“ Systur, mér verður oft hugsað til ykkar, þar með talið fyrir tveimur mánuðum, er ég og Wendy vorum í Harmony, Pennsylvaníu.

Ljósmynd
Endurreisn Aronsprestdæmisins

Þetta var önnur ferð okkar þangað. Bæði vorum við innilega snortin af því að ganga á þeirri helgu grund. Það var nærri Harmony sem Jóhannes skírari vitjaði Josephs Smith og endurreisti Aronsprestdæmið.

Ljósmynd
Endurreisn Melkísedeksprestdæmisins

Það var þar sem postularnir Pétur, Jakob og Jóhannes birtust til að endurreisa Melkísedeksprestdæmið.

Það var í Harmony sem Emma Hale Smith þjónaði sem fyrsti ritari eiginmanns síns, er spámaðurinn Joseph þýddi Mormónsbók.

Það var líka í Harmony sem Joseph hlaut opinberun um vilja Drottins varðandi Emmu. Drottinn bauð Emmu að útskýra ritningarnar, hvetja kirkjuna, meðtaka heilagan anda og verja tímanum til „mikils lærdóms.“ Emma var líka hvött til að „leggja til hliðar það, sem þessa heims er, og leita þess, sem betra er“ og halda sig fast að sáttmálum sínum við Guð. Drottinn lauk síðan kennslu sinni á þessum áhrifaríku orðum: „Þetta er rödd mín til allra.“1

Allt sem gerðist á þessu svæði er afar mikilvægt lífi ykkar. Endurreisn prestdæmisins, ásamt leiðsögn Drottins til Emmu, getur leitt og blessað hverja ykkar. Hve ég þrái að þið skiljið að endurreisn prestdæmisins er jafn mikilvæg fyrir þig sem konu og það er fyrir hvern karl. Þar sem Melkísedeksprestdæmið hefur verið endurreist, þá hafa bæði konur og karlar sem halda sáttmála sína aðgang að „öllum andlegum blessunum kirkjunnar“2 eða, við gætum sagt, að öllum andlegum fjársjóðum sem Drottinn geymir börnum sínum.

Hver kona og karl sem gerir sáttmála við Guð og heldur þá sáttmála og tekur verðuglega þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, hefur beinan aðgang að krafti Guðs. Þau sem hafa hlotið musterisgjöf í húsi Drottins, hafa fengið að gjöf prestdæmiskraft Guðs, samkvæmt eðli sáttmála þeirra, ásamt gjöf þekkingar, til að vita hvernig nota á þann kraft.

Himnarnir eru jafn opnir konum, sem hafa hlotið kraft Guðs, sem á sér rætur í prestdæmissáttmálum þeirra, og körlum sem hafa prestdæmið. Ég bið þess að sá sannleikur ritist á hjarta hverrar ykkar, því ég hef trú á að hann muni breyta lífi ykkar. Systur, þið hafið rétt á að virkja og nota kraft frelsarans ríkulega til hjálpar fjölskyldu ykkar og öðrum sem eru ykkur kærir.

Nú gætuð þið sagt með ykkur sjálfum: „Þetta hljómar dásamlega, en hvernig geri ég það? Hvernig virkja og nota ég kraft frelsarans í lífi mínu?“

Þið finnið ekki slíkar leiðbeiningar í nokkurri kennslubók. Heilagur andi verður persónulegur kennari ykkar, er þið reynið að skilja hvað Drottinn vill að þið vitið og gerið. Þetta ferli er hvorki stutt, né auðvelt, en það er andlega endurnærandi. Hvað gæti hugsanlega verið ánægjulegra en að keppa að því með andanum að skilja kraft Guðs – prestdæmiskraftinn?

Það sem ég get þó sagt ykkur, er að það krefst þess sama að fá aðgang að Krafti Guðs og Drottinn kenndi Emmu og okkur öllum að gera.

Ég hvet ykkur því að læra af kostgæfni kafla 25 í Kenningu og sáttmálum og uppgötva það sem heilagur andi mun kenna ykkur. Persónuleg, andleg viðleitni ykkar, mun færa ykkur gleði, er þið öðlist, skiljið og notið kraftinn sem þið hafið verið gæddar.

Sú viðleitni krefst að hluta að þið leggið til hliðar margt af því sem þessa heims er. Stundum tölum við næstum hugsunarlaust um að fjarlægja okkur ágreiningi, útbreiddum freistingum og falshugmyndum heimsins. Sannlega krefst það þó þess að þið metið vandlega og reglubundið eigið líf. Þegar þið gerið það, mun heilagur andi minna ykkur á hið óþarfa, það sem er ekki lengur verðugt tíma ykkar og erfiðis.

Þegar þið beinið athyglinni frá truflunum heimsins, mun það sem nú virðist mikilvægt víkja og hafa síðri forgang. Þið þurfið að neita ykkur um sumt, jafnvel þótt það kunni að virðast meinlaust. Þegar þið hefjið og viðhaldið þessu ævilanga ferli við að helga líf ykkar Drottni, mun breyting á viðhorfi, tilfinningum og andlegum styrk koma ykkur á óvart!

Fáein aðvörunarorð. Á meðal ykkar eru þær sem grafa undan getu ykkar til að virkja kraft Guðs. Sumir vilja að þið efist um ykkur sjálfar og gera lítið úr hinni dásamlegu andlegu getu ykkar sem réttlátar konur.

Vissulega vill andstæðingurinn ekki að þið skiljið sáttmálann sem þið gerðuð við skírnina eða þá djúpu þekkingu og kraft sem þið hafið hlotið eða munuð hljóta í musterinu – húsi Drottins. Satan vill vissulega ekki að þið skiljið að í hvert sinn sem þið þjónið og tilbiðjið verðuglega í musterinu, farið þið þaðan gæddar krafti Guðs og „englar [vaka] yfir“ ykkur.3

Satan og fylgjendur hans munu stöðugt setja upp vegatálma, til að koma í veg fyrir að þið fáið skilið þær andlegu gjafir sem þið hafið verið og getið verið blessaðar með. Því miður geta sumir vegatálmar verið vegna slæmrar breytni annarra Það hryggir mig að hugsa til þess að einhver ykkar hafi fundið sig setta til hliðar eða ekki verið trúað af prestdæmisleiðtoga eða verið svívirt eða svikin af eiginmanni, föður eða ætluðum vini. Ég finn til djúprar sorgar yfir því að einhver ykkar hafi fundið sig setta til hliðar, verið vanvirt eða ranglega dæmd. Slíkar misgjörðir eiga sér engan stað í Guðs ríki.

Aftur á móti gleðst ég yfir því þegar ég heyri að prestdæmisleiðtogar reyna einlæglega að fá konur til þátttöku í deildar- og greinarráðum. Ég fyllist andagift yfir hverjum þeim eiginmanni sem sýnir að mikilvægasta prestdæmisábyrgð hans sé að láta sér annt um eiginkonu sína.4 Ég lofa þann karlmann sem einlæglega virðir getu eiginkonu sinnar til að hljóta opinberun og metur hana sem jafningja í hjónabandi þeirra.

Þegar karlmaður skilur mikilfengleika og áhrif réttlátrar og leitandi Síðari daga konu með musterisgjöf, er þá nokkur furða að hann vilji standa upp er hún kemur inn í salinn?

Allt frá upphafi tímans, hafa konur verið blessaðar með sérstakri siðferðisvitund – eiginleika til að greina á milli rétts og rangs. Sú gjöf styrkist í þeim sem gera og halda sáttmála. Hún veikist hins vegar í þeim sem viljandi leiða hjá sér boðorð Guðs.

Ég bæti þó um leið við að ég leysi ekki karlmenn á nokkurn hátt frá kröfu Guðs um að þeim beri líka að greina á milli rétts og rangs. Kæru systur, hæfni ykkar til að greina sannleika frá villu, að vera siðferðisverðir samfélagsins, skiptir höfuðmáli á þessum síðari dögum. Við reiðum okkur á að þið kennið öðrum að gera slíkt hið sama. Ég ætla að vera afar skorinorður um þetta: Ef heimurinn verður af ráðvendni kvenna, mun hann aldrei verða samur.

Við, Síðari daga heilagir, erum ekki af heiminum; við erum af Ísrael sáttmálans. Við erum kölluð til að búa fólk undir síðari komu Drottins.

Ég ætla nú að varpa ljósi á nokkur fleiri atriði varðandi konur og prestdæmið. Þegar þið eruð settar í embætti til að þjóna í einhverri köllun, undir leiðsögn þess sem hefur prestdæmislykla – svo sem biskups eða stikuforseta – er ykkur falið prestdæmisvald til að starfa í þeirri köllun.

Á líkan hátt hafið þið valdsumboð til að framkvæma helgiathafnir prestdæmisins í musterinu, í hvert sinn sem þið komið þangað. Musterisgjöfin ykkar býr ykkur undir að gera það.

Ef þið hafið musterisgjöf, en eruð ekki eins og er giftar karlmanni sem hefur prestdæmið og einhver segir við ykkur: „Mér finnst leitt að þú hafir ekki prestdæmið á heimili ykkar,“ gætið þá að því að þessi fullyrðing er röng. Þið hafið ef til vill ekki prestdæmishafa á heimili ykkar, en þið hafið gert helga sáttmála við Guð í musteri hans. Frá þeim sáttmálum streymir til ykkar kraftur musterisgjafar og prestdæmis hans. Hafið líka í huga, að ef eiginmaður skildi deyja, þá eruð þið í forsæti heimilis ykkar.

Þið, sem réttlátar Síðari daga heilagra konur með musterisgjöf, mælið og kennið með krafti og valdi frá Guði. Við þörfnumst þess að þið kennið kenningu Krists, bæði með hvatningu og umræðum. Við þörfnumst framlags ykkar í fjölskyldu-, deildar- eða greinarráðum. Þátttaka ykkar er nauðsynleg og aldrei til skrauts.

Kæru systur, þið munuð aukast að krafti er þið þjónið öðrum. Bænir ykkar, fasta, tími við ritningarnám og þjónusta í musterinu og við ættarsöguverk, mun ljúka upp fyrir ykkur himnum.

Ég hvet ykkur til að læra af kostgæfni allan þann sannleika sem þið finnið um prestdæmiskraftinn. Þið gætuð byrjað á Kenningu og sáttmálum, köflum 84 og 107. Þessir kaflar munu leiða ykkur að öðrum ritningarversum. Ritningarnar og kenningar nútíma spámanna, sjáenda og opinberara eru fylltar þessum sannleika. Eftir því sem þið vaxið að skilningi og iðkið trú á Drottin og þennan prestdæmiskraft, munuð þið verða hæfari til að nota þann andlega fjársjóð sem Drottinn hefur gert mögulegan. Þegar þið gerið það, munið þið finna að þið getið betur hjálpað við að skapa eilífar fjölskyldur, sem eru sameinaðar, innsiglaðar í musteri Drottins og fylltar kærleika til föður okkar á himnum og til Jesú Krists.

Öll okkar viðleitni til að þjóna hvert öðru, boða fagnaðarerindið, fullkomna hina heilögu og endurleysa hina dánu, hefur allt musterið að miðpunkti. Við höfum nú 166 musteri um allan heim og fleiri eru í bígerð.

Eins og ykkur er kunnugt, þá stendur til að endurnýja Salt Lake musterið, Musteristorgið og aðliggjandi torg við hlið aðalstöðva kirkjunnar, sem mun hefjast við lok þessa árs. Þetta helga musteri verður að varðveita til að innblása komandi kynslóðir, eins og það hefur haft áhrif á okkar kynslóð.

Eftir því sem kirkjan vex, verða fleiri musteri byggð, svo að fleiri fjölskyldur fái aðgang að æðstu gjöf allra, eilífu lífi.5 Við lítum á musterin sem hinar helgustu byggingar kirkjunnar. Alltaf þegar áætlun er kynnt um að byggingu nýs musteris, verður það mikilvægur hluti af sögu okkar. Eins og við höfum rætt hér í kvöld, þá eruð þið systur mikilvægar fyrir musterisstarfið og í musterinu meðtakið þið ykkar dýrmætustu andlegu fjársjóði.

Vinsamlega hlýðið vandlega og lotningafullar á er ég tilkynni nú áætlanir um byggingu átta nýrra mustera. Ef ég tilkynni um musteri á stað sem er ykkur kær, mætti ég þá leggja til að þið lútið einfaldlega höfði í hljóðri þakklætisbæn í hjörtum ykkar. Okkur er ánægja að tilkynna um byggingu nýrra mustera á eftirstöldum stöðum: Freetown í Sierra Leone; Orem í Utah; Port Moresby í Papúa Nýju Gíneu; Bentonville í Arkansas; Bacolod á Filippseyjum; McAllen í Texas; Cobán í Gvatemala og Taylorsville í Utah. Þakka ykkur fyrir, kæru systur. Við þökkum ykkur innilega fyrir að meðtaka þessar áætlanir og hljóðleg viðbrögð ykkar.

Að lokum vil ég veita ykkur þá blessun, að þið munið skilja prestdæmiskraftinn, sem þið hafið verið gæddar, og að þið munið efla þann kraft með því að iðka trú ykkar á Drottin og þann kraft.

Kæru systur, af innilegri virðingu og þakklæti, tjái ég ykkur elsku mína. Auðmjúklega ber ég vitni um að Guð lifir! Jesús er Kristur. Þetta er hans kirkja. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.