2010–2019
Sannir lærisveinar frelsarans
Aðalráðstefna október 2019


Sannir lærisveinar frelsarans

Við getum fundið varanlega gleði þegar frelsari okkar og fagnaðarerindi hans verða burðargrindin sem við byggjum líf okkar á.

Að nokkru falin í bók Haggaís í Gamla testamentinu, er lýsing á hópi fólks sem hefði getað farið að leiðsögn öldungs Hollands. Þeim láðist að hafa Krist að þungamiðju lífs síns og þjónustu sinnar. Haggaí dregur upp nokkrar hugvekjandi orðamyndir, er hann ávítir þetta fólk fyrir að dvelja í þægilegum húsum sínum, í stað þess að reisa Drottni musteri:

„Er þá tímabært fyrir ykkur að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús er í rúst?

Og nú segir Drottinn allsherjar svo: Sjáið hvernig ykkur hefur farnast!

Þið hafið sáð miklu en uppskorið smátt, matast en ekki orðið saddir, drukkið en ekki fengið nægju ykkar, klæðst en ekki hlýnað og hafi launa verið aflað fóru þau í götótta pyngju.

Svo segir Drottinn allsherjar: Sjáið hvernig ykkur hefur farnast“1

Eru þetta ekki hrífandi lýsingar á tilgangsleysi þess að forgangsraða því sem hefur ekkert eilíft gildi, fram yfir það sem Guðs er?

Á nýlegri sakramentissamkomu sem ég sótti, vitnaði fyrrverandi trúboði í föður sem dró þessa hugmynd saman á fullkominn hátt er hann sagði við börn sín: „Það sem við þurfum hér er minna af Wi-fi (þráðlaustu neti) og meiri af Nefí!“

Hafandi búið í Vestur-Afríku í fimm ár, sá ég næg dæmi þess að fólk setti fagnaðarerindið í forgang, eðlilega og án feimni. Eitt slíkt dæmi er nafn hjólbarða- og hjólastillingaverkstæðis í Gana. Eigandinn hafði nefnt það „Þinn vilji stillingar.“

Við getum fundið varanlega gleði2 þegar frelsari okkar og fagnaðarerindi hans verða burðargrindin sem við byggjum líf okkar á. Það er hins vegar svo auðvelt að láta þá burðargrind fyllast af því sem heimsins er, þar sem fagnaðarerindið verður aukaatriði, eða einfaldlega að mæta í kirkju í tvo klukkutíma hvern sunnudag. Þegar málinu er þannig háttað, er það jafngildi þess að setja laun okkar í „götótta pyngju.“

Haggaí er að segja okkur að vera stefnuföst, að vera, eins og við segjum í Ástralíu, „fair dinkum [heilsteyptur]“ í því að lifa eftir fagnaðarerindinu. Fólk er heilsteypt þegar það er samkvæmt sjálfu sér.

Ég lærði nokkuð varðandi það að vera heilsteyptur og stefnufastur er ég spilaði ruðningsbolta. Ég lærði að þegar ég spilaði eins vel og ég gat, þegar ég gaf mig allan í leikinn, þá naut ég leiksins mest.

Ljósmynd
Öldungur Vinson ásamt ruðningsboltaliði sínu

Uppáhalds árið mitt í ruðningsbolta, var árið eftir menntaskóla. Liðið sem ég var í var bæði hæfileikaríkt og stefnufast. Við urðum meistarar það árið. Hins vegar áttum við dag einn að spila við eitt af síðri liðunum og eftir leikinn stefndum við allir á árshátíð háskólans með dömur upp á arminn. Ég taldi, að þar sem þetta myndi verða auðveldur leikur, ætti ég að reyna að verja sjálfan mig gegn meiðslum svo að ég gæti notið dansleiksins enn betur. Við spiluðum ekki af jafn mikilli festu í þessum leik og við hefðum getað gert og töpuðum. Það sem verra var, í lok leiksins var ég með bólgna, sprungna vör, sem var ekki til að bæta útlit mitt fyrir stefnumótið. Kannski þurfti ég að læra eitthvað.

Önnur, mjög ólík staða kom upp í öðrum leik seinna, þar sem ég var mjög fastur fyrir. Á einum tímapunkti hljóp ég staðráðinn beint í návígi, en fann um leið mikinn sársauka í andlitinu. Þar sem faðir minn hafði kennt mér að ég ætti aldrei að láta andstæðinginn vita ef ég væri meiddur, hélt ég áfram og lék út leikinn. Þegar ég reyndi að borða um kvöldið, komst ég að því að ég gat ekki tuggið. Næsta dag fór ég á spítalann og fékk staðfest af röntgenmynd að ég væri kjálkabrotinn. Munnurinn á mér var víraður saman næstu sex vikurnar.

Ég lærði af þessum dæmisögum um sprungna vör og kjálkabrot. Þrátt fyrir minningar mínar um ófullnægða þörf fyrir fasta fæðu á meðan á þessum sex vikum stóð, og ég gat einungis neytt fljótandi fæðu, þá var engin eftirsjá af þessu kjálkabroti þar sem ég hafði lagt mig allan fram. Ég sé hins vegar eftir sprungnu vörinni, því hún var táknræn fyrir að ég hélt mig tilbaka.

Það að leggja okkur fram, þýðir ekki að við munum alltaf vera umvafin blessunum eða velgengni. Það þýðir hins vegar að við munum upplifa gleði. Gleði er ekki hverful nautn eða tímabundin hamingja. Gleði er langlíf og byggir á því að Drottinn meðtekur framlag okkar.3

Dæmi um slíkt samþykki er að finna í sögunni um Oliver Granger. Eins og Boyd K. Packer forseti sagði: „Þegar hinir heilögu voru hraktir frá Kirtland … varð Oliver eftir til að selja eigur þeirra fyrir það litla sem hann gat. Það var ekki mjög líklegt að honum myndi takast það. Í raun þá heppnaðist þetta ekki!“4 Æðsta forsætisráðið hafði gefið honum verkefni sem var erfitt, ef ekki ómögulegt. Drottinn hrósað honum fyrir augljóslega árangurslausa viðleitni með þessum orðum:

„Ég er minnugur þjóns míns Olivers Grangers. Sjá, sannlega segi ég honum, að nafn hans skal í helgum minnum haft kynslóð fram af kynslóð, alltaf og að eilífu, segir Drottinn.

Þess vegna skal hann af einlægni vinna að endurlausn æðsta forsætisráðs kirkju minnar, segir Drottinn. Og þegar hann fellur skal hann rísa aftur, því að fórn hans verður mér helgari en arður hans, segir Drottinn.“5

Það kann að vera satt fyrir okkur öll – að það eru ekki sigrar okkar sem skipta Drottin máli, heldur fórnir okkar og framlag.

Annað dæmi um sannan lærisvein Jesú Krists, er kær vinur okkar á Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku. Þessi yndislega, trúfasta systir þoldi hræðilegt andlegt og jafnvel líkamlegt ofbeldi af hendi eiginmanns síns um langa hríð og að lokum skildu þau. Hún kvikaði aldrei í trú sinni og góðmennsku, en vegna grimmdar hans gagnvart henni var hún lengi í djúpum sárum. Hún lýsir þessu með sínum eigin orðum:

„Þó að ég segðist hafa fyrirgefið honum, þá svaf ég ávalt með hjartasár og fór í gegnum daga mína með hjartasár. Það var eins og eldur í hjarta mínu. Ég bað Drottin oft að taka það í burtu frá mér, en það var svo djúpt að ég trúði því einlæglega að ég ætti eftir að þjást af því alla mína ævi. Það særði mig meira en þegar ég missti móður mína á unga aldri, það særði meira en þegar ég missti föður minn og jafnvel son minn. Það virtist breiða úr sér og hjúpa hjarta mitt, og gefa mér þá tilfinningu að ég myndi deyja hvað úr hverju.

Stundum spurði ég sjálfa mig hvað frelsarinn hefði gert í minni stöðu og ég sagði heldur: ‚Þetta er of mikið, Drottinn.‘

Svo var það einn morguninn að ég leitaði í hjarta mínu að sársaukanum sem kemur frá þessu öllu og fór enn dýpra, leitaði að honum í sál minni. Ég fann hann hvergi. Hugur minn renndi yfir allar þær ástæður sem ég hafði fyrir því að vera sár, en ég fann ekki sársaukann. Ég beið allan daginn til að sjá hvort ég myndi finna sársaukann í hjarta mínu, en ég fann hann ekki. Þá kraup ég á kné og þakkaði Guði fyrir að virkja friðþægingarfórn Drottins fyrir mig.“6

Þessi systir er nú hamingjusamlega innsigluð yndislegum, trúföstum manni, sem elskar hana heitt.

Hvert ætti þá viðhorf okkar að vera, ef við erum sannir lærisveinar Krists? Hvers virði er fagnaðarerindið okkur þegar við „[sjáum] hvernig [okkur] hefur farnast,“ eins og Haggaí lagði til?

Mér þykir vænt um fordæmi föður Lamoní konungs um rétt viðhorf. Munið eftir reiði hans í upphafi, þegar hann uppgötvaði að sonur hans væri í samfylgd Nefítans Ammons – sem var af þeirri þjóð sem Lamanítar hötuðu. Hann dró upp sverð sitt til að takast á við Ammon og fann fljótt fyrir sverði Ammons við háls sinn. „En konungurinn, sem óttaðist um líf sitt, sagði: Ef þú hlífir mér, mun ég veita þér hvað sem þú vilt, allt að helmingi konungdæmis míns.“7

Takið eftir boði hans – hálft ríkið fyrir líf hans.

Seinna lagði hann fram annað tilboð, eftir að hann hafði lært fagnaðarerindið. „Hvað ber mér að gjöra til þess að geta öðlast þetta eilífa líf, sem þú hefur talað um? Já, hvað á ég að gjöra til að geta fæðst af Guði og fengið þennan illa anda upprættan úr brjósti mér og tekið á móti anda hans og fyllst gleði, þannig að mér verði ekki vísað frá á efsta degi? Ég vil fórna öllu, sem ég á. Já, ég vil láta ríki mitt af hendi til þess að hljóta þessa miklu gleði.“8

Í þetta sinn var hann tilbúinn að gefa allt ríki sitt, því fagnaðarerindið var dýrmætara öllu sem hann átti! Hann var heilsteyptur í fagnaðarerindinu.

Þar af leiðandi er spurning þessi til okkar allra: Erum við heilsteypt í fagnaðarerindinu? Því heilsteyptur er ekki að vera hálfshugar! Guð er heldur ekki þekktur fyrir að lofa þá sem eru hálfvolgir.9

Það er enginn fjársjóður, ekkert áhugamál, engin staða, enginn samfélagsmiðill, tölvuleikur, íþrótt eða samband við fræga manneskju eða nokkuð jarðneskt sem er dýrmætara en eilíft líf. Leiðsögn Drottins til allra manna er því: „Sjáið hvernig ykkur hefur farnast.“

Tilfinningum mínum er best lýst með orðum Nefís: „Ég miklast í hreinskilni og miklast í sannleika og miklast í Jesú mínum, því að hann hefur leyst sál mína undan víti.“10

Erum við sannir fylgjendur hans, sem gaf okkur allt sitt? Hans, sem er lausnari okkar og málsvari hjá föðurnum? Hans, sem var algjörlega skuldbundinn friðþægingarfórn sinni, og er svo nú í kærleika sínum, miskunn sinni, og þrá eftir að við öðlumst eilífa gleði? Ég sárbæni alla sem heyra og lesa þessi orð: Verið svo væn að fresta ekki skuldbindingu ykkar fram að tíma einhverrar ímyndaðrar framtíðar. Verum heilsteypt nú og finnum gleðina! Í nafni Jesú Krists, amen.