2010–2019
Gleði heilagra
Aðalráðstefna október 2019


Gleði heilagra

Gleði hlýst af því að halda boðorð Krists, sigrast á sorgum okkar og veikleikum fyrir hans tilverknað og þjóna eins og hann þjónaði.

Enos, spámaður Mormónsbókar og barnabarn Lehís, ritaði um eina upplifun sem hann varð fyrir snemma á lífsskeiði sínu. Einn á veiðum í skóginum tók Enos að velta fyrir sér kenningum föður síns, Jakobs. Hann sagði: „Orð föður míns um eilíft líf og gleði heilagra, sem ég hafði oft heyrt, smugu djúpt inn í hjarta mér.“1 Í andlegu hungri sálar sinnar, kraup Enos í bæn, merkilegri bæn sem varði allan daginn og fram á nótt, bæn sem veitti honum mikilvægar opinberanir, fullvissu og loforð.

Margt má læra af reynslu Enosar, en það sem er efst í huga mínum í dag, er minning Enosar um að faðir hans hafði oft talað um „gleði heilagra.“

Á þessari ráðstefnu, fyrir þremur árum, ræddi Russell M. Nelson forseti um gleði.2 Hann sagði meðal annars:

„Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með aðstæður okkar í lífinu, en þess meira með það sem við einblínum á.

Þegar við einblínum á sáluhjálparáætlun Guðs … og Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, þrátt fyrir það sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar. Gleðin á rætur í honum og er sökum hans. … Hvað Síðari daga heilaga varðar, þá er Jesús Kristur sjálf gleðin!“3

Þeir eru heilagir sem hafa tekið á sig í sáttmála fagnaðarerindisins með skírn og leitast við að fylgja Kristi, sem lærisveinar hans.4 „Gleði heilagra“ vísar því til þeirrar gleði að líkjast Kristi.

Ég ætla að ræða um gleðina sem hlýst af því að halda boðorð hans, gleðina sem hlýst af því að sigrast á sorgum okkar og veikleikum fyrir hans tilverknað og gleðina sem hlýst af því að þjóna eins og hann þjónaði.

Gleði þess að halda boðorð Krists

Við lifum á tíma sældarhyggju, er margir efast um mikilvægi boðorða Drottins eða hunsa þau einfaldlega. Ósjaldan virðist fólk, sem hefur að engu guðlegar tilskipanir, eins og skírlífislögmálið, heiðarleikastaðalinn og helgi hvíldardagsins, njóta farsældar og góðs lífs, jafnvel í ríkari mæli en þeir sem leggja sig fram við að vera hlýðnir Sumir taka að velta fyrir sér hvort fyrirhöfn og fórn séu þess virði. Ísraelsmenn til forna mögluðu eitt sinn:

„Það er til einskis að þjóna Guði, eða hvaða ávinning höfum vér af því haft, að vér varðveittum boðorð hans og gengum í sorgarbúningi fyrir augliti Drottins allsherjar?

Og nú köllum vér hina hrokafullu sæla. Já, þeim sem ranglæti fremja er hampað, já, þeir sem freista Guðs eru jafnvel látnir sleppa.“5

Sýnið biðlund, sagði Drottinn, fram að „þeim degi, sem ég hefst handa. „Þá skuluð þér … greina á milli réttláts manns og rangláts, á milli þess, sem Guði þjónar og hins, sem ekki þjónar honum.“6 Hinn rangláti mun ef til vill „gleðjast … yfir verkum sínum um hríð,“ en það er alltaf tímabundið.7 Gleði hinna heilögu er varanleg.

Guð sér hlutina í sönnu ljósi, miðlar okkur þeirri sýn fyrir tilstilli boðorða sinna og leiðir okkur framhjá gildrum og gryfjum jarðlífsins til eilífrar gleði. Spámaðurinn Joseph Smith útskýrði: „Þegar við lærum af boðorðum hans, er það í ljósi eilífðarinnar, því Guð sér okkur eins og við værum í eilífðinni; Guð dvelur í eilífðinni og sér hlutina ekki með okkar augum.“8

Ég hef engan hitt sem fann fagnaðarerindið síðar á lífsskeiði sínu, sem ekki hefði viljað finna það fyrr. „Ó, þeir slæmu kostir og mistök sem ég hefði getað forðast,“ hafa þeir sagt. Boðorð Drottins eru leiðarvísar okkar að betra vali og gleðilegri niðurstöðu. Hve við ættum að fagna og þakka honum fyrir að hafa sýnt okkur þennan ágætari veg.

Ljósmynd
Systir Kamwanya

Þegar systir Kalombo Rosette Kamwanya frá Austur-Kongó, sem nú þjónar í vestur trúboði Abidjan á Fílabeinsströndinni, var unglingur, fastaði hún og bað í þrjá daga til að finna þá stefnu sem Guð vildi að hún tæki. Í merkilegri nætursýn voru henni sýndar tvær byggingar, kapella og það sem henni er nú ljóst að var musteri. Hún hóf að leita og fann brátt kapelluna sem hún hafði séð í draumnum. Á skiltinu stóð: „Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.“ Systir Kamwanya var skírð og þar á eftir móðir hennar og sex bræður. Systir Kamwanya sagði: „Þegar ég meðtók fagnaðarerindið leið mér eins og frelsuðum fugli úr búri. Hjarta mitt fylltist gleði. … Ég var þess fullviss að Guð elskaði mig.“9

Að halda boðorð Drottins, gerir okkur kleift að upplifa elsku hans í ríkari mæli. Hinn krappi og þröngi vegur boðorðanna liggur beint að tré lífsins, og tréð og ávöxtur þess, ljúfust og „eftirsóknarverðust af öllu,“10 eru táknræn fyrir elsku Guðs, sem fyllir sálina „ákaflega miklum fögnuði.“11 Frelsarinn sagði:

„Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.

Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.“12

Gleði þess að sigra fyrir tilverknað Krists

Þótt við höldum boðorðin trúfastlega, geta þjáningar og þrautir dregið úr gleði okkar. Þegar við hins vegar reynum að sigrast á þessum áskorunum með hjálp frelsarans, mun það varðveita bæði gleði okkar nú og gleðina sem við væntum. Kristur fullvissar lærisveina sína: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“13 Með því að snúa sér að honum, hlýða honum og bindast honum, munu raunir og sorgir snúast upp í gleði. Ég nefni eitt dæmi.

Árið 1989 þjónaði Jack Rushton sem forseti Irvine-stikunnar í Kaliforníu íBandaríkjunum. Í fjölskyldufríi á Kaliforníuströndum var Jack í brimbrettabruni þegar alda færði hann í kaf, svo hann skall á bergi, braut á sér hálsinn og slasaðist alvarlega á mænu. Jack sagði síðar: „Um leið og ég skall á því, vissi ég að ég hafði lamast.“14 Hann gat hvorki talað, né andað hjálparlaust.15

Ljósmynd
Fjölskylda og vinir aðstoða Rushton-fjölskylduna

Fjölskylda bróður Rushton og vinir og meðlimir í stikunni, fylktu liði um hann og eiginkonu hans, Jo Anne og endurbyggðu meðal annars hluta heimilis þeirra, fyrir greiðari aðgang hjólastóls Jacks. Jo Anne var aðal umönnunaraðili Jacks næstu 23 árin. Með vísan í frásagnir Mormónsbókar um hvernig Drottinn vitjaði fólks síns í þrengingum þess og létti byrðar þess,16 sagði Jo Anne: „Ég furða mig oft á því hve byrði þess að annast eiginmann minn er létt.”17

Ljósmynd
Jack og Jo Anne Rushton

Aðgerð á öndunarkerfi Jacks varð til þess að hann gat talað aftur og innan árs var hann kallaður sem kennari í sunnudagaskóla og stikupatríarki. Þegar hann gaf patríarkablessun lagði annar prestdæmishafi hönd bróður Rushton á höfuð þess sem hlaut blessunina og hélt við hönd hans og handlegg meðan blessunin fór fram. Jack lést á jóladag 2012, eftir 22ja ára dygga þjónustu.

Ljósmynd
Jack Rushton

Eitt sinn í viðtali greindi Jack svo frá: „Vandamál munu koma inn í líf okkar allra; það er einungis hluti af því að vera hér á þessari jörðu. Sumir telja að trúarbrögð eða að trúa á Guð muni vernda þá gegn slæmum hlutum. Ég held ekk að það sé málið. Ég held að málið sé, að við munum geta, ef trú okkar er sterk, tekist á við slæma hluti þegar þeir koma. … Mig brast aldrei trú, en það þýddi ekki að ég gæti ekki verið þjakaður. Ég held að í fyrsta sinn á ævinni hafi mér verið ýtt út á brúnina og ég var bókstaflega hjálparlaus, svo ég snéri mér til Drottins og fram til þessa dags finn ég stöðuga gleði.“18

Þetta er tími stundum vægðarlausra aðfara fólks á samfélagsmiðlum og í eigin persónu gegn þeim sem reyna að lifa eftir stöðlum Drottins, hvað varðar klæðnað, dægrastyttingu og kynferðislegan hreinleika. Oft eru það unglingar og ungt fólk meðal hinna heilögu, sem og konur og mæður, sem bera þennan kross háðunga og ofsókna. Það er ekki auðvelt að rísa ofar slíkri svívirðingu, en hafa skal orð Péturs í huga: „Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.“19

Í aldingarðinum Eden voru Adam og Eva í ástandi sakleysis, „án nokkurrar gleði, þar eð þau þekktu enga vansæld.“20 Sem ábyrgar manneskjur, finnum við gleði í því að sigrast á vansæld, í hvaða mynd hún er, hvort heldur synd, raunum, veikleikum eða öðru sem dregur úr hamingju okkar. Það er gleði þess að skynja framfarir á vegi lærisveinsins; gleði þess að „hafa fengið fyrirgefningu synda sinna og frið við samvisku sína“21; gleði þess að skynja sál sína víkka og vaxa fyrir náð Krists.22

Gleði þess að þjóna eins og Kristur

Frelsarinn finnur gleði í því að gera ódauðleika og eilíft líf okkar að veruleika.23 Russell M. Nelson forseti talaði um friðþægingu frelsarans og sagði:

„Í þessu, líkt og í öllu, þá er Jesús Kristur okkar mesta fyrirmynd, því ,vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi‘ [Hebreabréfið 12:2]. Hugsið ykkur það! Frelsari okkar, sem gekk í gegnum óbærilegustu upplifun jarðar, gerði það með því að einblína á gleði!

Í hverju fólst þessi gleði sem hann einbeitti sér að? Sú gleði fólst vissulega í því að hreinsa, lækna og styrkja okkur; þeirri gleði að greiða gjaldið fyrir syndir allra þeirra sem iðruðust; þeirri gleði að gera mér og þér kleift að komst aftur heim – hrein og verðug – til dvalar hjá himneskum foreldrum og fjölskyldum okkar.“24

Á sama hátt er gleðin sem við „einbeitum okkur að,“ gleði þess að aðstoða frelsarann í verki endurlausnar. Líkt og niðjar og afkomendur Abrahams,25, erum við hluttakendur í því að blessa allar fjölskyldur jarðar, „með blessunum fagnaðarerindisins, sem eru blessanir sáluhjálpar, já, eilífs lífs.“26

Orð Alma koma í hugann:

„Dýrð mín er sú, að ég verði ef til vill verkfæri í höndum Guðs til að vekja einhverja sál til iðrunar. Í því er gleði mín fólgin.

Og sjá. Þegar ég sé marga bræður mína iðrast af einlægni og snúa til Drottins Guðs síns, fyllist sál mín gleði. …

En ég gleðst ekki einungis yfir mínum eigin árangri, heldur er gleði mín enn fyllri yfir velgengni bræðra minna, sem hafa verið í Nefílandi. …

Þegar ég nú hugsa um árangur bræðra minna, er sál mín svo upp numin, að hún skilst næstum frá líkamanum, ef svo má að orði komast, svo mikil er gleði mín.“27

Ávextir þjónustu okkar við hvert annað í kirkjunni eru hluti af þeirri gleði sem „við einbeitum okkur að.“ Við getum þjónað af þolinmæði, jafnvel á tímum vanmáttarkenndar eða streitu, ef við einblínum á gleði þess að þóknast Guði og færa börnum hans, bræðrum okkar og systrum, ljós, líkn og hamingju.

Þegar öldungur David og systir Susan Bednar voru við vígslu Port-au-Prince musterisins á Haítí, nú í síðasta mánuði, hittu þau unga systur sem átti eiginmann sem látið hafði lífið nokkrum dögum áður í hörmulegu slysi. Þau grétu með henni. Á sunnudeginum var þessi kæra kona þó á sínum stað sem sætavísir við vígsluathöfnina og brosti ljúft og aðlaðandi til allra sem komu í musterið.

Ég trúi að endanleg „gleði heilagra“ felist í því að vita að frelsarinn talar máli þeirra,28 „og enginn fær gjört sér í hugarlund gleðina, sem [mun fylla] sálir okkar, þegar við [heyrum Jesú] biðja til föðurins fyrir okkur.“29 Ég ber vitni með Russell M. Nelson forseta um að gleðin er gjöf trúfastra heilagra, „sem borið hafa krossa þessa heims“30 og „reyna meðvitað að lifa réttlátu lífi, líkt og Jesús Kristur kenndi.“31 Ég bið þess að gleði ykkar verði full, í nafni Jesú Krists, amen.